Monitor - 18.08.2011, Side 8

Monitor - 18.08.2011, Side 8
8 Monitor FIMMTUDAGUR 18. ÁGÚST 2011 Þú ert að læra guðfræði í háskólanum. Hvað kemur til? Ég er búin með þrjátíu og tvær einingar en hef ekkert gert í þessu frá 2009, í vetur ætla ég að reyna að taka tvo áfanga með vinnu. Ég vissi ekki neitt um þetta fag áður en trúmál hafa alltaf heillað mig. Ég hef alltaf sett stórt spurningamerki við þau ásamt því að óttast þau og þess vegna ákvað ég að kasta mér út í djúpu laugina. Í rauninni fór ég í guðfræði til að kynna mér málin og hef heillast mjög af faginu. Trúir þú á Guð? Já, ég trúi á Guð. Ég held að það geti ekki verið að allt sé tilviljun, ég held að það hljóti að vera eitthvað æðra. Ég komst líka að því að maður hefur um tvo kosti að velja, að trúa eða trúa ekki og maður er í rauninni bara snauðari með því að trúa ekki. Svo þegar ég dey þá kemst ég kannski að því að það var enginn tilgangur með því að trúa en ég átti allavega, að ég held, betra líf í þeirri blekkingu að trúa (hlær). Þú ólst upp í miðbænum. Ert þú miðbæjarrotta? Örugglega myndu margir segja það. Ég get ekki hugsað mér að búa hvar sem er, ég gæti búið í miðbænum, Vesturbænum eða kannski bara svolítið út fyrir bæinn. Nú er ég alin upp í miðbænum svo allir vinir mínir búa þarna. Ég held að það sé meira aðdráttarafl í því frekar en við staðsetninguna eða nálægðin við barina, þótt það hafi kannski verið málið þegar maður var í leiklistarskólanum. Þú ert stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hvernig týpa varstu í menntaskóla? Ég fór alla leið í „MH-týpunni“ sem átti að heita í þá daga. Ég prófaði allar tegundir af fatasmekk og var með alls konar hárgreiðslur og ég man sérstaklega eftir einu dressi. Þá var ég stutthærð, með strípur, í röndóttum sokkabuxum, fjólubláum kjól og gulum leðurjakka. Ég man að þá hugsaði ég: „Nei, þetta er of mikið“, svo þá fór ég að leita aðeins til baka aftur, þarna náði ég hápunkti týpunnar. En ég var í leikfélaginu öll árin og tók menntaskólaárin með trompi, mér fannst mjög gaman í menntaskóla. Beint eftir leikaranámið landaðir þú hlutverki Línu Langsokks. Átt þú margt sameiginlegt með Línu Langsokki? Ólst þú upp við sögurnar af henni? Já eða ég held að flestar stelpur vilji eiga eitthvað sameiginlegt með henni. Hún er svo hugrökk og flott og hún er allavega rosalega góð fyrirmynd. Ég ólst reyndar ekki upp við hana en ég þekkti hana auðvitað, ég var enginn brjálaður aðdáandi þannig. Maður heillaðist samt strax af þessari týpu sem gerði einhvern veginn allt öfugt, svaf með fætur á koddanum, labbaði aftur á bak, geymdi hestinn sinn inni í eldhúsi og bakaði pönnukökur á gólfinu. Hún er svona nettur pönkari og brýtur reglurnar, hún er frábær týpa. Mér skilst að þú sért hundaeigandi. Getur þú sagt mér aðeins frá hundinum? Ég átti hund í nokkra mánuði en það gekk því miður ekki, ég var ekki nógu mikið heima til að geta sinnt honum. Svo er ég reyndar líka með ofnæmi fyrir hundum en ég ætlaði að reyna að horfa framhjá því. Það var samt mjög jákvæð lífsreynsla. Mig langaði að vera svona hundaeigandi, mér finnst þeir einhvern veginn alltaf svo rólegir og stabílir, alltaf í göngutúrum. Ég ætlaði að kaupa mér það með því að fá mér hund. Ég heyrði að þú værir í víkingaþreki hjá Mjölni. Ert þú lúmskur slagsmálahundur? Heyrðu, þetta er algert bull. Ég stunda jóga í jógastöð sem er við hliðina á Mjölni. Það gerðist einu sinni að tíminn minn þar féll niður svo ég fór í prufutíma hjá Mjölni og þá kom þessi einkennilega frétt, „Ilmur tekur á því eins og víkingur“. Ég var ekki einu sinni allan tímann, ég var þarna í tuttugu mínútur að lyfta ketilbjöllum en núna halda allir að ég sé í svaka formi að æfa víkingaþrek (hlær). Nú er leiklistarsenan á Íslandi lítil og væntanlega mikil samkeppni um hlutverk. Er þetta mikil barátta? Áttu óvini innan stéttarinnar? Nei, ekki svo ég viti en það getur svo sem vel verið (hlær). Ég veit hins vegar ekki af þeim og á meðan það er þannig þá er það bara fínt. Maður finnur ekki fyrir baráttu en