Monitor - 01.09.2011, Blaðsíða 6

Monitor - 01.09.2011, Blaðsíða 6
6 Monitor FIMMTUDAGUR 1. SEPTEMBER 2011 Þó ekki sé nema rúmt ár síðan Hilmar Guðjónsson útskrifaðist úr Leiklistarskólanum hefur hann strax náð að setja svip sinn á íslenskt leikhúslíf. Hann er fastráðinn í Borgarleikhúsinu og lærir þessa dagana hvernig á að leika fuglahræðu. Á morgun verður svo frumsýnd kvik- myndin Á annan veg en þar spreytir Hilmar sig í fyrsta sinn á aðalhlutverki í bíómynd. Hilmar og leitin að Þú ólst upp á Seltjarnarnesinu. Varstu athyglissjúkur ungur drengur? Ég veit það ekki sjálfur en ég er ekki frá því. Ég var orkumikill og glaður. Það var svolítið þannig að það voru allir vinir mínir í bekknum þannig að þegar átti að refsa mér með því að færa mig eitthvert annað í skólastofunni þá talaði ég alveg jafnmikið við nýja sessunautinn. Þá var ég bara sendur fram á gang. Ég var svolítið mikið frammi á gangi. Þú æfðir fótbolta með KR lengi vel og varst þekktur fyrir gríðarlegt keppnisskap. Var stefnan aldrei sett á atvinnumennskuna? Jú jú jú, ég ætlaði að verða fótboltamaður en ég var meiddur 70% af tíma mínum í öðrum flokki svo ég sagði skilið við þann draum. Nú spila ég bara við kollega mína í leiklistinni einu sinni í viku. Þú æfðir líka samkvæmisdansa á unglingsárunum. Ég var í rokkdansi. Þar var Elvis Presley og gott tjútt. Mikið um spörk og svo lyfti ég henni Guðríði, dansfélaga mínum, voðalega mikið. Þegar ég var níu ára voru svona lyftur alveg málið. Það var mikill kraftur í þessu. Ég topp- aði í dansinum þegar ég fór í Hemma Gunn. Skömmu seinna fórum við í Stundina okkar en það var í raun skref niður á við miðað við giggið hjá Hemma. Fortíðin bankar oft á dyrnar hjá þér þegar fólk rifjar það upp að þú hafir verið fyrstur til að leika Rauða ljónið, lukkudýr KR. Er það skemmtilegt að eiga á ferilskránni eða er þetta draugur sem þú vilt helst losna við? Þetta var virkilega gaman og það er góð minning að hafa mest verið með 5000 tryllta áhorfendur að horfa á mig á meðan ég var eitthvað að bulla eins og ég vildi og enginn vissi hver ég var. Þetta var mikið frelsi fyrir mann eins og mig. Þegar þú varst í Kvennó sameinuðu nokkrir nemendur úr MR, Verzló, MH, Kvennó og MS krafta sína undir merkjum leikfélagsins Þrándar. Þar fórst þú með aðalhlutverkið í sýningunni Fullkomið brúðkaup. Var það bara einn liður í leiklistarplaninu mikla? Þarna var ég að fíla það í botn að taka þátt í svona sýningum. Þetta var samt sem áður mikil keyrsla þannig að á þriðja ári í Kvennó var ég sviðsmaður. Ég vann líka lengi vel sem ljósamaður í Iðnó þannig að ég er búinn að prófa alla pósta leikhússins. En ég var allan tímann á leið í leiklistina. Árið 2004 lékstu í Geitinni í Borgarleikhúsinu og kysstir þar Eggert Þorleifsson. Hvernig var að kyssa miðaldra mann verandi sjálfur tvítugur piltur? Það var partur af prógrammet. Ég sætti mig alveg við það. Ég vissi samt í raun ekkert hvað ég var að gera. Allt í einu kom koss og svo kom frumsýning. Engin frunsa sem fylgdi þessu? Nei, ég hef aldrei fengið frunsu. 7, 9, 13. Sama ár útskrifast þú úr Kvennó og ári seinna lá leiðin í Hússtjórnarskólann. Hefur þú alltaf haft svona mikinn áhuga á því að prjóna? Pældu í því, í áttatíu ára sögu skólans hafa bara fimm karlmenn setið þar á skólabekk. Ég hef ekki alltaf haft áhuga á því að prjóna en það var frábært að fara í þenn- an skóla og vefa, þrífa, baka, sauma og prjóna. Ég tók próf í að strauja skyrtu svo að þú mátt alveg endilega pikka í mig ef það er eitthvað krumpuð hjá þér skyrtan. Gefur þú núna öllum prjónaðar flíkur í jólagjöf? Já, allir í fjölskyldunni fengu ennisbönd með nöfnun- um sínum sem ég og kærastan prjónuðum fyrir þau. Þorláksmessa það árið fór alveg í þetta. Við sátum bara í sófanum og prjónuðum ennisbönd. Sumarið 2005 fórstu til Kína í þrjá mánuði. Síðan þá ert þú þekktur á meðal vina fyrir marga fróðleiksmola um Kína. Getur þú deilt einum slíkum með lesendum Monitor? Það eru mörg innlegg hjá mér í samræður sem hefjast á: „Þegar ég var í Kína.” Ég get einmitt sagt ykkur það að Kínverjar borða alltaf kjötið og grænmetið fyrst en borða sig svo sadda af hrísgrjónum. Þeir nota hrísgrjónin ekki með matnum endilega. Og ég sá aldrei djúpsteiktar rækjur í Kína þó ég hafi farið hringinn. Það er eitthvað vestrænt fyrirbæri. Haustið 2005 komst þú ekki inn í Leiklistarskólann. Voru það ekki vonbrigði? Jú, það