Nýtt kvennablað - 01.05.1967, Blaðsíða 12

Nýtt kvennablað - 01.05.1967, Blaðsíða 12
henni með hressingu, sem hann mátti 'þó vita að hún hefði mikla þörf fyrir, hvað þá að honum hefði dottið í hug, að sækja hana eða fara á móti henni. Hún var orðin svo þreytt, ringluð og taugaóstyrk að hún varð að þrítelja í peningakassanum áður en hún var viss um, að hafa fengið fram rétta tölu, sem hún skrifaði á blað og lagði í eitt peningahólfið. Hún setti alla pen- ingaseðlana í stórt, gult umslag og tróð því í handveski sitt, skiptimyntina setti hún í poka, sem var dreginn sam- an í opið, og stakk honum ofan í stærri tösku, sem hún hafði meðferðis. Hún setti líka nokkrar pylsur og pylsu- brauð niður í töskuna, það þótti henni leiðinlegt, þegar farið var að gramsa í töskunni. Það var rétt eins og hún legði það i vana sinn, að taka eitthvað heim með sér úr söluturninum. En því fór fjarri, hún gerði það einmitt mjög sjaldan. Auðvitað hefði hún getað sagt, að hún hefði borgað pylsurnar, en það hafði hún ekki gert og sagði það því ekki heldur, enda enginn, sem spurði hana. Hún hafði ætlað að borða pylsurnar, er heim kæmi og fundizt þá að hún væri vel að þeim komin, hún hafði hvorki bragðað þurrt né vott alla þá löngu og erfiðu vakt, er hún hafði að baki. Hún hringdi á leigubílstöð, en þar var henni sagt, að bið yrði á því að hún gæti fengið bíl, það væri svo mikið að gera við akstur frá hótelinu og útidansstaðnum. Svo að hún lagði af stað heimleiðis án frekari umsvifa. Það setti hroll að henni, þegar hún kom að eyðilega kaflanum, engan mann var að sjá, og heldur ekkert grun- samlegt að heyra. Hún hljóp áfram hálfbogin og þrýsti veskinu fast að brjósti sér. Allt í einu heyrði hún brak í trjágrein, leit til hliðar og sá skugga bærast á milli trjánna. Strax datt henni í hug, hverjir þarna væru á ferð, hún beit saman vörunum til þess að stöðva ópið, sem var að brjótast fram yfir varir hennar. Ef hún æpti mundu þeir bregða hart við til að þagga niður í henni. Ef hún aftur á móti héldi áfram ferð sinni, eins og hún vissi ekki af neinni hættu, mundu þeir ef til villi fara sér hægara, og nú skipti hana öllu að fá frest til að komast nær fólki, þá fyrst mætti hún taka til fótanna eða hrópa á hjálp. En það skipti engum togum, þeir voru komnir á hæla henni og hún æddi áfram. Hún var mjög fljót á fæti, en nú var hún þreytt og auk þess svo skelfingu lostin að mátt dró úr henni. Þegar hrifsað var í bakið á henni og sagt kæfðum rómi: „Peningana!" snerist hún til varnar og hljóðaði upp yfir sig eins hátt og hún gat. Hún beit um höndina, sem lögð var yfir munn hennar, beit svo fast, að hún fann volgt blóðið seytla frá bitinu yfir andlit sér. „Það ætti að kyrkja helvitið," hvæsti sá, sem bitinn var, hann kippti að sér hendinni og um leið hljóðaði hún hátt og skerandi. Aftur var gripið fyrir munn hennar, og svo var henni greitt þungt högg á höfuðið. Um leið og hún missti meðvitundina fann hún að henni var hrint og nístandi verk í handleggnum, sem hún hafði þrýst svo fast að brjósti sér, að hana hafði kennt til, þegar veskið klemmdist að rifjunum. Síðan ekki meir. — Þegar hún komst aftur til meðvitundar lá hún í rúminu sínu. Sören laut yfir hana og hélt blautri dulu að vitum hennar, hún kyngdi blóði og klígjaði við, svo 'að hún varð að setjast upp og kúgast, þá