Monitor - 26.05.2011, Blaðsíða 10

Monitor - 26.05.2011, Blaðsíða 10
10 Monitor FIMMTUDAGUR 26. MAÍ 2011 Hvar værir þú í dag hefðir þú ákveðið að fara frekar í arkitektinn? Ég væri búin að teikna upp drauma- húsið og innrétta það. Þú hefur sungið mikið í gegnum tíðina. Kæmi til greina að leggja leiklistina á hilluna fyrir tónlist- arferil? Nei, það er ekki inni í myndinni. Ég hlusta mikið á tónlist og mér finnst gaman að hafa hana með í bland en ég myndi ekki vilja vinna við að vera alltaf að syngja á tónleikum. Þó það blundi í mér að setja saman stórsveit og leigja Hótel Borg, fara í síð- kjól og taka nokkur vel valin lög frá þriðja og fjórða áratugnum, hver veit? Við hjónin erum reyndar að gera plötu saman núna og mér finnst æðislegt þegar hann spilar á gítarinn heima og ég syng. Hvernig plata er þetta sem þið hjónin eruð að gera? Þetta eru íslensk og erlend dægurlög í bland. Ég held ofsalega mikið upp á Erlu Þorsteins, Helenu Eyjólfs, Ellý Vilhjálms og allar þessar yndislegu söngkonur sem hafa fylgt manni í gegnum tíðina. Heimildir Monitor herma að þú sért mikið fyrir dul- speki. Ferð þú oft á miðilsfundi og lest í tarotspil? Ég hef mjög mikinn áhuga á öllum svona spiritisma en hef ekki farið mikið á miðilsfundi. Ég fer meira til læknamiðla eða spámiðla. Þetta er eitthvað sem ég geri öðru hvoru og getur verið eins og að fara til sálfræðings eða slíkt til að spá og spekúlera. Stundum þegar framtíðinni er kastað upp fær maður góða yfirsýn á allt saman. Ég les svolítið í tarotspil en er ekki farin að taka fólk heim ennþá. (Hlær) Sagan segir einnig að þú sért mjög næm á fólk. Hvernig lýsir það sér helst? Það er bara eitthvað innsæi sem ég er farin að hlusta betur og betur á með tímanum. Ég hef alltaf verið svolítið næm en ég kann ekki alveg að útskýra það. Stundum get ég líka verið alveg utan við mig og ekki lesið aðstæðurnar vel. Ég er ekki skyggn eða neitt slíkt þó ég sé stundum berdreymin. Þú ert þá ekki norn eða neitt svoleiðis? Ég er reyndar meðlimur í nornaklúbbi. Þá komum við saman vinkonurnar, leggjum niður spil, spáum í bolla og spekúlerum í hinum ýmsu hlutum. Ég upplifi enga yfirnáttúrulega hluti en ber rosalega mikla virðingu fyrir fólki sem upplifir slíkt. Er Fjalla-Eyvindur fyrsta samstarfsverkefni þitt og Mörtu Nordal? Nei, við lékum saman í Borgar- leikhúsinu og settum svo saman upp sýningu með Stúdentaleikhúsinu og það samstarf gekk alveg rosalega vel. Hvernig kom það til að þið ákváðuð að setja upp leiksýningu á eigin fótum? Ég var atvinnulaus og hún í fæðingarorlofi svo tímasetningin réði öllu. Ég var búin að ráða mig í tvö verkefni fyrir norðan síðasta haust og varð ólétt um sumarið. Svo kom að því að við áttum að byrja að æfa og ég læt leikhús- stjórann vita að ég sé ólétt. Nokkrum dögum síðar fékk ég símtal frá leikhússtjóranum þar sem hún segir mér að það sé búið að fresta öllu um eitt ár. Ég var auðvitað hæstánægð og var þá einmitt að pakka fyrir ferðalag til Aðalvíkur fyrir vestan sem var gamall draumur. Sama dag missti ég fóstrið og lífið tók skyndilega U-beygju. Á einum degi breyttist allt og ég þurfti einhvern veginn að gefast upp fyrir almættinu. Það er samt einhver vellíðunartilfinning sem fylgir því að gefa sig á vald hins æðra og trúa því að eitthvað gott muni verða í framhaldinu. Á svona erfiðum tímum slær maður í klárinn og hugsar með sér: „Núna ætla ég að gera eitthvað ódauðlegt.