Monitor - 29.09.2011, Blaðsíða 14

Monitor - 29.09.2011, Blaðsíða 14
14 Monitor FIMMTUDAGUR 29. SEPTEMBER 2011 Hvaða Stuðmannalag hefur þér þótt vekja mesta lukku á giggum í gegnum tíðina? Með fullri virðingu fyrir öllum lögum Stuðmanna þá held ég að lagið Slá í gegn sé kannski það lag sem hefur höfðað til flestra enda meistaralega samið af Valla. Það inniber einmitt þennan alvarlega undirtón með þessu kómíska ívafi sem er oft galdurinn við mikið af okkar músík. Það er alltaf eitthvað pínulítið sem þú getur tekið alvarlega. Svo er reyndar annað lag, sem ég held miklu meira upp á, en það er Bréf til Báru sem er líka eftir Valgeir. Það er flottasta Stuðmannalagið en það kannast fáir við það. Og svo Í bláum skugga, lag Bjólunnar og svo og svo... Færð þú leiða á Stuðmannalögunum? Já, já, ég þurfti oft að taka á öllu mínu til þess að kom- ast í gegnum þau. Auðvitað er það samt þannig að ég virði það að fólk vill heyra þessi lög og það getur verið gaman að taka eitt og eitt lag við vissar kringumstæður, þar sem eru sannir aðdáendur til staðar. Má búast við því að þú troðir upp með Stuðmönnum einhvern tímann aftur? Maður skyldi aldrei segja neitt um það, það er bara spurning hvenær þörfin fyrir að fara aftur í þetta tímahylki kemur. Mér finnst það þó ekki líklegt, þó við séum vel á okkur komin og ellin enn í hæfilegri fjarlægð. Músíkin er ekki eins og fótbolti, svo dæmi sé tekið, því ekki gætum við farið að láta sjá okkur á fótboltaskóm í kappleik. Í fótbolta er þetta bara „hard core“ spurning: „Getur hann hlaupið eða getur hann ekki hlaupið?“ en í tónlist getur maður farið í gegnum lögin án þess að geta það svo að segja, þú bara gerir það og nálgunin er alltaf ný, atgervið er aukaatriði. Það er það fallega við kúnstina. Þú gerðir Kristinn nokkurn Styrkársson Proppé ódauðlegan á sínum tíma í Með allt á hreinu. Hvað er að frétta af honum? Við fréttum af honum síðast þar sem hann var kominn með útfararþjónustu í myndinni Í takt við tímann. Ég held að það hafi ekkert gengið alltof vel hjá honum en ég tel að hann sé farinn að sýsla við eitthvað annað núna, það einkennir hann ákveðið ístöðuleysi. Hann er barnslega einlægur og trúir á hið góða í manninum og það fólk bjargast alltaf. Kristinn verður allavega ekki græðginni að bráð með Hörpu Sjöfn sér við hlið. Af hverju er þessi mynd svona ódauðleg? Ef ég vissi það væri ég sjálfsagt á öðrum stað í tilverunni. Hún er tímalaus, það er í rauninni enginn tími í myndinni. Stundum gerist það þegar menn koma saman að til verður alveg einstök orka og þetta sumar sem myndin var skotin, 1982, þá var mikil orka í kringum okkur og okkar fólk. Við tókum myndina á daginn og unnum tónlistina á nóttunni, fyrir utan að spila þrjú kvöld í viku á böllum, við sváfum því lítið allt þetta tökutímabil. Við vorum náttúrlega líka á mjög góðum stað í tilverunni, okkur leið vel í því sem við vorum að gera, vorum elskaðir og bornir á höndum og ég er ekki frá því að við höfum stundum haldið að við værum alveg við það að sigra heiminn. Ég held að þessi orka skili sér í myndinni, en að öðru leyti get ég ekkert sagt, svo er það þetta með lukkuna, heilladísirnar sem voru með okkur þarna og oft síðar. Lendir þú í því að