Monitor - 20.10.2011, Page 8

Monitor - 20.10.2011, Page 8
8 Monitor FIMMTUDAGUR 20. OKTÓBER 2011 Dísa Jakobs gaf út sína fyrstu sólóplötu fyrir þremur árum en hún hefur þó verið óbeint viðriðin popptónlistarbrans- ann frá æsku. Foreldrar hennar eru tónlistarmennirnir Jakob Frímann Magnússon og Ragnhildur Gísladóttir. Hún stundar nú lagasmíðanám í Kaupmannahöfn, stendur í útgáfu á nýrri plötu með dúettinum Song For Wendy ásamt því að eiga nýtt sólóverkefni uppi í erminni. Í dúettinum syngur hún og semur með kærasta sínum, Mads Mouritz frá Danmörku, en saman eignuðust þau sitt fyrsta barn fyrr á árinu. Undanfarið ár hefur senni- lega verið eitt það viðburðaríkasta í hennar lífi til þessa og því liggur beinast við að byrja á að forvitnast um hver hápunktur ferilsins til þessa sé. Heimildir Monitor herma að þú hafir, ásamt fleiri nemendum Hagaskóla, borið sigur úr býtum í Skrekk fyrir um tíu árum. Er það hápunkturinn á ferlinum hingað til? Já, er það ekki bara? Það var geðveikt atriði. Það var stomp í þessu, við bjuggum til búningana sjálf, við sömdum sporin, bjuggum til sviðsmyndina og æfðum á hverjum einasta degi í nokkra mánuði. Við sömdum síðan texta við lagið „Copacabana“, sem ég söng, og ég fékk að vera Lola. Er eitthvað hægt að toppa það (hlær)? Maður gefur sér hálfpartinn að þú hafir fengið tónlistar- ríkt uppeldi. Hver voru þín kynni af tónlist sem krakki? Ég var mikið í stúdíóum, hljóðprufum og stundum á giggum ef þau byrjuðu ekki of seint. Það var góð reynsla að sjá hvernig það er að fara í sándtékk og hvernig stúdíóvinna gengur fyrir sig. Ég fékk oft að þvælast með foreldrum mínum í því og það var frábær skóli. Ég átti rosalega skemmtilega, viðburðaríka og jákvæða æsku og ég er náttúrlega mjög rík að eiga svona yndislega foreldra. Sem barn lærði ég líka á selló og píanó og svo lærði ég klassískan söng og ætlaði á tímabili að verða óperusöngkona. Ég fór í svona „master class“ og allt en passaði einhvern veginn aldrei inn, mér fannst það ekki alveg nógu skemmtilegt. Svo fór ég í FÍH og lærði þar djass-, rokk- og poppsöng. Mér finnst popparalífið miklu skemmtilegra. Hvenær varð þér ljóst að tónlistin væri eitthvað sem þú vildir leggja fyrir þig? Þegar ég var svona fimmtán ára, minnir mig. Þá eig- inlega sannfærði fjölskyldan mín mig um að þetta væri eitthvað sem ég gæti, ég trúði því aldrei fyrr. Ég vissi svo sem að ég gæti haldið lagi og eitthvað en ég var sannfærð um að ég kynni ekkert að semja tónlist eða neitt slíkt. Ég var sannfærð um það alveg þangað til í sumar þegar ég komst inn í lagasmíðanám. Þá hugsaði ég: „Ókei, nú ætti ég kannski að byrja að trúa aðeins meira á þetta“. Áður en þú ætlaðir að verða söngkona, hvað langaði þig þá að verða? Ég ætlaði alltaf að verða læknir. Þegar ég var krakki var ég svo ógeðslega mikill Michael Jackson–aðdáandi að mig langaði helst að verða lýtalæknir svo ég gæti orðið lýtalæknirinn hans. Í dag er ég nú samt fegin að ég hætti við þetta allt saman því ég hefði örugglega sprungið úr sorg ef ég hefði verið í miðju kafi í þessu langa námi þegar hann síðan lést. Þú hefur búið í útlöndum dágóðan hluta ævi þinnar. Þegar þú kemur í heimsókn til Íslands, upplifir þú þig þá út úr því sem er í gangi hérna heima? Já, ég myndi segja það. Það tengist þá helst vinunum og tónlistinni. Maður fattar þá að það er kannski ekki nóg að fylgjast með t.d. Facebook og mbl.is. Það eru svona bakdyrasögurnar eða –fréttirnar sem maður missir af og svo sakna ég „underground“ tónlistarsenunnar. Maður þarf eiginlega að vera hérna til að geta fylgst almennilega með henni og mér finnst hún svo skemmtileg hérna á Íslandi. Hér eru allir svo kreatívir og sniðugir. Nú ert þú á fullu að kynna nýjasta tónlistarverkefnið þitt, Song For Wendy, sem samanstendur af þér og kærastanum þínum, Mads. Samband og samstarf ykkar hefur verið ansi viðburðaríkt að undanförnu, ekki satt? Jú, lífið þessa stundina er Magnús, sonur okkar, að semja og svo Song For Wendy. Við erum að fara að gefa út fyrstu plötuna okkar, Meeting Point, og þetta er búið að vera stórskemmtilegt ferli. Við Mads hittumst upphaflega í lagasmíðavinnubúðum, og svo vorum við alltaf bara eitthvað að „chilla“ saman þar til við sögðum: „Eigum við ekki bara að prófa að fara upp í sveit, semja saman og sjá hvað gerist?