Morgunblaðið - 20.12.2010, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 20.12.2010, Blaðsíða 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 20. DESEMBER 2010 ✝ Haukur Karlssonfæddist á Grund við Reyðarfjörð 19. júlí 1936. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Mörk, Suðurlands- braut hinn 2. desem- ber sl. Haukur fluttist með foreldrum sín- um til Kópavogs 1944 og bjó þar alla ævi á Marbakkabraut 9 (við Kársnesbraut). Foreldrar hans voru Laufey Eysteins- dóttir húsfreyja, f. 22. desember 1912, d. 4. júlí 1999, og Karl Þór- arinn Bóasson bifvélavirki, f. 25. október 1913, d. 10. júní 1951. Systkini Hauks eru: Marinó Bóas Karlsson, f. 25. október 1941, kvæntur Sigfríði Elínu Sigfúsdótt- ur, og Íris Karlsdóttir, f. 6. febrúar 1947, gift Guðmundi Haraldssyni. Haukur kvæntist Sigríði Magn- úsdóttur, en þau slitu samvistir 1984. Eignuðust þau eina dóttur, Hafdísi Hauksdóttur Kjærga- ard, f. 11. febrúar 1972, gift Mikkel Christiansen Kjærga- ard. Haukur á eitt barnabarn, Evu Kjærgaard, f. 28. febr- úar 2008. Allt frá ferming- araldri var Haukur í brúarvinnu hjá Vega- gerð ríkisins. Haukur stundaði nám við Iðn- skólann í Reykjavík 1969-1973 og fékk síðan meist- araréttindi í húsasmíði. Árið 1964 hafði hann tekið við verkstjórn á brúarflokki, þ.e. vinnuflokki við brýr. Eftir það stjórnaði hann brú- arbyggingum alla starfsævi sína, fram til haustsins 2005 þegar hann lét af störfum sökum aldurs. Útför Hauks fer fram frá Kópa- vogskirkju í dag, 20. desember 2010, og hefst athöfnin kl. 15. Elsku pabbi. Þá ertu farinn frá okkur. Þótt það sé sárt, þá getum við hugsað með gleði til þess hve margar hlýjar minningar við eigum um þig. Ég er svo þakklát fyrir að ég gat gefið þér barnabarn þótt seint væri, og þú naust þess út í ystu æsar að leika við hana Evu þína, sem þú varst vanur að kalla bláskjá litlu. Að lesa fyrir hana var þitt líf og yndi, þegar við hittumst. Bestir af öllu voru samt túrarnir þar sem við kenndum Evu að gefa fuglunum brauð úti á Seltjarnarnesi. Stærstan hluta ævi þinnar helg- aðir þú brúarsmíðum og varst í ess- inu þínu á þeim vettvangi. Í mínum augum varstu ekki bara brúarsmið- ur heldur líka gæfusmiður, því þú gerðir svo margt gott fyrir aðra. Mig studdir þú áfram í gegnum allt það sem mér datt í hug að taka mér fyrir hendur, og hvattir mig áfram gegnum mína skólagöngu. Ég var reglulega stolt af því að geta sýnt þér allt hér, þegar þú heimsótt- ir mig í Danmörku þegar ég útskrif- aðist úr mastersnáminu. Ekki bara það að geta sýnt þér skólann og að þú varst viðstaddur útskriftarat- höfnina heldur líka það að við fórum í hestakerrutúr á Dyrehavsbakken á eftir og sáum krónhjörtinn. Þú varst alltaf mikið fyrir veiðar og dýr, og gladdist ég því yfir því að geta sýnt þér þennan stað með öllum þessum veiðidýrum, sem fyrrum var veiði- staður konungsins. Brúðkaupsdagurinn minn stendur þó upp úr sem einn mesti gæfudag- ur í lífi mínu, þar sem þú gekkst með mér inn kirkjugólfið, við bæði svo feimin að við gleymdum næstum vendinum mínum, en svo bjargaðist þetta og þú skeinst eins og sól í heiði allan þann dag og varst hrókur alls fagnaðar í veislunni. Skírn Evu litlu varstu líka við- staddur og finnst mér gott að hugsa til þess hvað ég á margar myndir af þér og Evu saman. Ég get sýnt henni þessar myndir seinna svo hún muni alltaf hann afa sinn á Íslandi. Þegar við vorum í heimsókn vildi hún alltaf sitja hjá afa, enda varstu þannig maður sem börn laðast ósjálfrátt að. Myndin af henni þar