Monitor - 07.07.2011, Blaðsíða 9

Monitor - 07.07.2011, Blaðsíða 9
9FIMMTUDAGUR 7. JÚLÍ 2011 Monitor Matti Matt hefur verið einn mest áberandi söngvari landsins um langt skeið. Hann ólst upp á Dalvík en flutt- ist í bæinn 12 ára gamall. Fyrir fjórum árum sneri hann aftur til Dalvíkur og á nú sæti í bæjarstjórn. Í tónlistinni skaust hann fram á sjónarsviðið með hljómsveitinni Reggae on Ice sem gerði það gott á sveitaböllum á tíunda áratugnum en er sennilega þekktastur fyrir að vera nú í Pöpunum. Eftir Eurovision-törnina með Vinum Sjonna í vor er Matti nú að vinna að uppsetningu á Hárinu sem er að hefja göngu sína í Hörpunni. Hvernig var að alast upp á Dalvík? Það var dásamlegt og það er eiginlega ástæðan fyrir að ég fór aftur til Dalvíkur. Þegar ég fór að eignast börn sjálfur þá fannst mér ekkert voðalega gaman að vera með börnin í Reykjavík. Maður þurfti helst að vera með þau á lokuðum svæðum og mig langaði svo að þeir fengju þetta frelsi sem maður hafði þegar maður var lítill. Að fara að hjóla, á fótboltaæfingar, að veiða og vera úti um allan bæ. Það er bara svo dásamlegt að vera lítill úti á landi. Þú varst í reggíhljómsveit og ert nú duglegur við að halda á lofti írskri þjóðlagatónlist með Pöpunum. Hvernig tónlist hlustar þú sjálfur á heima hjá þér? Ég er svolítill þunglyndispoppari. Ég er í annarri hljóm- sveit sem heitir Dúndurfréttir þar sem við erum að spila tónlist sem er kannski nær því sem ég er að hlusta á. Til dæmis Pink Floyd, Led Zeppelin og gamla 70‘s-rokkið og þunglyndismúsíkin. Ég elska að hlusta á Muse og er alger Queen-aðdáandi og Bítill. Ég er að hlusta dálítið núna á Sufjan Stevens og svo var ég að fá disk gefins í Popppunkti um daginn með Vigra. Þeir eru frábærir, það er smá Pink Floyd þar í gangi. Flottur söngvari og vel gerður diskur. Hafa Paparnir troðið upp í Papey? Nei, en Jakob Frímann Magnússon var nú lengi vel með hugmynd um að Stuðmenn og Papar ættu að halda sameiginlegan dansleik í Papey. Ég segi nú bara sem betur fer varð það ekki að veruleika (hlær). Hvert er eftirminnilegasta Papaballið? Akkurat núna þá er það ball sem ég var að spila á Lopa-peysunni á Akranesi fyrir tvö þúsund manns í góðum félagsskap. Við komum þar fram og ég söng reyndar líka með Steinda. Það var alveg gull af mönnum fyrir allan peninginn þar. Gull af mönnum með Steinda og félögum hefur ein- mitt verið ansi mikið spilað að undanförnu. Hvernig fílar þú að syngja svona skemmtistaðatónlist? Mér finnst það dásamlegt. Það er nú bara þannig með alla tónlist að ef hún er vel gerð, þá er gaman að gera hana. Það er alveg sama hvort það sé djass, popp, rokk, hipp hopp – góð tónlist er alltaf góð tónlist. Þeir eru að gera þetta svo vel þessir strákar, sérstaklega þeir í Redd Lights. Síðan er Bent einhvers konar snillingur við að búa til laglínur og dót sem virkar. Þetta var skemmtilegt samstarf og ég væri til í að gera meira svona. Hversu margir hafa stoppað þig niðri í bæ til að syngja línuna „djöfulsins snillingur!