Fréttablaðið - 16.09.2011, Blaðsíða 10

Fréttablaðið - 16.09.2011, Blaðsíða 10
16. september 2011 FÖSTUDAGUR10 FRÉTTASKÝRING: Þjálfun her- og lögregluliðs Afgana Stærsta verkefnið sem alþjóðaherliðið í Afganistan glímir nú við snýr ekki að bardögum í torfærum fjallahéruðum (þótt þeir séu sannarlega tíðir), heldur þjálfun her- og lögregluliðs heimamanna. Þorri lands- manna er ólæs og örðugt hefur reynst að uppræta spillingu. Þegar Bandaríkin réðust inn í Afganistan fyrir tíu árum voru innviðir samfélagsins í molum. Landið hafði frá því um miðbik tíunda áratugarins lotið stjórn hersveita Mullahs Omar, leiðtoga talibana (ef stjórn skyldi kalla – óstjórn væri kannski nær lagi). Í landinu var ekki starfrækt lög- gæsla eða réttarkerfi og lítt skipu- lagðar hersveitir talibana annars vegar og stríðsherra úr nyrstu héruðum landsins hins vegar, sem bárust á banaspjót um árabil, voru eini vísirinn að her sem finna mátti í Afganistan. Vandasamt verk Fyrst um sinn eftir innrásina í landið í október 2001 sinnti alþjóð- legt herlið öllum löggæslustörfum. Í ljósi þess að alþjóðaherliðið, með Bandaríkjamenn í fararbroddi, hafði ekki í hyggju að sinna þar varnar- og öryggismálum til allrar framtíðar var fljótlega afráðið að hefja stórtæka þjálfun afganskra her- og lögreglumanna. Það reyndist ekki auðleyst verk- efni í landi þar sem tveggja ára- tuga óstöðugleiki hafði að lang- mestu leyti komið í veg fyrir tilvist þessara stofnana. Tíföldun heraflans á átta árum Afgönskum her var komið á lagg- irnar af ríkisstjórn Hamids Karzai í árslok 2002. Hann er fjármagn- aður af Bandaríkjunum að miklu leyti. Einungis 1750 manns höfðu fengið þjálfun árið 2003, en þeim fjölgaði hratt í takti við áætlanir Karzais um sjötíu þúsund manna herlið árið 2009. Mörgum þótti það mark raunar of lágt – gera þyrfti töluvert betur til að ná tökum á vandanum. Nú er staðan sú að í herliði Afgana eru tæplega 170 þúsund manns og er áætlað að þeim muni fjölga í 260 þúsund á næstu árum. Yfirumsjón með þjálfuninni er í höndum sérstakrar undirstofnunar alþjóðaherliðsins og einkum sinnt af Bandaríkjamönnum. Um tíu þúsund hermenn eru við æfingar á degi hverjum í þjálfunarbúðum hersins í Kabúl. Margir hlaupast á brott Þeir sem rætt er við í Afganistan og þekkja til þjálfunarferlisins eru sammála um að þótt skortur á menntun, og ekki síður aga, sé talsvert vandamál í þjálfuninni, þá hafi með undraverðum hætti tek- ist að smíða skilvirkt herlið á ekki lengri tíma. Það gengur að sjálfsögðu ekki þrautalaust, og gerði það allra síst í fyrstu. Nýliðar voru undan- tekningarlítið ólæsir, sumir yngri en átján ára og liðhlaup var gríð- arlegt vandamál. Í árdaga hinnar nýju hervæðingar var áætlað að um tíu prósent allra nýliða hlypust á brott við fyrsta tækifæri. Þetta er enn mikið vandamál en reynt hefur verið að stemma stigu við því með því að breyta þjálfunarferlinu. Skýrslur og fréttir benda einnig til þess að spilling þrífist í hernum, líkt og raunar víðast hvar í landinu. Varningur í eigu hers- ins á það til að hverfa og kannan- ir leiða reglulega í ljós að á launa- skrá hersins eru menn sem ekki eru til. Yfirmenn þeirra hafa þá skráð nöfnin til að afla sjálfum sér aukatekna. Ólæsi stendur nýliðum sem áður segir mjög fyrir þrifum. Um áttatíu prósent allra Afgana eru ólæsir, og þar sem nýliðar í hern- um hafa gjarnan bágan félags- legan bakgrunn er talið að ólæs- ið í þeirra röðum sé jafnvel enn meira. Í fyrstu var þeim boðið upp á valfrjáls námskeið í lestri en þau hafa síðan orðið skyldufag. Stefnt er að því að um næstu áramót muni helmingur herliðs Afgana hafa öðlast lágmarkslesfærni. Lögreglan