fólk stoppi þig úti á götu og fari með einhvern frasa úr myndinni? Já, síðast í gær. Þá heilsaði upp á mig mamma fjögurra ára stráks og sagði mér að sonur sinn hefði algjörlega ánetjast myndinni, hann horfir á hana aftur og aftur og hefur frasa úr myndinni á takteinum. Pabbi hans er víst ekki par- ánægður. Strákurinn er mataður með orðunum: „Einn fyrir Kristin stuð“. Ég sagði mömmunni að hún þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur, það væri margt verra í þessum heimi, strákurinn horfði hins vegar á mig og það hvarflaði ekki að honum að þarna færi maðurinn sem lék Kristin Proppé. Nú leikur þú í sýningunni Alvöru menn í Austurbæ. Um hvað er þetta verk? Þetta eru fjórir menn á mis- munandi stöðum í tilverunni, sprenghlægilegir. Þeir eru einlægir, barnalegir og sjálfhverfir eins og við karlar erum nývaknaðir og svangir. Það er enginn stór sannleikur í þessu, enda er lífið hvunndags alveg laust við stóru lausnirnar, þeir eru bara að reyna að vera til í einsleitum heimi, sem miðar að því að gera karldýrið næstum óþarft. Þeir uppljóstra sínum hugðarefnum og vanga- veltum um lífið. Þetta eru hvítir, vel menntaðir menn, eins og það heitir, sem ættu stöðu sinnar vegna að vera lausir við vandamál að mestu, en þannig er því ekki farið. Þeir eru eins og við öll, yfirskyggðir af tilgangsleysi, ótta við hið ókomna, reynandi því að gleyma sér í augnabliki angist- ar og ólgusjó lífsins og þess vegna eru þeir óborganlega fyndnir. Hvernig er að vinna með þessum yngri mönnum? Það er algjör opinberun. Þeir gera stundum grín að mér af því ég nota, að þeirra mati, sjaldheyrð hugtök. Um daginn datt upp úr mér „renaissance“, já, þetta er algjör „renaissance“, það er endurreisn fyrir mig í öllu tilliti. Manni fer bara að blýstanda til lífsins og tilverunnar það er svo gaman hjá okkur. Gunnar Helga er einnig sérlega laginn við gamla hunda eins og mig, þar er góður leikstjóri. Hvað væri Egill Ólafsson að fást við ef hann væri ekki í neinni listgrein? Ætli hann væri ekki að sýsla í útfararbransanum? Dauðinn er um margt heillandi. Það getur enginn neitað því að við stefnum öll þangað, dauðinn er hástig lífsins. Ég segi bara eins og Eggert Stefánsson sagði: „Það mik- ilvægasta fyrir listamann að hugsa um er; „entransinn“ og „exitið““ Ef „entransinn“ er góður og „exitið“ er gott, þá er allt fengið, því allt sem gerist þar á milli er auka- atriði. Á það ekki einnig við um lífið sjálft, hvernig við komum og þá hvernig við kveðjum? Umgjörðin um kveðjustund- ina er mikilvæg og við eðlilegar kringumstæður er þetta yfirleitt falleg og góð stund, þess vegna get ég séð mig þar, ef ég ekki væri hér. ÞETTA EÐA HITT Tónlist eða leiklist? Það fer alveg eftir hvoru ég er að sinna. Í augnablikinu er það leiklist. Skeggið eða skallinn? Ekki er skegg nema skalli sé. Hákarl, hrútspungar og léttmjólk eða sósa og salat? Hvorugt. Hvort myndir þú frekar koma nakinn fram eða fara í heljarstökk aftur á bak? Ég myndi reyna við heljarstökkið. Okkur leið vel í því sem við vorum að gera, vorum elskaðir og born- ir á höndum og ég er ekki frá því að við höfum stundum haldið að við værum alveg við það að sigra heiminn.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.