“ úr laginu? Svona um það bil fjögur hundruð manns, þetta er oft á hverjum degi. Mér finnst það gaman. Daginn eftir að þetta var sýnt lenti ég í því í Kringlunni að fólk var ekki lengur að pískra: „Hey, þetta er Matti úr Eurovision“ heldur: „Hey, þetta er Matti úr Gulli af mönnum“. Það er miklu flottara. Fyrir sextán árum stofnaðir þú hljómsveitina Dúndurfréttir ásamt félögum þínum. Hvernig atvikaðist það að þið félagarnir ákváðuð að „covera“ ekki minni nöfn en Led Zeppelin og Pink Floyd? Upphaflega kveikjan varð til á efri hæðinni á gamla Gauk á stöng. Við Pétur Örn sátum og vorum að drekka bjór og svo drukkum við aðeins meiri bjór. Þá fannst okkur alveg tilvalið að stofna hljómsveit svo við gætum skrifað á okkur bjór á Gauknum. Þá labbaði akkurat Óli Hólm trommari úr Nýdönsk inn í salinn og við kölluðum á hann: „Óli, þú verður að vera með okkur í hljómsveit og spila hérna í reikning!“. Hann var til í það og við ætluðum bara að spila uppáhaldstónlistina okkar. Við Pétur vorum þá búnir að ræða að værum miklir Floyd- og Zeppelin- menn svo það varð úr að við fórum að spila lögin þeirra og líka slagara eftir Deep Purple, Uriah Heep og fleiri góða. Þessi hljómsveit fékk einhverja bestu umsögn sem hægt er að fá þegar tímaritið Rolling Stone kallaði hana „the best Pink Floyd and Led Zeppelin coverband ever“. Manstu hvar þú varst þegar þú fréttir þetta? Ég var niðri í bæ á labbi og þá hittum við Ara vin okkar sem var með blaðið og sýndi okkur þetta. Þeir voru í rauninni að skrifa um Gauk á stöng sem var þá búinn að vera starfandi í fjórtán ár eða eitthvað með tónlist á hverju kvöldi sem þótti einsdæmi í Evrópu. Rolling Stone-gæjarnir höfðu dottið akkúrat inn á kvöldið sem við vorum að spila á. Pælduð þið ekkert í því að hætta þá og þegar til að ljúka þessu á toppnum? Nei, nei, okkur langaði í meiri bjór og þurftum að spila meira (hlær). Maður veit alveg að það er margt skrifað og þetta er ekkert sem við erum að fara að sigra heiminn út á eða eitthvað svoleiðis. Við vorum alveg jarðbundnir yfir þessu en þetta var aðallega bara ofboðslega skemmtilegt. Það er ennþá verið að tala um þetta í dag en það eru þó liðin tíu ár frá því að þetta var skrifað. Lag sem þú söngst í Eurovision-forkeppninni í vetur um Eyjafjallajökul vakti athygli. Er ekkert lag á leiðinni um Grímsvatnagosið? Nei, reyndar ekki. Þegar ég heyrði þetta lag fyrst var ég örugglega jafnhissa og þegar aðrir heyrðu það fyrst. Þetta lag er bara algert brjálæði. Hann Matti Stef, sem samdi þetta og er með mér í Pöpunum, hann er brjálaður vísindamaður þegar kemur að tónlist. Hann er svolítið fyrir það að fara aðrar leiðir í tónlistinni og oft kemur út úr því mjög kraftmikið og flott dót. Ég sagði fyrst að ég vildi ekki syngja þetta en svo bað hann mig rosalega fallega og ég ákvað að slá til. Þetta er erfitt sönglag en við ákváðum að fara með þetta alla leið. Eurovision-þátttaka þín og félaga þinna í Vinum Sjonna var eflaust skrýtin á sinn hátt. Hvernig mynd- irðu lýsa þessu ævintýri? Það er kannski einmitt best að lýsa þessu með orðinu „ævintýri“. Þetta var ofboðslega skemmtilegt og stundum svolítið súrt og allur tilfinningaskalinn hvað það varðar. Aðstæðurnar sem við förum í keppnina til að byrja með eru náttúrlega hörmulegar en svo þegar öllu er á botninn hvolft þá held ég að Sjonna þætti sjálfum gaman, úr því að hann var að kveðja okkur á annað borð, að senda okkur alla félagana í tveggja vikna utanlandsferð að syngja lagið hans í Eurovision. Þrátt fyrir aðstæður þá held ég að þetta sé á endanum mjög góður og eftirminnilegur tími. Hvernig voru viðbrögð fólks og fjölmiðla í Þýskalandi við sögu lagsins ykkar? Lagið sjálft fékk mjög góðar viðtökur og var að vinna rosalega mikið