Morgunblaðið - 22.03.2010, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 22.03.2010, Blaðsíða 16
16 Umræðan MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 22. MARS 2010 VEÐRIÐ virðir eng- in landamæri. Menn gerðu sér grein fyrir því þegar á 18. öld að til eru veðurkerfi sem hreyfast reglubundið milli staða, auk þess sem samhengi er í veðri frá einum stað til annars. Þegar ritsími kom til sögunnar fyrir 1850 varð mögulegt að fylgja kerfunum eftir og spá fyrir um hreyfingar þeirra. Þá kom í ljós að nauðsynlegt var að staðla mæli- tæki og athuganir til að skiptast mætti á upplýsingum til spágerðar. Fæstir gera sér grein fyrir þeirri skipulagsvinnu sem samræming at- hugana og miðlun þeirra krefst. Ekki gengur að loftþrýstingur sé reiknaður til sjávarmáls á mismun- andi hátt í nágrannalöndum og sé vindhraði mældur í mismunandi ein- ingum þarf að geta þess í skeyta- lyklum, tryggja verður að veð- urupplýsingar berist umsvifalaust heimshorna í millum o.s.frv. Ísland varð hluti af þessu alþjóðlega kerfi um leið og ritsíminn kom til landsins 1906. Íslensku veðurskeytin voru nánast ómissandi fyrir veðurspár í nágrannalöndum okkar og þeirra skeyti ómissandi hér. Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) grundvallast á fjölþjóða- samþykkt sem tók gildi 1950. Stofn- unin telst því 60 ára um þessar mundir. Á þessum tímamótum er litið til baka, bæði til eldri samvinnu og þess sem síðar hefur áunnist. Fljótlega eftir að veðurmælitæki komu til sögunnar á 17. öld var farið að huga að söfnun veð- urupplýsinga. Vaxandi tengsl milli vísinda- félaga Evrópu stuðluðu að samræmingu athug- ana. Ákveðin tímamót urðu um 1780 þegar veðurfræðifélagið í Mannheim (í Pfalz) í Þýskalandi stóð fyrir kvörðunum hitamæla og loftvoga sem síðan rötuðu á athug- unarstaði víða um lönd, þar á meðal hér á landi og á Grænlandi. Kerfið varð þó fljótlega fórnarlamb erfiðra samgangna og síðan styrjaldarátaka í Evrópu og lagðist af. Elstu veð- urstofur Evrópu voru stofnsettar um 1830 og smám saman var farið að gera athuganir víða um lönd á kostnað hins opinbera. Fyrstu eig- inlegu veðurkortin voru gerð um svipað leyti. Með tilkomu ritsímans eftir 1843 varð bylting í fjarskipta- málum og þá varð unnt að fylgjast með veðri á stórum svæðum nánast strax eftir að athuganir voru gerðar. Fyrsta alþjóðastefna um veð- urathuganir á sjó var haldin í Brussel 1853 og markar hún upphaf samstarfsþráðar sem síðan hefur ekki rofnað, þrátt fyrir heimsstyrj- aldir og átök af ýmsu tagi. Alþjóða- veðurfræðisamband var sett á lagg- irnar 1873 í kjölfar fundar 20 veðurstofa í Vínarborg. Sambandið var lengst af óformlegt, fulltrúar voru ekki skipaðir af ríkisstjórnum, en starfað var í nánast sjálfskip- uðum tæknilegum nefndum. Smám saman kom í ljós að gera þurfti formlegan samning milli rík- isstjórna til að tryggja rekstur og samfellu alþjóðasamstarfsins. Á stríðsárunum var unnið að gerð al- þjóðasáttmála um veðurfræðistofn- un og var stofnskrá hennar sam- þykkt á þingi sem haldið var í Washington 1947. Hún átti að taka gildi þegar 30 ríki hefðu staðfest hana. Ísland var fyrsta ríkið sem gerði það, 16. janúar 1948. Hinn 23. mars 1950 bættist þrítugasta ríkið við og er sá dagur talinn stofndagur Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar og varð síðar árlegur „alþjóðaveð- urdagur“. Skömmu síðar komst stofnunin undir hatt Sameinuðu þjóðanna og hefur síðan verið ein af meginstoðum þess samstarfs og til fyrirmyndar í samskiptum þjóða í milli. Á þessum 60 árum hafa orðið gríðarlegar framfarir í veðurspám og vöktun náttúruháska af ýmsu tagi. Talið er að nú séu sex daga veðurspár álíka marktækar