Fréttablaðið - 24.12.2010, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 24.12.2010, Blaðsíða 12
12 24. desember 2010 FÖSTUDAGUR Þegar öll völd liggja á einni hendi er hætt við að fólk beri ekki næga ábyrgð á eigin starfi og þá fer að molna und- an í mörgu tilliti. Auk þess er hætt við að slíkt umhverfi leiði til þöggunar og kjarkleysis. V enjan er að flokka Lé kon- ung með harmleikjum Shakespeares en Arnar setur spurningarmerki við þá skilgreiningu. „Samkvæmt kenningum Jans Kott er Lér konungur kannski nær því að vera skrípileikur en skilin milli harmleiks og skrípileiks eru oft ógreinileg hjá Shakespeare og Lér kon- ungur nær því að vera skrípileikur,“ segir Arnar. „Það skiptir engu hvað þú ert með á hendi eða hvað þú setur út, það er allt jafn slæmt. Þetta er veröld þar sem allir kostir eru vondir.“ Óttinn við að missa karlmennskuna Arnar segir að upphafssena Lés kon- ungs beri öll einkenni skrípileiksins. „Sérstaklega ef maður ætlar nú að fara að skoða þetta út frá einhverjum sálfræðilegum sennileika. Þá gengur þetta auðvitað alls ekki upp. Þessi gíf- urlega valdamikli konungur sem efnir til eins konar mælskukeppni meðal dætra sinna um það hver þeirra elski hann mest og ætlar að láta úrslitin í þeirri keppni ráða því hvernig hann skiptir ríkinu. Þetta er náttúrulega bilað. Hræsnin hjá Regan og Goneril er líka augljós, þannig að í upphafi verks virðist þessi mikli konungur vera allt í senn broslegur, barnalegur og fávís. Maðurinn er reyndar áttræður og sú hugsun læðist að manni hvort hann sé kominn með snert af Alzheimer, eða ræður óttinn við dauðann og það að vera að missa alla karlmennsku gerð- um hans? Þetta er konungur sem finnst alveldið jafn sjálfsagt og sólin; það bara er og getur ekki horfið og þótt hann afsali sér völdum að nafninu til ætlar hann samt að halda áfram að ráðskast með alla og njóta þeirrar virðingar og fríðinda sem konungdómi fylgja. Lér á þetta sammerkt með ótal valdamönn- um fyrr og síðar og má finna ófá dæmi í okkar eigin umhverfi. Verkið fjallar um leiðina að enda- lokunum – dauðanum, sem felur óhjá- kvæmilega í sér að missa völdin og það er fíflið, þetta einstaka fífl sem veit að hann er fífl, sem setur spegilinn upp að andliti konungs og neyðir hann til að horfast í augu við sjálfan sig. Segir meira að segja á einum stað að ef Lér fatti ekki að hann sé fífl, sé hann nú auma fíflið. Þetta er eina verk Shakespeares þar sem enginn er eftir til að taka við ríkinu í lok verksins. Það kemur eng- inn Fortinbras til að taka við eins og í Hamlet. Sá heimur sem verkið fjallar um líður undir lok og að því leyti talar verkið beint til okkar, sem erum á ein- hvers konar endastöð, því veröldin sem var er horfin. Það er verið að reyna að berja í brestina en ólíklegt að hún verði söm og jöfn. Ekki bara vegna banka- hrunsins heldur erum við þar komin að annaðhvort steypumst við fram af eða við verðum að taka okkur taki.