sem hún situr hjá þér og hallar sér að brjósti þínu, og þið svona lík í svipfari, á eftir að ylja mér ævilangt. Takk fyrir allt pabbi minn og ég trúi því að þú hafir það gott þar sem þú ert nú. Þú munt lifa á meðan við munum eftir þér og það munum við sannarlega gera. Þín dóttir, Hafdís, og fjölskyldan Kjærgaard. Elskulegur bróðir minn, Haukur Karlsson, lést 2. desember á hjúkr- unarheimilinu Mörk í Reykjavík. Hann hafði átt við alvarleg veikindi að stríða undanfarin ár. Haukur bróðir minn var einstak- lega traustur og góður maður. Strax 15 ára gamall, eftir að faðir okkar lést, fór hann að hjálpa móður okk- ar, færa björg í bú og halda fjöl- skyldunni saman. Þá hætti hann í skóla og hóf störf hjá Vegagerð ríkisins, þar sem hann vann síðan allan sinn starfsaldur, eða þar til hann fór á eftirlaun fyrir fjórum árum. Þrátt fyrir að ég og yngri bróðir minn Marinó værum vaxin úr grasi og farin að heiman bar hann alltaf þessa föðurlegu um- hyggju fyrir okkur og fjölskyldum okkar. Ekki mátti hann vita að neinn vanhagaði um nokkurn hlut, þá vildi hann strax hlaupa undir bagga. Haukur kvæntist Sigríði Magnús- dóttur, en þau slitu samvistir. Þau eignuðust eina dóttur, Hafdísi, f. 11. febrúar 1972, hún er gift Mikkel C. Kjærgaard og eru þau búsett í Dan- mörku. Þau eiga eina dóttur, Evu, sem er tæplega þriggja ára. Hún var einstakur augasteinn afa síns. Hann hafði varla nógu mörg orð til að lýsa hversu falleg og vel gefin hún Eva hans væri. Þrátt fyrir mikil veikindi brosti hann sínu fallega brosi þegar minnst var á hana. Á náttborðinu sínu hafði hann mynd af henni sem hann sýndi stoltur öllum þeim sem til hans komu. Mikill er missir þinn Eva mín en einhvern veginn verður reynt að geyma í huga þínum minningarnar um hann afa þinn. Mig langar að endingu að þakka sérstaklega fyrrverandi eiginkonu hans Sigríði fyrir alla hennar um- hyggju og alúð sem hún sýndi hon- um, og ekki síst fyrir ferðalögin á seinni árum með hann um landið til að líta á brýrnar sem hann hafði byggt með strákunum sínum í brú- arvinnuflokknum. Þessar ferðir veittu honum mikla gleði. Einnig vil ég þakka öllu starfsfólki bæði á Landakotsspítala og Hjúkrunar- heimilinu Mörk fyrir frábæra um- hyggju og hjúkrun. Elsku Haukur bróðir, ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér, foreldrar okkar, nafni þinn litli og svo allir vinirnir. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur. Hvíl í friði, elsku bróðir. Þín systir, Íris. Haukur frændi var hjartahlýr, góður og glaðvær maður. Hann var mikið náttúrubarn og hafði unun af alls kyns veiðimennsku. Þegar við krakkarnir komum í heimsókn á Kársnesbrautina vakti alltaf mikla athygli heljarstór hreindýrshaus í stigauppgöngunni. Og ég man að Hafdís dóttir hans sýndi mér einu sinni rifflasafnið hans sem var læst inni í glerskáp, þeir voru nú ekkert smá flottir. Haukur frændi minn var rosalega sterkur og er ég viss um að hann hafi verið einn af sterkustu mönnum landsins. Það eitt að taka í höndina á honum var upplifun sem fólk gleymdi ekki því að greipin var svo stór að maður náði ekki utan um hana. Uppáhaldssagan mín af Hauki er þegar hann var eitt sinn á hrein- dýraveiðum og var að bera heilt hreindýr niður fjallið, þá fann hann svo flottan stein sem hann langaði í, jaspis allt að 10 kg. Hann stóðst ekki mátið og bætti honum á sig. Þessi steinn hefur fylgt honum æ síðan og var á sjúkrastofunni sem hann dvaldi á nú undir lokin. Ég lít í anda liðna tíð, er leynt í hjarta geymi. Sú ljúfa minning – létt