Morgunblaðið - 30.03.2010, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 30.03.2010, Blaðsíða 23
Minningar 23 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 30. MARS 2010 Elsku afi, okkur langar að minnast þín í fáeinum orðum. Það var alltaf svo gaman að koma til þín og ömmu á Soga- veginn, þar var flotta kökuborðið hennar ömmu. Var alltaf nóg um að vera þar. Sumarbústaðaferðirnar þegar við vorum yngri eru ógleymanlegar og munu alltaf lifa í minningunni. Þú varst alltaf hress og kátur þegar við heimsóttum þig á Skógarbæ. Elsku afi, skilaðu kveðju til ömmu, við munum alltaf sakna ykk- ar. Ég lifi’ í Jesú nafni, í Jesú nafni’ ég dey, þó heilsa og líf mér hafni, hræðist ég dauðann ei. Dauði, ég óttast eigi. Afl þitt né valdið gilt, í Kristí krafti’ ég segi: Kom þú sæll, þá þú vilt. (Sálmur 273.) Hvíl í friði. Halla, Magnús, Elva og Íris. Elsku afi, hvar á að byrja. Ég á aldrei eftir að gleyma þeim stund- um sem ég eyddi á Sogaveginum þegar ég var lítill. Þegar við Sig- urgeir fengum oft að gista hjá ykk- ur og þú og amma Halla voruð allt- af svo góð. Ég man svo vel eftir því að þú áttir alltaf tyggjó, það klikk- aði ekki ef maður kom á Sogaveg- inn þá gat maður fengið tyggjó og það var oftar en ekki sem maður Ari Bergþór Franzson ✝ Ari BergþórFranzson fæddist í Reykjavík 2. júní 1924. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 18. mars síðastliðinn. Útför Ara Berg- þórs fór fram frá Bú- staðakirkju 29. mars 2010. gat fengið sér harð- fisk líka. Sogavegurinn var eins og einhvers kon- ar stoppistöð fyrir fjölskylduna. Alltaf þegar maður fór í heimsókn á Sogaveg- inn var alltaf eitthvað af fólki þar og alltaf fékk maður eitthvað hjá afa og ömmu. Svo fór maður alltaf þarna með pabba og Sigur- geiri að horfa á Liver- pool-leikina. Síðan all- ar ferðirnar sem við fórum á Laugarvatn í bústaðinn. Ég man eftir svo mörgum ferðum með þér og ömmu Höllu sem ég á aldrei eft- ir að gleyma. Alla þessa vetur og sumur alveg frá því að ég fæddist. Ég sakna þess hvernig tímarnir voru áður enn að þú og amma Halla fóruð. Ég vildi óska þess bara að ég væri núna kominn upp í sumarbú- stað með þér, ömmu Höllu, pabba, mömmu, Sigurgeiri og Jónínu. Núna ertu farinn en ég veit að á þeim stað sem þú ert núna þá ertu ánægður og ert kominn aftur til ömmu Höllu. Ég sakna þín og ömmu Höllu ótrúlega mikið. Ég vil segja þér það að ég elska þig, afi, og ég á aldrei eftir að gleyma þér eða þeim stundum sem ég eyddi með þér í gegnum lífið. Þitt barnabarn, Arnór Jónsson. „Hæ gæ“ var alltaf það sem mað- ur heyrði kallað þegar maður kom inn á Sogaveginn í gamla daga, frá þér úr horninu þínu inni í eldhúsi. Man hvað þetta horn var nú algjör gullnáma fyrir krakka, ef það var til eitthvað gott í gogginn, þá fékk maður sinn skerf af því. Einnig var þetta horn himnaríki fyrir hunda, því þeir fengu alltaf eitthvað gott í gogginn frá afa Ara hundavini. Síðan eru stundir eins og uppi í sumarbústað með þér, sem ég mun aldrei gleyma. Ein skemmtilegasta minningin mín þar er þegar við vor- um að spila Viltu vinna milljón og þú gast ekki haldið svarinu út af fyrir þig, sama hvað við spiluðum lengi, við gátum endalaust hlegið að þessu. Aldrei gleyma því að mér mun alltaf þykja vænt um þig afi, og ég sakna þín skuggalega mikið. Þinn Sigurgeir. Nú ertu farinn elsku afi okkar. Við eigum margar góðar minningar um ykkur ömmu á Sogaveginum og þær munu aldrei gleymast. Við munum þegar við lékum okkur með hækjurnar þínar meðan þú sast á þínum stað við eldhúsborðið. Þegar við komum upp í sumarbústaðinn, lékum okkur í kofanum og klifr- uðum í trjánum sem börn. Það var gaman þegar þið pabbi og fleiri keyptuð bát saman og við fórum öll saman út á sjó. Einnig þegar við urðum eldri og sátum og töluðum lengi við þig og skemmtum okkur konunglega. Þú varst alltaf svo hress og skemmtilegt að tala við þig. Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Sveinbjörn Egilsson) Guð geymi þig elsku afi okkar. Kristín Ósk og Friðjón. Elsku Ari langafi, nú ertu kominn til englanna og búinn að hitta ömmu Höllu á ný. Það eru ekki margir langafar með tæknina á hreinu eins og þú, með flatskjá, fartölvu og o.fl. í herberginu þín á Skógarbæ og ekki má gleyma þegar jólin voru að nálgast, þá var gaman að koma í heimsókn til þín og skoða allt jóla- dótið þitt sem allt hreyfðist og söng, og þér leiddist það ekki, heldur naust þess að sýna okkur hvað allt dótið gat gert. Einnig varst þú búinn að vera að dunda þér að raða myndum í albúm og vá, hvað það var gaman að skoða þau, fullt, fullt af myndum sem þú hélst mikið upp á. Elsku afi, við söknum þín mikið, þú varst alltaf svo góður við okkur og sýndir okkur alltaf að þér þótti vænt um okkur. Vertu yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni. (Sig. Jónsson frá Presthólum.) Biðjum að heilsa ömmu Höllu, hvíl í friði, elsku afi. Guðrún Kristín, Sara Karen og Anney Birta Jóhannesdætur. Föstudagsmorguninn 19. mars hringdi Palli, sonur hans Ara bróð- ur míns, og sagði: „Pabbi dó í morg- un.“ Það kom mér í opna skjöldu, ég heimsótti Ara tveim dögum áður í Skógarbæ og þá var hann svo hress og kátur. Það á kannski ekki að koma á óvart því þegar maður er kominn á þennan aldur getur mað- ur alltaf búist við þessu. Nú förum við aftur til vorsins 1928. Þá bjuggu á Lindargötu 27 hjónin Þórunn Stefánsdóttir og Franz Arason, bæði rúmlega þrítug. Börnin voru fjögur: Elstur var Guð- bjartur átta ára, síðan Ari fjögurra ára, ég tveggja ára og Magnea eins árs. Um miðjan maí var ég sendur vestur í Stykkishólm, ég átti að vera þar sumarlangt en það fór á annan veg, móðir okkar fékk bráða- berkla og dó í ágúst. Það varð til þess að samveru okkar systkina var lokið. Ég varð kyrr í Stykkishólmi, Ari og Magga fóru til ömmu okkar, Magneu Bergmann, og Bjartur varð eftir hjá pabba. Við Ari smituðumst af berklun- um, berklarnir fóru í mjaðmarlið á Ara svo hann fatlaðist og varð að nota hækjur. Hann dvaldi langtím- um á Landakoti. Í mér voru berkl- arnir innibyrgðir, ég var oft mjög veikur en þegar ég var 13 ára grófu þeir sig út úr hálsinum á mér, eftir var ég fílhraustur. Þegar ég var átta ára var ég sendur suður til Reykjavíkur. Það átti að lækna berklana með ljósum. Ég bjó hjá móðursystur minni á Seltjarnar- nesi. Einn af fyrstu dögunum á Nesinu fór ég labbandi í bæinn. Þegar ég kom niður á Bræðraborg- arstíg sá ég að á undan mér haltr- aði strákur á hækjum. Ég vissi að bróðir minn var fatlaður svo mér datt í hug: Kannski er þetta Ari bróðir minn. Ég setti í mig kjark og hnippti í hann og spurði: „Ert þú bróðir minn?“ Hann sneri sér að mér og sagði: „Ég veit það ekki en ég heiti Ari.“ „Þá ertu bróðir minn,“ sagði ég. Þarna varð mikill fagn- aðarfundur með okkur bræðrum. „Við skulum kíkja á hann afa,“ sagði Ari, „hann á heima í rauða húsinu á horninu.