“ Bernsk leikhúsþjóð „Haft er eftir einum samleikara Arn- ars í Lé að þetta verði hlutverkið sem hans verði minnst fyrir, hvernig líður honum með slík ummæli eftir sinn glæsta feril? „Kannski man einhver best eftir hundinum Snata í Krumma- gulli, en Lér er held ég draumahlutverk allra karlleikara. Það sem er erfitt við hann er að þú getur ekki leikið þetta hlutverk fyrr en þú ert kominn á viss- an aldur. Ég held að Laurence Olivier hafi sagt, eftir að hafa leikið Lé tvisv- ar, að í fyrra sinnið hafi hann verið of ungur en orðinn of gamall í seinna skiptið. Svo kemur bara í ljós hvar ég er staddur, ég veit ekkert um það. En varðandi spurninguna, þá er ómögu- legt að segja neitt um það hvers fólk muni minnast. Í gegnum tíðina hefur fólk komið til mín og minnst marg- víslegra hlutverka sem ég hef leikið. Fólk man enn eftir mér bæði í Gísl og Galdra-Lofti, síðan í eldgamla daga eða þá Þorleifi Kortssyni í Skollaleik og svo eru það til dæmis Pétur Gautur, Abel Snorko, Bjartur og Kaj Munk, til að nefna nokkur. Þannig að það er gjör- samlega ómögulegt að segja til um það hvers fólk minnist.“ Þrátt fyrir að hafa verið á sviðinu í nærri hálfa öld hefur Arnar sárasjald- an leikið í verkum eftir Shakespeare. Ófá dæmi um Lé í okkar umhverfi Arnar Jónsson er Lér konungur í jólasýningu Þjóðleikhússins sem frumsýnd verður á annan í jólum. Hann segist vera heltekinn af Lé, enda sé það hlutverk fyrir leikara líkt og að klífa Everest. Friðrika Benónýsdóttir ræddi við Arnar um Lé, leikhúsið og lífið. Kann hann einhverja skýringu á því? „Það er góð spurning. En þú verður að spyrja þessa leikhússtjóra sem ég hef verið hjá í gegnum tíðina, sem eru nú orðnir nokkuð margir, að því. Þeim láð- ist reyndar alveg að spyrja mig hvað mig langaði að gera. Það hefur bara einhvern veginn sjaldan orðið. Ég lék Malvólíó í Þrettándakvöldi í fyrra, en það var samvinnuverkefni Þjóðleik- hússins og nemendaleikhúss LHÍ og var kannski ekki endilega hugsað fyrir mig. En auðvitað snýst þetta ekki um að leikhússtjórar hafi markvisst haldið mér frá Shakespeare-hlutverkum held- ur voru hans verk aldrei mjög framar- lega í forgangsröðinni einhverra hluta vegna. Kannski af því hve bernsk leik- húsþjóð við erum, með fremur veika sjálfsmynd. Fá verk gera nefnilega jafn miklar kröfur til leikara og leik- stjóra. Ég held samt að við gætum, með nægri þjálfun, tekið karlinn kröftug- um tökum, óbundin af öllum hefðum. Örugglega stæðum við betur sem fag- fólk ef við hefðum glímt meira við þennan jöfur. Það skal tekið fram að þetta æfinga- tímabil og þessi glíma hefur verið ánægjuleg og gefandi í alla staði – ein- hugur að lyfta þessu grettistaki, allir meðtaldir. Þetta er flókin og erfið sýn- ing leiklega og tæknilega. Leikstjóri og aðstoðarmaður hans hafa unnið góðan grunn hvað skilning og styttingar varðar – þýðing Þórarins Eldjárns er frábært verk og tæknivinna leyst af öryggi.“ Krúttlegt að hafa enga skoðun En skortur á Shakespeare-uppfærslum er ekki það eina sem Arnar er ósáttur við í íslensku leikhúslífi. „Mér hefur fundist í seinni tíð að leikhúsið hafi lent á nokkrum villigötum. Við höfum ekki náð þeim háleitu markmiðum að hér yrði prófessjónalt leikhús sem nyti virðingar. Og svo lendum við öll og leikhúsið þar með inni í þessum hræri- graut af póstmódernisma, efnishyggju og frjálshyggju þegar varla má nefna hugsjónir, listræna róttækni eða viðra gagnrýna sýn á samfélagið og breiður faðmur afþreyingar umvefur okkur. Það ætti að vera keppikefli hverju samfélagi að reka stofnanir sem gætu unnið á annan máta, en þá ber þess að gæta að hér hafa menningarstofnanir alla tíð verið í fjársvelti og má segja að hagvaxtarmiðaðir stjórnmálamenn hafi átt sinn þátt í að ýta listinni út í fen afþreyingar, þar