og sól- arhringsspár árið 1950. Þessar framfarir hefðu aldrei orðið án styrkrar forystu Alþjóðaveð- urfræðistofnunarinnar. Veðurstofa Íslands hefur frá stofnun tekið virk- an þátt í alþjóðastarfinu enda hefur það reynst ómetanlegt fyrir alla starfsemi hennar og þar með fyrir þjóðfélagið allt. Svo verður vonandi áfram. Veðrið virðir engin landamæri Eftir Trausta Jóns- son » Talið er að nú séu sex daga veðurspár álíka marktækar og sól- arhringsspár árið 1950. Trausti Jónsson Höfundur er veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Í FRÉTTUM hefur verið greint frá því að skuldastaða hins op- inbera nemi um 658 milljörðum króna þeg- ar eignir eru frádregn- ar skuldum. Séu skuld- bindingar skilanefnda dregnar frá gjaldeyr- isvarasjóði Seðlabank- ans standa þar eftir 65 milljarðar króna. Eru flestir sammála um að í þessu felist gríðarleg hætta á greiðslufalli íslenska ríkisins. Þjóð- artekjur Íslendinga hafa nú lækkað um 50% í dollurum talið og eru tekj- urnar mjög svo háðar ástandi í al- þjóðaviðskiptum, einkum á hrá- vörumarkaði. Efnahagsáætlun ríkisstjórn- arinnar og AGS þykir úr hófi bjart- sýn og miðar við skjótan og rífandi efnahagsbata á Íslandi og í heim- inum, sem vart á sér fordæmi í hag- sögunni. Á meðan benda hagfræð- ingar eins og Kenneth Rogoff á að næstu ár verði tímabil gjaldþrota ríkisstjórna. „Grikkland er aðeins upphafið“ sagði Rogoff á ráðstefnu í Tókýó nýverið, en hann sagði fyrir um heimskreppuna og er prófessor við Harvard-háskóla og fyrrverandi aðalhagfræðingur AGS. Nelson D. Swartz gerir yfirvofandi skuldakreppu að umtalsefni í grein sinni, Corporate Dept Coming Due May Squeeze Credit, í New York Times á dögunum þar sem hann bendir á að árið 2012 muni Banda- ríkjastjórn þurfa að taka 2 billjónir dala að láni, og að þá komi 700 millj- arðar dalir á gjalddaga hjá banda- rískum fyrirtækjum. Greinin hefst á þessum orðum: „Þegar Maya- indíánar sáu fyrir endalok heimsins árið 2012 – a.m.k. eins og Hollywood sér það fyrir sér – sáu þeir ekki fyrir rusl-skuldabréf á meðal þeirra vá- gesta sem myndu leiða til endaloka heimsins. E.t.v. hefðu þeir átt að gera það, því á árinu 2012 hefst þriggja ára tímabil þar sem meira en 700 milljarðar dala í fyrirtækja- lánum, með miklar arðsemiskröfur, falla á gjalddaga, sem er ótrúleg sprengja sem hagrýnar óttast að muni yfirkeyra lánamarkaði. Þar sem risavaxnir reikningar eru í þann veginn að rata á borð fyrirtækja og bandaríska ríkisins á sama tíma, er óttast að sum fyrirtækin muni eiga erfitt með að endurfjármagna sig, sem gæti leitt til greiðsluþrota og gjaldþrotahrinu. Bandaríkjastjórn ein mun þurfa að fá lán- aðar 2 billjónir dala árið 2012 til að brúa bilið í áætluðum ríkishalla fyr- ir það ár og til að endur- fjármagna eldri skuld- ir.“ Þrátt fyrir að þróun efnahagsmála fari á besta veg, og áætlanir Obama um kínverska eftirspurn gangi eftir – sem reyndar er ákaf- lega langsótt – mun ekkert koma í veg fyrir gríðarlega og langvinna skulda- kreppu þróaðra og fullvalda ríkja. Framundan eru ár þar sem mörg þróuð ríki munu enda í greiðsluþroti, og stóru hagkerfin munu róa lífróður hvern dag til að halda uppi hagkerf- inu. Há verðbólga er skollin á í Kína, og er hún komin yfir 3,5% í Bret- landi. Bregðast ríkisstjórnir við með því að fegra tölur, og ætla Bretar nú að breyta reikningi sínum á verð- bólguvísitölu með þeim hætti að hún lækkar gríðarlega á blaði, en ekki í reynd. Vegna væntanlegrar óðaverð- bólgu í Kína er nánast óhjá- kvæmilegt að þeir leyfi yuani að styrkjast umtalsvert á tiltölulega skjótum tíma, með þeim afleiðingum, að dollar veikist gríðarlega. Skulda- söfnun, peningaprentun og