Morgunblaðið - 20.09.2009, Qupperneq 20

Morgunblaðið - 20.09.2009, Qupperneq 20
20 Knattspyrna MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 20. SEPTEMBER 2009 Eftir Orra Pál Ormarsson orri@mbl.is E nda þótt hann verði hundrað og fimmtíu ára mun Emmanuel Adeba- yor aldrei taka annan eins sprett. Það var engu nær en sinnepi hefði verið sprautað upp í óæðri endann á hon- um. Raunar má gera því skóna að ekkert spendýr hafi runnið slíkt skeið frá því klárinn Sörli forðaði Skúla gamla undan fári þungu um árið – og hann var ferfættur. Glumr- uðu Skúla skeifurnar um eyru. Eða eins og Grímur gamli Thom- sen orðaði það í vísu: Rann hann yfir urðir eins og örin eða skjótur hvirfilbylur þjóti. Ennþá sjást í hellum hófaförin, harðir fætur ruddu braut í grjóti. Sörli var að forða húsbónda sínum undan fjandaflokki. Hvað gekk Adebayor til? Hann var að fagna marki fyrir hina nýju vinnuveit- endur sína í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, Manchester City, gegn þeim gömlu, Arsenal, á Borgar- leikvanginum í Manchester. Eftir að hafa skallað knöttinn með tilþrifum í netið tók Adebayor á rás yfir völlinn endilangan, svo vind- urinn sat eftir. Skeiðinu lauk með því að hann rann nokkrar bíllengdir á hnjánum og staðnæmdist fyrir framan stuðningsmenn aðkomuliðs- ins. Svo sem við var að búast froðu- felldu þeir af bræði og allnokkrir spruttu upp úr sætum sínum, reiðu- búnir að jafna sakirnar við Tógó- manninn. Óvígur her öryggisvarða skarst hins vegar af aðdáunarverðri fimi í leikinn og bjargaði lífi og lim- um. Einn öryggisvörður varð fyrir hnjaski í látunum. Gjörningnum lauk síðan með því að Kolo Touré, sem fór sömu leið og Adebayor í sumar, mætti löður- sveittur á vettvang og dró félaga sinn spriklandi í burtu. Skaðar ímynd knattspyrnunnar Ýmsum var brugðið, þeirra á með- al Richard Scudamore, fram- kvæmdastjóra úrvalsdeildarinnar. Hann fordæmdi skrípalætin og sagði atvik af þessu tagi skaða ímynd úr- valsdeildarinnar og knattspyrn- unnar í heild. „Við viljum að fyrir- sagnir blaðanna snúist um aðra og jákvæðari hluti,“ sagði hann. Adebayor var augljóslega tauga- spenntur þennan dag og viður- kenndi eftir leikinn að tilfinning- arnar hefðu borið sig ofurliði. Hann baðst velvirðingar á fagninu. Oft er von á uppákomum þegar leikmenn mæta sínum gömlu félögum en ástandið var óvenju eldfimt að þessu sinni enda verður seint sagt að aðdáendur Arsenal hafi borið Adebayor á höndum sér. Það er gömul saga og ný að stuðningsmenn knattspyrnuliða móðgist – jafnvel heiftarlega – út í leikmenn þegar þeir ákveða að söðla um og leggi fæð á þá upp frá því. Það sem gerir samband Adebayors við stuðningsmenn Arsenal óvenjulegt er sú staðreynd að hluti þeirra hafði þegar snúið við honum baki meðan hann skrýddist ennþá búningi fé- lagsins. Honum var raunar vel tekið þegar hann kom frá Mónakó í ársbyrjun 2006 og umsvifalaust gefið nafnið „Litli Kanu“ vegna þess hvað hann er sláandi líkur Nígeríumanninum Nwankwo Kanu sem gerði garðinn frægan hjá Arsenal á árum áður. Ekki líkaði Adebayor það illa enda er Kanu fyrirmynd hans á velli. Kappinn fór heldur hægt af stað hjá Arsenal en sprakk út með látum veturinn 2007-08 og gerði þrjátíu mörk fyrir félagið – í öllum regnbog- ans litum. Í manna minnum hafa að- eins tveir aðrir miðherjar Arsenal rofið þann múr, Ian Wright og Thierry Henry. Eins og í fjósi Eigi að síður felldi lítill hópur stuðningsmanna félagsins sig ekki við Adebayor, þótti hann latur, auk þess sem hann hlýtur að hafa sett heimsmet í rangstæðum