voru vissulega vonbrigði en um leið var það alveg frábært. Fram að því hafði ég fengið já við öllu sem ég hafði gert í leiklist. Þetta fékk mig því til að hugsa minn gang, hvort þetta væri málið og hvort þetta væri það sem ég vildi gera. Ég var því alveg hundrað prósent viss þegar ég fór aftur í prufu ári seinna. Haustið 2006 liggur sumsé leiðin í Leiklistarskólann. Var það snilldin ein? Þetta var yndislegur tími. Ég var með frábærum krökkum í bekk. Við unnum alveg svakalega vel saman. Það voru allir saman í liði og við hjálpuðum hvort öðru; engin samkeppni í gangi. Bara gleði. Sama ár leikur þú særðan sjóliða í Flags of our Fathers. Ætlaðir þú þannig að stytta þér leið til Hollywood? Nei (hlær). Ég ætlaði bara að fá að vera fluga á vegg í svona risastóru verkefni. Það leiddi svo til þess að ég fékk þarna smá hlutverk. Fékkstu línu? Já, ég sagði „coreman” tvisvar sinnum. Það átti ekki að vera nein lína en Clint sagði svo við mig að ég mætti segja þetta þegar ég sæi Ryan Phillippe koma skríðandi til mín. Þetta er svona hermál yfir læknaliða. Þetta var ótrúlega falleg sena; Hollywood-rigning og allt og hann kom og bjargaði lífi mínu. Sumir leikarar eru í eilífri leit að verkefnum en þú ert fastráðinn strax eftir að þú útskrifaðist úr Leiklistar- skólanum. Ertu ekki þakklátur í hjartanu? Ég er rosalega þakklátur og geri mér grein fyrir því að það er alls ekki gefið að fá þetta tækifæri. Þetta verður kannski ekki alltaf svona. Ég reyni því að njóta þess að vera þarna á meðan ég get. Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér? Frábær. Þessa dagana er ég bara að syngja og dansa í Galdrakarlinum í Oz. Við leikararnir erum að vinna saman fyrir hádegi og svo eftir hádegi koma til okkar þrjátíu og sex krakkar og æfa með okkur stóru senurnar. Það er virkilega gaman að vinna með krökkum, þau eru svo stútfull af leikgleði. Finnst þér ekkert óþægilegt að vera svona líkur Ben Stiller? Nei, nei. Ég hef alveg séð eitthvað líkt með okkur í einhverri af myndunum hans. En hann er fyndinn og sniðugur svo það er í góðu lagi. Það væri leiðinlegt ef þetta væri einhver leiðindagaur. Í síðustu viku sást þú í forkunnarfagri Speedo-sund- skýlu í innslagi í Týndu kynslóðinni. Setur hún mikinn svip á þig sem einstakling? Já, ég fékk hana í Spörtu, sportvöruverzlun pabba míns sem lokaði fyrir einhverjum þrettán árum síðan svo að ég held upp á hana. En ég keypti mér nýja skýlu um daginn en ég þarf að laga hana. Teygjan undir buxunum heldur ekki öllu svo ég þarf að smella teygju í hana. Nú ertu svo að fara að birtast í fyrsta sinn í aðalhlut- verki á hvíta tjaldinu. Kvikmyndin Á annan veg er frumsýnd um helgina. Var þetta ekki skemmtilegt ferli? Þetta var alveg gjörsamlega frábært. Þetta var verkefni sem var unnið af ástríðu og metnaði svo ég fékk alveg svakalega mikið út úr þessu. Við leikararnir fengum að koma mjög mikið að undirbúningnum, fengum að koma að samtölunum og hafa smá áhrif á þetta allt saman. Þannig að þetta stendur mér nærri. Verður skrýtið að horfa á sjálfan sig í bíó? Við forsýndum myndina síðasta laugardag á Patreks- firði en myndin er tekin þar í kring. Myndin gerist árið nítjánhundruðáttatíuogeitthvað og það var mikið hlegið að alls kyns nostalgíu sem fólk tengdi við; klæðnaði, tónlist og fleiru. Patreksfirðingar tóku mjög vel í þetta og ég er því bara spenntur að sýna þetta í höfuðborginni. Hlærðu alveg svakalega mikið að sjálfum þér jafnvel? Já, stundum geri ég það. Stundum segi ég meira að segja eftir mitt eigið grín: „Heyrðu, þessi var nú bara svolítið góður hjá mér.” Þá er ég svona að meta grínið hjá mér. En ég hef líka húmor fyrir sjálfum mér og geri grín að því hvað ég er lítill og svona. En þú ert samt með stórt hjarta? Ég er með stórt hjarta þó ég sé enginn sláni. Hvert er svo framhaldið? Framhaldið er að frumsýna Á annan veg og fara svo með hana á kvikmyndahátíð á Spáni. Ég er einmitt að leita mér að hörjakkafötum til að klæðast á rauða dreglinum þarna í mollunni. Svo er ég að fara að leika í Galdrakarlinum í Oz og í Fanný og Alexander. Ég þarf líka að fara að borga leiguna og skatt. Svo skulda ég símreikn- ing líka. Ég þarf að finna sniðuga lausn á því. jrj Ég toppaði í dansinum þegar ég fór í Hemma Gunn. Skömmu seinna fórum við í Stundina okkar en það var í raun skref niður á við miðað við giggið hjá Hemma.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.