Monitor - 14.04.2011, Blaðsíða 14

Monitor - 14.04.2011, Blaðsíða 14
14 Hvernig varst þú sem krakki? Ég myndi segja að ég hafi verið íþróttalega sinnað barn og æfði bæði fótbolta og handbolta með Þrótti. Frá svona tíu eða ellefu ára aldri langaði mig að einbeita mér mest að íþróttunum og var mikið inni í öllu sem þeim tengdist. Ég hugsaði með mér að fyrst ég hefði svona gaman af íþróttum gæti ég kannski orðið leik- fimikennari eins og elsti bróðir minn. Er það rétt að þú hafir sofið í sama herbergi og foreldrar þínir til 11 ára aldurs? Ég fékk ekki sérherbergi fyrr en þá og svaf inni hjá mömmu og pabba. Ég var mjög mikill pabbastrákur og við héldumst oft í hendur milli rúmanna áður en við fórum að sofa. Svo hætti hann að nenna því og þá vorum við með trefil á milli okkar og héldum í sitthvorn endann á honum. Þegar eldri bróðir minn flutti að heiman losnaði herbergi fyrir mig í íbúðinni og þá hnýttum við pabbi saman alla trefla heimilisins og höfðum á milli herbergja svo ég gæti áfram haldið í hendina á honum fyrir svefninn. Vinir þínir segja þig vera svokallaðan öryggisfíkil. Hvernig lýsir það sér? Ég er kannski pínu öryggisfíkill og vil helst búa í botnlangagötu og svoleiðis. Mér finnst status quo oft vera gott ástand. Það er tískufyrirbrigði að kyrrstaða sé einhvers konar dauði. Kannski ertu bara búinn að koma þér fyrir einhvers staðar, ert góður í því sem þú ert að gera og vilt vera öruggur þar áfram. Það hafa ekki allir þörf fyrir að fara alltaf lengra, bæta sig og slá í gegn. Þú ert einnig sagður harður andstæðingur stórframkvæmda. Hvað finnst þér um Kringluna, Smáralind, Perluna, Hörpu og Hvalfjarðargöngin? Ég hef aldrei farið á þessa staði og ætla mér ekki á neinn þeirra í nánustu framtíð. Smáralind er gott dæmi um hversu hugmyndasnauðir Íslendingar geta verið. Við vorum með svaka stóra og fína Kringlu en ákváðum að byggja aðra eins verslunarmiðstöð. Ég skil þetta ekki. Ég keyri frekar Hvalfjörðinn en að fara í göngin og er á móti Hörpunni. Fólk heldur alltaf að aðstæðurnar skipti öllu máli og tónlist á Íslandi verði betri með einhverju risastóru húsi en það mun ekki gerast. Til dæmis skrifaði Laxness ekkert af viti eftir að hann flutti á Gljúfrastein, Mogginn er ekkert betra blað þó hann hafi flutt í risahöll og Þróttur er með bestu íþróttaaðstöðu landsins. Hvað er framundan hjá þér? Ég er að undirbúa næsta leikár um þessar mundir og verð til dæmis í Galdrakarl- inum í Oz. Í sumar er ég að fara að leika í sjónvarpsþáttaseríunni Heimsendi sem er leikstýrt af Ragnari Bragasyni og skrifað af genginu sem gerði Vaktaseríurnar. Ég er með tiltölulega stóra rullu í þessari seríu og þetta verður frábært verkefni. Kæmi til greina að starfa við eitthvað annað en leiklist? Ég gæti hugsað mér að starfa við ýmislegt eins og til dæmis tónlist eða ritstörf. Svo er ég búinn að vera með eina viðskiptahugmynd í bígerð mjög lengi sem mun slá í gegn. Ég ætla að opna bjúgustað sem á að heita Dórabjúga. Þetta er eins og Subway nema í stað þess að velja þér fínt, gróft eða parmesan brauð velur þú þér hrossa-, kinda- eða svínabjúga. Svo er það skorið eins og Subway-bátarnir voru skornir einu sinni þannig að það er skorið ofan í það og biti tekinn upp úr bjúg- anu. Þú færð þér kannski stórt tólf tommu bjúga og svo er sett ofan í það meðlæti eins og grænar baunir, uppstúfur, kartöflumús, kartöflusalat, steiktur laukur að eigin vali. Ég geri mér grein fyrir að þessi staður mun ekki njóta vinsælda í Kringlunni eða Smáralind svo ég ætla að opna hann annaðhvort í Dugguvogi eða uppi á Höfða. Hvað myndi ævisagan þín heita? 6,5: Ævisaga meðalmanns. Það er ein- kunnin sem ég fékk í öllum prófum og ég er meðalmaður að eðlisfari. Monitor FIMMTUDAGUR 14. APRÍL 2011 Ég ætla að opna bjúgustað sem á að heita Dórabjúga. Þetta er eins og Subway nema í stað þess að velja þér fínt, gróft eða parmesan brauð velur þú þér hrossa-, kinda- eða svínabjúga.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.