meðan hann var á Highbury og síðar Em- irates-leikvanginum. Sumarið 2008 var Adebayor þrá- faldlega orðaður við erlend stórlið, svo sem AC Milan og Barce- lona, en eftir japl, jaml og fuður ákvað hann að verða um kyrrt á Em- irates. Óvild- armönnum hans í röðum aðdáenda Arsenal fjölgaði til muna við þetta en það er jafnan illa séð þegar sparkendur gefa öðrum liðum undir fótinn. Hluti vall- argesta baulaði á hann strax í fyrsta leik um haustið og ýmsir voru áfram í kýrlíki allt fram á vorið. Hvort sem það var af þeim sökum eða öðrum var Adebayor aðeins skugginn af sjálfum sér á liðnu tímabili. Í ljósi þess sem á undan var geng- ið kom ekki sérstaklega á óvart að Adebayor skyldi vera seldur frá Ars- enal í sumar. Hitt var óvæntara að Manchester City skyldi verða fyrir valinu en fyrir lá að hinir nýríku blá- stakkar væru líklegir til að blanda sér í baráttuna við stórveldin fjögur um efstu sætin í úrvalsdeildinni. Það er önnur saga. Adebayor má eiga það að hann lýsti því aldrei opinberlega yfir að hann vildi fara frá Arsenal og þegar hann var genginn í raðir City fullyrti miðherjinn að frumkvæðið hefði komið frá félaginu. Það væri í fjárþröng og því væri tilboð City, um 25 milljónir sterlingspunda, of gott til að hafna því. Á Adebayor var að skilja að hann væri að gera Ars- enal greiða. Menn geta haft sína skoðun á þeirri túlkun en athygli vekur að Arsenal situr enn á sjóðnum sem hlóðst upp við söluna á Adebayor og Touré. Þáttur stuðningsmannanna Farið hefur fé betra, sögðu stuðn- ingsmenn Arsenal og fylgdu Adeba- yor úr hlaði með fúkyrðum. Það var því deginum ljósara að upp úr gæti soðið þegar endurfundirnir fóru fram í Manchester um liðna helgi. Hermt er að stuðningsmenn Ars- enal, sem voru í miklum minnihluta á vellinum, hafi látið aursletturnar ganga yfir Adebayor þegar í upp- hitun fyrir leikinn. Síst dró af þeim þegar leið á miðdegið. Minnst af því sem þeir höfðu til málanna að leggja er tækt á prenti og hafa þeir m.a. verið sakaðir um kynþáttafordóma. Harry Redknapp, knattspyrnu- stjóri Tottenham Hotspur, staldraði við þetta í vikunni. Enda þótt hann bæri ekki blak af hegðun Adebayors sagði hann stuðningsmenn Arsenal ekki geta skorast undan sinni ábyrgð. „Það er ekki auðvelt að leika knattspyrnu undir stöðugum sví- virðingum.“ Það er líka önnur hlið á málinu. Sýndi Adebayor ekki hinum nýju stuðnings- mönnum sínum – sem hann hefur lof- að í hástert – lítilsvirð- ingu með því að fagna markinu fyrir framan aðdáendur Arsenal? Varð hatrið ástinni yfirsterkari? Alltént var hnefaleikafröm- uðinum Ricky Hatton, sem fylgir City að málum, ekki skemmt. Hann gerir sér grein fyrir því að Adebayor troði illsakir við Arsenal en það rétt- læti ekki framkomu af þessu tagi. Varasamt geti verið að ögra áhorf- endum á kappleikjum. „Hann á skil- ið að fá skömm í hattinn,“ segir Hat- ton. Óuppgerðar sakir? Adebayor var ekki bara með aðdá- endur Arsenal á sálinni, heldur virt- ist hann einnig eiga óuppgerðar sak- ir við sína gömlu liðsfélaga. Einhverjar tæklingar voru vafasam- ar – í báðar áttir. Þannig gerði Nick- las Bendtner, miðherji Arsenal, til- raun til að búta Adebayor í tvennt í eigin vítateig – en missti marks. Frægt var þegar Adebayor sló hann í leik á White Hart Lane í janúar 2008 svo sá á nösum. Daginn eftir baðst hann velvirðingar á þeim verknaði en enginn velkist í vafa um að litlir kærleikar hafa verið með þeim félögum síðan. Allt var þetta þó núningur og hjóm hjá broti Adebayors á Robin van Persie í síðari hálfleik. Það leit