styrking yuans mun skila sér í hruni dollars og óðaverðbólgu í Bandaríkjunum. Þegar við Íslendingar stöndum frammi fyrir þessu, háðir verðlagi á hrávörumarkaði og afurðaverði á sjávarafla, er stefnumörkun ríkis- stjórnarinnar og AGS í besta falli galin. Framundan eru gríðarlegar þrengingar hjá Íslendingum, og mun ekkert koma í veg fyrir það. En lengi getur vont versnað! Ef ríkisstjórnin ætlar að reyna að skuldsetja sig út úr yfirstandani efnahagskreppu, mun það enda í þjóðargjaldþroti og örla- gafátækt fyrir íslenska þjóð um marga áratugi. Biðjum auðmjúkum bænum að við munum engin lán fá frá nokkurri þjóð né stofnun á næstu árum Auðmjúkar bænir Eftir Gunnar Krist- in Þórðarson Gunnar Kristinn Þórð- arson » Skuldakreppa hefst í Bandaríkjunum á næsta ári og ríkissjóðir víða um heim sigla í greiðsluþrot. Auknar lántökur ríkissjóðs eru galnar í því ljósi. Höfundur er guðfræðimenntaður. KÆRI sjáv- arútvegsráðherra og minn gamli kennari frá skólaárunum í Stykk- ishólmi, Jón Bjarna- son. Undirritaður hefur, eins og þú veist, stund- að sjómennsku sl. tæp 30 ár, lengst af sem skipstjóri. Síðastliðin ár, eftir að skelstofninn hrundi í Breiðafirði, hef ég verið skipstjóri á Bíldsey SH 65, 15 tonna línubát með beitningavél. Ég hef alla mína sjómennskutíð reynt að nota vitsmuni mína meðal annars í að reyna hagræða og lag- færa búnað og annað um borð í mín- um skipum þannig að sem mest ör- yggi og vinnuhagræði og afköst náist í þágu áhafnar minnar og útgerðar, eins og eðlilegt er. Bíldsey var með allra fyrstu bát- um af þessari stærð til að taka beitn- ingavél um borð eftir að Páll á Daðey GK ofl. höfðu reynt þetta með góðum árangri um borð í svona litlum bát- um. Því á ég töluvert í framþróun þessa uppátækis. Stjórnvöld ættu að styðja við slíka framþróun og al- menna skynsamlega hugsun en ekki rífa niður. Nú eru uppi áform um að auka línuívilnun í þorski, ýsu og steinbít upp í 20 % og auka þannig enn meira mismunun milli þeirra sem eru með beitningavél og þeirra sem beita í landi. Til skýringar fyrir þá sem þetta lesa þá felst ívilnun í því að fyr- ir hver veidd 10 tonn dragast 8 tonn frá kvóta þeirra sem beita í landi í stað 10 tonna hjá okkur. Þarna er mikil mismunun sem þegar er farin að leiða til afturfarar. Menn eru farnir að henda í land einföldum, hugvitssamlegum og vinnusparandi tækjum sem hafa sýnt það að þau beita betur en mannshöndin virðist vera fær um og bila nánast ekkert. Þessi breyting á ívilnuninni sem til stendur er gerð eftir því sem þú hefur sagt í því skyni að skapa vinnu í landi sem vissulega er rétt, t.d. vorum við allt síðastliðið haust aðeins þrír á Bíld- seynni. Við lögðum og drógum sem svarar 30 500 króka bölum en með því að landbeita línu þyrfti líklega 7 menn, 5 í landi og 2 á sjó. Á sögusafn- inu í Grundarfirði er gamall trébát- ur, einn sá fyrsti sem sett var í vél. Þegar það var gert fækkaði um 4 menn í áhöfn þessa báts og afköstin tífölduðust. Mundir þú, ef þú hefðir verið upp á þessum tíma og staðið gegn þessari þróun, að þín væri minnst í dag sem valdsmannsins sem stóð gegn þessari tæknibyltingu? Í nánast öllum atvinnugreinum, t.d. í fiskvinnslunni, væri hægt að auka þörf fyrir meiri mannafla ef öll- um vélbúnaði yrði hent út og það mætti auka þörf fyrir mannskap í næstum öllum atvinnugreinum og við færum að handflaka – og fletja og bera fiskinn á höndum okkar í stað þess að nota færibönd. Gætu mjólk- urbændur ekki farið fram á ívilnun í mjólkurkvóta á kostnað annarra bænda ef þeir tækju upp á því að handmjólka? Þá þyrfti að fjölga til sveita og fá erlent vinnuafl eins og í landbeitningunni. Menn gætu farið í vegavinnu með skóflu og