Monitor - 01.09.2011, Síða 13

Monitor - 01.09.2011, Síða 13
13FIMMTUDAGUR 1. SEPTEMBER 2011 Monitor Eftir að hafa verið með annan fótinn í blaðamennsku frá því hann útskrifaðist úr Verzlunarskóla Íslands árið 2005 tók Björn Bragi við stjórnartaumunum hjá Monitor á haustdögum árið 2009. Skömmu seinna urðu miklar breytingar á blaðinu og það fór að koma út vikulega. En Björn Bragi þrífst á áskorunum og bjó til Monitor í þeirri mynd sem það birtist lesendum í dag. Því þó Björn Bragi sé sjálfur snotur, snjall og sniðugur þá kann hann listina að leyfa öðrum að láta ljós sitt skína og hann heldur því áfram á skjánum í vetur þar sem hann fær til sín skemmtilega gesti í hverri viku. Monitor ræddi við Björn Braga um skýrslutökur hjá lögreglunni, leitina eilífu að viðurkenningu og leiðina inn í skemmtanaiðnaðinn. Þú hleyptir núverandi ritstjóra Monitor í ritstjórastólinn eftir að þú fékkst hann til að sverja þess eið að þú myndir komast á forsíðuna innan þriggja mánaða. Hvernig líður þér með það nú þegar stundin er runnin upp? Ég er mjög ánægður með að þú hafir virt þennan frest sem ég setti þér því annars hefði ég þurft að grípa til að- gerða sem hefðu verið mjög óþægilegar fyrir okkur báða. Nei, nei, svipurinn á mér á forsíðunni lýsir best hvað það kom mér skemmtilega á óvart að þú skyldir fá mig. Þú varst mjög uppátækjasamur sem krakki. Viltu deila einhverjum uppátækjum með lesendum Monitor? Verður þetta viðtalið þar sem allt kemur upp á yfirborð- ið? Þeir sem þekktu mig í gamla daga og hafa ekki hitt mig í svona tíu, fimmtán ár halda eflaust margir að ég sé eitthvað ruglaður og hefðu kannski frekar átt von á því að sjá mig inni á stofnun en í sjónvarpinu. Æskuvinur þinn sagði mér að þú hafir verið eltur af eiganda vídjóleigu sumarið 1997. Stenst það? Já, þá var ég með tveimur félögum mínum og við ákváðum að stela klámmynd á vídjóleigu í Skeifunni. Ég tók það náttúrlega á mig eins og flest önnur skíta- verkefni. Þá voru VHS-spólurnar í hulstrunum og það var þjófavörn í dyrunum. Ég setti spóluna í pokann og labbaði út og þá fór kerfið í gang. Ég varð svo hræddur að ég spretti af stað og tók fyrsta strætó sem fór með mig bara eitthvert. Ég endaði einn einhvers staðar í Breiðholti með poka með stolinni klámmynd. Það fyndna er að ég held ég hafi aldrei horft á myndina. Ári seinna kemstu aftur í hann krappann. Þá kom bifreið, klósettpappír og jafnvel löggan við sögu. Manstu eftir því? Nú ertu greinilega búinn að tala við Þórarin, vin minn, sem var hægri hönd mín í öllum ódæðisverkunum á unglingsárunum. Við vorum svolítið mikið fyrir að hrekkja fólk, enda var eitthvað að okkur báðum. Þarna vorum við fjórtán ára og vorum farnir að fara mikið út á nóttunni til að gera bara eitthvað. Við lokuðum til dæmis veginum við Rauðavatn með einhverjum skiltum þar sem við vorum að vara við slysahættu. Svo tókum við myndir af bílunum sem komu þarna og þurftu að stoppa. Eitt kvöldið fórum við og hentum eggjum í bíl vinar okk- ar og vöfðum hann allan inn í klósettpappír. Daginn eftir kom löggan heim til okkar beggja því allir vissu hverjir voru hinir seku, það fór ekkert á milli mála. Einhverjum vikum seinna fórum við í skýrslutöku. Tóti byrjaði á því að fara með pabba sínum og þvertók fyrir allt saman, bara: „Nei, ég kom ekki nálægt þessu. Ég veit ekkert hvað þið eruð að tala um.” Svo nokkrum dögum seinna var ég boðaður í skýrslutöku og ég bara bugaðist strax og játaði allt. Þá var Tóti búinn