á allan tímann. Þegar horft er til atkvæðagreiðslu þá er sagan ekki að skila sér nema til svona fimm prósenta af þeim sem horfðu á keppnina. Þannig að lagið sannaði sig og okkur fannst það mjög mikilvægt. Það var búin að vera svolítil leiðindaumræða hérna heima að þetta væru samúðaratkvæði og eitthvað svoleiðis og það að lagið hafi komist upp úr undanúrslit- unum þegar það átti að vera tölfræðilega ómögulegt, það var sigurinn fyrir okkur. Enda sést það á myndbands- upptökum frá því kvöldi hvernig við brugðumst við að þetta var kvöldið sem við unnum Eurovision. Á sviðinu í Düsseldorf smelltirðu kossi á Vigni Snæ. Hvers vegna gerðir þú það og hvaðan kom sú hug- mynd? Upphaflega var þetta bara grín á æfingu en svo fannst okkur þetta passa mjög vel við. Þetta var náttúrlega „tribute“ fyrir Sjonna og hann var týpan sem faðmaði mann og kyssti á kinnina þegar maður hitti hann. Þetta var dálítil vísun í það. Verður eitthvert framhald hjá Vinum Sjonna? Við erum búnir að vera að spila þónokkuð mikið eftir að við komum heim, bæði fyrir nokkur góð málefni auk einhverra dansleikja. Þarna úti tókum við nú upp eitt lag á hótelherbergi sem fór strax í dreifingu þarna úti í Düsseldorf, lag sem Johnny Logan vann Eurovision með árið 1980, What‘s Another Year. Við höfum fengið skemmtilegar viðtökur við því lagi, sérstaklega erlendis. Ég fékk vinabeiðni á Facebook um daginn frá einhverj- um sem heitir Shay Healy og ég kannaðist eitthvað við þetta nafn og þegar ég fletti honum upp á Wikipedia þá var þetta gaurinn sem samdi What‘s Another Year. Hann skrifaði mér heillangt bréf þar sem hann þakkaði okkur fyrir að gera þetta lag. Hann sagðist hafa dreymt um þessa útgáfu lagsins í þrjátíu ár og að hann hefði grátið þegar hann heyrði hana. Ég er búinn að vera í svolitlu sambandi við hann síðan og hann vill endilega hittast úti á Írlandi og gera eitthvað saman, þannig að það er bara spennandi. Nú ferðu með hlutverk Claude í Hárinu sem er að rúlla af stað í Hörpunni. Hvernig er þessi uppsetning þessa fræga söngleiks? Hún er mjög frábrugðin þeim uppsetningum hér á Íslandi, allavega þeim sem voru settar upp 1994 í Íslensku óperunni og 2004 í Austurbæ. Við leggjum meiri áherslu á söguna og dramatíkina í henni, þetta er saga sem spannar allan tilfinningaskalann, frá ofurhamingju- sömum hippum niður í dýpsta svað dópsins, dauðann og allt slíkt. Þetta er ekki bara stuðsýningin Hárið þótt hún sé skemmtileg. Það sem maður sækist eftir í leikhúsi er náttúrlega hlátur og grátur. Við erum að keyra þetta í hringleikahúsi sem við erum búin að setja upp í Hörpunni þannig að fólk er miklu nær leikurunum og upplifir þetta meira beint í æð. Þessi uppsetning er líka dálítið söngvaramiðuð, söngvarinn var látinn ganga fyrir leikarann enda er þetta fyrst og fremst söngleikur. Þú lékst líka í þessum söngleik fyrir einhverjum 17 árum. Fer ferillinn þinn í hringi? Maður leitar kannski svolítið í það sem maður þekkir. Við sem erum að setja þetta upp heitum Silfurtunglið og erum fjórir einstaklingar sem unnum að Rocky Horror með Leikfélagi Akureyrar. Okkur langaði að gera eitthvað meira fyrir norðan og fórum að hugsa hvaða verk gæti hentað okkur vel og væri skemmtilegt. Svo fórum við að sanka að okkur liði sem okkur langaði að hafa með, góðir vinir okkar og fólk sem okkur líður vel í kringum. Það er svolítið andinn sem er