Fréttablaðið - 03.01.2011, Blaðsíða 18

Fréttablaðið - 03.01.2011, Blaðsíða 18
18 3. janúar 2011 MÁNUDAGUR Nú í lok desember 2010 er atvinnuleysi allt of mikið hér á landi. Það er nánast óbreytt frá fyrra ári þrátt fyrir að þúsundir manna hafi flutt úr landi á þessu og síðasta ári og reyni fyrir sér annars staðar þar sem betra ástand ríkir á vinnumarkaði. Atvinnuleysið er skýrasta birtingarmynd úrræða- leysis stjórnvalda og fækkun starfa er afleiðing af stefnu ríkisstjórnar- innar í skattamálum, andstöðu við fjárfestingar stórar sem smáar, gjaldeyrishöftum, háu vaxtastigi, óvissu sem stjórnin hefur skapað í sjávarútvegi og almennum seina- gangi við úrlausn mála. Stjórnmála- menn verða að sýna að þeir standi undir þeirri ábyrgð sem þeim er falin. Skollaleikurinn í þinginu er algjörlega ólíðandi. Samtök atvinnu- lífsins vinna nú að undirbúningi kjarasamninga sem vonandi geta stuðlað að stöðugleika og vinnufriði til næstu þriggja ára og lagt grunn að nýrri sókn í atvinnumálum. Til þess að það geti tekist þarf að snúa við blaðinu, hætta að horfa í bak- sýnisspeglana og leysa þess í stað þau mál sem brýnust eru – hvert af öðru. Þannig er unnt að komast á nýja braut framfara. Sköpum atvinnu Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram ítarlega stefnumörkun í efna- hags- og atvinnumálum sem miðar að því að útrýma atvinnuleysi og skapa störf fyrir þá sem koma nýir inn á vinnumarkaðinn á komandi árum. Nauðsynlegt er að árlegur hagvöxtur verði í kringum 5% svo lífskjör geti batnað. Því lengur sem dregst að ná þessu marki, þeim mun lengur mun það taka þjóðina að ná þeirri velmegun og velferð sem hún bjó við fyrir hrunið 2008. Árið 2010 hefur því miður runnið sitt skeið án þess að sá viðsnúningur hafi orðið sem mögulegur var. Meginleiðin til að ná aftur fyrri styrk er með fjárfestingum í atvinnulífinu og þá fyrst og fremst í útflutningsgreinum. Fjárfesting- ar eru nú minni hlutfallslega en nokkru sinni undanfarin 70 ár. Með sama áframhaldi mun samkeppnis- hæfni atvinnulífsins minnka og engin leið verður til að endurheimta fyrri lífskjör á skömmum tíma. Atvinnulífið þarf að búa við stöðug leika, greiðan aðgang að erlendu og innlendu lánsfé án gjald- eyrishafta og hér verða samkeppnis- skilyrði að vera hagstæð þeim sem vilja fjárfesta og byggja upp eigið fé atvinnulífsins og nýja starfsemi. Stjórnvöld verða að vinna með atvinnulífinu til að stórfjárfesting- ar í orkugeiranum og tengdri fram- leiðslu nái fram að ganga. Ófært er að þær stöðvist vegna pólitískra kredda eða hugsjóna. Hraða verð- ur uppbyggingu í ferðaþjónustu sér- staklega utan háannatíma. Skapa verður sátt til frambúðar við þá sem starfa í sjávarútvegi um stjórn fisk- veiða, sjávarútvegur er vel rekin atvinnugrein og Íslendingar þurfa á öllu sínu að halda til að komast upp úr kreppunni. Markmiðið þarf að vera að auka útflutning um 7-8% á ári á næstu árum til að skapa nauðsynlegan hagvöxt. Engin leið er til þess að hagvöxtur byggður á einkaneyslu leysi þann vanda sem við er að etja. Útflutningur þarf að aukast á öllum sviðum, þ.e. frá sjávarútvegi, stór- iðju, ferðaþjónustu, hátæknifyrir- tækjum og öðrum greinum. Lágt gengi krónunnar næstu ár skap- ar tækifæri til fjárfestinga í arð- bærum útflutningsfyrirtækjum ef starfsskilyrðin eru eins og best verður á kosið og allt verður gert til að laða fram sóknarhug og hvetja fólk og fyrirtæki til dáða. Sköpum líf Í fyrirtækjunum endurspeglast væntingar og viðhorf almennings til framtíðarinnar. Með stöðug- leika, sóknarhug og með því að eyða óvissu geta stjórnvöld skapað þannig umhverfi að fyrirtæki hefji fjárfestingar að nýju. Stöðugleiki og vissa um framtíðina ýtir undir að fólk vilji hefja rekstur og taka áhættu til að geta notið ávinnings ef vel gengur. Til þess að þetta geti orðið þarf skattkerfið að stuðla að samkeppnis- hæfni efnahagslífsins og skapa aðlaðandi skilyrði fyrir innlenda og erlenda fjárfesta. Hóflegar álögur og einfalt skattkerfi er líklegast til að skila ríkissjóði mestum ávinn- ingi til lengri tíma og um leið til að ýta undir hagvöxt, tryggja atvinnu og betra líf almennings. Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að aðilar á vinnumarkaði taki yfir stjórn og rekstur atvinnu- leysistrygginga og telja að með því megi ná mun meiri skilvirkni, auka eftirlit og koma fólki hraðar til starfa að nýju. Samtök atvinnulífsins telja algera nauðsyn að hefjast þegar handa við þau stóru verkefni sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir. Sam- tökin eru reiðubúin að leggja sitt af mörkum til að hefja á árinu 2011 nýja sókn sem byggir á bætt- um samkeppnisskilyrðum atvinnu- lífsins, sókn til fjölgunar starfa og bættra lífskjara í landinu. Það veldur hver á heldur. Sköpum 2011 Áramót Vilmundur Jósefsson formaður Samtaka atvinnulífsins Nú starfar hópur sem á að skila tillögum um hvernig hægt er að ná fram sparnaði við rekstur skóla á vegum sveitarfélaga. Í Fréttablaðinu 29.12.2010 er m.a. bent á að kostnaður við rekstur grunnskóla á Íslandi sé hærri en meðaltal OECD-landa. Forysta Kennarasambands Íslands (KÍ) hefur bent á ástæður sem geta skýrt muninn; t.d. hár stofn- og rekstarkostnaður skólabygginga, hátt þjónustustig, sem fylgir skóla án aðgreiningar, tíu árgangar á Íslandi á móti 9,1 að meðaltali hjá OECD-þjóðum og mikið af fámennum skólum í dreifbýli. Af þeim atriðum sem hér eru talin upp virðist auðveldast að skera niður á þjónustustiginu. 5-4-3 leiðin Samband sveitarfélaga hefur m.a. lagt til svokallaða 5-4-3 leið þar sem vikulegum kennslustundum verður fækkað um fimm hjá elsta stigi, en fjórar og þrjár hjá mið- og yngsta stigi. Ekki hefur verið útlistað hvaða kennslustundir eigi að taka burt: Á að taka tímana af valgreinum? Á að hætta list- og verkgreinakennslu eða á að skera niður eitthvað í öllum greinum, þ.á m. íslensku og stærðfræði? Slíkt myndi breyta skóla- starfi mikið. Breyta þyrfti aðal- námskrá grunnskóla því ef t.d. kennslu stundum í stærðfræði yrði fækkað um fimmtung er ekki hægt að ná sömu mark miðum og nú. Ef kennslustundum í stærð- fræði yrði fækkað um 20% á þá að hætta að kenna algebru? Eða rúmfræði? Eiga skólar sjálfir að velja úr það mikilvægasta og kenna það? Verða samræmd könn- unarpróf marktæk ef einn skóli ákveður að kenna enga tölfræði en annar skóli reynir að kenna eitthvað í öllu? Auk breytinga á námskrá er ljóst að fækkun vikulegra kennslustunda fækkar stöðugild- um kennara um allt að 410 stöðu- gildi. Ég myndi vilja fá nánari útskýringar á hvernig 5-4-3 leið- in yrði framkvæmd, ekki er nóg að kasta fram sparnaði upp á tvo milljarða til að sannfæra mig um ágæti leiðarinnar. 10 daga leiðin Í tillögu sambands sveitarfélaga er auk 5-4-3 leiðarinnar talað um fækkun skóladaga úr 180 í 170. Breytingin myndi kalla á endur- skoðun kjarasamninga þar sem því fylgir launaskerðing fyrir kennara. Það kann að hljóma und- arlega að starfandi kennari mæli fyrir leið sem miðar að launa- skerðingu en ef hugsað er um kennarastéttina er spurning hvort sú leið sé betri en 5-4-3 leiðin sem leiðir til að fjöldi kennara missi vinnuna eða þurfi að lækka starfs- hlutfallið. Í tillögum sambands sveitar- félaga segir m.a. að stytting kennsluársins myndi þýða 5,6% launaskerðingu fyrir kennara. Þá segir: „Margt bendir til að með þessari leið megi ná meiri hagræðingaráhrifum en leiðir af styttingu vikulegs kennslutíma ... Ekki er hins vegar víst að þörf sé fyrir þetta mikla hagræðingu.