SunnudagsMogginn - 07.11.2010, Blaðsíða 26

SunnudagsMogginn - 07.11.2010, Blaðsíða 26
26 7. nóvember 2010 B iðraðir fyrir utan starfsstöðvar hjálparsamtaka þar sem fólk bíður eftir að komast að til að fá matargjafir eru ljótur blett- ur á samfélagi okkar. Og það er eins og enginn þeirra, sem ætla mætti að beri ábyrgð á því að koma þessum þætti sam- hjálpar í eðlilegri farveg, láti sig þessar biðraðir nokkru varða. Með þessum bið- röðum er verið að niðurlægja fólk fyrir allra augum. Getum við verið þekkt fyrir það? Í æsku minni átti ég heima í húsi sem stóð alveg við Camp Knox, einn stærsta herkampinn í Reykjavík. Þegar banda- ríski herinn fór af landi brott eftir stríð og Íslendingar fluttu inn í herskálana kom ekki til greina að við hin lékjum okkur við börn sem bjuggu í kampinum. Við vorum fljót að átta okkur á þessu. Mér kæmi ekki á óvart að börn þeirra, sem standa í biðröðum eftir matargjöfum, verði fyrir barðinu á því með einum eða öðrum hætti og kannski lengur en marg- ur heldur. Það hefur alltaf verið til fátækt á Ís- landi. Á seinni hluta 20. aldarinnar var hún sjaldnast sýnileg. Þó gerðist það allt- af þegar verulega syrti í álinn. Það átti við um erfiðleikaárin 1967-1969 og það átti jafnvel við um samdráttarskeiðið í upp- hafi tíunda áratugarins. Nú er fátæktin aftur sýnileg, aðallega í biðröðunum en líka með öðrum hætti. Kannski er vandamálið það að sú kyn- slóð, sem nú hefur tekið við stjórn mála á landsvísu og í sveitarfélögum, skilji ekki hvað fátækt er. Ef svo er má finna ein- falda lausn á að bæta úr þeim þekking- arskorti. Á 20. öldinni var uppi merkur verkamaður sem vann við að grafa skurði og við aðra erfiðisvinnu. Hann hét Tryggvi Emilsson. Hann skrifaði ævi- minningar sínar. Fyrsta bindi þeirra heitir Fátækt fólk. Annað bindið heitir Baráttan um brauðið. Minningar Tryggva komu út í þremur bindum. Þeir sem eiga erfitt með að skilja og skynja hvað fátækt er ættu að taka sér fyrir hendur að lesa bækur þessa alþýðumanns. Þá komast þeir fljótt í jarðsamband. Þrátt fyrir allt það flókna trygg- ingakerfi, sem við höfum byggt upp á síðustu 70 árum eða svo, er það veruleiki að grunnkostnaður við að vera til á Ís- landi hefur hækkað svo gífurlega á tveimur árum samhliða því að fólk hefur misst vinnu, laun hafa lækkað, tekjur hafa lækkað, að alltof stór hópur fólks á ekki fyrir mat. Ef það lætur matinn ganga fyrir á það ekki fyrir húsaleigu eða raf- magni og hita eða kostnaði við skóla- göngu barna sinna. Og þá kemur að því að fólk er borið út eða lokað fyrir hitann og rafmagnið. Til allrar hamingju er þetta ekki veruleikinn sem blasir við miklum meiri- hluta Íslendinga. En þetta er það daglega líf sem of stór minnihluti er að kljást við dag hvern. Það er aðdáunarvert hvað fólk tekur þessu þó með mikilli stillingu og æðruleysi. Ég efast ekki um að það sé hægt að finna ótal skýringar á því að ekki sé búið að þurrka þessar biðraðir út. Ég efast ekki um að það sé hægt að færa fram fjölda röksemda fyrir því hvað það sé erfitt að breyta þessu kerfi. En það breytir ekki niðurstöðunni: Þetta er hneyksli. Þjóðarhneyksli. Okkur sem samfélagi til skammar. Því verður ekki trúað að hin hámennt- aða kynslóð nútíma Íslendinga geti ekki