Monitor - 17.03.2011, Blaðsíða 9

Monitor - 17.03.2011, Blaðsíða 9
9FIMMTUDAGUR 17. MARS 2011 Monitor Edda Hermannsdóttir gæti líklega lesið hraðaspurningar með bundið fyrir augun, en það er langt í að hún byrji með þáttinn Á tali með Eddu Hemm. Hún ræddi við Monitor um Gettu betur, fimm ára planið og auðvitað föður sinn, Hemma Gunn. Texti: Sigyn Jónsdóttir sigyn@monitor.is Myndir: Árni Sæberg saeberg@mbl.is Edda Hermannsdóttir tók við starfi spyrilsins íGettu betur þennan veturinn. Hún hefur ekkiunnið áður í fjölmiðlum en þykir standa sig með eindæmum vel í pontunni. Edda stundar nám í hagfræði við Háskóla Íslands, kennir leikfimi í World Class og á tvö börn svo það er nóg um að vera hjá henni þessa dagana. „Mín kenning er að það verði allt auðveldara með skipulagi,“ segir Edda sem þarf að skipuleggja sig vel til að komast í gegnum dagana. Hún sækir sjónvarpsgenin ekki langt en hún er dóttir goðsagnarinnar Hemma Gunn. „Hann á nóg af ráðum handa mér fyrir útsendingar,“ segir Edda sem ólst þó upp hjá móður sinni og fósturföður á Akureyri. Hvernig fannst þér að alast upp á Akureyri? Það var yndislegt að vera barn þar því umhverfið er svo fjölskylduvænt. Við krakkarnir gátum verið mjög frjáls, mikið á skíðum og skautum og gert ansi mikið. Átt þú einhver systkini? Já, nokkur en ég ólst bara upp með einum bróður. Við vorum mikið saman í bæði blíðu og stríðu eins og systkini almennt. Með árunum höfum við orðið betri og betri vinir og eignuðumst einmitt börn á sama árinu. Við erum því búin að vera ansi samstíga þessi seinni ár. Varst þú mikið hjá pabba þínum í æsku? Nei, ég hef aldrei alist upp hjá honum. Ég var aðeins sex mánaða gömul þegar mamma og Eiður fósturfaðir minn tóku saman svo ég ólst alfarið upp hjá þeim. Við Hemmi erum hins vegar fínir vinir og hann á nóg af ráðum handa mér fyrir útsendingar. Manst þú eftir þáttunum Á tali með Hemma Gunn? Já, ég man eftir þeim og hélt mikið upp á þættina. Á svipuðum tíma komst ég að því að ég væri tengd þessum manni í sjónvarpinu. Síðan þegar ég byrjaði sjálf í sjónvarpinu kom það Hemma skemmtilega á óvart enda er hann með þeim reyndari í bransanum. Hvernig kom það til að þú varst fengin í starf spyr- ilsins í Gettu betur? Annars vegar er Sigrún Stefáns, dagskrárstjóri, að norðan og hún hafði frétt af mér og heyrt í mér þegar ég var formaður skólafélagsins í MA. Hins vegar gerði ég tvo útvarpsþætti síðasta sumar í tengslum við hagfræðinámið mitt og í framhaldi af þeim bað hún mig um að hafa samband við sig. Ég gerði það reyndar ekki því ég var nýorðin ólétt á þessum tíma og skildi ekki alveg hvað hún var að fara með þessu. Hún heyrði í mér aftur og bað mig um að koma í prufuþátt fyrir Gettu betur. Ég benti henni á að ég væri ólétt og hélt auðvitað að það myndi setja strik í reikninginn. Hún hélt aldeilis ekki enda mikill kven- skörungur og veit að ólétt kona getur gert ýmislegt. Varst þú Gettu betur-lúði áður en þú fékkst starfið? Ég hafði sérstaklega mikinn áhuga á keppninni í fram- haldsskóla á síðasta árinu mínu því þá sigruðum við keppnina. Ég held að við höfum farið í þrjár ferðir til Reykjavíkur með rútum og þetta var ótrúlega skemmti- leg upplifun. Eftir menntaskóla fylgdist ég með en kannski ekki jafn mikið. Hver fannst þér besti spyrillinn áður en þú komst til sögunnar? Ég