Monitor - 16.06.2011, Page 9

Monitor - 16.06.2011, Page 9
9FIMMTUDAGUR 16. JÚNÍ 2011 Monitor „Leikstjórinn ræður mig í þetta hlutverk og við vorum sammála um að Tóti þyrfti að vera massaður og í hörkuformi,“ segir Jóhannes Haukur Jóhannesson um upphafið að geysilegu líkamsræktarátaki sínu sem hefur staðið yfir frá áramótum. Hann setti sér skýr markmið fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Svartur á leik í upphafi árs og fór í ræktina sex sinnum í viku ásamt því að vera á ströngu mataræði til þess að ná þeim. „Þetta stóðst næstum því upp á gramm, ég var 94,8 kíló þegar tökur hófust og 12% fita,“ útskýrir Jóhannes sem náði markmiðum sínum og gott betur. Nýlega lauk tökum á kvikmyndinni Svartur á leik þar sem Jóhannes fer með stórt hlutverk ásamt þeim Þorvaldi Davíð Kristjánssyni og Agli Einarssyni, betur þekktum sem Gillz. Myndin gerist í undirheimum Reykjavíkur árið 1999 og ríkir mikil spenna fyrir þessari myrku glæpamynd. Hvernig myndir þú lýsa Tóta sem þú leikur í Svartur á leik? Utan frá séð er hann algjör óþokki. Hann er glæpamaður sem gerir og segir ljóta hluti og fer illa með ansi marga. Hann hefur þó sína sannfæringu og fylgir sínum eigin siðareglum mjög fast eftir. Tóti lítur fyrst og fremst á sig sem viðskiptamann en það vill bara svo til að hans viðskipti eru ólögleg. Finnst þér þú eiga eitthvað sameiginlegt með þessum harðsvíraða glæpamanni? Já, að vissu leyti. Hann er prinsippmaður og ég á það sameiginlegt með honum þó prinsippin séu mjög ólík hjá okkur. Myndir þú segja að þetta væri harðasta hlutverk þitt hingað til? Alveg tvímælalaust. Tóti beitir alveg helling af bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi gagnvart konum og mönnum. Þetta er harður nagli sem er kannski svolítið fjarri mér. Ég hef sjálfur aldrei lent í slagsmálum. Ég hef reyndar einu sinni kýlt mann í bakið sem er mjög lélegt. Það var þannig að einhverjir voru að ráðast á vin minn á Hótel Íslandi fyrir mörgum árum og ég var ekki sáttur með það svo ég kýldi einn mann í bakið. Um leið og hann sneri sér við hljóp ég svo í burtu, það er öll slagsmálasagan mín. Ég þurfti því að undirbúa mig vel fyrir hlutverk harða naglans með því að massa mig upp og svo lærði ég eitt og annað í Mjölni. Svartur á leik gerist í lok tíunda áratugarins. Hvað varst þú að gera á þeim tíma? Þá var ég nítján ára og var svolítið að finna mig í lífinu en alls ekki í þessum undirheimum. Ég var ekki í skóla, hafði hætt í Iðnskól- anum í Hafnarfirði eftir tvær annir. Svo fór ég í Flensborg þegar ég var tvítugur og í kjölfarið í Leiklistardeild Listaháskólans. Hvernig týpa varst þú í menntaskóla? Saklaus kór- drengur. Ég var ekki byrjaður að leika mikið en var mörg ár í kór svo ég söng mikið. Það var ekki fyrr en upp úr tvítugu að ég fór að fikta eitthvað í leikhúsinu. Sagan segir að þú hafir eitt sinn tekið þátt í Söng- keppni framhaldsskólanna klæddur í korselett. Hvað var málið? Það var einmitt árið 2000, ég lenti í öðru sæti og Sverrir Bergmann sigraði með lagið eftir Audda Blön- dal, Án þín. Í rauninni markar þátttaka mín í keppninni upphafið að leiklistarferlinum mínum því í framhaldinu hafði leikstjórinn Guðmundur Rúnar Kristjánsson sam- band við mig og fékk mig til að taka þátt í uppfærslu á sýningunni Með fullri reisn um sumarið. Mér fannst það æðislegt og fór í kjölfarið í prufur fyrir Leiklistarskólann og komst þar inn. Guðmundur Rúnar er því mikill örlagavaldur í mínu lífi. Leiklistin var þá ekki langþráður draumur? Maður hugsaði nú um það sem