óagaðri Útlitið er ekki jafnbjart í lög- gæslunni. Flestir virðast sam- mála um að þar gangi öllu hægar að koma á almennilegum aga og sporna við spillingu. Fagmennsk- an sé þar mun minni en í hernum. Uppbygging lögregluliðsins hófst fyrir alvöru árið 2003 og í lok árs 2004 höfðu um 35 þúsund manns hlotið grunnþjálfun í lög- reglustörfum frá alþjóðaherlið- inu. Þjálfunin fer að miklu leyti fram í Kabúl en þaðan er verk- efnum einnig útdeilt til aðildar- þjóða alþjóðaherliðsins á hverju svæði fyrir sig. Síðan hefur sú tala hækkað í 140 þúsund manns og er áætl- að að eftir ár verði lögreglulið landsins skipað ríflega 160 þús- und manns. Í boði eru um 60 námskeið fyrir starfandi og verðandi lög- regluþjóna í 37 þjálfunarbúðum um land allt og þar stunda 8.500 nám á degi hverjum. Undanfarin misseri hafa ríflega 4.000 þúsund lögregluþjónar verið útskrifaðir í hverjum mánuði. Þurfa að geta lesið skilríki Ólæsi meðal lögreglumanna er enn meira vandamál en í hern- um, enda getur skriffinnska verið hluti af starfi þeirra flestra og illmögulegt að hafa við störf lög- reglumenn sem ekki einu sinni eru færir um að lesa á skilríki. Tugþúsundir nýútskrifaðra lög- reglumanna hafa nú lokið grunn- þjálfun í lestri en meirihluti þeirra sem starfa við löggæslu eru þó enn ýmist ólæsir með öllu eða eiga mjög bágt með lestur. Umdeild vopnuð nágrannagæsla Til viðbótar við þetta lögreglu- lið hafa Afganarnir sjálfir þjálf- að um níu þúsund manna svæðis- lögreglu, sem hefur afmarkaðra hlutverk sem snýr einkum að vernd íbúa í smærri þorpum. Svæðislögreglan er mjög umdeild. Liðsmenn hennar fá sex vikna þjálfun í vopnaburði og fyrstu hjálp, almennum lögreglu- störfum og lestri og þykir hafa reynst ágætlega í baráttu við upp- reisnarmenn. Gagnrýnendur segja hana þó lítið annað en eins konar skæru- liða stríðsherranna á hverjum stað, sem fái vopn upp í hendurn- ar frá ríkisstjórninni og starfi í hálfgerðu tómarúmi. „Vopnuð nágrannagæsla“ voru orðin sem háttsettur liðsmaður alþjóðahers- ins notaði í samtali við blaðamenn. Allt of mikið lið á friðartímum Þegar upp verður staðið og allt talið munu samkvæmt þessu ríf- lega 400 þúsund manns skipa her- sveitir og lögreglulið Afgana innan örfárra ára. Gangi allt að óskum í land- inu er þetta allt of mikið, segir Simon Gass, einn æðsti yfirmað- ur í stjórnsýslu NATO í Afganist- an. Svo stórar öryggissveitir séu óþarfar nema í uppreisnarástandi og vonir manna standi til að hægt verði að friðmælast við sem flesta uppreisnarmenn og fá þá til að leggja niður vopn. „En það er hins vegar ekki verj- andi að láta framtíð landsins velta á því hvort uppreisnarmenn fáist til að semja um frið,“ bætir Gass við. Stærsta verkefnið að kenna lögreglunni lestur Stígur Helgason stigur@frettabladid.isAFGANISTAN 2. hluti Næstu daga mun Fréttablaðið fjalla nánar um ástandið í Afganistan – helstu vandamálin sem við er að etja og glímuna við þau. RÉTTU HANDTÖKIN Þýski lögreglumaðurinn Mario Weinheimer kennir nýliðum í afgönsku lögreglunni hvernig snúa skal niður misindismenn. Þúsundir Afgana ganga í gegnum þjálfun af þessu tagi á degi hverjum. NORDICPHOTOS/AFP 20-60% afsláttur Borgartún 36 105 Reykjavík 588 9747 www.vdo.is HLÍFÐARFÖT AGV HJÁLMAR LAY-Z-SPA SIXSIONE BRYNJUR Nasran fatnaður – jakkar, buxur og vettlingar SixSixOne Peysubrynjur, plastbrynjur, nýrnabelti, vetlingar, olnboga og hnéhlífar AGV hjálmar Lokaðir hjálmar, opnanlegir, vespu- hjálmar, motocrosshjálmar og gler Varahlutir í fjarstýrða bíla Traxxas, GS varahlutir, dekk og felgur60% AFSLÁTTUR VARAHLUTIR Í FJARSTÝRÐA BÍLA 20-40% AFSLÁTTUR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.