að vera þarna í einhverju heillöngu viðtali og ljúga að foreldrum sínum og ljúga að löggunni en ég kom bara og bugaðist eftir eina mínútu. Einhvern tímann fékk Tóti afrit af skýrslunni og þar kom ég út eins og mesti auli í heimi í þessu máli. Það er kannski þess vegna sem hann er lögfræðingur í dag en ég trúður. Tóti vinur þinn olli þér líka vonbrigðum þegar þú varst 9 ára á Shell-mótinu 1993, ekki satt? Jú, það var þannig að ég var alltaf sóknarmaður og var markahæstur eftir að helmingurinn af mótinu var búinn. Ég stefndi hraðbyri að því að verða marka- hæstur og fá þar með bikar en mig langaði alltaf svo í bikar. Svo tekur þjálfarinn ákvörðun um að gera taktíska breytingu og setur Tóta upp á topp og mig á miðjuna. Ég vil meina að það hafi verið af því að hann þurfti einhvern meira skapandi á miðjuna. En þetta endar með því að ég var bara að leggja upp mörk fyrir Tóta og hann varð markahæstur þarna í C-liðunum og fékk bikar að launum. Ég var mjög bitur yfir þessu í langan tíma og mamma og pabbi þurftu að kaupa handa mér bikar. Og var það fyrsti bikarinn sem þú fékkst? Já. Vinir mínir gerðu mjög mikið grín að mér fyrir það en foreldrar mínir vildu bara reyna að draga úr vonbrigðum mínum. Það stóð ekkert á bikarnum en þetta áttu að vera einhverjar sárabætur. Það er kannski þess vegna sem ég er enn þann dag í dag í eilífri leit að viðurkenn- ingu (hlær). Hefðu margir veðjað á að þú yrðir sjónvarpsstjarna? Klárlega ekki af því ég var allt of ljótur sem krakki til að vera settur á skjáinn. Ég var með risastór gleraugu, teina og leit bara út eins og frík. Það hefði verið mjög skrýtið að veðja á mig á þeim tíma. Einhverjir hafa kannski haldið að ég gæti endað í útvarpinu. Sem betur fer þá lagaðist ég aðeins með árunum svo það er alla vega hægt að horfa á mig í dag. Árið 2000 hefur þú nám við Verzlunarskóla Íslands. Átti Verzló einhvern þátt í að móta þig sem einstakling? Já, Verzló var æðislegur skóli. Mér fannst svo gaman hvað skólinn var eins og lítið samfélag þar sem krakk- arnir fá að gera allt og upplifa smækkaða mynd af því ýmsu sem tekur seinna við. Þá er ég að tala um félagslíf- ið. Ég var allt í öllu í félagslífinu en að sama skapi eyddi ég litlu púðri í námið á þeim tíma. Ég hef aldrei séð eftir því. Mér fannst ég læra mjög mikið af öllu sem ég gerði í félagslífinu. Árið 2004 vinnur þú bæði Gettu betur og Morfís og ert aukinheldur kosinn ræðumaður Íslands. Hvernig fórstu að þessu? Ég hef alltaf verið þannig að ef mig virkilega langar eitthvað þá geri ég allt sem þarf til þess að fá það þó það þýði að ég þurfi að fórna öllu öðru og vaka allan sólarhringinn. Þarna hafði ég unnið Morfís árið áður þannig að ég var djúpt sokkinn í það svo það var ekki spurning um að ég ætlaði mér að vinna keppnina aftur og ég ætlaði að verða ræðumaður Íslands. Gettu betur var meira óvænt því Verzló hafði aldrei unnið keppnina áður og var hálfgerður lítilmagni í keppninni. En við strákarnir í liðinu náðum ótrúlega vel saman og náðum upp góðri stemningu. Við uxum með hverri keppni og þetta var í raun algjört „Mighty Ducks”-ævintýri. Kvöldið sem við unnum er eitt af þeim eftirminnilegri í lífi mínu. Hvernig var mætingin í skólann á þessum tíma? Hún var til háborinnar skammar en það var tekið mikið tillit til þess hvað ég varði miklum tíma í félagslífið. Eftir skólaárið var ég ekkert minna lærður en ef ég hefði bara verið í bókunum. Mér finnst að allir skólar eigi að sýna sveigjanleika