krakki að það væri gaman að verða leikari en ég gerði svo sem aldrei neitt í því fyrr en um tvítugt. Ég fór aldrei á nein leiklistarnámskeið en hefði nú kannski betur gert það. Það er öllum hollt og gott að fara á leiklistarnámskeið og mennta sig í leiklist því ég held að slíkt nýtist manni á fleiri sviðum. Heimildir Monitor herma að þú hafir eitt sinn verið sagður í líkamlegu ástandi þrítugs manns þegar þú varst aðeins nítján ára. Varst þú í slæmu formi sem unglingur? Já, ég hef alltaf verið aðeins yfir kjörþyngd síðan ég var svona tólf ára. Svo byrjaði ég að reykja fjórtán ára sem hjálpaði ekki til. Þegar ég var nítján ára fór ég til heimilislæknis og hann sagði við mig að ég væri í líkamlegu formi þrítugs manns. Nú hefur þú snúið dæminu við og ert líklega í líkam- legu ástandi nítján ára manns, ekki satt? Algjörlega. Ég hef ekki reykt í fimm ár, ég er í mínu besta líkamlega formi á ævinni. Ég hef nú oft farið í átak og létt mig um nokkur kíló sem bætast svo fljótt aftur á mig. Þá var ég ekki nógu ákveðinn í þessu en núna hafði ég skýr markmið, að undirbúa mig fyrir hlutverk í Svartur á leik. Var erfitt að byrja í átakinu? Já, auðvitað var það erfitt fyrst en mér finnst rosalega gott að hafa svona skýrt markmið í byrjun. Leikstjórinn ræður mig í þetta hlutverk og við vorum sammála um að Tóti þyrfti að vera massaður og í hörkuformi svo ég ákvað að fara í prógramm til að undirbúa mig fyrir hlutverkið. Ég áttaði mig fullkomlega á því að svona tækifæri vaxa ekki á trjánum og maður fær ekki oft svona flott og bitastæð hlutverk í kvikmynd. Það hvatti mig áfram á brettinu þegar ég var við það að gefast upp af þreytu. Ég vil gera það sem ég geri vel og þetta var það sem þurfti til. Ég fór til vaxtarræktarþjálfarans Konráðs Gíslasonar sem er í World Class og hann lét mig fá prógramm fyrir vaxt- arrækt. Þetta er ekki venjulegt einkaþjálfaraprógramm heldur miðast það aðallega af að stækka sig og forma sig. Ég fylgdi því fast eftir og fékk svo hjálp frá Guðjóni Þorsteini Pálmasyni leikara sem er tilfallandi líka einkaþjálfari í hjáverkum. Hann kom með mér og hvatti mig áfram fyrstu vikurnar. Hvað stóð átakið lengi yfir? Ég byrjaði um áramótin og prógrammið stóð yfir í sextán vikur, alveg fram að fyrsta tökudegi. Ég fór sex sinnum í viku að lyfta í 45 mínútur og hljóp í hálftíma sex sinnum í viku. Þetta var erfiðast fyrstu fjórar vikurnar. Ég átti alveg móment þar sem ég bókstaflega grét á hlaupabrettinu. Það sem var svo erfitt er þetta samtal sem maður á við sjálfan sig á brettinu. Maður er endalaust að reyna að gefa sér einhvern afslátt og reyna að vera með eitthvað samkomulag við sjálfan sig að það sé í lagi að taka aðeins minna á því þann daginn. Þetta voru gríðarlegar samningaviðræður. Ég tók alltaf hálftíma hlaup og eftir á var ég svo glaður að hafa ekki látið undan sjálfum mér og stundum felldi ég nokkur sigurgleðitár. Hvaða markmið settir þú þér í ársbyrjun? Að komast niður í 95 kíló og úr 24% fitu í 15%. Þetta stóðst næstum því upp á gramm, ég var 94,8 kíló þegar tökur hófust og 12% fita. Ég missti að meðaltali eitt kíló á viku svo þetta voru sextán kíló sem ég missti áður en tökur hófust og náði að byggja upp mikinn vöðvamassa. Á meðan tökum stóð missti ég svo tvö kíló til viðbótar því ég hélt áfram að hreyfa mig svona mikið enda orðinn háður þessu. Hvernig er dæmigerður dagur í svona átaki? Ég steypti lyftingaræfingu og brennslu saman í eina æfingu sem mátti vera hvenær sem er yfir daginn. Það var mikið að gera hjá mér svo stundum