“ Hér opnast annar möguleiki. Hægt væri að stytta skóla árið um 10 daga eins og lagt er til, en kjarasamningar kennara eru lausir og hafa verið um hríð. Eins og staðan er í þjóðfélaginu má búast við litlu svigrúmi til launa- hækkana. Ef tíu daga leiðin felur í sér meiri hagræðingu en þörf er á mætti nota svigrúmið sem skapast til að hækka laun kenn- ara. Launalækkun við 10 daga skólastyttingu yrði látin vera t.d. 3,5% í stað 5,6%. Ávinningurinn er sparnaður fyrir sveitafélögin og á sama tíma ávinningur fyrir kennara þó útborguð laun myndu lækka vegna styttingu vinnu- ársins. Stöðugildi 410 kennara halda sér og enginn þarf að missa starfið eða minnka starfshlutfall. Önnur leið væri að fækka skóla- dögum um 10 án þess að hrófla við launum kennara en á móti myndu kennarar falla frá frekari launahækkun í komandi kjaravið- ræðum og framlengja núverandi samning með breyttum kennslu- dagafjölda til eins eða tveggja ára og sækja launahækkanir í næstu samningum þegar betur árar í samfélaginu. Sátt um breytingarnar Með styttingu skólaársins þyrftu foreldrar yngri barna að finna önnur úrræði fyrir þau utan skóla- ársins, en slíkt þyrftu foreldrar hvort eð er að gera yfir vetrar- tímann ef kennslustundum yrði fækkað hjá yngstu nemendum. Varla ætla sveitarfélögin að bjóða upp á þriggja stunda viðveru til viðbótar á frístundarheimilum án þess að rukka fyrir. Yrði skólaárið skert má ætla að óhefðbundnum dögum að hausti og vori fækki og skólar haldi sig við hefðbundna stundarskrá. Ég vil ekki draga úr mikilvægi óhefð- bundinna daga þar sem tími hefur t.d. verið nýttur til vettvangs- og safnaferða en með miklum niður- skurði hefur þegar verið dregið úr möguleikum til að fara í slík- ar ferðir. Hvaða leið sem farin verður til að ná fram sparnaði er mikilvægt að það verði gert þannig að sem flestir verði sáttir við breyting- arnar. Eðlilega mótmælir forysta KÍ öllum niðurskurðartillögum í kennslu og í raun gera kennar- ar það líka. En ef nauðsynlegt er að velja milli leiða sem hér hefur verið fjallað um væri rétt að athuga hvað almennur félags- maður KÍ hefur að segja. Ef hægt er að ná fram veru legum sparn- aði með þessum tveimur leiðum væri lýðræðislegt að gera könn- un meðal félagsmanna KÍ um hvora leiðina þeir vilja fara og velja leiðina sem fjöldinn styður. Ekki er eingöngu hægt að horfa til skýrslu OECD og ætla að laga íslenska skólakerfið að meðallínu OECD-ríkja. Ekki nema sveitar- félögin ætli að laga allt að meðal- línunni því skv. skýrslunni kemur líka fram að laun kennara á Íslandi með 15 ára starfsreynslu eru aðeins 69% af meðallaunum kennara innan OECD. Næstu skref í grunnskólamálum Skólamál Brynjar Marinó Ólafsson grunnskólakennari Ef nauðsynlegt er að velja milli leiða sem hér hefur verið fjallað um væri rétt að athuga hvað almennur félagsmaður KÍ hefur að segja. SEND IÐ OKK UR LÍNU Fréttablaðið og Vísir hvetja lesendur til að senda línu og leggja orð í belg um málefni líðandi stundar. Greinar og bréf skulu vera stutt og gagnorð. Tekið er á móti efni á netfanginu greinar@frettabladid.is eða á vefsíðu Vísis, þar sem finna má nánari leiðbeiningar. Ritstjórn ákveður hvort efni birtist í Fréttablaðinu eða Vísi eða í báðum miðlunum að hluta eða í heild. Áskilinn er réttur til leiðréttinga og til að stytta efni. KRINGLAN OG SMÁRALIND Útsalan er hafin 40% afsláttur af öllum vörum

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.