Monitor - 14.04.2011, Page 12

Monitor - 14.04.2011, Page 12
12 6,5: Ævisaga meðalmanns „Þetta er einkunnin sem ég fékk alltaf í skóla og ég er meðalmaður að eðlisfari,“ segir Halldór Gylfason, hógværasti leikari Íslands, um nafnið á enn óútgefinni ævisögu sinni. Monitor FIMMTUDAGUR 14. APRÍL 2011 „Af hverju í ósköpunum viljið þið hafa mig á for- síðunni?“ sagði Halldór Gylfason hissa þegar Monitor hafði samband við hann fyrr í vikunni. Halldór er líklega hógværasti leikari landsins þrátt fyrir mikla velgengni bæði á því sviði og í tónlistinni. Hann hefur skapað bráðfyndnar persónur á borð við Kidda Casio í Vaktaseríunum, fjölda karaktera í Sigtinu og ævin- týri Halldórs í Stundinni okkar fyrir nokkrum árum eru ógleymanleg. Um þessar mundir er hann að leika í ruslóperunni Strýhærða Pétri í Borgarleikhúsinu þar sem hann hefur verið fastráðinn í mörg ár. „Sá íslenski leikari sem hefur náð mestum vinsældum og útbreiðslu um allan heim er Magnús Scheving,“ segir Halldór sem vill meina að velgengnin ráðist af vaxtarlaginu. „Ég held að lykillinn að velgengni sé að vera nógu helvíti köttaður,“ útskýrir hann og bendir á fræga einstaklinga á borð við Gillzenegger sem dæmi. Halldór var sjálfur mikill íþróttamaður á yngri árum og æfði bæði handbolta og fótbolta með Þrótti í Reykjavík. Hann er sagður brjálæðislega tapsár sem hlýtur að vera erfitt fyrir Köttara. Hvernig er að vera tapsár og halda með Þrótti? Það lærist ekki að horfa á Þrótt tapa þó ótrúlegt sé. Þetta er mjög erfitt því þeir hafa fallið svo oft en það hefur gert mig að þeim manni sem ég er í dag. Ég er sterkari fyrir vikið og geng ekki að neinu sem gefnu. Þegar ég horfi á liðin mín spila er ég mjög spenntur, stressaður og tek vissulega tap nærri mér. Ég á bara tvö lið, Þrótt í fótbolta og Ísland í handboltanum. Heldur þú ekki með Íslandi í fótboltanum? Ég fór alltaf á landsliðsleiki þegar ég var yngri en á einhverjum leiðinlegum tapleik gerðist eitthvað inni í mér. Ég hugsaði með mér að svona væri þetta einhvern veginn alltaf og þessar umræður og vænt- ingar væri orðnar svo þreyttar. Ég segi kannski ekki að ég sé á móti íslenska karlalandsliðinu í fótbolta en ég skipti mér voðalega lítið af því. Mér finnst mjög fyndið þegar allir byrja að pæla í hvort Eiður Smári verði með eða ekki og hvort við munum loksins sigra eitthvað stórt lið. Umræðan um Eið Smára er sérstaklega skondin. Líður þér illa í hjartanu þegar þú þarft að vinna þegar Þróttur er að keppa? Kannski ekki í hjartanu en ég verð oft spældur yfir að komast ekki á völlinn vegna vinnu. Ég læt samt Þróttaraleiki ekki hafa áhrif á mínar ferðaáætlanir og lifi alveg lífinu. Sagan segir að þú hafir einu sinni étið badminton- kúlu eftir tap gegn óléttri konu í badmintoni. Er eitthvað til í því? Ég beit alveg í þessa badmintonkúlu og japlaði aðeins á henni en ákveðnir hlutir í sögunni eru ýktir. Ég vil samt ekki leiðrétta þá því þeir gera söguna skemmtilegri. Ég er mikill keppnismaður en þetta hefur elst aðeins af mér. Ég átti þetta líka oft til þegar við bræðurnir vorum að tefla. Þá