fór ég á morgnana, stundum yfir miðjan daginn og sem betur fer fékk ég sólarhrings- aðgang í World Class Kringlunni því stundum þurfti ég að fara eftir sýningu á miðnætti. Það kom sem betur fer ekki oft fyrir. Þegar maður er með sólarhringsaðgang í ræktina er ekki hægt að skýla sér bak við neitt og afsaka sig. Hvað borðaðir þú á meðan átakinu stóð? Ég fékk mér alltaf hafragraut í morgunmat, banana og próteinsjeik í millimál og til dæmis kjúklingavefju á Subway í hádeg- ismat. Eftir hádegi fór ég oft í ræktina og fékk mér svo ávöxt og próteinsjeik eftir æfinguna. Klukkan fimm fékk ég mér hafragraut til að halda hungrinu í skefjum og í kvöldmatinn var ég með eitthvað hollt og gott eins og til dæmis nautakjöt og sætar kartöflur. Um kvöldið fékk ég mér svo aftur banana og próteinsjeik. Þú ert þá ekki á barnamatskúrnum eins og margar stjörnurnar í Hollywood þessa dagana? Nei, alls ekki. Þetta snýst bara um að borða rétt og borða hollt. Próteinsjeikarnir úr mysupróteini komu sér líka vel fyrir mig þar sem ég var að byggja upp vöðva. Á sunnudögum fæ ég svo frjálsan tíma í mataræðinu í kvöldmatnum. Hvað færð þú þér á nammidögunum? Nammidagurinn virkar þannig að kvöldmaturinn og eftir kvöldmat er frítt spil. Hjá mér væri týpískt að fara á Hamborgarafabrikk- una og fá mér einn djúsí Bó eða Morthens. Stundum fæ ég mér líka pítsu eða einhvern viðbjóð. Eftir kvöldmat fer ég svo heim og úða í mig Daim, ís, lakkrís, karamell- um og ógeðslega mikið af nammi. Hvernig tekur líkaminn í nammidagana? Hann fær alveg smá sjokk. Ég á pínu erfitt með svefn á sunnudags- nóttum. Ég sef alveg en svitna svolítið í svefni eftir allt þetta nammiát og vakna yfirleitt miklu fyrr en vanalega á mánudagsmorgnum. Þetta er svolítið eins og að vera þunnur því ég næ mér ekki alveg fyrr en á hádegi á mánudögum. Er með nettan skjálfta og svoleiðis. Ég verð samt að halda þessum nammidögum. Það er svo gaman að úða þessu í sig. Ég fékk mér til dæmis Ben&Jerrys ís á síðasta nammidegi þó ég sé með mjólkuróþol. Svo fæ ég í magann og er alveg í rugli en þetta er það sem ég leyfi mér af því að ég er svo strangur á mataræðinu alla hina daga vikunnar. Ég er svo mikill öfgamaður í eðli mínu og það hentar mér rosalega vel að vera mataræðisfasisti sex daga vikunnar og fara svo all-in á sunnudagskvöldum. Þetta er svipað og þegar ég hætti að reykja. Þá varð ég alveg rosalega mikið á móti reykingum Ég átti alveg móment þar sem ég bókstaflega grét á hlaupabrettinu. Texti: Sigyn Jónsdóttir sigyn@monitor.is Myndir: Ernir Eyjólfsson ernir@mbl.is „Ég er í mínu besta líkamlega formi á ævinni,“ segir Jóhannes Haukur Jóhannesson, leikari, sem umbreytti líkama sínum fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Svartur á leik. Nítján ára í líkamlegu formi HRAÐASPURNINGAR Fituprósenta? 11%. Hvað tekur þú í bekk? 100 kíló slétt. Ég stefni samt á að ná 120 sem fyrst því helvítið hann Auddi Blöndal tekur 120 kíló sem er fáránlegt. Ég er að vinna í þessu. Versta martröð? Að fitna um 20 kíló fyrir frumsýninguna á Svartur á leik. Það sjúkasta sem þú hefur séð á inter- netinu? Gamlir karlar í ástaratlotum. Uppáhaldsnammi? Daim. Besta hljómsveit allra tíma? Bítlarnir, ekki spurning. Uppáhaldskvikmynd? The English Patient, hún er sérstakt listaverk sem upphefur andann. Hvað myndir þú kalla þig í Hollywood? Þetta er ég alveg búinn að hugsa út. Ég myndi kalla mig Jack Hawke, seinna nafnið skrifað eins og Ethan Hawke. þrítugs manns

x

Monitor

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.