Monitor - 24.02.2011, Blaðsíða 9

Monitor - 24.02.2011, Blaðsíða 9
9FIMMTUDAGUR 24. FEBRÚAR 2011 Monitor Þorsteinn Guðmundsson hefur verið einn allra vinsælasti grínisti landsins frá því hann sló í gegn í Fóstbræðrum á sínum tíma. Þorsteinn tók bæði þátt í að skrifa handrit þáttanna og lék eftirminnilega í seríunum. „Þegar við vorum búin að gera nokkrar þáttaraðir fengum við á tilfinninguna að þær myndu lifa,“ segir hann um þættina sem eru orðnir klassískir grínþættir hér á landi. Frá því að Fóstbræðraþáttun- um lauk hefur Þorsteinn verið áberandi í íslensku skemmtanalífi. Uppistand, sjónvarpsþættir, ljóða- bækur, auglýsingar og sketsar eru meðal þess sem hann hefur fengist við svo það er löngu ljóst að sama hvort um leik eða skrif er að ræða, þá steinliggur fyrir Þorsteini Guðmundssyni að vera fyndinn. Hvenær byrjaðir þú að leika? Ég hafði engan sérstak- an áhuga á leikhúsi sem krakki. Ég var í mínu eigin leikhúsi og gekk um í búningum heima, mikið sem Prins Valíant í búning sem ég saumaði á mig. Það var frekar óheppilegt því í raun og veru var búningurinn eins og blár kjóll. Mér fannst það samt koma mjög vel út. Í MR tók ég þátt í Herranótt eiginlega bara upp á félagsskapinn og gerði mér auðvitað vonir um að hitta sætar stelpur og svoleiðis. Það var aðalhvatn- ingin mín. Eftir MR fór ég í Leiklistarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan. Hvað varst þú að gera áður en þú byrjaðir í Fóst- bræðrum? Fyrst eftir Leiklistarskólann var ég til dæmis að skrifa barnaleikrit sem ég seldi til skóla landsins. Þá sendi ég handritið út um allt land með gíróseðli og bauð þeim að nota handritið gegn því að greiða gíróseðilinn. Þetta gekk alveg ótrúlega vel. Ég seldi þónokkur handrit og náði að framfleyta mér í nokkrar vikur svo þetta var ekki svo slæm hug- mynd. Eftir það vann ég sem lausráðinn leikari, lék í leikhúsum og vann á auglýsingastofunni Hvíta húsið sem textamaður. Hvaða hlutverk eru minnisstæðust úr leikhúsinu á þessum tíma? Ég lék til dæmis hest og skeggjaða konu í Emil í Kattholti í Þjóðleikhúsinu og var einnig í sýningu með Helgu Brögu í Tunglinu sem er gamall skemmtistaður. Við höfðum þekkst pínulítið úr nám- inu en í þessu leikriti kynntumst við mjög vel. Þannig kom það eiginlega til að hún fékk mig til að koma inn í Fóstbræður nokkrum árum seinna. Varst þú fenginn í Fóstbræður til að skrifa eða leika? Ég byrjaði að skrifa þegar fyrsta serían var að fara í loftið og setti það skilyrði að ég fengi að leika líka. Ég nennti ekkert að gera þetta ef ég var bara að fara að skrifa fyrir þetta lið. Ég sá fyrsta þáttinn og hugsaði: „Sjitt, þetta er ekki nógu gott. Við verðum að gera næstu seríu betri.“ Ég áttaði mig auðvitað seinna á því að fyrsta serían var hugsanlega sú besta þrátt fyrir að ég hefði ekki tekið þátt í henni. Átt þú þér uppáhaldskarakter eða uppáhaldsskets úr Fóstbræðrum? Ég lýg því ekki, ég hef horft á Fóstbræður einu sinni og það var þegar þættirnir voru sendir út. Ég hef séð einstaka sketsa á YouTube og svona en annars horfi ég aldrei á þetta. Mér þótti alltaf svolítið vænt um atvinnulausa leikarann Snúlla snúð sem var versti uppistandari í heimi. Hann talaði til mín. Ég hélt upp á hann lengi vel og fór svo eiginlega að gera það sem hann var að gera sem var að skemmta á vinnustöðum. Ég hef verið mjög mikið í því svo við Snúlli snúður erum eitt. Nú er um það bil áratugur síðan Fóstbræður hættu. Hvað finnst þér um að þættirnir séu ennþá svona vinsælir og að fólk sé ennþá að vitna í þá? Auðvitað er það rosalega skemmtilegt. Þegar við vorum búin að gera nokkrar þáttaraðir fengum við á tilfinninguna að þær myndu lifa. Ég vona að þetta hljómi ekki hrokafullt en þetta var eitthvað sem var á réttum tíma og gekk upp. Þess vegna kemur það ekki alveg á óvart að þættirnir séu að verða pínu költ. Ég hef tekið eftir að þegar nýir gamanþættir eru auglýstir eru þeir oft auglýstir „í anda Fóstbræðra“ sem er mjög fyndið. Krakkar sem ég hitti í