Morgunblaðið - 24.12.2010, Síða 22
22 24. desember 2010
kofanum sínum vegna þess að 5 tonna
þungur og 6 metra langur fílaselur, sem
hann hafði vingast við, lagðist fyrir
framan útidyrnar. Það gat tekið á að bíða
í þrjá til fjóra klukkutíma eftir því að sel-
urinn færði sig. Allt sem Xavier sagði gat
vel staðist.
Á leið af ströndinni er selur orðinn ást-
fanginn af myndavélatöskunni minni
sem ég hafði skilið eftir við bátinn til að
vera léttari á göngu um fjöruna. Hann
liggur brosandi og heldur utan um
töskuna sem var komin á hvolf og öll út-
ötuð í sandi. Það var eins og að slíta úr
honum hjartað að reyna að losa töskuna.
Selurinn eltir mig smástund og horfir
bænaraugum á mig: „Ekki taka
töskuna.“ Það var engu líkara en hann
hefði krækt sér í fegurðardrottningu.
Með lítilli gleði tek ég af honum töskuna
en það er algjörlega bannað að skilja
nokkurn skapaðan hlut eftir á suð-
urskautinu.
Ég geng áfram og gái ekki að mér því
allt í einu rís upp fyrir framan mig rymj-
andi risi á hvolfi, ég hafði næstum stigið
ofan á afturhreifana á honum. Yfirleitt
snúa þeir sér stirðbusalega við, opna
kjaftinn og rymja á mann til að sýna að
maður sé nú ekkert sérlega velkominn en
í þetta skiptið snýr hann upp á sig og
horfir rauðeygður á mig á hvolfi. Við
horfumst í augu smástund, báðir graf-
kyrrir. Hvorugur lítur undan. Ég smelli af
honum nokkrum myndum vitandi að ég
fer hraðar yfir en hann og mun því sleppa
ef hann gerir árás. Þetta fór betur en á
horfðist, annar risaselur kemur of nálægt
og þeir fara að kýtast um kerlingarnar
sínar, urra og höggva hvor í annan þar til
annar þeirra flýr af hólmi.
Þar sem Endurance brotnaði
Við siglum áfram á aðrar strendur á þess-
ari ævintýraeyju, eyjuna sem Shackleton
gekk yfir ásamt tveimur öðrum til að
bjarga mönnum sínum sem hírðust undir
árabátum á Fílaeyju á Suðurskautsskag-
anum og biðu í von og óvon eftir því að
þeim yrði bjargað eftir að skip þeirra,
Endurance, brotnaði þar sem það fraus
fast í ísnum. Við siglum um Wedel-haf á
slóðir Endurance og litlir ísjakar og stórir
mæta okkur þegar nær dregur heim-
skautaskaganum. Litlar mörgæsir eru í
hópum hlaupandi um jakana og einstaka
selir liggja og hvíla sig.
Siglt er á gúmmíbátnum undir traustri
stjórn heimskautafarans og ævintýra-
mannsins Nikolais Dubreuil sem er ör-
yggið uppmálað. Við lendum á litlum ís-
jaka með litlum adelie-mörgæsum. Þær
eru minni en kóngamörgæsir, svolítið
örar í hreyfingum en vinalegar. Við get-
um ekki stoppað lengi því vindinn er að
herða.
Við Brown Bluff-klettinn á að reyna að
fara í land, Nikolas siglir á land þar og
kannar aðstæður en líst ekki á blikuna.
Reynsla hans af veðrinu og innsæi segja
það ekki öruggt. Eftir nokkrar mínútur á
ströndinni, þegar vindhraðinn var kom-
inn í hátt í 60 m/s hraða, kallaði Nikolas
til mín og bað mig að taka myndir strax
og þær margar. „Við getum ekki stoppað
hér. Það er að gera vitlaust veður.“
Gestkvæmt á ströndinni
Snjórinn rýkur á ströndinni og mörgæsir
koma kjagandi til að kíkja á okkur í ein-
faldri röð, selur skríður á land og leggst
til svefns. Mörgæsirnar vagga til hans og
kíkja á selinn eftir að hafa skoðað okkur.
Það er gestkvæmt á ströndinni þennan
dag, en það herðir bara veðrið. Við rjúk-
um í bátana og siglum á móti vindinum í
um tuttugu mínútur, það gefur yfir bát-
inn og Frakkarnir fagna þegar einhver
einn þeirra fær meiri gusu yfir sig en
annar. Það er ekki þurr þráður á mönn-
um þegar um borð í skipið er komið en
létt yfir öllum. Frakkarnir eru greinilega
afkomendur mikilla sægarpa, það er
varla hægt að vera með öruggari mönn-
um við þessar aðstæður.
Vísindamaður sem var í rannsókn-
arstöð í fjórtán mánuði á suðurskautinu
rifjaði upp að það var nánast aldrei farið
út fyrir rannsóknarhúsin, ekki einu sinni
niður í fjöru sem var í 300 metra fjarlægð,
því sterkur fallvindurinn af jöklinum gat
skollið á frá logni yfir í 200 m/s vindhraða
á tveimur til þremur mínútum. Hafís
brotnaði upp á sjónum og fauk eftir haf-
fletinum eins og servíettur og eirði engu.
Um leið og veðrinu slotaði fraus sjórinn um
leið á ný.
Jean Babtiste Strobel, franskur nátt-
úrufræðingur, lýsir einverunni þannig að
hann hafi fengið hálfgerðar martraðir í
fimm ár eftir þessa einveru og aðstæður
svona lengi. Upp í hugann koma heim-
skautafararnir sem kepptust við að verða
fyrstir á pólinn. Þvílíkt þrekvirki það hefur
verið. Sumir komust á pólinn, eins og
Scott, en týndu lífi á leiðinni til baka. Það
hlýtur að hafa verið nöturlegt að hafa rek-
ist á búðir Roalds Amundsens sem sýndu
að hann kom fyrstur á pólinn. Aðrir sluppu
með skrekkinn eftir miklar þrekraunir eins
og Sir Ernest Shackleton sem sneri við til
að bjarga mönnum sínum þegar hann sá
fram á það skammt frá pólnum fyrstur
manna að þeir mundu ekki ná til baka á lífi.
Shackleton valdi lífið og sneri við. Pólfarar
á þessum tímum urðu að treysta á sjálfa
sig. Það var enginn til að bjarga þeim.
Sama afrek og áður
Íslendingar hafa keyrt þar á jeppum en
einungis þrír Íslendingar hafa gengið suð-
urpólinn. Þeir Ólafur Örn Haraldsson,
Haraldur Örn, sonur hans, og Ingþór
Bjarnason. Ganga þeirra, 1.086 kílómetrar,
var sama afrek og fyrri pólfara í stöðugum
stormi, beint í fangið í 51 dag, í einhverju
fjandsamlegasta umhverfi sem hægt er að
hugsa sér. Í næstu grein förum við í fótspor
Shackletons, þess merka manns, og æv-
intýra hans.
Suðurskautslandið fyrir stafni.
Stormar geisa við fjallgarða og
jakar fljóta um í hafinu.
’
Þessi skrýtni heimur
sem er okkur flestum
algjörlega framandi
er laus við ógn af manna-
völdum og dýrin skynja
ekki grimmd mannsins, hér
eru þau alfriðuð. Maðurinn
sem er í raun eitt mesta
rándýr jarðarinnar og efst-
ur í píramídanum skelfir
þau því ekki.