man langbest eftir Sigmari því hann var spyrill þegar ég var í menntaskóla svo hann er bestur fyrir mér. Ég var svo ung þegar Logi Bergmann og þeir voru spyrlar svo þeir síuðust ekki jafn mikið inn. Vorkennir þú alltaf tapliðinu? Já, mér finnst voðalega erfitt að horfa á þau tapa. Ég er sjálf mjög tapsár í spilum svo ég get varla ímyndað mér hvernig þeim líður. Þau eru alveg ótrúlega góð í þessu og kunna svo sannarlega að tapa sem er ákveðin list sem ég á sjálf eftir að læra. Hver er lykillinn að því að vera góður spyrill í Gettu betur? Ég þarf að minnsta kosti að æfa mig mjög vel á textanum því ég veit að það er virkilega óvinsælt ef spyrillinn hikar. Svo reyni ég að sýna starfinu virðingu og sérstaklega allri vinnunni sem keppendurnir eru búnir að leggja á sig. Þetta er fúlasta alvara hjá þeim þó fólkið heima sé að skemmta sér. Annars er ég ekki með nein trix og hef reynt að vera bara ég sjálf í þáttunum því ég kann ekki að vera neitt annað. Hvað er það erfiðasta við starfið? Það er ýmislegt sem ég þurfti að læra en það erfiðasta er að venjast því að láta tala í eyrun á sér allan þáttinn. Mér fannst það mjög skrítið fyrst og átti erfitt með að einbeita mér á meðan. Það var mjög fyndið í síðasta þætti þegar stigavörðurinn átti að stilla stigin af og skipunin kom í eyrað á honum: „Stigin.“ Hann fattaði ekki alveg hvað var verið að meina og kallaði allt í einu upp: „Stigin!“ Mér krossbrá, leit á hann og þetta var hálf vandræða- legt augnablik en mjög fyndið í senn. Síðan eru auðvit- að viðbrigði að hafa svona marga sem eru með sterkar skoðanir og mismunandi á því sem ég er að gera. Heldur þú innst inni með liði MA í keppninni? Ég var pínu hrædd um að það myndi gerast en þegar ég byrjaði áttaði ég mig á því að ég er ekki lengur nýútskrifuð og komin með ákveðna fjarlægð frá menntaskólaárunum. Svo er hvert lið með sinn sjarma og það er erfitt að halda með einu frekar en öðru. Það var reyndar mjög skemmtilegt að MA-ingar voru að keppa í fyrstu keppninni minni í sjónvarpssal sem var ósköp heimilislegt fyrir mig. Ég þekkti öll lögin sem þau sungu og leið smá eins og þau væru þarna fyrir mig til að hjálpa mér að stjórna. Varst þú áberandi í félagslífinu í menntaskóla? Ég fór voða rólega af stað í því þó það hafi alltaf kitlað eitthvað að taka þátt. Síðan þegar leið á ákvað ég að það væri svo stutt eftir að maður þyrfti að vera pínu hugaður og skella sér út í djúpu laugina. Ég miklaði alltaf fyrir mér að þurfa að halda framboðsræður og slíkt en ég held að þessi ákvörðun hafi gert mér mjög gott. Þarna fór ég út fyrir minn þægindahring og tók þá við hlutverki formanns skólafélagsins í MA. Það hentaði mér mjög vel þar sem ég hef mjög gaman af að skipuleggja. Heimildarmenn Monitor segja þig einmitt vera skipulagsfrík. Í hverju lýsir þetta sér helst? Ég þarf að hafa mikið skipulag. Ég er með tvö börn og vil alltaf hafa mikið að gera. Mér finnst ekkert betra en að setjast niður og skrifa hvað þarf að gerast daginn eftir og hver á að vera hvar. Svo á kvöldin renni ég yfir þetta með manninum. Mín kenning er að það verði allt auðveldara með skipulagi. Það er gott að vita hvert maður stefnir í lífinu. Vinkonur þínar segja þig reglulega spyrja þær út í fimm ára planið. Hvernig lítur þitt fimm ára plan út? Ef þú hefðir spurt mig fyrir