og leyfa nemendum að blómstra á sínum sviðum, sama hvort það er í listgreinum, íþróttum eða öðru. Hannes Þór Halldórsson, leikstjóri og markmaður KR, var með þér í ræðuliðinu og kom að þér um nótt í skólastofu í Verzló þar sem þú varst að þylja ræðu fyrir úrslit Morfís nakinn og með kúluhatt á höfðinu. Þótti þér það alveg eðlilegt? Ég man án gríns ekkert eftir þessu en ég ætla ekki að neita því að þetta sé satt. Þetta er bara eitt af því sem gerist þegar maður er búinn að vaka of lengi, þá tekur maður upp á einhverju skrýtnu. En þú sérð að sjö árum síðar man hann þetta ennþá. Snýst ekki lífið um að búa til eftirminnileg augnablik? Hann hefði ekki munað þetta ef ég hefði verið í öllum fötunum. Svo útskrifast þú úr Verzló, færð verðlaun frá skólanum fyrir framlag þitt til félagslífsins en þá hafðir þú ekki lengur aðgang að þúsund nemendum sem voru tilbúnir að hlæja að þér. Varstu á krossgötum þá eða vissir þú hvert þú vildir stefna? Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég vildi gera. Ég hafði áhuga á mörgu en vissi ekkert hvað ég átti að leggja fyrir mig. Ég byrjaði reyndar strax um sumarið í blaðamennsku og starfaði á Blaðinu sáluga. Þar bjó ég kannski til grunninn að því sem ég vildi gera seinna meir. Um haustið fór ég í nám í sagnfræði í HÍ en hætti strax. Þannig að fyrsta hálfa árið var ég á krossgötum en svo fór ég aftur að vinna í blaðamennsku og hef meira og minna verið með annan fótinn í fjölmiðlum alveg síðan. Það vatt hægt og rólega upp á sig. Sumarið 2007 lendir þú aftur í ævintýrum og lögreglan kemur aftur við sögu. Hvaða sprell var þá í gangi? Þetta hljómar eins og ég hafi alltaf verið að komast í kast við lögin (hlær). Ég er ánægður með þessa rannsókn- arblaðamennsku. Þá vorum ég og fyrrnefndur Tóti ásamt Allani Sigurðssyni, tökumanni hjá MonitorTV og Ragnari Sigurðssyni, landsliðsmanni í knattspyrnu að keyra á svörtum Benz í Kópavogi með grímur á hausnum. Við vorum í raun ekki að gera neitt en fólk auðvitað sturlaðist þegar það sá fjóra fullorðna, grímuklædda menn keyra rólega í átt að þeim. Það var mjög fyndið allt saman en endaði á því að einhver hringdi á lögguna. Við vorum króaðir af einhvers staðar og löggan hélt að eitthvað miklu alvarlegra væri í gangi. Hún tók okkur í skýrslutöku en sá fljótt að þarna voru bara á ferð fjórir hálfvitar. Bugaðist þú jafnfljótt þá? Nei, þá var komin meiri harka í mig. Svo byrjar þú í viðskiptafræði haustið 2007. Hvernig kom það til? Þá var ég búinn að vera í blaðamennsk- unni í dálítinn tíma en vildi eiga möguleika á því að geta gert eitthvað annað líka. Mér fannst viðskiptafræðin gefa mér góðan grunn fyrir eitthvað sem ég vissi ekki alveg hvað yrði. Ég er mjög ánægður með að hafa klárað þetta nám þó að starfið mitt tengist því kannski ekki beint. Á lokaönninni þinni, haustið 2009, býðst þér að verða ritstjóri Monitor sem þá var mánaðarlegt götublað. Hvernig kom það til? Ég og Atli Fannar höfðum unnið saman á Blaðinu en hann var á undan mér í ritstjórastólnum. Þau hjá Monitor þekktu því aðeins til mín og Snorri Barón, faðir Monitor, ákvað að taka sénsinn og hringdi í mig, hitti mig og bauð mér starfið. Ég stökk strax á þetta og þetta var verkefni sem ég vildi gera mjög vel. Ég á Snorra mikið að þakka og sömuleiðis Bússa sem er maðurinn á bakvið það að Monitor varð að vikublaði undir merkjum Árvakurs. Guð sparaði ekki snilligáfurnar þó að hann hafi verið nískur á hárið þegar hann setti þessa menn