sem þykir krútt- legt að hafa enga skoðun og mest er gutlað á yfirborði. Allt skal þjóna skemmtanagildi og óbærilegum létt- leika tilverunnar. Krafan er að leikhús- in séu rekin eins og hver önnur fyrir- tæki, enda leikhússtjórar verðlaunaðir samkvæmt því. En svo þarf líka að huga að innra skipulagi leikhússins. Þegar öll völd liggja á einni hendi er hætt við að fólk beri ekki næga ábyrgð á eigin starfi og þá fer að molna undan í mörgu tilliti. Auk þess er hætt við að slíkt umhverfi leiði til þöggunar og kjark- leysis. Hvernig hægt væri að komast fram hjá þessu er flókið mál og verð- ur vart leyst innan leikhússins eins og málum er háttað. Hér þyrfti að koma leiklistarakademía þar sem þessi mál væru krufin og rædd og skoðuð. Í ljósi umræðunnar eins og hún hefur þróast í samfélaginu undanfarið er freistandi að nefna orð eins og lýðræði, valddreif- ing, ábyrgð og gagnsæi.“ Annað sem brennur á Arnari er staða kvenna innan leikhúsanna. Þegar honum er bent á að tveir af þremur leikhússtjórum stóru leikhúsanna séu konur segir hann það litlu hafa breytt, það sé sýnin, gleraugun sem horft er með sem skipti máli. „Staða kvenna innan leikhússins er vægast sagt mjög slæm og þú býrð aldrei til gott leik- hús ef kynin eru ekki jafnrétthá þar inni. Þá er samfélagsleg slagsíða á leik- húsinu. Það er engin afsökun að færri hlutverk séu skrifuð fyrir konur. Það þarf að hugsa dæmið upp á nýtt. Leik- stjórinn okkar í Lé, Benedict Andrews, setti til dæmis nýverið upp Rósastríð- in úr kóngaleikritum Shakespeares og þar lék Cate Blanchett Ríkarð annan. Þannig að ef leikhússtjórar ætla sér að nýta til dæmis þær frábæru fullorðnu leikkonur – og þarf ekki aldurinn til – sem Þjóðleikhúsið hefur á að skipa og legið hafa óbættar hjá garði allt- of lengi, þá er það minnsta málið. Það er enginn vandi að finna leið til þess. Það er hægt að svissa rullum í nánast hverju einasta leikriti sem til er. Þá er líka komin ný og fersk nálgun og verkið fær allt aðra merkingu. Það er bara svo lítið gert af því að velja verk fyrir þá leikara og listafólk sem er til staðar og er það miður, því það er ein helsta skylda leikhúss að hlúa að sínum listamönnum og efla þroska þeirra og getu. Það er eiginlega alveg út í blá- inn hvernig haldið er á málum. Ég hef horft á leikhússtjóra í gegnum tíðina haga sér eins og verkefnaval leikhúss- ins sé þeirra einkamál. Það er það bara alls ekki. Þetta er mál fólksins í land- inu sem vill sjá alvöru leikara í alvöru hlutverkum í alvöru verkum.“ Frumsýning á annan í jólum. Eru ekki öll jólin undirlögð af frumsýning- arkvíða? „Þú getur rétt ímyndað þér. Ég er reyndar svo ljónheppinn að eiga konu og börn sem eru í þessum sama bransa og vita alveg nákvæmlega hvað klukkan slær og pakka mér bara inn í bómull. Það er náttúrulega alveg dás- amlegt og verður aldrei fullþakkað. Ég hef oft verið í jólasýningum Þjóð- leikhússins og það er misjafnt hversu heltekinn maður verður. Núna rúmast ekkert mikið meira í hausnum á manni heldur en Lér, þessi kallskratti. Og ef hann gengur ekki af mér dauðum þá er ég bara mjög heppinn maður.“ LÉR ALLSRÁÐANDI „Núna rúmast ekkert mikið meira í hausnum á manni heldur en Lér, þessi kallskratti. Og ef hann gengur ekki af mér dauðum þá er ég bara mjög heppinn maður,“ segir Arnar. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.