Monitor - 19.05.2011, Blaðsíða 12

Monitor - 19.05.2011, Blaðsíða 12
12 Monitor FIMMTUDAGUR 19. MAÍ 2011 Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrnusnillingur, var valin í A-landsliðið aðeins 16 ára gömul og hefur síðan þá stefnt á atvinnumennskuna. Hún er metnaðarfull, dugleg og virðist geta hlaupið enda- laust inni á vellinum enda mikil keppnismanneskja að eigin sögn. „Ég vildi alltaf vera best og fá öll verðlaun sem voru í boði,“ segir Sara sem hefur verið ótrúlega kappsöm frá unga aldri. Þrátt fyrir að vera aðeins tvítug skrifaði Sara fyrr á árinu undir þriggja ára samning við sænska liðið LDB Malmö sem er í efsta sæti úrvaldsdeildar kvenna um þessar mundir. Velgengni Söru hefur ekki látið á sér standa úti í Svíþjóð og hún hefur nú þegar slegið í gegn hjá liðinu og skorað ófá mörk á tímabilinu. Af hverju ert þú svona góð í fótbolta? Ég held að það gæti verið sökum þess hversu ótrúlega kappsöm og metnaðarfull ég var og er enn í dag. Ég vildi alltaf vera best og fá öll verðlaun sem voru í boði. Ef verið var að keppast um eitthvað spýtti ég í lófana og var mjög ákveðin að sigra allt sem hægt var. Ég man til dæmis eftir að þegar ég var tíu ára fékk ég eitthvað Pocahontas-spil í jólagjöf. Svo seinna um kvöldið ákvað fjölskyldan að spila það og mér gekk illa svo jólin voru bara ónýt það árið. Ég fór í feitt fýlukast og trompaðist. Það er enn hlegið að þessu heima í dag. Gætir þú hlaupið endalaust ef til þess kæmi? Ég hef alveg gaman af því að hlaupa eins og flestir vita en það færi eftir tempóinu sem ég þyrfti að hlaupa á. Ég gæti líklega hlaupið frekar lengi á passlegum hraða. Hvað varst þú gömul þegar þú byrjaðir að æfa fótbolta? Ég var fimm að verða sex ára. Ég hafði farið á eina fimleikaæfingu og fílaði mig ekkert þar enda var ég alltaf smá strákastelpa og tuddi. Það voru ekki margar stelpur að æfa fótbolta á þessum tíma miðað við í dag en pabbi henti mér eiginlega bara í fótbolt- ann og ég kunni strax mjög vel við mig þar. Varst þú alltaf best í þínum flokki í Haukum? Já, eiginlega. Ég fékk oftast verðlaun fyrir að vera besti leikmaðurinn. Ég var með svo ótrúlega mikið keppnisskap og ætlaði mér alltaf að vera best. Ég var alltaf hlaupandi út um allt og kraftur í mér. Hver var þín helsta fyrirmynd? Það var í sjálfu sér pabbi minn sem var í fótbolta á sínum yngri árum. Þegar ég var lítil var ekkert rosalega mikið um sterkar fyrirmyndir í íslenska kvennaboltanum sem ég vissi af þó þær séu miklu fleiri í dag. Hvenær ákvaðst þú að stefna á atvinnumennsk- una? Ætli það hafi ekki verið þegar ég var valin í A-landsliðið þegar ég var 16 að verða 17 ára. Þá voru stelpur aðeins byrjaðar að fara til útlanda og lifa á því að spila fótbolta sem hafði ekki tíðkast mikið hér á landi. Þarna var það orðinn möguleiki þó þetta hafi ekki verið peningar og séu ekki ennþá neitt í líkingu við það sem er í boði í karlaboltanum. Þar er bara nóg að næla sér í einn feitan samning og þá ertu bara góður það sem eftir er. Stelpur sem fara út eru meira að hugsa um að reyna að bæta sig þó það séu auðvitað einhverjir peningar í þessu. Lifir þú alfarið á fótboltanum í dag? Já, núna geri ég það og legg fyrir nokkrar millur á mánuði. Nei, það er alls ekki þannig. Mig langar til að fara í skóla en ég er ekki búin að kynna mér námið vel hérna í Malmö. Ég væri til í að læra eitthvað íþróttatengt eins og sjúkraþjálfun eða íþróttafræði. Það er svo sniðugt að nýta þennan tíma hérna úti til að mennta sig. Ert þú með einhverjar ábendingar fyrir ungar og efnilegar fótboltastelpur sem vilja ná langt? Bara það sama og allir segja. Það skiptir máli að vera dugleg að æfa sig sjálf og fara kannski frekar út á sparkvöll en að horfa á sjónvarpið á kvöldin. Svo er gott að setja sér markmið til að ná og ef þú vilt verða betri en hinar verðurðu að æfa þig meira en þær. Hvernig var að koma svona ung inn í landsliðið? Það var skemmtileg áskorun. Ég var svolítið smeyk og auðvitað stressuð en svo var tekið mjög vel á móti mér. Þessar stelpur voru samt að spila í úrvalsdeild og ég með Haukum svo æfingarnar urðu meira krefjandi. Ég varð bara betri fyrir vikið. Er mikið um baktal og svoleiðis í kvennaboltanum? Já, klárlega. Stelpur eru sjálfum sér verstar, við erum alveg rosalegar. Ég ætla nú ekki að koma með nein dæmi en það er ótrúlegt hvernig stelpur láta stundum. Hvaða þrjár úr landsliðinu myndir þú taka með þér á