tók sig upp aftur blæðingin úr nösum hennar, sem Sören hafði haldið sig vera búinn að stöðva. Hún var dofin í höfðinu, en hafði þó morrandi verk, og fann því meira til, sem hún vissi meira af sér. Hún reyndi að hugsa, en í fyrstu var allt þokukennt. Þegar hún minntist þess, sem gerzt hafði, tók hún til 'að skjálfa svo ákaflega, að henni fannst sem allt léki á reiði- skjálfi. „Þetta eru taugarnar,“ sagði rödd, sem hún kannaðist við, en það tók hana stundarkom að átta sig á því að þetta var rödd konunnar, sem skipti vöktum með henni í turninum. Hún stóð álengdar með hendurnar krosslagðar yfir brjóstið og var í tandurhreinum nælonsloppi rétt eins og hún væri að byrja á vakt. Þegar Lísa náði sér svo, að hún gat spurt konuna, hvers vegna hún væri þarna, svar- aði konan hróðug, að Sören hefði hringt til hennar og beðið hana að koma, sagt henni að hún skyldi fá sér bíl á hans kostnað. „Auðvitað kom ég á auga lifandi bragði. Ég læt aldrei á mér standa, þegar einhver er í nauðum staddur. Svo bar mér auðvitað að athuga þetta með peningana, hvort ég ætti ekki að skila þeim af mér í fyrramálið,. En þeir höfðu þá tekið peningana.“ „Þeir hafa þá sloppið," stundi Lísa upp, hún hvítnaði svo mikið, að Sören hélt að væri að líða yfir hana og skvetti á hana blóðlituðu vatni úr skálinni, sem hann vatt upp úr duluna, sem hann hélt að blóðugum vitum hennar. Lísu varð ónotalega við, þegar vatnið rann niður á háls hennar, brjóst og bak. „Bezt að vera ekkert að tala um þetta við hana,“ sagði sjoppukonan við Sören, „hún þolir það ekki, hefur orðið svo ofsalega hrædd, auminginn, öll í rusli á taugum. Að hugsa sér annað eins gáleysi að flana þetta út í myrkrið ein, hún hefði getað hringt í þig eða mig, eða farið í leigubíl. En svona er að treysta sjálfum sér í blindni, það verður mörgum hált á þeim háleistunum." „Ég var að spyrja, hvort þeir hefðu sloppið,“ sagði Lísa veikróma, hún hafði varla þrek til að tala, en þetta varð hún að vita. „Lögreglan er þó að leita „Uss, uss,“ sagði konan, „reyndu að vera róleg og sofna. Attu ekki eitthvað til að gefa henni inn, Sören, einhverjar töflur, hvað sem er, bara það sé eitthvað, sem deyfir hana svo að hún róist.“ Undarlegt hvernig Sören hafði snúizt við árásinni, sem hún hafði orðið fyrir. Lísa hafði nógan tíma til að velta því fyrir sér á löngum einverustundum í rauða húsinu um haustið og veturinn. Hún taldi sér hafa orðið það til hins mesta óláns, að Sören fékk eftirþanka af símtalinu og fór út til að mæta henni, en ekki strax, fyrst þurfti hann að ljúka úr tebollanum og svo var hann seinn að koma sér af stað. Ef hann hefði ekki borið að, hefði hún trúlega fengið nauðsynlega læknishjálp, jafnvel spítala- vist. Sören heyrði óp hennar og hraðaði sér á vettvang. En það gerðu fleiri, í skjótri svipan dreif að margt fólk, íbúar næstu húsa og ferðafólk í bílum, sem hafði heyrt ópin. Ránsmennirnir náðust með feng sinn, lögreglan tók við þeim og þýfinu, sem eigendur skyldu vitja um á lög- reglustöðinni næsta dag. Það náðist ekki í þorpslækninn, hann hafði verið kall- aður að heiman í sjúkravitjun. Raddir komu fram um 10 NÝTT KVENNABLAÐ

x

Nýtt kvennablað

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Nýtt kvennablað
https://timarit.is/publication/767

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.