saman. Auddi var að vinna á lagernum hjá Würth áður en hann fór í sjónvarp og Sveppi í grænmetinu hjá Hagkaupum. Þú aftur á móti ert viðskiptafræðingur að mennt. Var stefnan sett á útrás, milljónir og einbýlishús í fallegu úthverfi? Þegar ég var kominn á kaf í viðskiptafræðina sá ég alveg fyrir mér að fara að vinna í banka eða einhverju því tengdu. Hefði Monitor-starfið ekki boðist þá hefði ég væntanlega farið í framhaldsnám úti og væri örugglega að reikna afleiður í einhverjum fjárfestingabanka í dag. En ég hef alveg verið að vinna í kjötborðinu í Nóatúni og á símanum hjá Dominos svo Auddi og Sveppi eru ekki einir um að eiga fortíð á einhverjum allt öðrum vettvangi. Ætlaðir þú að kæfa skemmtikraftinn í þér? Nei, ég hefði örugglega alltaf verið vinnustaðagrínarinn, verið að hrekkja fólk og reyna að blása lífi í einhverja bankastofnun. Þú áttir sjálfur frumkvæðið að því að byrja með innslög á MonitorTV. Var það viljandi gert til að kveikja áhuga hjá sjónvarpsstöðvunum? Það var nú bara gert af því að Allan, vin minn, vantaði vinnu (hlær). Nei, þetta byrjaði af því að við vorum í góðu samstarfi við Ring sem snérist meðal annars um að framleiða vídjóefni. Mér fannst mjög skemmtilegt að sinna þessu með útgáfu blaðsins. Það að áhugi sjón- varpsstöðva á mér hafi kviknað seinna meir skemmdi auðvitað ekkert fyrir. Hvenær uppgötvaðir þú svo uppistandarann í þér? Ég hafði lengi haft áhuga á uppistandi og hugsaði að þetta væri eitthvað sem ég gæti gert. Dóri DNA og Bergur Ebbi héldu uppistandskvöld á Prikinu árið 2009 og það varð kveikjan að því sem seinna varð Mið-Ísland. Það var lengi pæling að ég myndi troða upp með þeim en það var ekki fyrr en haustið 2010 sem það varð að veruleika en þá báðu þeir mig um að vera kynnir á uppistandskvöldi í Þjóðleikhúskjallaranum. Það gekk svo vel að ég fékk æviráðningu. Þessi kvöld eru alltaf að verða stærri og betri og verða áfram í vetur. Hefur þú alltaf vitað að þú sért fyndinn? Ég held ég hafi alltaf verið mjög athyglissjúkur og mig langaði að minnsta kosti alltaf að vera fyndinn, en ég veit ekki hvort ég var eitthvað svakalega fyndinn sem krakki. En svo hef ég alla ævi legið yfir Simpsons og einhverju grínefni sem hefur mótað mann. Eins hef ég verið mikið innan um skemmtilegt og uppátækjasamt fólk sem á þátt í að móta húmorinn manns. Eftir því sem maður þroskast lærir maður svo að beita honum. Texti: Jón Ragnar Jónsson jonragnar@monitor.is Myndir: Ernir Eyjólfsson ernir@mbl.is HRAÐASPURNINGAR Uppáhaldssjónvarpsþáttur? Fyrstu seríurnar af Simpsons. Uppáhaldskvikmynd? Dazed and Confused. Uppáhaldsmatur? Allt sem mamma býr til. Ég held hún setji heróín í matinn, það er engin leið að hætta að borða hann þegar maður byrjar. Uppáhaldsleikari? Pabbi minn lék mjög óvænt í auglýsingu fyrir Libby’s fyrir einhverjum 15 árum. Hann vann þvílíkan leiksigur að það væri rangt af mér að nefna hann ekki. Uppáhaldsstelling? Hangandi eins og leðurblaka. Versti ótti? Í augnablikinu er ég hræddastur við að fá gallsteina. Tveir vinir mínir lentu í því nýlega og sögðu að sársaukinn hafi verið svo mikill að annar fór að gráta og hinn reyndi að rota sjálfan sig. Nú veit ég að ég fæ gallsteina af því að ég er að nefna þetta. Versta Youtube-myndbandið? Leave Britney Alone með Chris Crocker er ógeðslegasta myndband sem ég hef séð. Hann hefði ekki munað þetta ef ég hefði verið í öllum fötunum.

x

Monitor

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.