“. Síðan vorum við bara allt í einu komin með efni í heila plötu. Þegar ég var komin sjö mánuði á leið, þá ákváðum við að kýla á þetta og klára plötuna áður en hann fæddist. Við settum upp tónleikaferðalag í desem- ber, tókum það upp með tæknimanni og svo fæddist Magnús í janúar. Ég var sem sagt að syngja, komin átta mánuði á leið, og þetta var alveg yndislegt. Mælir þú með því að taka upp plötu ólétt? Já, en ég mæli kannski ekki með því að fara í rosa tónleikaferðalag samt. Það getur verið dálítið erfitt að ferðast milli staða og þurfa að sitja svona lengi, það er að segja í áttunda mánuði meðgöngunnar. Það er kannski aðeins of mikið, en ég var bara svo heppin að mér leið svo vel þegar ég var ólétt. Það fer náttúrlega bara eftir því hvernig manni líður. Er ekkert erfitt að fá pössun fyrir soninn þegar þið eruð að spila á tónleikum? Það er það en það reddast nú eiginlega alltaf. Annars hef ég nú spilað með hann framan á mér í magapoka. Það var þegar hann var alveg pínulítill, þá gat hann sofið alls staðar. Þetta voru rosalega rólegir tónleikar, það var allt órafmagnað þannig að hann fékk ekkert í eyrun eða neitt. Þegar þið tvö ákveðið að eiga saman kósíkvöld, grípið þið þá í gítarinn og syngið og semjið? Já, maður þarf að nýta tímann og skipuleggja kósíkvöld- in svolítið. Þau þurfa oft að vera dálítið praktísk. Song For Wendy er í raun bara kósíkvöldin okkar og afrakstur þeirra, það er eiginlega bara sannleikurinn (hlær). Þetta er svona huggulegheitaverkefni og tónlistin er í raun eftir því, þetta er þægileg en samt listræn tónlist. Þetta er tónlist sem er samin fyrir hjartað. Þú gafst út þína fyrstu sólóplötu fyrir þremur árum. Er sólóferillinn farinn í pásu á meðan Song For Wendy er að gefa út plötu? Nei, ég er að vinna á fullu í nýrri plötu. Ég var meira að segja búin að taka upp heila plötu, ég fór í stúdíó þegar Magnús var mánaðargamall. Svo henti ég hins vegar öllu af því að þetta var ekki að virka og byrjaði upp á nýtt. Þetta var ekki nógu feitt og pródúsentinn fór í einhverja átt sem ég réð ekki við, þetta var ekki ég og þetta var bara rugl. Þetta var eiginlega bara hrikaleg upplifun. Ég byrjaði upp á nýtt og nú er þetta að verða feitt. Ég ætla að gera EP-plötu og gefa hana út á næsta ári og nú er ég komin á ról. Nú stundar þú tónsmíðanám Rytmisk Musikkonserv- atorium í Kaupmannahöfn. Hvernig kom það til að þú fórst í þann skóla? Hvernig fer námið fram? Vinur minn, sem er tónlistarmaður úti í Danmörku, er í þessu námi og benti mér á það. Hann sagði að þetta væri svo skemmtilegt og hugljómandi og það væri hægt að gera þetta með öðrum tónlistarverkefnum og að þetta hjálpaði til við þau. Ég er bara í stanslausri skapandi vinnslu, ég þarf að semja og skila af mér tveimur lögum í viku og meira að segja stundum meira. Þetta er rosalega hvetjandi, maður er í svo yndislegu hugarástandi þarna og ég er umkringd frábæru fólki. Fyrir skemmstu var íslenska teiknimyndin Hetjur Valhallar – Þór frumsýnd en þú syngur einmitt aðallagið í myndinni. Hvernig er tilfinningin að syngja lag í dýrustu kvikmynd Íslandssögunnar? Hvernig vildi þetta til? Það er algjört fjör, ég elska teiknimyndir svo það er rosalegur heiður að fá að syngja þetta. Kiddi í Hjálmum hringdi í mig og spurði hvort ég gæti komið í stúdíó. Samdægurs eða daginn eftir mætti ég síðan í stúdíóið og þá var verið að útsetja lagið og svo bara söng ég þetta inn Ég hlakka síðan rosalega til að sjá myndina. Í laginu syngur þú með Memfismafíunni. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þú vinnur með mörgum þeirra því þú söngst á sínum tíma með Hjálmum, var það ekki? Jú, þeir höfðu einu sinni samband við mig og fengu mig til að koma með þeim til Rússlands í staðinn fyrir Steina í september árið 2009. Þá hringdi Kiddi í mig og sagði: „Heyrðu, við vorum að pæla, vegna þess að Steini kemst ekki með okkur til Rússlands, hvort þið Danni gítarleikari væruð kannski til í að koma með okkur. Þú myndir syngja með í nokkrum lögum og svo gætum við spilað undir í einhverjum Dísu-lögum.“ Ég var náttúrlega bara steinhissa, spurði hann hvort hann væri að meina þetta og svo hrópaði ég náttúrlega bara af gleði. Þetta var svo skemmtileg ferð, hvítir rússar og svo spilerí eftir spilerí. Takk fyrir mig, Hjálmar og Danni. Hvað hefur Danmörk fram yfir Ísland sem staður til að búa á og öfugt? Ég er eiginlega bara búin að kynnast listamannageiran- um í Danmörku og umhverfi hans. Ég verð eiginlega að vera alveg opin og mér finnst vera borin meiri virðing fyr- ir tónlistarmönnum í Danmörku heldur en hérna heima, sorrí með mig. Það er talinn sjálfsagður hlutur að borga tónlistarmönnum, meira að segja óþekktum, fyrir það að spila í Danmörku. Þetta er samt ekki alltaf spurning um peningaupphæð, heldur oft hvernig hugsað er um mann þegar maður kemur, líka hvort það sé matur og aðstaða til að undirbúa sig áður en maður fer á svið og að það sé góður og hjálpsamur mórall gagnvart manni. Bara þessi atriði, ásamt því að þar eru miklu fleiri staðir til að spila á og stærri markaður en samt ekki of stór, gerir það að verkum að mér finnst miklu skemmtilegra að starfa þar sem tónlistarkona. Ég get spilað á fullu og fengið tekjur, þarna get ég lifað á þessu ef ég er nógu dugleg og sniðug. Mér finnst þetta virðingarmál svo mikið atriði, að bera virðingu fyrir því að það eigi ekki að vera frítt að fá tónlistarmenn til að vinna vinnuna sína. Ég vildi óska þess að tónlistarmenn almennt stæðu meira saman í þessu og þessi pæling um að þetta eða hitt sé svo góð auglýsing eða plögg fyrir tónlistarmenn finnst mér ekki vera nógu góð. Að svo sögðu þá veit ég og skil að ástandið heima er erfitt og til dæmis er Danmörk stærra og eldra samfélag sem hefur haft fleiri heila til að leysa vandamál og skipuleggja menningarlífið. Ég veit að þetta mun breytast og lagast á Íslandi. Hvert er skammtímamarkmiðið annars vegar og langtímamarkmiðið hins vegar í tónlistinni? Skammtímamarkmiðið er að láta Song For Wendy fljúga, semja meira og gefa út Meeting Point. Mig langar að ferðast um allan heim með tónlistina sem ég tek þátt í. Í rauninni er það líka langtímamarkmiðið þó svo að það sé líka það að geta verið fjárhagslega og tónlistarlega frjáls tónlistarkona. Langtímadraumurinn er að tekju- brunnurinn sé að semja, taka upp, spila úti í heimi og heima og hafa gaman af. Texti: Einar Lövdahl Gunnlaugsson einar@monitor.is Myndir: Golli golli@mbl.is HRAÐASPURNINGAR Fyrstu sex: 210787. Uppáhaldsmatur: Lambakótilettur og kartöflumús. Uppáhaldstónlistarmaður: Brian Eno. Helsti kostur: Sumir segja að hjartað mitt sé dálítið gott, að ég sé kærleiksrík. Helsti ókostur: Ég er gleymin og get verið dramatísk og skapmikil. Þegar ég var krakki var ég svo ógeðslega mikill Michael Jackson–aðdáandi að mig langaði helst að verða lýtalæknir svo ég gæti orðið lýtalæknirinn hans. Dísa Jakobs stendur nú í ströngu við útgáfu plötu sem helmingur dúettsins Song For Wendy. Platan var tekin upp þegar hún hafði gengið átta mánuði með barn undir belti. Kósíkvöldin verða að vera praktísk

x

Monitor

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.