og hljótt hún læðist til mín dag og nótt, svo aldrei, aldrei gleymi … (Halla Eyjólfsdóttir.) Ég var lánsöm að fá að kynnast þér, elsku frændi. Þín frænka, Laufey. Elsku besti frændi og vinur. Með þessum orðum vildi ég aðeins snerta á öllu því þakklæti sem ég ber í brjósti yfir að hafa kynnst þér. Allt í sambandi við þig var stórt, þú varst sérstaklega stórgerður maður en einnig með óvenjustórt hjarta. Faðmurinn þinn var alltaf opinn og brosið breiða alltaf skammt undan. Fyrir nokkrum árum síðan fór ég að venja komur mínar í heim- sókn til þín, minningarnar sem ég á úr þessum heimsóknum er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Hvort sem við spjölluðum yfir heitum te- bolla eða borðuðum saltkjöt og horfðum á fótbolta, þá var alltaf svo notalegt að vera nálægt þér. Þú varst sannarlega afinn sem ég átti aldrei – og ég mun aldrei gleyma þér. Hugrekki er annað sem ég vil minnast á í sambandi við þig. Þú varst sjálfur á fermingaraldri þegar afi dó, en þú tókst samt sem áður við sem húsbóndinn á heim- ilinu. Hættir námi til að vinna og sjá fyrir fjölskyldunni, sem hafði ekki mikið á milli handanna. Tilfinningar þínar voru einnig stórar, því stundum mátti sjá glytta í tár yfir erfiðum minningum. Það hvernig þú varst stóri bróðir mömmu minnar er einnig ómetan- legt, ykkur þótti svo vænt um hvort annað og það var stórkostlegt að sjá. Þú hugsaðir alltaf um hana sem litlu systur þína, sem er svo ótrúlega fal- legt að hugsa til. Þú varst falleg mannvera í alla staði, og ef ég gæti tileinkað mér að- eins brot af gjafmildi þínu, örlæti og gæsku væri ég ánægð. Þú varst og ert fyrirmynd mín, elsku Haukur frændi. Stórt knús, elsku stóri frændi minn. Þín eilíflega, litla frænka, Lilja Hrönn. Það kemur alltaf að leiðarlokum einhvern tímann, en tíminn er yf- irleitt aldrei sá rétti, allavega ekki í þetta skipti fyrir mig. Hann Haukur Karlsson, eitt sinn mágur minn, hef- ur sagt skilið við þetta jarðlíf og er hann sennilega sestur í borðkrókinn hjá Laufeyju mömmu. Hálfsystir mín vann við það eitt sinn að matreiða ofan í vegagerð- armenn í vinnubúðum undir Ingólfs- fjalli, þar var Haukur með sinn flokk að byggja ræsi og var það mikil gæfa fyrir okkur í fjölskyldunni, þó mest fyrir hana hálfsystur mína, að fá að vera í nærveru við þennan góða dreng. Mér er það minnisstætt þegar ég sá Hauk fyrst standa á bæjarhlaðinu í sveitinni við hliðina á græna Broncoinum. Stór og myndarlegur teygði hann úr sér, leit í kringum sig og tók upp tóbaksdós. Það leyndi sér ekki að þarna var á ferðinni al- vöru maður, sem og rétt reyndist. Ég var alltaf hreykinn af þessum ráðahag hjá hálfsystur minni og færði hún Hauki sínum yndislega gjöf, litla prinsessu, hana Hafdísi frænku mína. Haukur var með stór- ar hendur og enn stærra hjarta og það var gott og þroskandi að vera í kringum hann. Meira að segja hún hálfsystir mín þroskaðist heilmikið meðan þeirra leiðir lágu saman. Haukur tók eldri bróður minn í flokkinn til sín og tók hann þar þátt í brúarsmíði vítt og breitt um landið. Sjálfur fór ég til hans og tók þátt í brúarsmíði á Skeiðarársandi, stopp- aði þó stutt við því það vantaði í mig útilegumanninn og svo var ég senni- lega líka alltof mikil pempía. Haukur aðstoðaði mig við að reisa mitt fyrsta íbúðarhús sem var úr sverum bjálkum og höfðu menn að orði sem með okkur voru, að gott væri að hafa svona lyftara eins og Hauk. Eitt sinn bað hann mig um aðstoð við að lyfta sperrum upp á sumarbústaðinn, sem hann var að reisa fyrir fjölskylduna, en