“ Þegar til afa kom tók hann okkur vel, hann bauð okkur ekki inn til sín en hann gaf okkur túkall. Okkur kom saman um að fara í næstu búð og kaupa okkur sítrón og kremkex, sem við og gerð- um, og settumst við síðan á tröpp- urnar á búðinni alsælir og ræddum málin. Að þessu loknu fórum við á bíó. Ég var þrjá mánuði fyrir sunnan og á þeim tíma hittumst við systk- inin oft daglega. Þegar ég var á 14. ári dó fóstra mín og fór ég þá til frænda míns í Bjarnarhöfn og var þar í fjögur ár svo það var ansi langur tími sem ég sá bræður mína ekki. En það var bót í máli að Magga systir var tvö sumur í Bjarnarhöfn. Eftir að ég kom alfar- inn suður til Reykjavíkur vorum við systkinin mjög náin þótt ég væri langtímum á sjónum. Eftir að ég hætti á sjónum var fastur áning- arstaður minn á Sogaveginum hjá Ara og Höllu og alltaf var jafn- gaman að koma til þeirra. Mér er minnisstæðust samveran með Ara þegar við fórum saman út í bugt á lúðumiðin hans pabba og dorguðum daglangt og röbbuðum saman. Stundum fengum við nokk- ur lúðulok, sú stóra kom ekki þá en ég veit að við fáum þá stóru þegar við förum saman á lúðumiðin hinu- megin. Ég þakka þér samveruna, Ari minn. Þinn bróðir, Ragnar Franzson. Elsku amma mín. Ég sakna þín og hef gert það síðustu ár, ég sakna þess að stelpurnar mínar eigi ekki eftir að þekkja þig betur því þú átt svo mikið í mér. Ég var ekki gömul þegar ég vonaðist til að mín börn myndu þekkja þig eins og ég gerði. En ég á eftir að segja þeim margar sögur af því sem ég gerði með ykkur afa í gamla daga, ég var svo heppin að fá að vera mikið hjá ykkur og á margar ómetanlegar minningar. Ég man ófáar bílferðirnar þar sem við sungum svo ég yrði ekki bíl- veik og við afi kepptumst við að giska hvað næsti bær eða á hét en oftast hafðir þú rétt fyrir þér og þurftir ekkert að vera í keppni eins og við. Ég er með ör á hnénu sem minnir mig alltaf á þig, því ég var nýbúin að kroppa af því þegar þú sagðir mér að passa mig að gera það ekki því ég fengi ævi- langt ör. Þegar ég fór 10 ára til Danmerkur fékk ég sendar bækur og bréf frá ykkur afa sem mér þótti mjög vænt um. Kókoskúlur minna mig alltaf á gönguferðirnar niður í Hagkaup og stoppin í bak- aríinu á bakaleiðinni. Ég kann tvö rommý, þetta venjulega og svo það Guðrún Elín Jónasdóttir ✝ Guðrún Elín Jón-asdóttir (Gunn- ella) fæddist á Ísafirði 26. janúar 1926. Hún lést á Hjúkr- unarheimilinu Eir 18. febrúar síðastliðinn. Útför Guðrúnar El- ínar fór fram í kyrr- þey. með reglunum henn- ar ömmu, sem voru miklu strangari og skemmtilegri. Ósjald- an hef ég hringt í þig og spurt um upp- skriftir og ráð í mat- reiðslu í gegnum tíð- ina, þú kenndir pabba líka vel sem ég græði á. Þegar við lágum í sólbaði í Hvammsgerðinu eða öðrum sumarbú- staðnum þá var mik- ilvægt að láta lófana vísa upp svo liturinn á framhand- leggjunum yrði jafn. Það er svo ótal margt sem þú stendur fyrir í mínu lífi og kveðju- stund í bili breytir engu um það, þú kenndir mér margt praktískt en umfram allt varstu hlý og blíð og gjafmild. Ég gat alltaf rætt mín hjartans mál við þig og ég man þegar þú komst í Brekkugötuna hvað þú spurðir mig mikið um strákinn sem leigði með mér. Þessi sami strákur kom skömmustulegur með mér heim í Hvammsgerði fyr- ir rúmum 12 árum eftir árekstur á fyrsta stefnumótinu okkar og við Óskar Þór munum það vel hve dátt þú hlóst að þessu óhappi. Takk fyrir allt og allt, athvarfið, hlýjuna, blíðuna og umfram allt tímann sem þú gafst mér og þar með stelp- unum mínum því honum bý ég að um ókomna tíð. Við söknum þín og elskum og gerum okkar besta til að hugsa vel um langafa Bóa þangað til þið hitt- ist aftur. Þín Auður Jónasdóttir. Kynni okkar Fríðu tengdamóður minnar hófust fyrir um 29 ár- um. Á okkar sam- skipti bar aldrei skugga, þvert á móti. Fríða var vissulega spör á að sýna tilfinn- ingar sínar. Hún tjáði þær frekar með góðu atlæti, góðum móttökum og viðgjörningi á heimili sínu. Hún lagði aðlúð í allt sem hún veitti gestum sínum og töfraði fram kræsingar oft að því er virtist án mikillar fyrirhafnar. Mér fannst hún líka tjá sínar tilfinningar með