Skólablaðið - 01.12.1985, Page 21
við nokkrar stelpur úr þorpinu, en Veru
sé ég ekki meir það sem eftir er ballsins.
Þegar ballið er búið, fer rútan aftur heim
í plássið. Það er frekar dauft hljóð í lið-
inu, annaðhvort eru menn of þreyttir eða
of ölvaðir til að tala. Jóa hefur greinilega
mistekist kvennafarið. Hann situr við
gluggann, hallar höfðinu upp að rúð-
unni og dottar. Rútan staðnæmist hjá
sjoppunni og þar fer liðið út. Ég labba í
áttina að frystihúsinu. Það er logn og
vornóttin vefst eins og hula yfir frysti-
húsið og höfnina. í frystihússdyrunum
mæti ég Veru. Hún er töluvert drukkin
og rauðeygð, eins og hún hafi grátið.
— Sæl, segi ég um leið og ég opna
dyrnar.
— Sæll, svarar hún og lítur niður fyrir
sig og labbar upp stigann. Þegar hún er
komin hálfa leið, snýr hún sér við og lítur
á mig og segir: Af hverju horfirðu svona
á mig?
— Ég er ekki að horfa á þig, segi ég og
veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið.
— Jú, þú ert víst að því, heldur hún
áfram. Ég þoli ekki þegar fólk horfir á
mig með vorkunnarsvip.
Hún herpir saman varirnar. Allt í einu
gengur hún til mín og segir: Hvers virði
heldurðu að þetta allt saman sé mér?
Dag eftir dag hjakka ég í sama farinu, —
verbúð eftir verbúð, fyllirí og vinna. Svo
verður maður hrifin af strák og heldur að
hann sé eitthvað sérstakur, en kemst svo
að því að hann er sama pakkið og allir
aðrir. Svona fólk eins og ég er alltaf eitt.
Stundum finnst mér ég vera ormur sem
sé þræddur upp á öngul og iði þar í
andarslitrunum.
Skyndilega er eins og hún átti sig,
roðnar og lítur á mig.
—Æ, annars, vertu ekki að hlusta á
ruglið í mér, segir hún og brosir ölvuðu
brosi . . . Bjóddu mér frekar inn til þín.
Við göngum upp stigann og eftir
rökkvuðum ganginum. Þegar við kom-
um að herbergisdyrunum mínum, snýr
Vera sér að mér og segir: Veistu að mér
finnst þú vera dálítið sætur strákur.
Síðan hlær hún skært og snöggt og
rykkir til höfðinu. Ég finn að hún hefur
lagt hendurnar um háls mér og hún horf-
ir í augu mér og það leikur ákaft bros um
varir hennar. Augu hennar tindra og allt
í einu tek ég eftir því hvað hún er ómót-
stæðilega falleg með þessi brúnu flökt-
andi augu.
Áður en ég veit af hefur hún þrýst mér
að sér og við kyssumst. Síðan sleppir hún
mér og ég opna herbergishurðina og við
förum inn. Við setjumst bæði á rumið og
kveikjum okkur í sígarettum. Hún legg-
ur bakið upp við vegginn og tekur stóran
smók.
— Ásgeir er fífl. Djöfull skal ég hefna
mín á honum. Hann skal ekki voga sér
að koma svona fram við mig.
— Hvað gerði hann? spyr ég.
Hún hlær, lítur á mig.
— Þú mundir ekki skilja það, þú ert
svo vitlaus.
Svo hlær hún aftur, leggur hendurnar
um háls mér og segir: Nei, nei, ég er bara
að stríða þér. Á ég að segja þér leyndó?
Hún horfir djúpt inn í augu mín með
þessum brúnu, flöktandi augum sem sjá
allt og ekkert.
— Veistu að ég er dálítið skotin í þér.
Þú er nefnilega dálítið sætur strákur.
Svo blikkar hún öðru auganu ertnis-
lega, rís á fætur, tekur jakkann sinn og
opnar dyrnar. Áður en hún fer, hallar
hún undir flatt og segir: Ætlarðu ekki að
kyssa mig góða nótt?
Ég rís á fætur, geng til hennar, tek utan
um hana og við kyssumst. Loks ýtir hún
mér frá sér og er horfin út um dyrnar í
myrkrið á ganginum.
Á eftir get ég ekki sofnað. Ég ligg uppi
í rúminu og hugsa um Veru og atvikið
áðan.