auð- vitað komast kannski færri að en vilja en það er kannski bara eins og með allt almennt í lífinu. Ég held samt að ef þú vilt eitthvað nógu mikið þá færðu það. Hvort finnst þér sjálfri skemmtilegra að fara í leikhús eða bíó? Mér finnst skemmtilegra að fara í leikhús, jafnvel þótt ég sé á leiðinlegri leiksýningu, af því það er eitthvað svo huggulegt. Það er ákveðin friðhelgi í leikhúsi, ég meira að segja sofna oft, það er mjög þægilegt að sofna í leikhúsi. Þú gleymir þér alveg og þú svarar til dæmis ekki SMS-um í leikhúsi eins og sumir gera í bíó. Svo finnst mér reyndar oft þægilegra að horfa á bíómyndirnar heima frekar en í bíó. Auðvitað finnst mér leikhúsið líka bara heillandi heimur, ég er oft að fylgjast með fólki sem ég þekki og þetta er kannski meira fyrir mig að spá í. Þú hefur verið dugleg að leika í sjónvarpsþáttum, til dæmis í Stelpunum þar sem landslið fyndinna leik- kvenna var saman komið. Var ekki mikil samkeppni um hver væri fyndnust? Nei nei, við vorum bara að skemmta okkur og við vorum náttúrlega langflestar að skrifa ásamt því að leika en réð- um því ekkert endilega hver lék hvað. Það fannst öllum þetta æðislega gaman og eftir á að hyggja er maður mjög stoltur af þessu framtaki. Konur í sjónvarpi voru ekkert algengar og meira að segja enn þann daginn í dag horfir maður á á vetrardagskrána og það er oft fátt um fína drætti þegar kemur að efni þar sem konur eru ráðandi. Ofnæmiskonan í þáttunum er sennilega einn fyndn- asti karakter sem þú hefur leikið. Er hann byggður á einhverjum sem þú þekkir? Bara á sjálfri mér. Ég þekki hana mjög vel, þetta er „alter- egóið“. Ég var með flöskubotnagleraugu þar til ég var tólf ára og er svona ofnæmis- og exemsjúklingur alveg frá því að ég var barn þannig að það var kannski mesti óttinn að ég yrði svona týpa alla tíð (hlær). Það hefur alltaf verið vesen á mér í sambandi við þvottaefni og hvað er á gólfunum og svo framvegis. Nýverið var tilkynnt að gerð yrði önnur þáttaröð um Ástríði. Upplifir þú þig sem hina íslensku Sarah Jessica Parker eftir að hafa leikið Ástríði? Nei, hún er kannski ekki alveg jafnkúl og persónan sem Sarah Jessica Parker leikur og á ekkert að vera kúl. Ég er mjög spennt fyrir því að gera aðra seríu, maður lærði mjög mikið af fyrstu seríunni. Við fengum góð viðbrögð við henni en þau létu samt bíða dálítið eftir sér. Þættirnir voru sýndir um haustið fyrir tveimur árum en síðasta vetur fór fólk að senda mér tölvupóst og Facebook-skilaboð þar sem það var að spyrja hvort það kæmi ekki önnur sería og fólk var þá búið að horfa á þetta í flugvélunum og á DVD. Það var líka mikið af karlmönnum sem héldu að þetta væri stelpuþáttur sem fannst þetta síðan mjög fyndið, það var mjög gaman. Nýjasti þátturinn heitir Borgarilmur þar sem þú flakkar um hinar ýmsu borgir. Var það ekki draumavinna að fá borgað fyrir að fara í menningarferðir? Vinir mínir hötuðu mig þegar ég fékk þessa vinnu enda var þetta mjög skemmtilegt. Ég skrifaði handrit að þáttunum ásamt stráki sem heitir Hannes Páll Pálsson þannig að við fengum dálítið að ráða hvað ég gerði. Við vorum að reyna að gera ótýpíska hluti og hitta skemmti- legt fólk og það var einmitt það sem stóð upp úr, í hverri einustu borg hitti ég svo áhugavert fólk. Hvað stendur upp úr heimsflakkinu? Fólk sér það nú í þáttunum því það er erfitt að gera upp á milli. Til dæmis fannst mér Halifax ekkert hljóma sem neitt brjálæðislega spennandi borg fyrirfram en þar datt ég inn á myndlistarsýningu hjá skemmtilegri konu. Hún var blaðakona en byrjaði að mála fyrir tíu árum síðan og ættleiddi stelpu frá Kína og ætlaði að fræða hana um Nova Scotia, sem er parturinn af Kanada sem Halifax tilheyrir, og þá komst hún að því að hún vissi ekkert um neinar konur þaðan sem hefðu gert það gott. Þá ákvað hún að grafa upp merkilegar konur frá svæðinu og málaði portrettmyndir af þeim og þessi sýning var sem sagt með níu myndum af kvenskörungum Nova Scotia. Þessi sýn- ing og frumkvæði hennar gladdi mitt feminíska hjarta. Lærðir þú mikið af ferðalaginu? Á