ári síðan ætlaði ég að vera í skóla og með eitt barn í dag. Síðan tók ég þá skyndiákvörðun að það væri gott að eiga tvö börn og fékk síðan starfið sem spyrill svo það er ýmislegt sem kemur óvænt upp. Núna er ég að nýta þau tækifæri sem bjóðast en svo langar mig að klára hagfræðina sem fyrst. Við hjónin stefnum bæði á að fara erlendis í frekara nám í náinni framtíð. Af hverju ákvaðst þú að læra hagfræði? Hagfræði var kannski skynsöm leið að fara til að þurfa ekki að ákveða alveg strax hvað maður vill verða þegar maður verður stór. Námið er praktískt og fjallar mikið um málefni líðandi stundar og það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Ég hef áhuga á slíku, bæði því sem teng- ist pólitík og viðskiptum. Aðallega fór ég í hagfræðina til að hafa sem flestar opnar dyr eftir námið. Hyggur þú á frekari frama í fjölmiðlum? Já, alveg eins. Það er nýr heimur að opnast fyrir mér núna. Það er ekki ólíklegt að ég vilji skoða það eftir Gettu betur. Ég ætla samt bara að byrja á að komast yfir þættina og gera það almennilega áður en ég ákveð eitthvað annað. Bara eitt í einu. Kæmi til greina að byrja með spjallþættina Á tali með Eddu Hemm? Ég sé það ekki fyrir mér, allavega ekki alveg strax. Ég sá reyndar aldrei fyrir mér að ég yrði spyrill í Gettu betur svo maður á kannski aldrei að segja aldrei. Á menntaskólaárunum tókst þú mikinn þátt í mótmælum. Ert þú mikil baráttukona? Já, ég er það í rauninni. Ég var til dæmis í Röskvu í háskólapól- itíkinni áður en ég varð ólétt á síðasta ári og sat í Stúdentaráði Háskóla Íslands. Þar var ég einskonar fulltrúi fjölskyldufólks sem vill oft gleymast í háskóla- pólitíkinni. Gætir þú hugsað þér að fara út í stjórnmál? Ég hafði gaman af því að vera í Stúdentaráði og mér finnst mikilvægt að berjast fyrir ýmsum málefnum en ég hef ekki nógu gaman af þessu til að fara út í pólitík. Ég er ekki með nógu stórt hjarta fyrir stjórnmál og færi strax að skæla við minnstu rökræður. Hefur tveggja barna móðir í háskólanámi sem er líka spyrill í Gettu betur einhvern tíma fyrir sjálfa sig? Með skipulaginu góða hef ég furðumikinn tíma. Ég á afskaplega þæg börn og góðan eiginmann sem er duglegur heima fyrir. Svo tók ég sumarönn í háskólan- um í fyrra til að geta verið í rólegheitum þessa önn. Hvað gerir þú í frítímanum? Ég var að kenna leikfimi í World Class þangað til ég átti litla strákinn minn í fyrra og er mikið fyrir hreyfingu og útivist. Síðan er ég voða mikil félagsvera. Mér finnst gaman að hitta vini, spila og svo erum við hjónin mjög dugleg við að halda reglulega matarboð. Ég verð að hafa mikið líf í kringum mig. Það erfiðasta er að venjast því að láta tala í eyrun á sér allan þáttinn. HRAÐASPURNINGAR Uppáhaldsnammi? Súkkulaði. Uppáhaldshljómsveit? Núna er það Baggalútur. Uppáhaldsmatur? Indverskur matur. Uppáhaldssjónvarpsþáttur? Dexter. Besti spyrillinn? Simmi. Heitasti spyrillinn? Simmi. Fyndnasti spyrillinn? Ég. Erfiðustu spurningarnar? Brandara- spurningarnar hjá Erni Úlfari. Skemmtilegustu spurningarnar? Hraðaspurningarnar. Verstu mismælin? Þegar ég sagði að einhver eyja væri tíuþúsund ferkílómetrar í stað tíu ferkílómetra. Uppáhaldsflokkur í Trivial? Bleikur. Fiskurinn eða skjaldarmerkið? Fiskurinn. spyrillinn hikar Óvinsælt ef

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.