hvernig sem á því stóð tafðist ég um smá tíma. Þegar ég mætti á svæðið voru allar sperrurnar komnar upp og enginn á svæðinu nema Haukur, hann var ekki bara lyftari, hann var líka krani. Fjölskyldur splundrast og félagar fjarlægast. Ég lagði ekki næga rækt í þann góða vin sem Haukur var. Ég kom við í litla húsinu hans við Mar- bakkabrautina fyrir nokkrum árum og áttum við þar saman góða stund, sem við ákváðum að yrðu fleiri í framtíðinni en svo varð ekki og sam- viskan nagar þann sem þetta skrif- ar. Mín huggun og gæfa er að leiðir okkar Hauks munu liggja saman aftur og mun það verða mitt fyrsta verk að rífa í stóru hönd hans og iðr- ast. Hafdís, þú varst sólargeisli pabba þíns og ég er svo þakklátur fyrir dvöl hans undir Ingólfsfjalli. Brúar- smiður getur byggt brú sem nær frá sorg yfir til gleði. Svoleiðis brú byggði hann pabbi þinn fyrir þig, fylgdu henni á enda því þar heldur lífið áfram, bjart og fagurt og fram- tíðin mun blasa við þér og fjölskyldu þinni. Samúðarkveðja frá mér og fjöl- skyldu minni. Þorvaldur (Holli frændi). Hauk Karlsson brúarsmið þekkti ég frá því ég man eftir mér, hann vann með föður mínum við brúar- smíðar á sumrin og á veturna í áhaldahúsi Vegagerðarinnar í Reykjavík, það voru heldur ekki nema þrjú hús á milli okkar við Kársnesbrautina. Haukur missti föður sinn ungur og byrjaði í brúar- vinnu 15 ára og var þar sín þroska- ár. Með í flokknum voru oft móðir mín og einhver okkar systkina og varð hann einn af þeim nánustu í þessari brúarvinnufjölskyldu, fékk viðurnefnið Karlsson af því að annar Haukur var alltaf með í flokknum. Síðar vann ég hjá honum í vinnu- flokki og loks með honum að ýmsum verkefnum. Eftir að hafa verið í brúarvinnu með föður mínum frá 1952 varð hann sjálfur brúarsmiður 1964 og með eigin flokk sem hann stýrði hátt í 40 ár. Á þessum árum voru margir brúarvinnuflokkar hjá Vegagerðinni en oft fáir reyndir menn, það gat því reynt mjög á verkstjórann, til dæm- is við byggingu brúar á Jökulsá á Sólheimasandi 1967, en hún er 159 m löng. Haukur hafði það verk- stjórnarlag að ganga fremstur að öllum verkum og fékk þannig strák- ana með sér. Brúarvinna féll vel að áhuga Hauks á ferðalögum og marg- víslegum veiðiskap. Tvö sumur var ég með Hauki í brúarvinnu, margir ungir menn og margt til gamans gert og hann tók þátt í mörgu af lífi og sál. Hvort sem það var nú að segja mönnum að vera duglegir, að dansa við dömurnar í upphafi dansleiks, fara í stuttar skemmti- og kynnisferðir um ná- grennið í frítíma eða alls konar still- ansahúmor á löngum vinnudögum. Svo þurfti hann stundum aðstoðar- menn til að tína saman gæsirnar á skyttirí og margt fleira. Eftir að ég kom til Vestfjarða var alltaf gott að fá Hauk á svæðið til brúargerðar og til að vinna ýmis aukaverk í leiðinni, hann var alltaf tilbúinn og sagði best að fá sem mest að gera þannig að þeir þyrftu að fara sem seinast í bæinn að loknu sumarúthaldi. Saman byggðum við t.d. vatnsveitustíflu og stoðmúr fyrir veg á hundrað metra hengiflugi. Ég hef fáa menn þekkt sem voru eins lítið verkkvíðnir og Haukur. Það gat hins vegar gerst að hann sást ekki fyrir, en ef eitthvað fór úrskeiðis var hann fljótur og hugkvæmur að bjarga málum. Mér er það í barnsminni að nokkrir brúarvinnumenn fóru að kvöldi eftir vinnu með net að draga fyrir fisk í ánni sem var verið að brúa, það var komið haust og skugg- sýnt. Lagt var af stað á trukk af því að fara þurfti yfir ána. Dregið var fyrir í hyl undir fossi, og fundu menn það út að best væri að einn