Morgunn - 01.12.1967, Side 56
134
MORGUNN
heim úr smalamennsku. Fleygði ég mér upp í rúm mitt í
baðstofunni, sem var gegnt rúmi ömmu minnar. Þar lá hún,
þungt haldin af brjósthimnubólgu, hafði háan hita og fékk
ákafar hóstakviður öðru hvoru. Þess á milli lá hún í móki
og bærði ekki á sér. Ég gaf henni nánar gætur og hafði
raunar allmiklar áhyggjur af líðan hennar.
Gamli kistillinn blasti við augum mínum. Hann var þarna
á sínum stað í rúminu hennar við fótagaflinn. Þá veit ég
ekki fyrri til en ég sé lok hans lyftast í allt að sex þumlunga
hæð, en falla síðan niður aftur með furðu háum smelli. Og
í sama svip rifjaðist upp sagan, sem amma hafði sagt mér
um spátréð í þessum kistli. Mér varð iilt við þessa sýn. Mér
þótti mjög vænt um ömmu, og kveið því sárt að missa hana.
Hún hafði ætíð verið mér hlý og góð.
Og enn virtist spátréð i kistlinum ekki hafa misst sitt dul-
areðli. Eftir viku var amma dáin.
Að lokum vil ég geta þess, að amma mín hreyfði sig ekki í
rúminu, þegar lokið lyftist. Hún lá í móki, og virtist alls
ekki hafa tekið eftir því, sem þarna gerðist.
Vökunóttin.
Frásögn Kristjáns Benediktssonar gullsmiðs írá Grenjaðarstað.
Veturinn 1916—17 vann ég hjá Einari Ólafssyni gullsmið
á Laugavegi 18 í Reykjavík.
Ekki var langt liðið á veturinn, þegar Einar veitti því
athygli, að öðru hvoru kom ung stúlka inn á verkstæðið og
stakk þá jafnan ofurlitlum miða í lófa minn. Einar henti
gaman að þessum heimsóknum og sagði á þá leið, að sér
þætti ég vera bara efnilegur og fljótur til að kynnast, og
gaf ótvírætt í skyn, að hér mundi vera um stefnumót að
ræða. Ég vildi hins vegar sem minnst um þetta segja og
reyndi að eyða talinu. Skömmu seinna tókst Einari að ná
í einn þennan miða. Kom þá í ljós, að hér var um að ræða
boð á miðilsfund, en ég tók þá reglulega þátt í slíkum
fundum.