Morgunblaðið - 27.07.2009, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 27.07.2009, Blaðsíða 15
15 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 27. JÚLÍ 2009 Blíðan ein Ekki flögrar að hryssunni Blesu að neyta aflsmunar gagnvart hinni tveggja ára Emblu Margréti Marteinsdóttur. Þær nutu blíðunnar og nærveru hvor annarrar á sveitabænum Þor- kelshóli í Vestur-Húnavatnssýslu um helgina. Blíðan uppmáluð þiggur Blesa smá gjöf frá Emblu og ljóst að þær tala sama tungumálið í hinu íslenska sumri, þegar náttúran skartar sínu fegursta. Eggert Í UMRÆÐUM um Icesave- samninga undanfarið hefur Indr- iði Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra og nefnd- armaður í íslensku samninga- nefndinni, haldið því fram að eng- in haldbær rök hafi komið fram fyrir þeirri gagnrýni sem ég hef haldið uppi á efni samningsins. Hann hefur reyndar lítið gert af því að fjalla um einstakar rök- semdir sem fram hafa verið born- ar, en þetta hefur orðið mér til- efni til að kanna nokkur atriði í löggjöf annarra ríkja til að varpa frekara ljósi á málið. Þar sem hvorki fjármálaráðuneytið né aðrir hafa sýnt neina tilburði í þá átt að bera ákvæði Icesave- samninganna saman við regluverk annarra ríkja um réttindi tryggingarsjóða til endur- greiðslu mun ég hér leitast við að létta þeim þetta verkefni aðeins. Til upprifjunar skal á það minnt, að gagnrýni mín beinist að því að ekki er í samningunum gert ráð fyrir að íslenski tryggingarsjóðurinn fái greiðslu á undan hinum erlendu trygging- arsjóðum þegar kemur að uppgjöri hverrar inn- stæðu úr búi Landsbankans, heldur er gert ráð fyrir að allir sjóðirnir fái hlutfallslega jafnt, enda þótt íslenski tryggingarsjóðurinn eigi allt- af að greiða fyrstu 20.887 evrurnar upp í hverja innstæðu. Málið snýst því um það, hvort gera eigi hverja innstæðu upp sem eina, sjálfstæða kröfu, við uppgjör Landsbankans, eða hvort innstæðukrafan breytist í fleiri en eina kröfu þegar tryggingarsjóðirnir leysa til sín hluta af henni. Uppgjörsaðferðirnar leiða til gjörólíkrar niðurstöðu og hef ég áætlað að þarna sé um að ræða hagsmuni upp á á bilinu 100 til 250 millj- arða íslenskra króna, hvorki meira né minna. Það ræðst þó eðli máls samkvæmt af verðmæti eigna Landsbankans, sem skilanefnd bankans fer nú með forræði yfir. Ég hef haldið því fram að það ráðist af rétt- arsambandinu milli eigenda hverrar innstæðu hvað hver og einn eigi að fá greitt, þegar þannig stendur á að tryggingarsjóður hefur leyst til sín kröfuna að hluta. Ég tel einsýnt að þegar þann- ig stendur á, að tiltekinn tryggingarsjóður hef- ur skyldu til að greiða fyrstur upp í hverja inn- stæðu, þá eigi hann líka að fá fyrstur greiðslu upp í kröfuna þegar þrotabú Landsbankans verður gert upp. Þessa niðurstöðu leiði ég af meginreglum kröfuréttar um inn- lausn kröfu (e. subrogation) og um endurkröfurétt. Um þetta efni segir í riti Þorgeirs Örlygssonar, þáver- andi lagaprófessors, „Kaflar úr kröfurétti II“: „Ef framsal er án nokkurra takmarkana, verður al- mennt að leggja til grundvallar, að framsalshafi öðlist öll þau réttindi, sem framseljandi átti, þ.m.t. viðbót- arréttindi eins og veð og ábyrgð, ef á annað borð er um framseljanleg réttindi að ræða.“ Í 10. gr. laga um innstæðutryggingar og trygg- ingakerfi fyrir fjárfesta er ákvæði sem lýtur að þessu. Orðrétt segir: Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðild- arfyrirtæki eða þrotabúi. Krafa sjóðsins nýtur rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti, en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar. Þessi lagaregla er í samræmi við meginregl- una, sem Þorgeir hefur lýst. Greiði íslenski tryggingarsjóðurinn innstæðueiganda 20.887 evrur upp í kröfu hans á hendur Landsbank- anum, þá yfirtekur sjóðurinn samsvarandi kröfurétt hans á hendur bankanum, þ.e. réttinn til úthlutunar upp í kröfuna allt frá 1 upp í 20.887 evrur, svo langt sem fjármunir bús Landsbankans hrökkva til er þar að kemur. Það er alvarleg hugsanavilla, sem birtist í fyrirliggj- andi drögum að Icesave-samningunum svo- nefndu, að við framsal til tryggingarsjóðsins verði til tvær hliðsettar kröfur, sem úthluta skuli upp í að jafnri tiltölu. Máli mínu til stuðnings hef ég einnig bent á orðalag Evróputilskipunarinnar, sem áðurnefnd lög eru byggð á. Þar segir í 11. gr. að trygging- arsjóður skuli, með bótagreiðslu til innstæðu- eiganda, eiga rétt til að leysa til sín kröfu inn- stæðueigandans að því marki sem hann hefur greitt kröfuna. Lítum aðeins á það hvernig þetta er gert í nokkrum nágrannalöndum. Reglur um danska tryggingarsjóðinn Í Danmörku gilda lög nr. 1009/2007 um tryggingarsjóð fyrir innstæðueigendur og fjár- festa. Í 17. gr. þeirra laga er ákvæði þess efnis að sjóðurinn fái réttarstöðu innstæðueigandans að því marki sem hann