Monitor - 11.08.2011, Blaðsíða 8

Monitor - 11.08.2011, Blaðsíða 8
8 Monitor FIMMTUDAGUR 11. ÁGÚST 2011 Tónlistarmaðurinn Davíð Berndsen vakti fyrst athygli fyrir tveimur árum með alblóðugu tónlistarmyndbandi sem sló í gegn á YouTube. Síðan þá hefur hann gefið út plötu og á í dag vinsælasta lag vinsældarlista Rásar 2, Úlfur úlfur, þar sem sjálfur Bubbi Morthens syngur viðlagið. Í haust eltir hann ástina út til Portúgal og kemur jafnframt til með að troða upp á erlendri grundu í fyrsta skipti. Mér skilst að mamma þín heiti Eydís. Er það þaðan sem þú færð allan áhugann á eitístónlist? Já, ekki nóg með það að mamma mín heiti Eydís heldur heitir mamma samstarfsmanns míns, Hermigervils, líka Eydís. Það er reyndar saga að segja frá því þegar við kom- umst að þessu. Við vorum úti í Amsterdam að taka upp plötuna mína og ég sagði: „Vá, það er ekki tilviljun að ég sé að gera eitísmúsík, mamma mín heitir Eydís,“ og þá sneri hann sér við og sagði: „Mamma mín heitir Eydís líka!“ Þá fattaði maður að þessu var ætlað að gerast. Ef hún héti Nændís, hefðir þú þá farið meira út í „grunge“- rokkið eða kannski júrópoppið? Nei, það er ekki séns. Næntís er í alvörunni það versta sem kom fyrir tónlistarsöguna eða bara mannkynið. Trommuhljómur frá þessu tímabili er það versta sem ég veit um, ég get ekki hlustað á svoleiðis. Ert þú eitthvað skyldur Kalla Berndsen? Við erum fjórmenningar og ég hef hitt hann einu sinni. Við erum náttúrlega báðir búnir að vera eitthvað í fjölmiðl- um að gera sitthvorn hlutinn en báðir að reyna að stela nafninu Berndsen. Ég hitti hann einu sinni á djamminu og ég var nýkominn af árshátíð, í geðveikt fínum fötum og ég kynnti mig fyrir honum. Síðan spurði ég: „Kalli, þarf ég ekki að vera að koma í „meik-öpp“ til þín?“ en þá sagði hann bara: „Nei, þú ert flottur.“ Ég veit að Þórunn Antonía fer til hans, það eru sem sagt tveir Berndsenar í hennar lífi. Þú ólst upp í Vesturbænum og býrð þar. Hvað finnst þér um Vesturbæinga og það hverfi? Vesturbærinn er það sem besta sem hefur komið fyrir mig, ég elska allt sem tengist honum. Ef einhver hringir í mig og biður mig um að hitta sig í Kópavogi eða Mosfellsbæ, þá fer ég alveg í kerfi, mér finnst eins og hann sé í útlöndum. Ég er mjög heimakær, held með KR og á vini þarna. Ég sætti mig við miðbæ Reykjavíkur en Vesturbærinn á hjarta mitt. Lagið þitt Úlfur úlfur er að gera allt vitlaust um þessar mundir. Er ekki ansi töff að vera kominn með það á bransaferilskrána að eiga lag með Bubba? Jú, það er helvíti gott af því að maður ólst upp við tónlistina hans. Ég get sagt þér það að þegar ég var eitthvað að eiga við Bubba í vinnslu lagsins þá hugsaði ég bara: „Hvað er í gangi? Ég er að gera lag með Bubba Morthens! Hvernig komst ég eiginlega í þessa stöðu?“. Fyrir svona tíu árum var ég heima að spila einhver þyrluhljóð á skemmtara og eitthvað drasl, þá átti ég ekki von á að einhvern tímann yrði ég í símanum við Bubba Morthens út af lagi eftir mig. Lagið er í uppáhaldi hjá mörgum þessa dagana. Hvernig viðbrögð hefur þú fengið við laginu sjálfur? Þegar ég heyrði lagið Within You með Gusgus í fyrsta sinn vildi ég hætta að gera tónlist, þetta lag var svo gott. Þeir eru hins vegar fimmtán árum á undan mér hvað varðar reynslu, en svo fékk ég allt í einu Facebook-skilaboð frá Bigga í Gusgus þar sem hann sagði að Úlfur úlfur væri nýja uppáhaldslagið hans. Þá hugsaði ég: „Fokk, djöfull er ég ánægður með þetta“. Síðan sendi Bubbi mér tölvupóst þar sem