SunnudagsMogginn - 07.11.2010, Page 14

SunnudagsMogginn - 07.11.2010, Page 14
14 7. nóvember 2010 Sigríður Ragna: „Hrefna Þorbjörg er sólargeisli okkar allra í fjölskyldunni. Obbjöggin, eins og ég kalla hana, hefur alltaf verið afskaplega ljúf, já- kvæð, brosmild og þægileg í umgengni. Það er ekki hægt að rífast við hana. En hún hefur samt allt sitt í gegn með lagni.“ Mamman hlær. „Hún er vanaföst, vill hafa hlutina á sínum stað og sínum tíma. Hún er líka óskaplega vin- mörg. Hrefna er í mörgum saumaklúbbum og afmælið sitt hefur hún haldið í þremur hollum síðan hún var tíu ára. Við gerðum okkur snemma grein fyrir því að hún hefði bein í nefinu. Þegar hún var tveggja ára spurði bróðir hennar hana hvort hún vissi hver byggi til hunangið? Nei, svaraði Hrefna. Bróðir hennar upplýsti hana þá um að það væri hunangsflugan. Hrefna hugsaði sig um stutta stund en spurði bróður sinn svo á móti hvort hann vissi hver byggi fiskinn til. Nei, var svarið. Nú auðvitað fiskiflugan. Merkilegt að tveggja ára barn skyldi setja þetta svona í samhengi. Beita rökhugsun. Pabbi henn- ar var erlendis þegar þetta samtal fór fram og ætlaði ekki að fást til að trúa okkur þegar við sögðum honum frá því.“ Sigríður hlær dátt. Pínulítil kerling „Raunar hefur Hrefna Þorbjörg alltaf verið svo- lítið „gammelklog“ og komið með skemmtilegar athugasemdir. Hún var bara tveggja ára þegar hún sat í barnastólnum, horfði út um gluggann og sagði: „Það er bara hundslappadrífa.“ Okkur pabba hennar krossbrá enda höfðum við varla heyrt þetta orð. Hún hafði þá lært það af dag- mömmunni sem var fullorðin kona að vestan. Hrefna gat verið eins og pínulítil kerling. Hún var alltaf með í bílnum þegar við skutl- uðum systkinum hennar í skólann og þegar þau voru farin út spurði Hrefna gjarnan: „Mamma, eigum við að spjalla?“ Hrefna er mjög athugul og þegar hún heyrði að dánarfregnir og jarðarfarir voru að byrja í út- varpinu meðan ég var að keyra hana sjálfa í skólann fékk ég fyrirmæli um að flýta mér, hún væri að verða of sein. Enda þótt systkini hennar séu níu og ellefu ár- um eldri var hún mikið með þeim, ekki síst bróður sínum. Fyrir vikið horfði hún snemma á allar bíómyndir. Það var erfitt að stöðva það.“ Sigríður hristir höfuðið hlæjandi. „Ég vildi setja Hrefnu í ballett, í mínum huga var hún ekta ballerína, lítil og sæt og hefði tekið sig vel út í bleiku pilsi. En engu tauti varð við hana komið, hún vildi bara fimleikana. Hrefna hefur frá fyrstu tíð lagt sig alla fram við æfingar enda er hún mikil keppnismanneskja og gríð- arlega samviskusöm. Það þarf mikinn sjálfsaga til að vakna fyrir allar aldir til að fara á æfingar. Hún byrjaði sex ára og þau hafa verið ófá mótin og alltaf mæti ég – með hnút í maganum. Meiðslaáhættan er minni núna eftir að Hrefna skipti yfir í hópfimleika úr áhaldafimleikum en hún er samt fyrir hendi. Þeir eru ófáir pústrarnir gegnum tíðina en verst var þegar hún ökkla- brotnaði um árið. Negla þurfti brotið saman og ég gleymi því aldrei þegar hún kom heim með nagl- ana í poka eftir að þeir voru fjarlægðir úr fæt- inum. Fór einu sinni í fýlu Hrefna var mjög þægilegur unglingur, ég man bara í eitt einasta skipti eftir því að hún hafi farið í fýlu. Og ég er að tala í alvöru. Það var þegar við bönnuðum henni að fara í tjaldútilegu um versl- unarmannahelgina, ætli hún hafi ekki verið sex- tán ára. Í staðinn fórum við með hana og vinkonu hennar upp í sumarbústað. Þá helgi var hún virkilega fúl, brosið braust ekki fram fyrr en um miðjan sunnudag. Árið eftir ætluðum við til útlanda um versl- unarmannahelgina en Hrefna tilkynnti okkur þá formlega að hún kæmi ekki með. Hún væri búin að kaupa sér miða á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og þar með var málið útrætt. Hrefnu varð ekki haggað. Hrefna miklar ekkert fyrir sér. Gengur bara í málin og leysir þau á sinn rólega og yfirvegaða hátt. Hún er mjög skipulögð að eðlisfari enda þótt skipulagið geti stundum virkað svolítið kaótískt.