Organistablaðið - 01.03.1995, Blaðsíða 28

Organistablaðið - 01.03.1995, Blaðsíða 28
Fyrsti organleikari Stykkishólmskirkju var Sveinbjörn, sonur Sörens Hjaltalín, og var hann það í nokkur ár, eða þar til hann fluttist til Vesturheims. Þá tóku við Hallgrímur Jónsson barnakennari, bróðir hans Jósep H. Jónsson og systir Sveinbjarnar, Magðalena Hjaltalín, kona Sæmundar Halldórssonar, kaupmanns. Þessi þrjú léku á orgelið þar til Kristín Sveinsdóttir Möller tók við. Kristín Sveinsdóttir var fædd 1879. Hún var dóttir hjónanna Guðrúnar Bjarnadóttur og Sveins Jónssonar snikkara í Stykkishólmi. Eiginmaður Kristínar var Tómas W. Möller póst- og símstjóri í Stykkishólmi. Kristín var fjölgáfuð og menntuð kona. Átján ára gömul var hún orðin kirkjuorganleikari og söngstjóri Stykkishólmskirkju. Þetta var árið 1897 og með nokkrum hléum var hún það fram yfir 1920. Kristín Sveinsdóttir Möller var kennari við barnaskólann, og var það að hennar frumtaki að tekin var upp söngkennsla í skólanum. Sr. Sigurður Gunnarsson prófastur og sóknarprestur í Stykkishólmi og Kristín Möller bundust samtökum um að halda á útmánuðum ár hvert „skólamessu“ í kirkjunni þar sem skólinn Iagði til allan messusöng og meðhjálpara. Þóttu þetta miklar hátíðamessur og hélst þessi siður um daga sr. Sigurðar Gunnarssonar. Þegar tímar liðu kom alltaf eitthvað af skólanemendum í kirkjukórinn svo kórinn endurnýjaðist. Júlíana Jónsdóttir, dóttir Hansínu Jónsdóttur veitingakonu, kenndi organleik í Stykkishólmi og var um tíma organleikari við Stykkishólmskirkju. Ólöf Sigvaldadóttir, dóttir Guðlaugar Jóhannesdóttur og Sigvalda Valentínussonar var organisti frá 1928-1934. Rannveig Jónsdóttir kaupkona, kona Hannesar Stefánssonar skipstjóra, var organisti Stykkishólmskirkju frá 1933-1935. Árið 1935 hefur Guðríður Magnúsdóttir organistastörf við Stykkishólmskirkju og gegni- r því starfi til 1952. Guðríður var dóttir hjónanna Júlíönu Kristjánsdóttur og Magnúsar Jónssonar bókhaldara í Stykkishólmi. í hennar tíð er kirkjukór Stykkishólms formlega stofnaður af Sigurði Birkis söngmálastjóra árið 1943. í fyrstu stjórn kórsins voru kosin Kristján Bjartmars formaður, Ingibjörg Helgadóttir, Anna Magnúsdóttir, Sigríður Jónatansdóttir og Guðmundur Sumarliðason. Söngstjóri hins nýstofnaða kórs var Jón Eyjólfsson kaupmaður. Hann var bróðir Sigurðar Birkis söngmálastjóra og Þormóðs Eyjólfssonar á Siglufirði. Jón kom til Stykkishólms um 1920. Hann hafði milda og fallega tenórrödd og söng oft einsöng á samkomum. Hann vann að söngmálum í Hólminum í yfir 20 ár, æfði bæði kvartetta og tvísöng. Jón var gift- ur Sesselju Konráðsdóttur, kennara og skólastjóra í Stykkishólmi. 28 ORGANISTABLAÐIÐ

x

Organistablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Organistablaðið
https://timarit.is/publication/787

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.