í þessu hjá okkur, gamli góði hippafílingurinn. Við erum öll vinir, við erum öll að njóta þess að vera saman og ég held að það skíni svolítið í gegn. Er nektarsenan með í þessari uppsetningu? Það er alveg einhver nekt í sýningunni en við erum ekki með hina eiginlegu nektarsenu. Nektarsenan er svolítið táknræn og var til þess að sjokkera 1967 en í dag er nekt bara svo sjálfsögð. Svo er það eiginlega bara subbulegt að setja á svið svoleiðis senu hjá okkur þar sem nálægðin er svona mikil við áhorfendur, fólk myndi bara finna vonda lykt. Í vor var fjallað um að þú hefðir grennst mikið. Í hvernig átak fórstu og hvernig tókst þér til? Þegar ég sá mig í sjónvarpinu í janúar að syngja Eld- gosið þá fékk ég hálfgert sjokk og hugsaði að þetta væri orðið gott. Það klikkaði eitthvað í hausnum á mér sem ég held að sé nauðsynlegt að gerist til þess að fólk geti tekið ákvörðun um að gera eitthvað í sínum málum. Það er miklu auðveldara að missa kíló heldur en að fá þau á sig, þetta er ekkert mál. Ég þurfti ekki einu sinni að fara í neina rosa líkamsrækt. Það var mikið að gera hjá mér, vorum að setja upp Hárið fyrir norðan og svona, svo ég breytti bara mataræðinu. Það eina sem ég gerði var að hætta að borða brauð, mjólkurvörur, viðbættan sykur og hætti að drekka bjór. Á níu vikum missti ég átján kíló og er búinn að missa einhver fjögur, fimm síðan þá og ætla mér svona tíu til fimmtán í viðbót, þá er ég orðinn fínn. Hvaða augnablik hafa verið toppar ferilsins hingað til? Það verður náttúrlega seint toppað að standa á Eurov- ision-sviðinu úti. Tilfinningin að labba þarna inn með 37.000 manns öskrandi og stappandi var alveg ótrúleg. Ég man reyndar að ég upplifði einu sinni rosalegt augnablik með Dúndurfréttum. Þá vorum við að spila á tónleikum í Laugardalshöll með Sinfóníuhljómsveit Íslands og vorum að flytja The Wall og allt í einu hugsaði ég: „Vá, ég stend hérna á sviði fyrir framan fjögur þúsund manns, ég er fremst hérna, kann ekkert rosalega mikið á gítar en það eru hérna hundrað manns með mér sem eru ótrúlega góðir á hljóðfæri“ og ég fékk liggur við kökk í hálsinn. Það var eitt af stærri augnablikunum, ekki spurning. Ég hef það frá vinum þínum að þú sért dellukarl. Játar þú því? Ég er rosalegur dellukarl og þegar ég fæ einhverja dellu þá fer ég oftast mjög langt með hana. Ég fékk köfunardellu og er núna „master scuba diver“ með yfir tvö hundruð kafanir við Ísland. Svo datt ég í skotveiðina og þá á ég náttúrlega rosalegt vopnasafn. Sömu sögu er að segja um golf- ið, ég keypti mér flottasta golfsettið. Ég veit Enda sést það á mynd- bandsupptökum frá því kvöldi hvernig við brugðumst við að þetta var kvöldið sem við unnum Eurovision. Texti: Einar Lövdahl Gunnlaugsson einar@monitor.is Myndir: Árni Sæberg saeberg@mbl.is YFIRHEYRSLAN Hvort kýstu að vera kallaður Matti úr Eur- ovision eða Matti Papi? Matti Matt bara. Vona að ég fari að komast á þann stað að vera bara þekktur fyrir að vera ég, og þar af leiðandi kenndur bara við sjálfan mig. Led Zeppelin eða Pink Floyd? Já takk! Papar eða Dúndurfréttir? Dúndurfréttir. (Ég fæ að monta mig miklu meira sem söngvari þar.) Hvað væri draumagiggið? The Great Gig in the Sky. Hvort myndir þú frekar vilja syngja dúett með John Lennon eða Freddie Mercury? Freddie Mercury, uppáhaldssöngvaranum mínum.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.