“ Nú hlær móðirin stríðnislega. „Hrefna er afskaplega velviljuð og hjálpsöm. Ef eitthvað bjátar á hjá einhverjum er hún fljót að hlaupa til. Það er mikið hjúkrunareðli í henni og um tíma velti hún læknisfræðinni fyrir sér. Á endanum ákvað hún að fara í sjúkraþjálfun og það á afskaplega vel við hana. Hún gjörþekkti fagið líka af eigin raun eftir langan feril í fim- leikum og við lá að hún gæti sleppt grunnnám- inu. Hjartaaðgerð og hamfletting Hrefna lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Þegar hún var í sjúkraþjálfaranáminu bauðst henni að fylgjast með hjartauppskurði á Land- spítalanum. Þótti henni mikið til koma og lýsti þessari upplifun fjálglega fyrir okkur. Hvernig hjartað var tekið úr manninum og svo framvegis. Það eina sem stóð í henni var sviðalyktin þegar bringubeinið var sagað í sundur.“ Sigríður grettir sig. „Hrefna er líka liðtæk við að hamfletta rjúpur fyrir jólin. Það treysta sér ekki allir til þess. Hún er mikið jólabarn. Hrefna er mjög upptekin ung kona, allir dagar eru fullbókaðir frá morgni til kvölds. Samt hefur hún alltaf tíma til alls sem hún ætlar sér. Þannig bjó hún til heilt myndaalbúm handa okkur for- eldrunum í fyrra, skreytti og skrifaði mjög fallega til okkar. Það kom beint frá hjartanu eins og allt sem hún gerir.“ „Það er bara hundslappadrífa“ Tengsl Sigríður Ragna Sigurðardóttir, kennari og fyrrverandi sjón- varpsþula, og Hrefna Þorbjörg Hákonardóttir, nýbakaður Evrópumeistari í hópfimleikum með Gerplu, eru mæðgur og miklar vinkonur. Þær eiga sitthvað sameiginlegt, svo sem að vera brosmildar, vinmargar og þrautgóðar á raunastund. Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Mynd: Árni Sæberg saeberg@mbl.is Margt er líkt með skyldum. Hrefna Þorbjörg Hákonardóttir og Sigríður Ragna Sigurðardóttir. Sigríður Ragna Sigurðardóttir fæddist árið 1943 á Selfossi, dóttir Sigurðar Óla Ólafssonar alþing- ismanns og Kristínar Guðmunds- dóttur. Sigríður hefur að mestu helgað starfsævi sína börnum. Ung passaði hún börn og eftir stúdentspróf frá MR lærði hún til kennara. Hún kenndi með hléum í þrettán ár en undanfar- inn aldarfjórðung hefur hún haft yf- irumsjón með barnaefni í Ríkissjón- varpinu. Sigríður var fyrsta þula sjónvarpsins, ásamt Ásu Finnsdóttur, og kynnti dagskrána fyrir lands- mönnum frá 1966 til 1972. Eig- inmaður Sigríðar er Hákon Ólafsson og eiga þau tvö börn, auk Hrefnu Þor- bjargar: Kristínu Mörthu (37 ára) og Sigurð Óla (35 ára). Hrefna Þorbjörg Hákonardóttir fæddist árið 1984. Hún varð stúdent frá MR og lauk prófi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands. Hrefna starfar sem sjúkraþjálfari hjá Táp sjúkraþjálfun í Kópavogi. Hrefna hefur æft fimleika frá sex ára aldri. Fyrst áhaldafimleika með KR og Ármanni en þegar hún var sautján ára byrjaði Hrefna að æfa hópfimleika með Stjörnunni. Hún gekk til liðs við Gerplu árið 2005. Hrefna varð í öðru sæti með Gerplu á Evrópumeist- aramótunum 2006 og 2008 og á dög- unum unnu þær, eins og alþjóð veit, sjálfan Evrópumeistaratitilinn. Árið 2007 var Hrefna í liði Gerplu sem varð Norðurlandameistari. Hún reiknar með að halda áfram að stunda fimleika. „Auðvitað er freist- andi að hætta á toppnum en þetta er bara svo gaman að ég hugsa að ég haldi áfram meðan líkaminn leyfir. Ég hitti einu sinni 32 ára gamla tveggja barna móður á móti, þannig að ég á mörg ár eftir,“ segir hún hlæjandi.

x

SunnudagsMogginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.