fundið leið til að tryggja fólki mat án þess að láta það standa í niðurlægjandi bið- röðum. Hvar er nú þekkingarþjóðfélagið? Hvar eru nú allir sérfræðingarnir í stjórnun? Hvar eru nú allir sérfræðingarnir í skipu- lagningu? Hvar eru nú töfrar tölvukerf- isins? Dugar þessi mikla menntun ekki til þegar finna þarf aðra leið til þess að tryggja fólki mat en þá sem var ein þekkt fyrir 100 árum, að fólkið stæði í bið- röðum eftir að fá súpu? Eða er úrlausn svona vandamála ekki kennd í Harvard og Cambridge? Þetta er ekki „risavaxið“ vandamál eins og borgarstjórinn í Reykjavík sagði í sjónvarpsviðtali sl. þriðjudagskvöld. Þetta er spurning um pólitískan vilja. Borgarstjórn Reykjavíkur þarf að ákveða að þurrka út þennan smánarblett á höf- uðborginni. Hún þarf að sýna að hún hafi einhvern áhuga á því sem ekki hefur beinlínis blasað við. Eru ekki fulltrúar flokka í borgarstjórn sem voru stofnaðir af fólki sem var að berjast gegn fátækt? Og meðal annarra orða: hvar eru verka- lýðsfélögin í Reykjavík? Vilja þau ekki kannast við uppruna sinn? Þótt þetta sé sagt snýst þetta mál ekki um flokka. Ég efast ekki um að allir vilji leysa þennan vanda en einhver þarf að taka forystu um það. Og sú forysta hlýtur að koma frá þeim sem til þess voru kjörnir. Það er mikið talað um forgangsröðun nú um stundir. Þar er ekkert sem getur haft meiri forgang í okkar samfélagi en að tryggja að allir þegnar þjóðfélagsins hafi mat að borða. Og fátt er mikilvægara en að tryggja að börn þeirra, sem eiga um sárt að binda, sitji ekki uppi eftir banka- hrunið mikla með djúp sár alla ævi sem aldrei gróa. Þau gróa aldrei. Tveimur áratugum seinna hlustaði ég á ungan og efnilegan stjórnmálamann á fundi í Sjálfstæðishús- inu gamla við Austurvöll lýsa lífinu í braggahverfi. Og skammaðist mín fyrir þær tilfinningar sem bærðust með mér tíu ára gömlum í garð „braggabarna“. Við eigum flest minningar um afa og ömmur sem ólust upp í mikilli fátækt til sjávar og sveita og töluðu aldrei um það. Tryggvi Emilsson verkamaður hefur tryggt með meistaraverki sínu að hlut- skipti þess fólks gleymist aldrei. Við skulum taka höndum saman um að útrýma fátækt á Íslandi – láta biðraðirnar hverfa og finna leiðir til þess að tryggja fólki mat með sómasamlegum hætti. Þetta er hneyksli – og okkur til skammar Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@mbl.is Þ að mátti heyra saumnál detta þegar hann gekk í salinn. Loftið var þrungið spennu. Fulltrúar allra helstu fjölmiðla voru saman komnir og flogið hafði fyrir að sprengja myndi falla á fundinum sem haldinn var í Forum-höllinni í Los Ang- eles, höfuðvígi Lakers, stórveldisins í körfuboltaheim- inum, á þessum degi fyrir nítján árum. Öllum var ljóst að eitthvað var að, en enginn vissi nákvæmlega hvað. Hann var alvarlegur í bragði þegar hann fékk sér sæti við pallborðið, hallaði sér að hljóðnemanum og kom sér beint að efninu: „Ég hef greinst með HIV-veiruna og verð fyrir vikið að leggja körfuboltaskóna á hilluna.“ Kliður fór um salinn, sumir tóku andköf, aðrir felldu tár. Hvernig gat Magic Johnson, erkitýpa heilbrigðis og hreystis og einn fremsti körfuboltamaður sögunnar, verið HIV-smitaður? Þetta hlaut að vera einhver mis- skilningur. Það hélt hann líka sjálfur nokkrum dögum áður þegar læknir Lakers-liðsins kvaddi hann á sinn fund til að kynna fyrir honum niðurstöður úr reglu- bundinni læknisskoðun. „Hvernig get ég verið HIV- smitaður, ég er ekki hommi?