Fréttablaðið - 30.12.2010, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 30.12.2010, Blaðsíða 12
12 30. desember 2010 FIMMTUDAGUR Á hverju ári eru sett ný met og viðmið í íslensku íþróttalífi. Árið 2010 var engin und- antekning og að mínu mati eru fjórir vend- ipunktar sem vert er að beina kastljósinu að. Bronsverðlaun íslenska karlalandsliðs- ins í handknattleik á Evrópumeistaramót- inu í janúar á þessu ári eru á góðri leið með að verða hefð – ekki vendipunktur. „Strák- arnir okkar“ eru því ekki umfjöllunarefnið í þessum pistli. Miðað við áhuga Íslendinga á karlalandsliðinu í handbolta er svarið já við spurningunni sem ég set fram í fyrirsögn- inni. Svarið gæti líka verið nei ef miðað er við framlag ríkisvaldsins til afreksíþrótta á ári hverju. Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleik- um fagnaði sigri á Evrópumeistaramótinu í Malmö og skrifaði þar með nýjan kafla í sögu hópíþrótta á Íslandi. Aldrei áður hefur íslenskt landslið sigrað á Evrópumeistara- móti en landsliðið var með þá sérstöðu að allir liðsmenn þess komu frá sama félagi – Gerplu í Kópavogi. Margir sem ég hef rætt við á undanförn- um vikum telja að hópfimleikar séu eitthvað „mömmuhopp“ í Garðabæ tvisvar í viku sem endi með sérrístaupi á fimmtudögum. Konur eru reyndar í miklum meirihluta þeirra sem æfa hópfimleika en æfingamagnið og ákefðin eru engu minni en hjá öðru íslensku afreks- fólki. Með öðrum orðum. Þetta er alvöru - íþrótt og hörkuíþróttakonur sem skipa lands- liðið. Fyrir þá sem ekki vita þá var hópfim- leikaíþróttin „fundin“ upp í Skandinavíu í kringum 1970. Markmiðið var að finna farveg fyrir þá sem vildu halda áfram í fimleikum án þess að stunda hefðbundna áhalda fimleika. Á fyrstu áratugunum voru hópfimleikar aðeins sýningaríþrótt en hafa á síðustu tveimur áratugum þróast út í alvöru keppnisíþrótt. Keppnisgreinarnar eru þrjár, dans, trampólínstökk og æfingar á dýnu þar sem ýmis stökk eru framkvæmd. Keppt er í 6-12 manna liðum sem eru yfirleitt kynja- skipt. Einnig er keppt í blönduðum flokkum þar sem að konur og karlar mynda saman eitt lið. Það er vert að gefa hópfimleikunum gaum. Það má gera ráð fyrir því að fleiri þjóðir muni leggja ríkari áherslu á hópfimleika í framtíðinni. Ástæðan er einföld. Það er hægt að lifa „eðlilegu norður-evrópsku lífi“ sam- hliða afreksþjálfun í hópfimleikum. Fleiri og fleiri kunna að meta þann kost að geta æft fimleika undir þessum formerkjum. Það er nánast óhugsandi að keppandi frá Norður- löndum nái verðlaunasæti í áhaldafimleik- um á stórmóti. Samkeppnisstaðan er ójöfn gegn þjóðum sem „framleiða“ afreksfólk í áhaldafim- leikum – jafnvel með umdeildum þjálfunar- aðferðum þar sem ung börn æfa undir gríðar- lega miklu álagi í marga klukkutíma á dag, nánast alla daga ársins. Á Íslandi hafa bæjarfélög víða um land- ið lyft fimleikaíþróttinni á hærri stall með uppbyggingu á frábærum íþróttamannvirkj- um. Fullkomin fimleikahús eru til staðar í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Reykja- vík, Reykjanesbæ og á Selfossi. Efniviður- inn er til staðar, frábærir þjálfarar leggja hart að sér með afreksfólkinu en það verður enginn ríkur af því að stunda hópfimleika – og þar komum við að fyrirbæri sem heitir afrekssjóður ÍSÍ. Meira af þeim sjóði síðar en sem dæmi má nefna að hópfimleikalands- liðið fékk hálfa milljón kr. úr afrekssjóði ÍSÍ fyrir árið 2010. Það er ekkert grín. Handboltakonurnar brutu ísinn Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik skrifaði nýjan kafla í íþróttasöguna hér á landi þegar liðið lék í fyrsta sinn í loka- keppni á stórmóti. Það er einn af vendi- punktum ársins 2010. Það er