hreint ekki vel út þegar Tógómað- urinn steig á andlit síns gamla fé- laga. Ekki stóð á viðbrögðum frá van Persie. Hann sendi frá sér yfirlýs- ingu fljótlega eftir leik þar sem hann harmaði „glórulaust og mein- fýsið“ brot Adebayors á sér. Kvaðst Hollendingurinn ekki í nokkrum vafa um að Adebayor hefði ætlað að meiða sig. Svona yfirlýsingar eiga sér fá fordæmi, allra síst þegar gamlir samherjar eiga í hlut. Mark Clattenburg dómari sá ekki atvikið en lýsti því yfir eftir að hafa skoðað það á myndbandi að hann hefði vikið Adebayor af velli hefði hann séð það. Enska knattspyrnu- sambandið ákærði leikmanninn í kjölfarið og að vel athuguðu máli ákvað City að taka ekki til varna. Það þýðir að Adebayor fer sjálf- krafa í þriggja leikja bann fyrir brotið á van Persie. Það kemur svo í ljós á næstu dögum hvort refsing hans verður þyngd vegna fagnsins. Hundraðasti maðurinn Kómísk orðaskipti fóru fram milli knattspyrnustjóra félaganna, Marks Hughes og Arsène Wenger, í vikunni en sá fyrrnefndi er á því að engin illska hafi verið í broti Adeba- yors á van Persie. Wenger er á öðru máli. „Ef þið spyrjið hundrað menn munu 99 segja að brotið hafi verið mjög ljótt. Hundraðasti maðurinn væri Mark Hughes,“ sagði hann. Wenger viðurkenndi að hann hefði verið „furðu lostinn og hneykslaður“ á óvild leikmannsins í garð Arsenal. Viðskipti Adebayors og van Per- sies hafa gefið vangaveltum þess efnis að sitthvað hafi verið rotið í herbúðum Arsenal á umliðnum misserum byr undir báða vængi. Orðrómur hefur lengi verið um flokkadrætti og að „afríska klíkan“ með Adebayor og Touré í broddi fylkingar hafi verið orðin heldur frek til fjörsins. Þess vegna hafi þeir verið seldir. Út spurðist á lið- inni sparktíð að Touré yrti ekki á fé- laga sinn í vörninni, William Gallas. Ekki virtist þó fara illa á með Adebayor og leikmönnum Arsenal, hvorki fyrir leik né eftir, og í leik- hléi gátu þeir Cesc Fàbregas varla slitið hendurnar hvor af öðrum. Kolo Touré kvartaði þó undan því eftir leikinn að Arsenal-menn hefðu sýnt Adebayor tómlæti. Hlífði fjöri sjálfs sín miður Það er synd og skömm að Emm- anuel Adebayor skuli nú fara í leik- bann. Hann hefur verið hamramm- ur í upphafi leiktíðar, skorað í öllum fjórum leikjum City til þessa. Tógó- maðurinn á samt örugglega eftir að reynast hinum heiðbláu drjúgur í vetur læri hann af reynslunni og hafi hemil á tilfinningum sínum. Sörli var ekki til frásagnar eftir Skúlaskeiðið. Klárinn hlífði fjöri sjálfs sín miður og með blóðga leggi, brostin lungu á bökkum Hvítár féll hann dauður niður. Enda þótt Adebayor væri móður eftir sitt skeið, hélt hann velli. Og varð ekki meint af – líkamlega. Það gæti á hinn bóginn reynst þrautin þyngri að reisa orðsporið upp frá dauðum. Yfir urðir eins og örin Hann er frábær knattspyrnumaður. Um það er engum blöðum að fletta. Meiri áhöld eru um lundarfarið, eins og sparkelskir um víðan völl urðu vitni að um liðna helgi. Að launum uppskar hann þriggja leikja keppnisbann sem gæti orðið enn lengra. Emm- anuel Adebayor, miðherji Manchester City, hefur sannarlega stolið senunni í ensku knattspyrnunni á fyrstu vikum leiktíðarinnar. Reuters Adeskeið Emmanuel Adebayor lýkur sprettinum mikla fyrir framan froðufellandi stuðningsmenn Arsenal á Borg- arleikvanginum í Manchester. „Það eru takmörk fyrir því hvað maður getur þolað miklar svívirðingar,“ segir hann. Bann Emmanuel Adebayor þarf að taka út þriggja leikja bann hið minnsta vegna uppátækja sinna um síðustu helgi.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.