“ Þó útlitið sé slæmt felast ákveðin tækifæri í svona stöðu. Sýningin hefur fengið frábærar viðtökur og þá sérstaklega túlkun þín á Höllu. Ég er svo stolt af þessari sýningu. Við gerðum þetta fyrir nánast enga peninga og gerðum þetta á okkar eigin forsendum. Það er búið að vera æðislegt að fá viðurkenningu frá kollegunum og auðvitað áhorfendum sem mættu á sýninguna. Ég hef aldrei lent í öðru eins. Fólk var að koma til mín eftir sýninguna, faðma mig og þakka mér innilega fyrir. Ein konan sagði: „Leikhús hefur ekki snert mig svona í langan tíma, ég hélt það væri dautt.“ Þetta er ótrúlegur heiður og ég trúi varla hversu vel þetta hefur gengið. Er þetta dramatískasta hlutverkið þitt hingað til? Alveg tvímælalaust. Mig hefur alltaf langað til að leika meira drama og glíma við eitthvað svoleiðis. Ég viðurkenni reyndar að þegar við byrjuðum að lesa Fjalla-Eyvind komu tímabil þar sem mér fannst hlutverkið vera of langt frá mér og fannst ég ekki eiga innistæðu fyrir þessu. Þú ert með einhverjar hugmyndir um karakterinn í hausnum og allt í einu passa þær ekki við þig. Síðan þegar ég fann að ég hafði þessa innistæðu kom það mér á óvart og var alveg frábært. Hvað er framundan hjá þér? Við Marta sóttum um styrk og erum að fara að gera verk um morð sem áttu sér stað á Rauðarársandi fyrir mörgum öldum. Vinnuheitið er Fólk í myrkri: Morðsaga. Við ætlum að gera grind að sýningunni og leikgerð sem verður svipuð og í Fjalla-Eyvindi. Sagan segir frá Steinunni, Bjarna, Jóni og Guðrúnu. Okkur langar að fjalla um ástina, hatrið og hvernig þetta fólk fór að því að búa saman í pínulitlu plássi. Einangrunin og ótrúleg náttúra, losti, rifrildin og auðvitað morðin. Þetta er mögnuð saga. Ég fann leiðið hennar Steinunnar í Hólavallakirkjugarði og hleyp stundum við hjá henni. Í eitt skiptið fór ég með tvær skeljar frá Rauðasandi. Hún mun leiða okkur í gegnum þetta. Hver er þinn villtasti leikhúsdraumur? (Syngur) Allt annað en að koma nakin fram. Nei, ætli það sé ekki að leika Hamlet, eða leika Marie Antoinette í Versölum, það væri rosalegt. Hvað finnst þér skemmtilegast að gera þegar þú ert í fríi? Mér finnst ótrúlega gaman að ferðast um landið og hef sérstaklega gaman af að heimsækja Vestfirði. Svo finnst mér Austfirðirnir og bara allt landið alveg æðislegt. Það eru svo margir seiðmagn- aðir staðir á landinu og Flatey er alveg mitt uppáhald. Þangað fer ég á hverju sumri. Í Flatey líður tíminn hægar og maður blikkar hægar. Það líður úr manni streitan og maður skilur tilgang lífsins. Svo finnst mér alveg rosalega gaman að elda góðan mat, fá mér kalt hvítvín og vera með vinum mínum. Mér finnst mjög gaman að halda matarboð því það gerist alltaf eitthvað skemmtilegt í matarboðum heima hjá okkur. Einu sinni kom meira að segja lúðrasveit. Ert þú mikið á Facebook? Ég er á báðum áttum með Facebook. Í aðra höndina finnst mér þetta skemmti- legt en svo er þetta eitthvað svo skrítið. Ég stend mig að því að setja einhverja statusa þarna sem eru samt svo asnalegir. Svo fer ég á eftir og set inn statusinn: „Var í viðtali fyrir forsíðu Monitor. Ætla núna að elda kjúkling.“ Maður getur verið svo mikill fáviti. Svo fer ég á eftir og set inn statusinn: „Var í við- tali fyrir forsíðu Monitor. Ætla núna að elda kjúkling.“ Maður getur verið svo mikill fáviti.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.