langt frá því að vera auðvelt að ná því að komast í úrslita- keppni Evrópumótsins. Handknattleikshefðin er sterk í Norður- Evrópu þar sem lið frá Skandinavíu hafa nánast einokað Evrópumeistaratitilinn. Landslið frá gömlu „Austur-Evrópu“ hafa einnig verið í fremstu röð og landslið frá Balkanskaganum voru áberandi á EM í Nor- egi og Danmörku í ár. Þrátt fyrir að Ísland hafi tapað öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni í Danmörku er ljóst að ný viðmið hafa verið sett í kvennahandboltanum á Íslandi. Afrekskonur í handboltanum vita nú að það er hægt að komast á stórmót. Á næstu misserum þarf að taka skref fram á við. Styrkleiki N1-deildarinnar hér á landi er ágætur og bestu félagslið Íslands hafa náð ágætum árangri í Evrópukeppn- um. Það dugar ekki til. Ef Ísland ætlar sér að ná betri árangri á stórmótum í framtíð- inni þurfa fleiri leikmenn að komast að hjá liðum í sterkustu deildum Evrópu. Það er einnig umhugsunarefni fyrir afrekskonur í hópíþróttum að bestu leik- mennirnir hafa á undanförnum árum safn- ast saman í 2-3 sterkustu liðin. Það leiðir af sér að gríðarlegur styrkleikamunur er á liðunum í deildarkeppninni. Fáir leik- ir á hverju tímabili geta því flokkast sem „alvöru“ leikir. Þetta er neikvæð þróun og þær raddir gerast háværari að fækka þurfi liðum í efstu deildum í kvennaflokki í hand- og fótbolta. Og fjögur til sex sterkustu liðin myndu leika allt að fjórfalda umferð í deildarkeppninni. Kvennalandsliðið er rétt að byrja sinn feril á stórmótum. Til samanburðar má nefna að karlalandsliðið tekur þátt í sínu 16. heimsmeistaramóti um miðjan janúar og alls hefur karlaliðið leikið í lokakeppni á sex Evrópumeistaramótum og sex sinn- um á Ólympíuleikum. Það eru því spenn- andi tímar fram undan fyrir kvennalands- liðið. U21 árs landsliðið var gleðigjafi ársins U-21 árs landslið Íslands í fótbolta karla var gleðigjafi ársins 2010 hjá íslenskum fót- boltaáhugamönnum. Árangur liðsins í und- ankeppni Evrópumeistaramótsins var lygi- legur. Liðið náði að tryggja sér sæti á meðal átta bestu í lokakeppni EM sem fram fer í Danmörku í júní á næsta ári. Þrír leikir U21 árs liðsins á árinu 2010 eru á meðal hápunkta íþróttaársins. Stórsigur Íslands gegn Evrópumeistaraliði Þjóðverja á Kaplakrikavelli þann 11. ágúst að við- stöddum 3.200 áhorfendum er ógleymanleg- ur. „Litla Ísland“ sigraði þýska stórveldið 4- 1. Í framhaldinu lék Ísland tvo leiki gegn Skotum um laust sæti á EM og hafði Ísland betur, 2-1, í báðum leikjunum. Leikmenn U21 árs liðsins skyggðu algjör- lega á A-landslið karla á þessu ári. Í fyrsta sinn í sögunni tók stjórn Knattspyrnusam- bandsins þá ákvörðun að láta U21 árs lands- lið hafa forgang á A-landslið þegar kom að vali á leikmönnum. Meirihluti þeirra leikmanna sem skipa kjarnann í U21 árs landsliðsins eru atvinnu- menn og það er áhugaverð staðreynd að margir þeirra hafa dvalið í 5-6 ár hjá erlend- um liðum. Það er alltaf erfið ákvörðun fyrir foreldra efnilegra leikmanna að taka það skref að unglingurinn fari á grunnskólaaldri í „atvinnumennsku“ hjá liðum í Evrópu. Ekki má gleyma því að flestir leikmenn U21 árs liðsins sem eru enn búsettir á Íslandi eru fyrsta kynslóðin sem hefur æft frá unga aldri í knattspyrnuhúsum víðsveg- ar um landið. Knattspyrnuhúsið í Reykja- nesbæ var það fyrsta sem reist var á Íslandi fyrir 11 árum og frá þeim tíma hafa fleiri slík hús verið reist víða um land. Æfingaaðstaðan hefur því gjörbreyst á einum áratug og það má glögglega sjá að yngri leikmenn í efstu deild karla og kvenna hér á landi eru með mun betri tækni en áður hefur sést. Það er hægt að æfa fótbolta við bestu aðstæður hér á landi árið um kring undir handleiðslu vel menntaðra þjálfara. Ekki má gleyma þjálfara U21 árs liðsins. Eyjólfur Sverrisson hefur náð frábærum árangri með liðið og hefur andlegur styrkur liðsins vakið athygli. Hugarfar leikmanna er engu líkt. Engin virðing borin fyrir stórþjóð- um á borð við Þýskaland og ofurtrú á eigin getu hefur fleytt liðinu alla leið í úrslita- keppni átta bestu Evrópuþjóða. 