hann sagðist vera stoltur af mér. Um hvað fjallar lagið? Ég var að kynnast kærustunni minni á þessum tíma og þetta snýst um það. Upphafslínan er „úlfur, úlfur gefðu mér ráð,“ og þá er ég að biðja Bubba um ráð, og svo syng ég „í fjarlægri borg ég hef fundið mér bráð“, og það er þá kærastan mín. Þetta er í raun um það þegar ég var að reyna að veiða bráðina mína, kærustuna, og siglingarkaflinn í textanum er um mig að sigla til hennar en hún erlendis. Manstu eftir því þegar þú hittir Bubba fyrst? Ég hitti hann í fyrsta skipti þegar ég var í ræktinni alveg að skíta á mig með einhver lóð og þá mætir hann og segir: „Taktu þetta drengur!“. Ef Bubbi Morthens segir eitthvað svona við mann þá er ekki hægt annað en að rífa þetta upp, sem ég gerði. Það var mjög fyndið en gjörsamlega „random“, síðan hitti ég hann ekki í fimm ár. Þá hitti ég hann í útvarpsstúdíóinu og vissi ekkert hvernig ég átti að haga mér í kringum hann. Ég kynnti mig fyrir honum og þá settist hann við hliðina á mér og sagði: „Heyrðu, nú þarf ég að lesa fyrir þig ljóð“, bara beint eftir að hann hafði kynnt sig. Svo las hann fyrir mig ljóð í svona tíu mínútur og beint í kjölfarið sagðist hann þurfa að sýna mér nýtt lag og leyfði mér að prófa gítarinn. Ég hugsaði bara hvað hann væri nettur og næs, get ekki sagt annað en að hann sé frábær gaur. Nú á Bubbi heiðurinn af stuðningsmannalagi KR. Kemur ekkert til greina að þú gefir út nýja cover-útgáfu af þessu lagi, verandi KR-ingur? Eða er draumurinn að gefa út nýtt KR-lag? Er nokkuð hægt að toppa þetta lag hans? Ég hef reyndar einhvern tímann verið spurður hvort ég vildi gera stuðn- ingslag fyrir Knattspyrnufélag Vesturbæjar, ég hefði nú átt að gera það. Ég væri þokkalega til í að gera eitthvað lag fyrir KR en við verðum bara að bíða og sjá til með það. Þú ert annálaður fyrir metnaðarfull tónlistarmyndbönd. Hvers vegna leggur þú svo mikið upp úr þeim? Það er vegna þess að ég hef séð það að það skilar sér vel fyrir mína tónlist og ég fæ áhorf hvaðanæva úr heiminum, aðallega á YouTube. Það hefur fengið fólk til að fylgjast með tónlistinni. Mér finnst samt fyrst og fremst gaman að gera eitthvað ferskt og öðruvísi. Þú fékkst tuttugu rauðhærð börn til að leika í mynd- bandinu við lagið Young Boy. Var það einhvers konar yfirlýsing? Nei, fyrsta pælingin mín var að mig langaði að labba á vatni í myndbandinu. Svo datt mér í hug að hafa börn í sundi og ég ætlaði að vera sundkennari sem væri geðveikt strangur. Ég bar þetta undir leikstjórann og svo þróaðist þetta út í að í myndbandinu voru tuttugu rauðhærð börn en svo einn ljóshærður strákur sem kann ekki að synda, þetta vatt bara upp á sig. Þessi myndbönd virka oft þannig að ég fæ bara einhverja hugmynd og svo hugsar maður: „Ókei, en hvernig í fjandanum á ég að framkvæma þetta?“. Hvernig upplifir þú það að vera rauðhærð poppstjarna? Það er mjög skemmtilegt, ég er alltaf að heyra einhverjar útvarpskynningar: „Næsta lag er með Berndsen, sem er einmitt myndarlegasti rauðhærði maður landsins.