stæði á miðri fossbrúninni og héldi við netið í annan endann meðan hinn endinn væri dreginn fyrir hylinn. Karlsson var að sjálfsögðu settur á fossbrúnina. Það var ekki álitið auð- velt að standa þar í straumnum og halda við netið. Hann gnæfir þar enn í kvöldrökkrinu í minningu minni. Ég sendi Hafdísi samúðarkveðjur frá mér og stórfjölskyldunni af Kársnesbrautinni. Gísli Eiríksson. Á vordögum 1970 réðst undirrit- aður, þá unglingur, til starfa hjá Hauki Karlssyni brúasmið og telur mikið lán að hafa kynnst svo ein- stökum manni. Samstarf okkar og samskipti hafa varað allar götur síð- an. Það er því margt, sem kemur upp í hugann þegar litið er til baka. Styrkur hans og þrek var svo mikið, að minnti frekar á fornkappa, eins og Gretti Ásmundarson, en venju- legan nútímamann. Grettir var sagður breiðleitur og þótti heppileg- ur að fást við óvættir þær, sem menn töldu fyrrum að væru á ferð og yllu búsifjum. Haukur var einnig breiðleitur og glímdi í raun við for- ynjur landsins í búningi ófærra vatna og var fremstur í fylkingu, sem losar landsmenn undan oki þeirra, svo þær bönnuðu ekki för. Haukur hóf ungur störf við brúa- smíðar og fljótt kom í ljós, að þar var réttur maður á réttum stað. Þegar hann var kominn fast að þrí- tugu tók hann við verkstjórn á brúa- flokki, þ.e. vinnuflokki við brýr. Á þeim vettvangi var síðan starfsævi hans. Þar er þess sérstaklega að geta, að hann hafði, ásamt fleirum, á hendi verkstjórn við framkvæmd- irnar á Skeiðarársandi 1972-74 við lokatengingu hringvegarins um landið og við brú á Borgarfjörð 1975-81. Það eru mestu brúafram- kvæmdir hér á landi að umfangi og stærð mannvirkja, en tækjakostur stóð til bóta frá því, sem áður var. Við Borgarfjarðarbrú reyndi mjög á verkstjórnendur. Unnið var úti í sjó í firðinum og margs konar útbúnað og hjálparvirki þurfti til og mikið verk og margslungið var að koma upp mannvirkjunum. Þar reyndist Haukur sérlega heppilegur og ég þekki engan, sem ég tel að staðið hefði honum á sporði, þegar unnið var í straumþunga Borgarfjarðar, sem kunnur er frá fornu fari. Hann var kallaður til, þar sem aðstæður voru hvað verstar og það var í bar- áttunni við hin óblíðu öfl íslenskrar náttúru sem hann naut sín best. Þess væri að vænta, að maður eins og Haukur, sem var í mjög erf- iðu starfi, væri hrjúfur og harðlynd- ur. En það var öðru nær. Meiri öð- ling og ljúflyndari mann er vart hægt að hugsa sér. Svo vel stóð hann fyrir verkefnum sínum, að allt- af var viðmótið þægilegt. Hann var jafnan upplífgandi við starfsmenn sína og félaga, þannig að viðfangs- efnin urðu öll viðráðanlegri í hugum manna. Ef vanda bar að höndum þá einhenti Haukur sér í hann, því hann vildi sjálfur kljást við það versta viðureignar og ætlaði ekki öðrum. Aldrei lét hann erfiðleikana vaxa sér í augum og æðraðist ekki þótt blési og flæddi. Hugur hans var mjög bundinn vinnu við brýr og hann undi sér manna best á þeim vettvangi. Hann var heiðarlegur og heilsteyptur og mjög uppbyggilegt var fyrir unga menn að vera í vist hjá honum og óvenjulegt nú á tím- um sérhagsmuna, að kynnast svo já- kvæðum og ósérhlífum manni, sem mat mest sönn gildi mannúðar og hjálpsemi, þótt hann hlyti stundum sjálfur óþægindi af því. Nú er Haukur Karlsson genginn. Það er lögmál lífsins að mennirnir koma og mennirnir fara og því fáum við, sem eftir erum, ekki breytt. En hjá þeim sem kynntust honum mun lifa minningin um öndvegismann. Baldur Þór Þorvaldsson. Haukur Karlsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.