haka að vopni og svona mætti lengi telja. Þessi braut sem þið eruð á í þessu máli er heimskuleg! Ég skildi ykkur betur ef þið væruð að auka ívilnun til þeirra sem stunda línuveiðar al- mennt vegna t.d. lítillar olíunotkunar og fleiri þátta við línuveiðar sem stuðla að minni umhverfisáhrifum. Því spyr ég þig, Jón: ertu ekki til í að hugleiða þetta upp á nýtt? Ef ekki, værir þú þá ekki til í það að beita þér fyrir því að við sem erum með beitningavélar fengjum líka ívilnun ef við réðum til okkar mann- skap sem upp á vantar í að við vær- um með álíka marga í vinnu og þeir sem beita í landi, t.d. í að gera ekki neitt, eða t.d. að bera ljós í húfunum sínum í hús eins og bræðurnir á Bakka forðum? Með þessari ívilnun er tekinn hluti af okkar kvóta í að stuðla að úreltum vinnubrögðum, vinnu sem að lang- stærstum hluta er unnin af erlendu vinnuafli. Balar með línum eru svo fluttir landshorna á milli eftir því sem bátarnir færa sig á milli hafna og það leiðir aftur af sér neikvæð umhverfisáhrif. Því tel ég engin skynsamleg rök fyrir þessari mis- munun. Með kveðju. Opið bréf til sjávarútvegsráðherra Eftir Óskar Eyþórs- son »Með þessari ívilnun er tekinn hluti af okkar kvóta í að stuðla að úreltum vinnubrögð- um, vinnu sem að lang- stærstum hluta er unnin af erlendu vinnuafli. Óskar Eyþórsson Höfundur er skipstjóri á Bíldsey SH 65. BRÉF TIL BLAÐSINS SKULDIR verða ekki borgaðar með nýjum lánum. Við þurfum að skapa okkur sjálf tekjur með innlendri framleiðslu. Framleiðslufyrirtækin sem eiga að rísa hér eiga að vera ís- lensk en ekki eingöngu erlend með ís- lenskt vinnuafl. Ísland er land tæki- færanna rétt eins og Ameríka var það áður fyrr. Á Íslandi voru fluttir inn ávextir og grænmeti fyrir 5.600 milljón krónur árið 2008, þar af grænmeti fyrir um 600 milljónir frá Ísrael sem er ekki í næsta nágrenni. Mikill hluti þeirra 33.000 tonna grænmetis og ávaxta sem eru flutt inn árlega kemur jafn- framt frá Hollandi. Á Íslandi er mikið um jarðvarma og hægt er að ráðast í græna stóriðju með litlum tilkostnaði sem mun spara okkur allan þennan gjaldeyri og jafn- vel gefa útflutningstekjur seinna meir. Ef gróðurhús yrðu nú byggð við jarðvarmavirkjanir vítt um landið ávinnst margt: Hægt er að nota af- rennslið til að kynda gróðurhúsin og rafmagnið er okkur nærtækt. Einnig sparar þetta orku sem færi í að keyra grænmetið og ávextina vítt og breitt um landið. Við erum að framleiða tiltölulega sama magn af orku allan sólarhring- inn en mesta notkunin er yfir daginn. Strauminn þarf nefnilega að nota nánast á sama andartaki og hann er framleiddur því annars myndast yf- irfall. Orkan er sem sagt ekki nýtt í neitt! Til dæmis væri hægt að byggja slík gróðurhús á Reykjanesi (þar sem mesta atvinnuleysi landsins er) við Hellisheiðina/Hveragerði, fyrir aust- an við Reyðarfjörð, við Mývatn fyrir norðan og svo á Vestfjörðunum þar sem heitt vatn hefur fundist. Á hvern fermetra er með 200w lampa hægt að uppskera 100 kg af gúrkum á 50 daga fresti, eða 65 kg af tómötum á 20 daga fresti eða 25 kg af paprikum á 65 daga fresti. Allt það sem væri ræktað hér væri náttúrulega mun betra á bragðið en það sem er innflutt þar sem það væri ávallt nýtt. Ég hvet ríkisstjórnina til að skoða þetta mál vandlega og alla landsmenn til að ýta undir jákvæða umræðu um það hvað við getum gert og hætta að einblína alltaf á aðra en okkur sjálf. Það erum við sem byggjum þetta land og ég vil að það haldist þannig en ekki að það fari allt í hendurnar á stórfyrirtækjum úti í heimi. ÞORGRÍMUR KOLBEINSSON, Rituhöfða 13, Mosfellsbæ. Sjálfbært Ísland Frá Þorgrími Kolbeinssyni

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.