öllum þeim fjölda persónulegra gjafa sem hagleikskonan Fríða bjó til af miklu listfengi, hvort sem var prjóna- eða saumaskapur, leirlist eða málaralist. Hún og Jón tengda- faðir fengu mikinn áhuga á gróð- urrækt hin síðari ár við sumarhús sitt við Elliðavatn. Þar var þeirra annar samastaður í yfir 50 ár. Þetta var sælureitur fjölskyldunn- ar, þar bjuggu þau gjarnan öll sum- ur meðan börnin voru að vaxa úr grasi. Þetta var smátt og snoturt hús í anda síns tíma. Handbragð Fríðu gerði híbýlin hlýleg og nota- leg. Þar voru allir velkomnir og urðu ekki fyrir vonbrigðum, þvílík var gestrisnin. Fríða var félagslynd og trygg vinum sínum sem lýsti sér Fríða Sigurveig Hjaltested ✝ Fríða SigurveigHjaltested fædd- ist í Hafnarfirði 25. nóvember 1926. Hún lést á Droplaug- arstöðum í Reykjavík hinn 10. mars sl. Útför Fríðu fór fram frá Bústaða- kirkju 19. mars 2010. meðal annars í því að hún hélt vinskap við æskuvinkonur úr vesturbænum frá 5-6 ára aldri og var með þeim í saumaklúbb alla tíð og í öðrum saumaklúbbi með skólasystrum sínum frá Laugalandi. Hún þótti ætíð glæsileg og naut þess alla tíð að vera vel klædd og vel til höfð. Þau hjónin voru vinmörg og nutu sín í þeim mörgu fé- lögum sem þau voru í og ekki síður á fjölmörgum ferðalögum um æv- ina. Fríða var þekkt fyrir vinnu- semi jafnt á heimilinu sem við hin fjölbreyttu verslunarstörf sem hún vann um ævina. Þegar hún nálg- aðist eftirlaunaaldurinn var hún ekkert að slá slöku við heldur nýtti hún áhuga sinn á gróðri og gerðist verktaki hjá ýmsum fyrirtækjum og annaðist blóm þeirra, fyrst hafði hún það sem aukastarf og síðar sem aðalstarf þótt dagvinnutímun- um fækkaði smám saman alveg fram á 79. aldursár. Á þeim tíma fólst gott samstarf okkar í aðstoð við litla bókhaldið og skattaupp- gjörið. Það var því sárt að verða vitni að því hvernig þessi líflega kjarnakona þurfti smám saman að lúta í lægra haldi fyrir Alzheimers- sjúkdómnum. Þá fengum við að- standendur og vinir smám saman að skyggnast inn í huliðsheim þessa erfiða sjúkdóms sem ágerðist hægt en tók svo að lokum öll völd. Vinnu- semin sem hafði einkennt hana alla tíð hvarf ekki þrátt fyrir þetta. Það var sem hún þyrfti alltaf að vera að vinna og aðstoða eftir að hún kom á Droplaugarstaði. Framan af átti hún erfitt með að skilja að hún fengi ekki greidd laun fyrir allt erf- iðið. Vinna þessi og hreyfingin sem henni fylgdi hélt við styrku hjarta og lungum þótt skrokkurinn léti smám saman undan og ylli henni oft miklum kvölum. Það var samt ekki ástæða til að kvarta frekar en á fyrri ævidögum. Ég er þakklátur fyrir þær stundir sem við áttum saman á lífsleiðinni og kveð hana með virðingu og stolti yfir því að hafa fengið að vera tengdasonur hennar. Blessuð sé minning henn- ar. Halldór Ó. Sigurðsson. Morgunblaðið birtir minningargreinar endurgjaldslaust alla útgáfudaga. Skil | Greinarnar skal senda í gegnum vefsíðu Morgunblaðsins. Smellt á reitinn Senda inn efni á forsíðu mbl.is og viðeigandi efnisliður valinn. Skilafrestur | Ef óskað er eftir birtingu á útfarardegi verður greinin að hafa borist eigi síðar en á hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á föstudegi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi). Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein berist áður en skilafrestur rennur út. Lengd | Minningargreinar sem birtast í Morgunblaðinu séu ekki lengri en 3.000 slög. Ekki er unnt að senda lengri grein. Lengri greinar eru eingöngu birtar á vefnum. Hægt er að senda örstutta kveðju, HINSTU KVEÐJU, 5-15 línur. Ekki er unnt að tengja viðhengi við síðuna. Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.