þessu ferðalagi mínu fattaði ég alveg hvað Ísland er flott land til að ferðast um og reyndar líka eitt sem ég hafði aldrei pælt í áður og það er hvað það er mikið pláss á Íslandi. Ég var í París og þá var einn maður að kvarta yfir því að það væri hvergi pláss í kringum hann. Hann býr í íbúð sem er pínulítil, rekur krá sem er pínulítil og ferðast þangað með neðanjarðarlestum sem eru troðfullar og þá fattaði ég hvað við værum heppin að eiga mikið pláss og þú þarft ekki að keyra nema í hálftíma hérna úr Reykjavík og þá ertu kominn í algera sveitasælu. Hvernig finnst þér að horfa á sjálfa þig á hvíta tjaldinu eða í sjónvarpi? Ég horfi nú ekki mikið á mig, ég held að ég hafi séð Ástríðarseríuna einu sinni. Stundum er samt vandræða- legt hvað mér finnst ég sjálf fyndin eins og um daginn var dóttir mín allt í einu að spila Stelpurnar í tækinu heima og þá stóð ég sjálfa mig að því að vera límd fyrir framan þetta með henni að hlæja að sjálfri mér og það var svolítið vandræðalegt, sérstaklega af því að það voru gestir. Ég forðast samt að horfa á mig og það er kannski kosturinn við að gera eitthvað fyrir sjónvarp eða bíó. Maður vinnur eitthvað verkefni og svo þarf maður ekkert að pæla í því meira en í leikhúsinu er maður alltaf að mæta áhorfendum kvöld eftir kvöld. Nú heita einungis nítján stelpur eða konur nafninu Ilmur á landinu og eru þær langflestar fæddar á eftir þér. Hvernig hefur nafnið reynst þér? Við erum einmitt tvær sem heitum þessu í leikhúsinu, hin er leikmyndahönnuður og myndlistarkona og heitir Ilmur Stefánsdóttir. Það er reyndar alltaf verið að rugla okkur saman, ég fæ símtöl sem eiga að fara til hennar og öfugt og ég hef verið sögð Stefánsdóttir á forsíðum blaða. Ég man hvað ég var glöð að hitta nöfnu mína þegar við hittumst fyrst, fram að því var ég mjög ein. Þegar ég var lítil stríddi systir mín mér mikið og kallaði mig „Fýlu“. Vegna þess var ég reyndar orðin svo ónæm fyrir stríðni út af nafninu þegar ég síðan byrjaði í skóla þannig að ég var aldrei uppnefnd þar, það var bara eldri systir mín sem sá um það. Í seinni tíð þykir mér bara vænt um að heita svona sérkennilegu nafni. Ég skírði dóttur mína Auði en það nafn hafði alltaf fylgt mér. Fólk var vant að segja við mig að Ilmur væri karlmannsnafn, af því að það er „hann ilmurinn“, en ég man eftir því þegar ég var fimm ára í Sundhöllinni að útskýra fyrir sund- laugarverði að Ilmur beygðist eins og Auður og það væri kvenmannsnafn. Ég var með æft mótsvar við þessari athugasemd. Þegar þú flakkaðir um borgirnar fyrir þættina þína, kynntir þú þig þá undir nafninu Smell? Nei, frekar Ilmur (með amerískum hreim). Ef einhver spyr mig hvað það þýðir þá segi ég heldur ekki „smell“ heldur „frag- rance“ eða „scent“, það hljómar miklu betur. Texti: Einar Lövdahl Gunnlaugsson einar@monitor.is Myndir: Ernir Eyjólfsson ernir@mbl.is Flestir þekkja guðfræðinemann Ilmi Kristjánsdóttur sem eina fyndnustu leikkonu landsins. Monitor yfirheyrði hana um stórborgaflakkið, nafnið hennar og ofnæmisvesenið. Sofnar oft í leikhúsi HRAÐASPURNINGAR Fyrstu sex: 190378. Uppáhaldsmatur: Ef ég ætti að fara út að borða í kvöld, þá myndi ég vilja komast á eþíópískan stað. Uppáhaldsleikari: Ég spái ekkert rosa mikið í leikarana. Auðvitað eru til leikarar sem er alltaf gaman að horfa á, til dæmis Emma Thompson, en mér finnst einmitt þau skipti sem maður gleymir að horfa á leikarann og einblínir á hlutverkið þá er verið að gera besta djobbið. Draumahlutverkið: Ég hef í raun aldrei átt neitt draumahlutverk og á það ekki enn en ég fæ samt tilhlökkun fyrir að leika ákveðin hlutverk eins og í vetur er ég að fara að leika í Svari við bréfi Helgu og af því að mér fannst bókin svo æðisleg þá hlakka ég til að setja það á svið. Helsti kostur: Hann er í senn minn mesti löstur, það er hvað ég er gleymin. Versti ávani: Ég er mjög skapvond á morgnana en langar að vera meiri morguntýpa. Stundum er samt vandræðalegt hvað mér finnst ég sjálf fyndin.

x

Monitor

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.