Organistablaðið - 01.12.1981, Blaðsíða 16

Organistablaðið - 01.12.1981, Blaðsíða 16
Forðum tið Úr endurminningum Jóns Pálssonar Orgelið í Strandarkirkju Mér var, eins og flestum öðrum, kunnugt um það, að Strandarkirkja í Selvogi væri ein hin ríkasta kirkja landsins, en þrátt fyrir þetta væri þó ekkert orgel í henni, söngur lélegur og sjaldan messað. Ég hafði um mörg ár haft hljóðfærasölu á hendi og útvegað ýmsum kirkjum ágæt prgelharmonium, sem allsstaðar reyndust vel og þóttu ódýr. Kvað þó meira að þessu síðar en hér var komið sögu og einkum eftir að ég fluttist til Reykjavíkur árið 1902. Mér var því talsvert áhugamál að fá því til leiðar komið, að keypt yrði vandað hljóðfæri til Strandarkirkju, því að hún gæti þó borgað, ekki síður en margar aðrar kirkjur sem fátækari voru. Hins vegar var mér eigi síður kunnugt um það, aðslík hugmynd og ráðagerð mundi mæta miklum mótþróa og mörg Ijón verða á vegi mínum í þessu efni, jafnvel úr mörgum áttum. Það var hvort tveggja, að presturinn var þessu mjög mótfallinn og söfnuðurinn engu síður, enda við ýmsa aðra málsaðila að ræða um slíkt mál, svo sem héraðsfund, prófast og biskup, sem engir höfðu reynzt mér neitt sérlega leiðitamir við umleitanir mínar á slíkum málum áður. Mér var því fyllilega Ijóst, að ég mundi þurfa á allri þeirri íhugun og ráðhyggni að halda, sem ég hefði ráð á, ætti ég að fá nokkru til leiðar komið í þessu efni. Ég íhugaði því málið svo vel og vandlega sem ég gat og lagði svo loks af stað með það út í óvissuna. Svo stóð á, að presturinn til Selvogsþinga, séra Eggert Sigfússon, var sýslunefndarmaður þeirra Selvogsmanna, og sótti hann sýslufund árlega austur á Eyrarbakka einu sinni eða oftar á ári. Ég talaði því við hann fyrstan manna og reyndi að fá hann til þess að beita sér fyrir málinu, en lengi vel var ekki nærri því komandi, Hann sagði, eins og eflaust hefur verið rétt, að hér ættu svo mörg stjórnarvöld hlut að máli og margir aðilar, að ómögulegt mundi verða fyrir mig eða hvern annan sem væri að fá samþykki þeirra allra, enda vissi hann nokkurn veginn fyrir fram, að þeir væru allir á móti því og hann sjálfur. „ekki síztur postulanna", eins og hann komst að orði. Hann lét þess jafnframt getið við mig, að vingjarnlegra ráð gæti hann ekki gefið mér en það að hætta alveg við slíka fásinnu. í þessu þófi milli okkar stóð svo um nokkur ár. Aldrei gat ég unnið bug á honum. En svo kom mér nýtt ráð í hug. Ég fór með hann út í Eyrarbakkakirkju og spilaði fyrir hann lagið „Eldgamla ísafold" á orgelið og bað hann síðan ganga heim með mér, því þar skyldum við tala um málið. Þegar heim kom, byrjaði ég á því að spila „Eldgamla ísafold” aftur á ágætt orgel, sem ég átti heima hjá mér. Ég spilaði lagið oft og þess á milli sagði ég við hann: „Sjáið nú til, prestur minn, það er alls ekki vansalaust fýrir yður sem prest og svona stórríka kirkju að véra á eftir flestum öðrum að eignast gott orgel! Kirkjan yrði miklu betur sótt og guðsþjónusturnar miklu hátíðlegri." 16 ORGANISTABLAÐIÐ

x

Organistablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Organistablaðið
https://timarit.is/publication/787

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.