“ Mér finnst það auðvitað fínt. Ég hef aldrei orðið fyrir neinu aðkasti eða neitt fyrir hárlit minn, mér finnst bara fínt að gera grín að rauðhærðum, eða allavega þeim sem eru ekki með skegg. Þú leggur mikið upp úr litríkum og áberandi klæðnaði. Ert þú „sponsoraður“ af einhverri „vintage“-búð eða ertu með stílista? Stílistarnir eru vinir manns, mamma, ömmur manns og maður þiggur það sem finnst og gefst. Það eru margir sem halda að ég kaupi þennan klæðnað dýrum dómum en ég finn þetta bara í fataskápum hjá afa og ömmu. Ef það er gamalt, flott og litrækt þá klæðist ég því. Hefur velgengni tónlistarinnar þinnar hingað til verið öll þér að þakka eða er hljómsveitin The Young Boys þér mikilvæg? Það er varla hægt að vera að gera þetta allt einn. Þeir sem hafa hjálpað mér mest eru til dæmis Hermigervill, sem vann plötuna með mér, en hann er þekktur sem „legend“ í bransanum. Svo hafa margir verið skemmtilega tilkippilegir upp á að koma í upptökutarnir og svo eru Young Boys mikilvægir. Maður er ekkert einn í þessu, ég kem með einhvern grunn og fæ svo vini sína til að hjálpa en ég á svo reyndar lokaorðið. Hvert er eftirminnilegasta giggið hingað til? Það er fyrsta giggið, á Réttum í Reykjavík, þá var maður svo ógeðslega stressaður. Það var troðið af fólki en Supert- ime-myndbandið var nýkomið út og það kom fullt af fólki sem vildi örugglega berja bandið augum sem gerði þetta klikkaða myndband. Það var ótrúlega mikil stemning og ég man að vinir mínir voru þarna fremst kallandi: „Bernd- sen! Berndsen! Berndsen!“ en á meðan var ég skjálfandi baksviðs. Nú skaust netstjarnan Nilli fram á sjónarsviðið þegar hann ruddist inn í viðtal við þig til að hrósa þér í hástert. Hefur þú haldið einhverju sambandi við hann? Ég hitti hann voða oft bara úti á götu, hann er alveg yndislegur strákur og það er gaman að sjá hvað það gengur vel hjá honum. Annars höfum við ekki gert neitt saman eða þannig. Ég vona bara að hann klæðist stundum Berndsen-bolnum. Þú ert að fara að flytja til Portúgal og ert kominn með þýskan umboðsmann. Er heljarinnar útrás í gangi? Það má segja það, ég er sem sagt með sama umboðsmann og hljómsveitin Who Knew, þeir eru búnir að vera mjög duglegir að spila erlendis og við erum sem sagt að fara að hita upp fyrir þá. Svo er búið að redda okkur fleiri tónleikum og platan okkar verður gefin út í Berlín í október og við ætlum að fylgja henni eftir þar. Hvað felur þessi samningur við þýska umboðsmanninn í sér? Bara að ég þurfi ekki sjálfur að vera með puttana í öllu. Það er erfitt að vera sífellt að senda einhverja tölvupósta og koma tónlistinni á framfæri þegar mann langar í raun bara að vera að gera tónlist. Umboðsmennirnir eru náttúr- lega í vinnu við þetta og þeir geta reddað tónleikum sem maður sjálfur á erfitt með að redda. Grundvöllurinn fyrir því að ég sé að fara út með þessa tónlist er aðallega bara vegna þess að myndböndunum mínum hefur verið vel tekið. Við eigum orðið ágætis aðdáendahóp úti, ég hef fengið sterk viðbrögð utan úr heimi vegna myndbandanna. Ég hef fengið tölvupósta frá Mexíkó, Kólumbíu og fleiri stöðum þar sem fólk hefur beðið mig um að halda tónleika í þeirra heimalandi og það hafa til dæmis rúmlega 500 þúsund séð myndbandið við Supertime. Svo er platan til á öllum Texti: Einar Lövdahl Gunnlaugsson einar@monitor.is Myndir: Sigurgeir Sigurðsson sigurgeir@mbl.is „Djöfull er ég ánæ HRAÐASPURNINGAR Fyrstu sex: 230185. Uppáhaldsstaður í heiminum: Amsterdam. Uppáhaldsmatur: Mömmumatur, auðvitað. Uppáhaldstónlistarmaður: Andy McCluskey. Uppáhaldslag úr eigin smiðju: Lover in the Dark. Draumagiggið: Royal Albert Hall. Helsti kostur: Ég er góður strákur. Versti ávani: Ég hristi annan fótinn minn þegar ég sit kyrr. Ég hitti hann í fyrsta skipti þegar ég var í ræktinni og var alveg að skíta á mig með einhver lóð og þá mætir allt í einu Bubbi og segir: „Taktu þetta drengur!“.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.