Stuttu seinna heyri ég að það eru barin
þrjú högg á dyrnar. Ég fer upp úr rúm-
inu, kveiki ljós og opna. Frammi á gang-
inum stendur Vera. Hún er klædd í þunn-
an, hvítan náttkjól. Hún gengur inn í
herbergið og ég loka hurðinni. Án þess
að mæla orð frá munni þrýstir hún sér
upp að mér og þannig stöndum við um
stund.
— Mig langar til að sofa hjá þér, segir
hún og horfir djúpt inn í augu mín.
Hún fer úr náttkjólnum, slekkur ljós-
ið og leggst í rúmið.
Hún er grönn og vel vaxin og brjóstin
eru fíngerð og stinn.
Að elska er eins og að kasta sér út í á
og láta berast með straumnum að bakka
eða ókunnri strönd. Maður sér sjalfan
sig beygja sig yfir líkama, kyssa varir og
snerta hörund.
Stundu seinna liggur hún í faðmi mín-
um og sefur.
Klukkan 7 um morguninn vakna ég
við að hún er að brölta fram úr rúminu.
Ég læst sofa og finn svefndrukkna kossa
næturinnar ennþá á vörum mínum. Hún
klæðir sig hljóðlega en í flýti. Fyrir utan
gluggann er nýr dagur að rísa úr hafinu
og geislar morgunsólarinnar koma inn
um rúðuna og skríða eftir skítugu gólf-
teppinu.
Hún opnar herbergisdyrnar og ég
horfi á hana fara.
II
Eitt augnablik, ein athöfn, ein nótt, og
síðan er lífið söknuður og þrá.
Vera hefur breyst. Hún er þöglari en
áður og fer einförum. Hún forðast að
vera samvistum við mig, og ef við mæt-
umst fyrir tilviljun, fer hún undan í
flæmingi.
Einn daginn, þegar rigndi, sá ég hana
sitja uppi í gluggakistunni á herberginu
sínu og stara út í regnið. Hún hallaði
höfðinu upp að rúðunni, reykti og lét
höfuðið hanga.
Ég er áfram látinn vinna í saltfiskin-
um. Húsið, þar sem hann er verkaður, er
gamall timburhjallur og er saltfiskurinn
unninn á neðri hæðinni, en á bjálkalofti
fyrir ofan eru kaðlar og ýmislegt drasl
geymt. Upp á loftið liggur mjór tréstigi
og stundum stelast yngri krakkarnir
þangað, og þegar þeir hlaupa eftir timb-
urgólfinu, heyrast dynkir og brak. Þegar
þessi skruðningur þagnar, má yfirleitt
heyra haltrandi fótatak og gamall, þybb-
inn karl, rauður í framan og með kart-
öflunef, birtist.
Það er Gísli. Hann haltrar upp stig-
ann, og er hann kemur upp á loftið, byrj-
ar hann að kalla á krakkana og reynir að
reka þá niður. En þeir bara hlæja og fela
sig í köðlunum.
Það var ekki fyrr en ég hafði unnið í
saltfiskinum nokkuð lengi, að ég komst
að því hvers vegna Gísla var svona illa við
að krakkarnir væru að leika sér uppi á
loftinu.
Fyrir mörgum árum hafði stúlka, sem
vann hér í saltfiskinum, hengt sig uppi á
loftinu og menn sögðu að Gísli hefði ver-
ið góður vinur hennar og jafnvel verið
ástfanginn af henni. Um ástæðuna fyrir
því að hún hengdi sig, vissi enginn, enda
voru liðin rúm 30 ár frá því að þessi at-
burður gerðist. En menn töldu að hún
hefði verið með barni.
Dagarnir líða hægt og það er oft rign-
ing. Kærasta Finns er nýkomin frá
Reykjavík og á kvöldin heyrist frá her-
bergi þeirra hlátur og tónlist.
Ég hugsa mikið um Veru og atvikið
eftir ballið. Hún er hætt að koma í heim-
sókn. En ég sé hana oft í bílnum með
Ásgeiri.
Eitt fimmtudagskvöld herði ég upp
hugann, banka á herbergisdyrnar henn-
ar og bið hana að koma aðeins fram og
tala við mig.
Hún kemur fram í dyragættina. Hún
er greinilega nýkomin úr baði, því að hár
hennar er blautt og hún horfir á mig
spurulum augum, eins og hún vilji að ég
ljúki erindinu sem fyrst.
— Eigum við að fá okkur smá-göngu-
túr, ég þarf að tala við þig, segi ég hrað-
mæltur.
— Er það eitthvað sérstakt? spyr hún.
— Já, ég þarf að tala aðeins við þig,
segi ég.
Hún lítur á úrið sitt, hnyklar auga-
brúnir og nær í jakkann sinn. Við löbb-
um útúr frystihúsinu. Við göngum
21