leysir hana til sín. Í danska lagasafninu (Karnovs lovsamling, bls. 6.531) segir efnislega um þessa reglu (í laus- legri þýðingu minni): Í lögfræðilegu tilliti verður réttarstaða sjóðs- ins hin sama og ábyrgðarmanns fyrir tilteknum hluta af kröfu viðskiptamanns [lánastofn- unarinnar]. Við innlausn eignast sjóðurinn kröfu um fulla endurgreiðslu, enda er litið svo á að krafa sjóðsins hafi stofnast á sama tíma og krafa innstæðueigandans. Ljóst er að hér líta Danir svo á að inn- stæðukrafan haldi áfram að vera ein krafa þótt sjóðurinn leysi til sín hluta hennar á grundvelli lagaskyldu. Sjóðurinn hefur stöðu ábyrgð- armanns, sem á rétt á fullri endurgreiðslu á því sem hann hefur lagt út ef eignir skuldarans hrökkva til. Írsk löggjöf Á vefsíðu samtaka sem mér sýnist gegna svipuðu hlutverki og Alþýðusamband Íslands er að finna rækilega útlistun á þarlendum reglum um sjóð sem hefur sama hlutverk og Ábyrgðasjóður launa hér á landi. Tilskipun Evrópusambandsins er grundvöllur reglu- verksins þar, rétt eins og hér á landi. Vefsíðan sem hér um ræðir er www.siptu.ie. Í umfjöllun um réttarstöðu launþega sem fær greiðslu úr ábyrgðasjóðnum er eftirfarandi klausa: Are The Employees’ Rights Transferred To The Minister After Payment? Yes. The rights and remedies of employees who are paid from the Social Insurance Fund under these Acts, transfer to the Minister. In the final winding-up proceedings in liquida- tions, receiverships, bankruptcies, etc., the Minister becomes a preferential creditor aga- inst the assets of the employer in respect of the amount paid. A claim by the Minister ranks as priority over any other preferential claim of the employees concerned. Ég tel að þessar reglur leiði til nákvæmlega sömu niðurstöðu og ég hef haldið fram varðandi Icesave-samningana, þ.e. að íslenski trygging- arsjóðurinn, sem fyrstur á að greiða 20.887 evr- ur upp í hverja innstæðu, eigi á sama hátt for- gang að því að fá þá upphæð upp í sinn hluta hverrar kröfu við uppgjör Landsbankans. Reglur breska tryggingarsjóðsins Ég fór inn á heimasíðu breska innstæðu- tryggingarsjóðsins til að kanna, hvort þar mætti fræðast um lagaframkvæmdina í Bret- landi. Þar er tengill inn á sérstakan bækling um það, hvernig innstæðueigendur skuli bera sig að við að lýsa kröfum til sjóðsins og hvernig sjóðurinn meðhöndlar þær. Vefsíðan er www.fscs.org.uk. Ég hvet alla sem vilja kynna sér þetta mál til fulls til að skoða það sem þarna kemur fram, en þar á meðal eru eftirfarandi leiðbeiningar: „Compensation payments. When we have looked at your claim we will write and tell you if you are entitled to comp- ensation and, if so, how much we can pay. There are limits to the amounts we can pay. To receive compensation you will first need to sign an ‘assignment of rights’. This is usually done when you complete your application form, and gives us the right to try to recover from the in- solvent firm (and third parties) compensation paid by the Scheme. We will also try to recover any losses you have incurred that were not covered by our scheme, and, if we do, will pass them on to you.“ Hér þarf ekki frekar vitnanna við: Sjóðurinn greiðir innstæðueigandanum ekki út nema því aðeins að hann framselji sjóðnum alla sína kröfu, og sjóðurinn gerir síðan ráðstafanir til að ná til baka því sem hægt er. Ef sjóðnum tekst að fá meira upp í kröfuna en hann sjálfur hefur greitt, þá fær innstæðueigandinn afganginn, annars fær hann ekkert meira en það sem sjóð- urinn hefur greitt honum. Þetta regluverk Bretanna er að sjálfsögðu í fullu samræmi við Evrópudírektívið sem þeir eru að herma upp á íslenska ríkið. Í frumvarpinu um ríkisábyrgð á Icesave- lánunum sem liggur fyrir Alþingi segir m.a.: „Íslenski tryggingarsjóðurinn fær framselda kröfu breska tryggingarsjóðsins og hollenska Seðlabankans í bú Landsbankans. Erlendu að- ilarnir munu síðan sjálfir gera kröfu í búið vegna þess sem umfram er og þeir hafa fjár- magnað. Í samningnum er sérstakt ákvæði sem áréttar að sjóðirnir muni njóta jafnræðis þegar kemur að úthlutun úr búi Landsbankans, þ.e. fá upp í kröfur sínar í jöfnum hlutföllum, en það er í samræmi við þá túlkun á gjaldþrotalögunum sem almennt hefur verið uppi (leturbreyt. RHH).“ Ég tel að dæmin sem ég hef rakið hér að framan sýni ótvírætt að þessi fullyrðing er beinlínis röng. Þess vegna þarf að stöðva fram- gang málsins á Alþingi og knýja á um breyt- ingar á lánasamningunum. Eftir Ragnar Halldór Hall » Það er alvarleg hugsana- villa … að við framsal til tryggingarsjóðsins verði til tvær hliðsettar kröfur, sem úthluta skuli upp í að jafnri tiltölu. Ragnar Halldór Hall Höfundur er hæstaréttarlögmaður. Réttarreglur hér og erlendis – Álita- mál sem tengjast Icesave-samningum

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.