skólum vita samt ekkert hvað Fóstbræður eru og halda að ég sé bara pulsukallinn og aukaleikari hjá Steinda Jr. sem er mjög flott. Ert þú orðinn þreyttur á að svara spurningum um Fóstbræður eins og þeim sem ég er búin að vera að spyrja þig? Nei, ég hef bara aldrei haft neitt rosalega mikið af svörum við þeim. Þetta var frábær tími, svona sérstaklega framan af, og mér þykir svolítið vænt um þessa þætti. Þú ert ískyggilega líkur skapofsakokkinum Gordon Ramsay í La Pulsa auglýsingunum. Veit hann af þér? Ég hef ekki hugmynd um það. Ég gæti nú vel ímyndað mér að einhver hafi sent honum íslenska vitleysing- inn sem er að herma eftir honum. Glímir þú við hárþynningu eins og Ramsay? Já, nema hjá mér er þetta alls ekki vandamál. Ég er kominn með blettaskalla og hárlínan er að færast ofar en ég verð bara svo rosalega sætur svona. Það sem skilur okkur Ramsay að eru hárígræðslurnar. Ef ég fer út í svona hárígræðslur máttu skjóta mig á færi. Mér finnst gaman að eldast. Það er svo gaman fyrir leikara að vera ekki alltaf eins. Þá fær maður ný hlutverk og allt í einu fleiri persónur að glíma við svo ég fagna aldrinum. Árið 2002 varst þú tilnefndur til Edduverðlaunanna fyrir leik þinn í Maður eins og ég. Varst þú svekktur yfir að hafa ekki sigrað? Nei, nei, ég var það nú ekki. Þegar verið var að tilkynna verðlaunin kom einhver inn í bekkinn sem ég sat á. Konan á sviðinu var að opna umslagið og þá stend ég upp fyrir konunni sem þurfti að komast framhjá mér sem var mjög óheppi- legt. Allir horfðu á mig og héldu að ég væri alveg svakalega sigurviss. Svo var einhver annar lesinn upp sem sigurvegari og ég flýtti mér að setjast niður, allur rauður í framan. Ég átti ekki von á neinu en mér fannst mjög gaman að fá tilnefninguna. Sérð þú fram á að næla í verðlaun fyrir Okkar eigin Osló? Ég reikna ekki með neinu en það sem er svo skemmtilegt við það verkefni er hversu margir gáfu sig alveg 100% í það og fengu kikk út úr því. Til dæmis reynsluboltar eins og Hilmir Snær sem þakkaði mér fyrir hlutverkið. Hann er að sýna á sér nýja hlið sem leikari sem er ótrúlegt eftir allt sem hann hefur leikið. Að fylgjast með fólki fá kikk út úr því að vinna eitthvað sem þú hefur skapað er frábært. Er Okkar eigin Osló fyrsta kvikmyndahandritið sem þú skrifar? Í raun og veru má segja að þetta sé fyrsta kvikmyndahandritið mitt sem er kvikmyndað. Ég hef skrifað alveg fleiri handrit og vann til dæmis einu sinni alveg rosalega fyndið handrit með Róberti Douglas um einhverja Eurovision-lúða. Maður er búinn að vera viðloðandi þennan bransa en þetta er verkefnið sem fór alla leið. Það virðist vera pínulítil tilviljun sem ræður því hvað kemst á koppinn. Í örstuttu máli, af hverju eigum við að sjá þessa mynd? Myndin er gamanmynd sem gerist í nútíman- um og fjallar um fólk sem ég held að allir kannist við. Þarna eru teknar persónur úr hversdagslífinu og við sjáum fólk í aðstæðum sem ég held að margir þekki. Eins og til dæmis fólk sem á lítið sameiginlegt reyna að verða ástfangið og díla við einhverja fyrrverandi kærasta og kærustur, mömmur sem eru stjórnsamar og misþroska systur sem þarf að passa. Þetta er svona daglega lífið sem getur orðið dálítið skrítið og skemmtilegt. Við reynum að draga fram húmorinn í þessum hversdagslegu aðstæðum og setja í form gamanmyndar. Hvernig grín fílar þú? Ég er að horfa mjög mikið á vinsæla sjónvarpsþætti eins og Curb Your Enthusiasm og nú erum við hjónin til dæmis búin að vera að horfa á Staupastein og gamla klassíska þætti. Við tökum fyrir seríur og núna er Frasier í tækinu. Rætur mínar í gríninu má rekja til leikarans John Candy. Ég dýrkaði hann og mín uppáhaldsbíómynd er Planes, Trains & Automobiles með John Candy og Steve Martin. Ef einhver fílar þá mynd kveikir hann kannski svolítið á því sem við erum að reyna að gera í Okkar eigin Osló. Ég hef smekk fyrir svoleiðis gríni og mér finnst gaman þegar grínistar leggja hjartað í grínið. Eins og Pétur Jóhann sem maður hefur alltaf