80 kr. á ári frá hverjum landsmanni Lágt framlag íslenska ríkisins til afrekssjóðs ÍSÍ er fjórða atriðið sem ég ætla að nefna í þessum pistli. Í fljótu bragði má draga þá ályktun að íslenska ríkið og þar með íslenska þjóðin hafi engan áhuga á því að hlúa að afreksíþróttafólki – og landsliðum. Framlag ríkisins í sjóðinn á árinu 2010 er 24,7 milljón- ir kr. en árið 2006 var þessi upphæð 30 millj- ónir kr. ÍSÍ leggur 20 milljónir króna í afrekssjóð- inn fyrir árið 2010 og koma þeir peningar sem hluti af hagnaði Íslenskrar getspár – eða Lóttóinu. Samtals var úthlutað 44,7 milljón- um kr. í afreksstarf á árinu 2010. Alls fengu 17 sérsambönd og 28 einstaklingar úthlutað úr afrekssjóðnum. Hæstu úthlutunina fékk A- landslið karla í handknattleik eða 10 milljónir. Ein íþróttakona fær A-styrk sem er rétt um 160.000 kr. á mánuði eða rétt tæplega 2 millj- ónir kr. á ári. Aðrir styrkir eru mun lægri til einstaklinga Frjálsíþróttaþjálfarinn Vésteinn Hafsteins- son sem starfað hefur með mörgum af bestu íþróttamönnum heims á undanförnum ára- tugum sagði í viðtali við Stöð 2 á dögunum að það væri löngu liðin tíð að afreksíþrótta- fólk gæti stundað vinnu samhliða þjálfun. Þeir sem ætla sér í fremstu röð hafa einfald- lega ekki tíma fyrir neitt annað en æfingar. Á Íslandi telst það sjálfsagt að afreksíþróttafólk stundi vinnu samhliða æfingum og keppni. Og þrátt fyrir ójafna samkeppnisstöðu viljum við árangur á heimsmælikvarða. Að lokum má bera framlag íslenska ríkis- valdsins til íþróttamála og afreksstarfs saman við það sem þekkist í Noregi. Notum höfðatöluna margfrægu. Miðað við um 25 milljóna króna framlag ríkissins í afrekssjóð þá gerir það um 80 krónur á hvern Íslending. Í Noregi er þessi tala rétt rúmlega 400 krón- ur á hvern einasta Norðmann. Við ættum að geta gert betur við okkar frábæra íþróttafólk – miklu betur. Vilja Íslendingar afreksíþróttir? Kvennalandsliðin í hópfimleikum og handbolta skrifuðu nýja kafla í íslenska íþróttasögu. U-21 árs landslið karla í fótbolta skyggði á A-landsliðið. Hefur íslenska þjóðin og þar með ríkið engan áhuga á afreksíþróttum spyr Sigurður Elvar Þórólfsson. INNLENDIR VENDIPUNKTAR 2010 Innlendir vendipunktar 2010 Fréttablaðið gerir upp árið með greinum um innlenda vendipunkta eftir valda höfunda. Vendi punktarnir snúast um markverðar frétt- ir og atburði sem gerðust á árinu og gætu haft áhrif til frambúðar á Íslandi. Sigurður Elvar Þórólfs- son er íþróttafréttastjóri 365 miðla. Hann hefur starfað sem íþrótta- fréttamaður í áratug og er formaður Samtaka íþróttafréttamanna. EVRÓPUMEISTARAR Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum fagnaði sigri á Evrópumeistaramótinu sem fram fór í Malmö í Svíþjóð á þessu ári. Allir liðsmenn landsliðsins koma frá Gerplu og hér eru þær í æfingu á dýnu í glæsilegri keppnis- og æfingaaðstöðu félagsins í Kópavogi. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON Það er vert að gefa hópfim- leikunum gaum. Það má gera ráð fyrir því að fleiri þjóðir muni leggja ríkari áherslu á hópfimleika í framtíðinni. Ástæðan er einföld. Það er hægt að lifa „eðlilegu norður-evr- ópsku lífi“ samhliða afreksþjálfun í hópfimleikum. SIGURÐUR ELVAR ÞÓRÓLFSSON
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.