tapaði ég eiginlega alltaf og henti skákmönnunum út um allt. Yfirleitt þurfti pabbi að tefla við mig eftir vinnu og leyfa mér að sigra til að róa mig niður. Er rétt að þú berir mikinn kala til skákmannsins Gary Kasparov? Þegar ég var svona ellefu ára gamall var Campo Manes kosinn forseti Alþjóðaskáksambandsins FIDE. Við það breyttist sýn mín á lífið því þá fattaði ég að heimurinn er ekki eins og hann er birtur í fjölmiðl- um. Íslendingurinn Friðrik Ólafsson hafði verið forseti FIDE og farsæll sem slíkur en þarna kemur bara ríki kallinn og bolar honum burt. Menn vildu meina að Kasparov hafi verið gæludýr Campo Manes en ég hef fyrirgefið honum í seinni tíð. Hvernig týpa varst þú í menntaskóla? Ég lék mikið á menntaskólaárunum í leikritum og á árshátíðum í MS. Á þessum tíma byrjaði ég líka að semja lög og það spurðist út svo ég fór að trúbadorast aðeins með eigin lög. Það gekk ágætlega og ég kom fram á nokkrum skemmtunum í MS. Svo var ég einu sinni fenginn af frænda mínum úr MH til að spila á einhverri busavígslu þar. Ég hafði samið tvö eða þrjú einlæg og fyndin lög og átti að fá vodkaflösku að launum. Þegar ég mætti á svæðið nennti náttúrulega enginn að hlusta á einhvern gaur úr öðrum skóla spila og syngja svo ég var eiginlega púaður niður í fyrsta skipti sem ég skemmti fyrir utan MS. Óli frændi skuldar mér líka enn vodkaflöskuna. Hvenær ákvaðst þú að leggja leiklistina fyrir þig? Ég hafði mikið verið að skemmta og sprella í grunn- skóla og á síðasta árinu mínu í gaggó fór ég að hafa meiri áhuga á leiklist. Baltasar Kormákur er vinur bróður míns svo öll fjölskyldan fylgdist spennt með þegar hann var að reyna að komast inn í Leiklistar- skólann sem ég hafði aldrei heyrt um áður. Á sama tíma var ég að byrja í menntaskóla og hugsaði með mér að ég vildi fara út í leiklist eftir útskrift. Komst þú inn í Leiklistarskólann í fyrstu tilraun? Nei, ég komst inn í annarri tilraun. Reyndar komst ég ekki strax inn í annarri tilraun en einn hætti við svo ég var tekinn inn í staðinn. Eftir að ég fékk höfnunina hugsaði ég mikið um hvað ég ætti að gera. Mig langaði í leiklistina og spáði í að fara til útlanda að læra leiklist en ég er lélegur í ensku og það er dýrt svo ég vildi það ekki. Einn daginn sá ég auglýst starf í tollgæslunni og leist mjög vel á það. Ég hugsaði með mér að það væri fínt að gramsa í töskum hjá fólki allan daginn og fríðindin væru líklega að geta stungið undan einu og einu skinkubréfi. Ég var kominn með umsóknareyðublaðið í hendurnar en svo komst ég inn í Leiklistarskólann. Annars gæti vel verið að ég hefði endað sem tollvörður. Hvað tók við eftir útskrift? Ég byrjaði á að taka að mér eitt verkefni hjá Leikfé- lagi Akureyrar sem var sýningin Hart í bak. Næst lék ég í barnasýningunni Síðasti bærinn í Dalnum hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu sem var frábærlega gaman. Upp úr því fór ég að vinna í Borgarleikhúsinu og hef verið þar meira eða minna allar götur síðan. Þú múnaðir eftirminnilega í Grease árið 1998. Var það stóra breikið? Það gæti bara vel verið