samúð með og er einlægur. Margir frábærir íslenskir grínistar gera þetta í staðinn fyrir að vera með einhverja tækni sem maður verður þreyttur af að horfa á. Þú virðist aldrei eiga í vandræðum með að vera fyndinn þegar þú kemur fram opinberlega. Ert þú öðruvísi heima hjá þér eða með félögunum eða ert þú ein allsherjar grínvél? Ég hef stefnt að því í samskiptum að reyna að vera skemmtilegur eins og hver annar. Vera góður við konuna mína og skemmti- legur á heimilinu, ég er aldrei í fýlu viljandi eða neitt svoleiðis. Að vera fyndinn hefur samt aldrei verið markmið hjá mér. Það sem hefur þróast í uppistand hjá mér er að fá fólk til þess að koma með mér í einhvern húmor. Koma með mér í eitthvað ástand þar sem við erum að skemmta okkur saman. Oft er ég með tilbúið efni en markmiðið er að vera eins og maður sem fer á kostum í partíi í tuttugu mínútur. Allir í partíinu hugsa: „Djöfull var hann fyndinn. Jæja, nú skulum við tala saman.“ Maður er ekkert að taka yfir partíið en maður kemur inn og er með ákveðið performance og fólk spilar með. Ef það spilar ekki með er þetta gagnslaust. Málið er að koma, taka stemninguna og lyfta henni aðeins upp í smá stund, ekki beinlínis að láta fólk hlæja. Hefur þú átt grúppíur? Eiga grínistar kannski bara unglingsstráka fyrir grúppíur? Það verður eiginlega að segjast að flestar grúppíurnar eru bólugrafnir unglingsstrákar. Skemmtilegast er þegar fólk kemur með einhver fyndin komment eftir að ég hef verið að skemmta. Í síðustu viku var ég til dæmis að skemmta í fyrirtæki og þá kom strákur og sagði við mig: „Ég hló svo mikið að ég slefaði á skyrtuna mína“. Svo sýndi hann mér blett á skyrtunni eftir slefið. Ég þakkaði honum bara kærlega fyrir. Fyrir nokkrum árum kom líka maður til mín og bað mig um þættina Atvinnu- maðurinn á DVD. Ég sagðist ekki eiga neitt slíkt enda horfði enginn á þá þætti. Þá sagði hann mér að afi hans væri með alzheimer og alveg út úr heiminum. Einu skiptin sem afinn sýndi viðbrögð væru þegar hann færi að hlæja að Atvinnumanninum. Mér fannst þetta alveg frábært hrós og þessi gamli maður er mín uppáhaldsgrúppía. Ásamt því að leika hefur þú gefið út fjórar bækur, skrifað fjölmörg handrit og örsögur. Hvort finnst þér skemmtilegra að skrifa eða leika? Mér finnst skemmtilegast að blanda þessu saman og ég held ég gæti ekki hugsað mér að vera bara í öðru. Ég er með smá athyglisbrest svo ég hoppa úr einu í annað. Ég hef aldrei planað neitt og geri það sem mér dettur í hug. Oft er það þannig að hugmyndirnar sem virka heimskulegastar reynast best. Hefur þú náð að lifa alfarið á listinni? Eftir að hafa unnið á Hvíta húsinu í gamla daga hef ég haldið tengslum við auglýsingabransann og er ennþá að gera auglýsingar. Það er hin vinnan mín sem ég hef alltaf haft með listinni. Ég reyni að beita sömu aðferðum og fyrir mér getur auglýsingagerð líka verið list. Hvað er framundan hjá þér? Eins og ég segi þá plana ég nánast ekki neitt. Það liggur við að ég vakni bara á morgnana og hugsi: „Hvað á ég að gera í dag?“ Það er samt heilmikið að gera í uppistandinu og margt spennandi í bígerð. „Málið er að koma, taka stemninguna og lyfta henni aðeins upp í smá stund, ekki beinlínis að láta fólk hlæja,“ segir leikarinn og fóstbróðirinn Þorsteinn Guðmundsson sem er óumdeilanlega með fyndnari mönnum Íslands. Texti: Sigyn Jónsdóttir sigyn@monitor.is Myndir: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is HRAÐASPURNINGAR Uppáhaldstónlistarmaður? Miles Davis. Uppáhaldsnammi? Wine Gums. Uppáhaldsmatur? Hakk og spagettí. Uppáhaldsdýr? Brúnn labrador. Uppáhaldssjónvarpsþáttur? Curb Your Enthusiasm. Uppáhaldslitur? Ljósblár. Uppáhaldsvinur? Móðir mín. Uppáhaldslag? Bíddu pabbi. Uppáhaldsleikari? John Candy. Uppáhaldskvikmynd? Planes, Trains & Automobiles. Í síðustu viku var ég til dæmis að skemmta í fyrirtæki og þá kom strákur og sagði við mig: „Ég hló svo mikið að ég slefaði á skyrtuna mína“.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.