Organistablaðið - 01.07.1993, Blaðsíða 2

Organistablaðið - 01.07.1993, Blaðsíða 2
MINNING LATINNA FELAGA Guðmundur Gilsson, minning Fæddur 22. júlí 1926, dáinn 6. janúar 1992. Fregnin um andlát Guðmundar Gilssonar kom ekki á óvart. Hann hafði barist við erfiðan sjúkdóm, drengilegri og æðrulausri baráttu uns yfir lauk, en hann féll með sæmd. Víð dánarfregn setur mann hljóðan og upp hrannast minningarnar um samferðamanninn og vininn, sem nú er allur. Guðmundur Gilsson var vel menntaður og virtur tónlistarmaður. Hann nam orgelleik hjá dr. Páli ísólfssyni hér heima og hélt síðan utan til framhaldsnáms í Hamborg, þar sem hann naut handleiðslu prófessors Förstemanns. Þegar heim kom réðst hann fljótlega til starfa í Árnesþingi, þar sem hann var organisti og tónlistarkennari. Eftir að hann flutti til Reykjavfkur hóf hann störf við tónlistardeild Ríkisútvarpsins og sem kirkjuorganisti, fyrst í Garðabæ, síðan í Kópavogskirkju, en því starfi gegndi hann til dauðadags. Guðmundur var lengi virkur félagi í Félagi íslenskra organleikara og sat um hríð í stjórn félagsins. Hann var ötull talsmaður fyrir bættri menntun organistastéttarinnar og vildi jafnan veg hennar sem mestan. Ég kynntist Guðmundi á námsárunum og hafði verið kunnugur honum lengi er ég haustið 1985 gerðist aðstoðarmaður hans um tveggja ára skeið í Kópavogskirkju. Þau ár eru ljúf í endurminningunni og fannst mér ég margt af okkar samstarfi læra. Þá staðfestist það sem ég löngum hafði gert mér í hugarlund, að Guðmundur hafði mikinn drengskaparmann að geyma. Haustið, sem sjúkdómurinn greindisl hjá honum, fórum við þrír orgelleikarar saman akandi upp á Akranes til þess að skoða nýtt orgel Akraneskirkju. Guðmundur lék á als oddi á leiðinni og lék eins og engill á nýja orgelið. Á heimleiðinni urðu miklar umræður um þetta nýja hljóðfæri, kosti þess og galla. Þar talaði Guðmundur af mikilli þekkingu. Hann hafði þann góða hæfileika að setja mál sitt fram á eftirtektarverðan hátt og vissulega vorum við hinir margs vísari er ferðinni lauk. Útför Guðmundar var gerð í kyrrþey að ósk hans. Guðmundur var ekki þeirrar gerðar að vilja hafa tilstand í kringum sjálfan sig og því kom sú ákvórðun hans síst á óvart. Fyrir hönd Félags íslenskra organleikara sendi ég eftirlifandi ástvinum hans dýpstu samúðarkveðjur og mun jafnan minnast hans er ég heyri góðs manns getið. Kjartan Sigurjónsson 2 ORGANISTABLADID

x

Organistablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Organistablaðið
https://timarit.is/publication/787

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.