því þarna sýndi ég að ég er djarfur leikari með því að sýna á mér rassgatið í Grease. Heimildarmaður Monitor segir þig hafa litið út eins og múmínálf fyrir tíu árum en núna sértu kominn með kraftadellu. Hvað gerðist? Sá íslenski leikari sem hefur náð mestum vinsæld- um og útbreiðslu um allan heim er Magnús Scheving. Það er vegna þess að hann er köttaður og ég held að lykillinn að velgengni sé að vera nógu helvíti köttaður. Sjáðu bara Vladimír Pútín, hann er köttaður. Gillzenegger, hann er köttaður. Barack Obama, hann er köttaður. Hver er fyrirmyndin að Kidda Casio í Vaktaseríunum? Kiddi Casio er að minnsta kosti ennþá fullur eftir helgina af því hann var að fagna úrslitunum úr Icesave-kosningunum. Hann er bara svoleiðis maður. Í rauninni er engin ein fyrirmynd Kidda Casio en ég held að Gillzenegger hafi byrjað að herma eftir hon- um eftir Næturvaktina. Það eru viss líkindi með þeim en ég hafði ekki hugmynd um hver Gillzenegger var á þessum tíma. Kiddi Casio er eilífðarpoppari sem dreymir um að slá í gegn, duglegur en smekklaus og er með kjaftinn fyrir neðan munninn. Það þýðir engan moðrek við Kidda Casio. Hver er uppáhaldskarakterinn þinn í Sigtinu? Það er náttúrulega Frímann Gunnarsson. Hann er einn skemmtilegasti maður sem hefur fæðst á þessu landi. Sigtið er með því ánægjulegra sem ég hef gert sem leikari. Þetta er húmor sem við vinirnir náðum að sammælast um að gera á ákveðinn hátt og duttum inn á einhverja línu sem er aðeins öðruvísi en aðrar. Mér þykir rosalega vænt um þessa þætti og við eigum pottþétt eftir að gera eitthvað meira saman í framtíðinni. Þegar maður skoðar Sigtið í ákveðnu ljósi er það spegill og Frímann Gunnarsson er Íslendingar holdi klæddir. Er mikið um gigz þessa dagana hjá þér? Já, þú meinar það. Það detta inn gigz hjá kallinum af og til. Ég tek stundum gigz þegar ég má vera að. Hvers konar sýning er Strýhærði Pétur? Meinfyndin ruslópera. Þetta eru gamlar þýskar heil- ræðavísur sem þýskur geðlæknir samdi fyrir börnin sín á 19. öld. Vísurnar eru gerðar sem viðvörun fyrir börn svo þau séu ekki að sjúga á sér þumalinn og hegði sér vel við matarborðið. Þær fjalla til dæmis um eitt barn sem er á svo miklu iði við matarborðið að borðið ásamt öllum borðbúnaði dettur á hann og hann deyr. Um þetta er sungið á kaldhæðnislegan hátt og gegnumgangandi er sagan um Strýhærða Pétur, barn sem foreldrar vilja ólmir losna við. Texti: Sigyn Jónsdóttir sigyn@monitor.is Myndir: Sigurgeir Sigurðsson sigurgeir@mbl.is HRAÐASPURNINGAR Besta lið í heimi? Þróttur. Mesti ótti? Gula hættan. Uppáhaldsleiðtogi? Angela Merkel. Uppáhaldslandslið? Þýskaland. Uppáhaldsleikari? Michael Caine. Uppáhaldshljómsveit? The Smiths. Fallegasti staður á Íslandi? Hellissandur á Snæfellsnesi. Helsti kostur? Þægilegur í umgengni. Uppáhaldsmatur? Saltkjöt og baunir. Ég held að lykillinn að velgengni sé að vera nógu helvíti köttaður. Sjáðu bara Vladimír Pútín, hann er köttaður. Gillzenegg- er, hann er köttaður. Barack Obama, hann er köttaður.

x

Monitor

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.