“ spurði Magic lækninn í forundran. Eðlileg viðbrögð á þessum tíma en árið 1991 var hinn banvæni sjúkdómur alnæmi gagnkynhneigðu fólki að mestu óviðkomandi. Hvað þá gagnkynhneigðu íþróttafólki. Magic bað lækninn að endurtaka prófið. En allt kom fyrir ekki – niðurstaðan var sú sama. Enn var Magic ekki sannfærður. „Allt er þegar þrennt er,“ sagði hann og enn var próf tekið. Það fór enn á sömu lund. Ekki var um að villast, Magic Johnson var HIV- smitaður. Íþróttaheimurinn hafði varla orðið fyrir öðru eins áfalli. Læknar réðu Magic þegar að hætta í körfu- bolta, hann þyrfti á öllum sínum styrk að halda til að berjast við hinn illvíga sjúkdóm, auk þess sem smithætta væri vissulega fyrir hendi. Hann sá sæng sína upp reidda. Áður en hann boðaði til blaðamannafundar sagði hann fjölskyldu sinni og vinum frá veikindunum, hringdi meðal annars í Larry Bird, Isiah Thomas, Mich- ael Jordan og Pat Riley til að þeir fengju fréttirnar beint frá honum en ekki gegnum fjölmiðla. Í öldurótinu á blaðamannafundinum var Magic sjálfur kletturinn í hafinu. Honum virtist hvergi brugðið. Lýsti því yfir að hann myndi berjast gegn þessum banvæna sjúkdómi og gerast talsmaður alnæmissamtaka til að freista þess að efla forvarnir. „Sumir halda að einungis hommar geti fengið þennan sjúkdóm. Það er rangt. Allir geta fengið hann, meira að segja ég.“ Þegar fjölmiðlafólkið var búið að ná áttum rigndi spurningum yfir Magic. Mörgum lék forvitni á að vita hvernig hann hefði fengið þennan hræðilega sjúkdóm. Var hann kannski hommi eftir allt saman? Nei, það var hann ekki. Að öðru leyti gat hann ekki svarað spurning- unni. Síðar kom í ljós að Magic hafði ekki verið við eina fjölina felldur í kvennamálum, hjásvæfurnar höfðu verið margar enda þótt kappinn væri giftur. Eiginkona hans, Cookie, var barnshafandi á þessum tíma og spurt var um heilsu hennar. Til allrar hamingju gat Magic staðfest að hún væri heilbrigð og barnið líka. Einhver mannaði sig upp í að spyrja hversu langt Magic ætti eftir (á þessum tíma var mun minna vitað um HIV- smit en nú). „Ég veit það ekki,“ svaraði leikmaðurinn af æðruleysi. „Það er ekki eins og lífi mínu sé lokið. Ég mun halda áfram að lifa lífinu. Það eina sem breytist er að héðan í frá þarf ég að taka lyf daglega.“ Þrátt fyrir alvöru málsins var sem fyrr stutt í vöru- merki Johnsons – brosið. „Ég ætla mér að lifa lengi enn og halda áfram að ergja ykkur,“ sagði hann sposkur. „Ég ætla að halda ótrauður áfram, sigrast á þessum veik- indum og njóta lífsins.“ Þessi orð hljómuðu ekki sannfærandi á þeim tíma en nú, nítján árum síðar, er Earvin Magic Johnson ennþá við góða heilsu. Hraustur og brosandi. orri@mbl.is Magic upp- lýsir um HIV-smit Johnson er ennþá við góða heilsu – og brosir við lífinu. AP ’ Sumir halda að einungis hommar geti fengið þennan sjúkdóm. Það er rangt. Allir geta fengið hann, meira að segja ég. Magic Johnson glímir við annan góðan, Michael Jordan. Á þessum degi 7. nóvember 1991
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.