eyðieyju? Ég á svo erfitt með að velja úr hóp, ég fæ alveg fyrir hjartað þegar ég þarf að gera það. Ég þyrfti nú samt að taka herbergisfélagann minn hana Rakel Hönnu, við erum alltaf saman í landsliðsferðum. Svo myndi ég velja Blikafélagana mína Grétu Mjöll og Fanndísi ásamt því að taka liðsfélaga minn, Þóru, með í ferðatöskunni. Hverja þeirra myndir þú éta til að lifa af og hvaða líkamshluta? Ég myndi éta rassinn á Grétu Mjöll því hann er svo djúsí. Hvernig kannt þú við þig úti í Svíþjóð? Ég fíla rosa vel að búa þarna. Bróðir minn býr hjá mér og við búum eiginlega í litlum kassa. Ég get ekki sagt að ég búi í einhverri þakíbúð þarna úti eins og í Atvinnu- mönnunum okkar. Það væri reyndar mjög fyndið ef þeir myndu kíkja á mig til Svíþjóðar og skoða íbúðina þar sem ég sef, borða og horfi á sjónvarpið í sama herberginu. Ég er einmitt að leita mér að stærri íbúð núna. Ert þú farin að tala sænsku? Nei, alls ekki. Ég skil mikið en ég á alveg eftir að ná henni. Er mikill munur á að liðunum úti og hérna heima? Munurinn er aðallega á deildunum tveimur. Deildin úti er sterkari og jafnari og leikmennirnir í liðunum eru flestir góðir. Allar sem byrja inná eru því yfirleitt góðar á meðan maður getur kannski fundið ein- hverja veikleika í ákveðnum stöðum í liðunum hérna heima. Æfir þú alla daga vikunnar? Já, nema við fáum stundum einn frídag í viku. Svo tökum við aukaæf- ingar tvisvar sinnum í viku og þá er ég með sérstakan sóknarþjálfara sem er algjör snillingur. Ég er rosalega heppin að fá að æfa hjá honum. Hvernig fer svona álag með líkamann? Mér finnst þessar æfingar ekki vera eitthvað brjálað fitness heldur er meira verið að þjálfa tækni og svoleiðis. Ég veit reyndar ekki hvernig þetta er á undirbúnings- tímabilinu en núna erum við aðallega að vinna með spyrnur, taktík og svoleiðis. Hefur þú einhvern tímann haft tíma fyrir eitthvað annað en boltann? Eiginlega ekki. Ég fór einmitt til Flórída núna í október með kærastanum og fjölskyld- unni hans og það var fyrsta sumarfríið mitt í langan tíma. Þetta var ótrúlega langþráð frí því maður kemst aldrei neitt út af fótboltanum. Ég hef fórnað öllu fyrir þetta enda ákvað ég að setja fótboltann í fyrsta sæti og sé alls ekki eftir því. Þetta er eitthvað sem ég elska að gera. Náðir þú að sinna félagslífinu mikið í menntaskóla? Ég mætti alveg á einhver böll en það var ýmislegt sem ég mætti ekki á. Ég var ekki í neinum nefndum og hafði ekki tíma fyrir neitt slíkt. Svo voru kannski einhverjar fjáraflanir fyrir útskriftina og svoleiðis en ég gat aldrei verið með því ég var alltaf á æfingum. Fólk spurði mig oft hvort ég gæti nú ekki sleppt einni æfingu en það kom aldrei til greina hjá mér. Ég fór alltaf á bömmer þegar ég þurfti að sleppa æfingu. Hver eru helstu áhugamálin þín fyrir utan fót- boltann? Ég kann ekki að syngja eða spila á nein hljóðfæri eða neitt svoleiðis. Ég kann eiginlega bara að spila fótbolta og held mig því bara við það. Mér finnst ótrúlega gaman að vera með vinum mínum og er meira fyrir að hafa kósýkvöld en að fara niður í bæ. Svo finnst mér mjög gaman að hafa það gott í bústað með fjölskyldunni. Finnur þú fyrir mikilli athygli frá strákum verandi ein aðalfótbolta- skvísa Íslands? Það er alveg eitthvað af slíku en ég held að flestir viti nú að ég eigi kærasta sem ég er einmitt búin að vera með í fimm ár í dag. Ég er vel frátekin. Hvað finnst kærastanum um alla þessa athygli? Hann er alveg rólegur. Það finnast ekki rólegri menn og hann er ekkert að stressa sig enda ekkert til að stressa sig á. Stelpur eru sjálfum sér verstar, við erum alveg rosalegar. Texti: Sigyn Jónsdóttir sigyn@monitor.is Myndir: Eggert Jóhannesson eggert@mbl.is Ég hef fórnað öllu fyrir þetta enda ákvað ég að setja fótboltann í fyrsta sæti og sé alls ekki eftir því. Sara Björk Gunnarsdóttir þakkar keppnisskapinu góðan árangur í fótboltanum. Monitor ræddi við hana um boltann, kærastann og baktalið í kvennaboltanum. Vildi alltaf vera best HRAÐASPURNINGAR Besta lið í heimi? Barcelona. Heitasti knattspyrnumaðurinn? Hákon Atli Hallfreðsson. Uppáhaldsknattspyrnukona? Magnea H. Magnúsdóttir kenndi mér allt sem ég kann. G.Æ.S! Hvað tekur þú í bekk? 85,2 kg. Uppáhaldsmatur? Humar. Það besta við Svíþjóð? Flottu fötin. Uppáhaldsnammi? Lakkrísrindlar. Uppáhaldskvikmynd? The Green Mile. Uppáhaldshljómsveit? Poison Snake.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.