Morgunblaðið - 08.06.2011, Qupperneq 30

Morgunblaðið - 08.06.2011, Qupperneq 30
30 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 8. JÚNÍ 2011 Árni Matthíasson arnim@mbl.is Segja má að aðal bóka bandaríska metsöluhöfundarins Jodi Picoult sé að í þeim velti hún upp spurn- ingum sem fólk spyrji gjarna, en vilji ekki endilega fá svör við eða treysti sér ekki til að svara sjálft. Dæmi um það er bókin Brothætt sem kom út á Íslensku fyrir stuttu, en í henni höfðar móðir fatlaðrar stúlku skaðabótamál á hendur fæð- ingarlækninum fyrir „óréttmæta fæðingu“. Í bókinni varpar Picoult fram þeirri spurningu hvort móð- irin muni geta sannfært dóttur sína um að hún elski hana ná- kvæmlega eins og hún er, en einn- ig hvort hún óski þess, innst inni, að dóttir sín hefði aldrei fæðst. Að- spurð um það hvernig hægt sé að svara slíkum spurningum svarar Picoult því til að það eigi ekki að vefjast fyrir neinum, „vegna þess að það er ekki til neitt rétt eða rangt svar við slíkum spurn- ingum“, segir hún og skýrir það svo að hún skrifi ekki bækur sínar af yfirvegaðri ró. „Ég held að það sé ekki hægt að skrifa almennt og halda tilfinn- ingalegri fjarlægð frá því sem maður er að skrifa um. Mér finnst ég frekar vera eins og laufblað í vindi sem feykt er í eina átt og svo aðra – nú hef ég samúð með þess- ari persónu og svo hef ég samúð með hinni eins og hendi sé veifað. Mitt verkefni er að reyna að draga fram flestar hliðar máls og gera lesandanum þannig kleift að draga eigin ályktanir. Hver lesandi hefur sínar skoðanir á hlutunum og fyrir vikið mun hver upplifa bækurnar á sinn hátt. Mér finnst þær bækur frábærar sem vekja deilur með lesendum um hvað sé rétt og hvað rangt; vekja þá til umhugsunar; ef mér tekst að skrifa slíka bók hef ég náð takmarki mínu.“ Kveikjan að Brothætt var blaða- grein sem Picoult las um móður sem fór í mál við fæðingarlækni fyrir „óréttmæta fæðingu“ og fékk út úr því bætur upp á hundruð milljóna króna. Hún segir að af greininni hafi mátt ráða að móðirin hafi höfðað málið til að geta veitt syni sínum, sem var með sjaldgæf- an erfðagalla, bestu umhirðu sem völ var á, „en til þess að sannfæra kviðdóminn varð hún að lýsa því yfir að ef hún hefði vitað af gall- anum hefði hún látið eyða fóstr- inu.“ Afdráttarlaust rangt eða ótrúlega rétt „Þessi siðferðisklemma varð til þess að ég fór að velta fyrir mér hvernig málið hefði þróast ef drengurinn hefði ekki verið alvar- lega andlega fatlaður heldur bara líkamlega fatlaður – hvað ef barnið gæti heyrt það er móðir þess segði fyrir rétti að hún óskaði þess að það hefði aldrei fæðst? Í framhaldi af því kynnti ég mér beinstökkva (Osteogenesis imperfecta), en börn með þann erfðasjúkdóm eru með stökk bein sem brotna við minnsta átak, auk þess sem ýmis erfið lík- amleg vandamál fylgja sjúkdómn- um. Börn sem þjást af sjúkdómn- um eru þó 100% eðlileg hvað andlegt atgervi varðar og iðulega klárari en jafnaldrar þeirra þar sem þau eyða meiri tíma í að lesa og grúska í ljósi þess að þau geta ekki leikið sér eins og venjuleg börn. Ég kynnti mér sjúkdóminn með því að heimsækja fjölskyldur barna með beinstökkva og börnin voru öll indæl, vel gefin og aðlað- andi persónuleikar. Margir sneiða hjá börnum í hjólastólum, en þegar maður eyðir tíma með börnum með beinstökkva sér maður ekki mun- inn á þeim og ófötluðum, maður tekur bara eftir því hvað þau eru lík öðrum börnum. Þau flissa og daðra og stríða bræðrum sínum. Þau segja aulabrandara og nöldra yfir löngum bílferðum og neita að borða sprotakál. Þau þekkja þó ýmislegt sem venjuleg börn hafa ekki upplifað, spelkur og fatla og lyfjagjöf og mænugrindur. Þegar maður fylgist með samskiptum þeirra við foreldra sína sér maður líka að þeir eru eins og hverjir aðrir foreldrar, tilbúnir til að gera hvaðeina til þess að barn þeirra geti lifað sem bestu lífi, jafnvel þó það feli í sér að ljúga að dómara og kviðdómi. Og skyndilega verður erfitt að meta hvort það sé afdrátt- arlaust rangt eða ótrúlega rétt.“ Eldfimt málefni Af ofangreindu má ráða að Pico- ult leggur talsverða vinnu í bækur sínar, en ýmislegt í þeim er ekki hægt að rannsaka, snar þáttur í þeim er það sem hlýtur að byggj- ast á hyggjuviti eða tilfinningum höfundar. Aðspurð um hvernig hún glími við slíkar spurningar tekur hún undir það að þau svör verði að koma frá henni sjálfri. „Það er þó ýmislegt sem kalla má sammann- legt og við getum öll skilið. Ég hef ekki átt barn með beinstökkva, en ég á barn sem glímdi við þrálátan sjúkdóm og get því ímyndað mér hvernig það sé að vera Charlotte [móðirin] sem óskar þess að beinin í henni væru að brotna en ekki bein Willow [dótturinnar]. Ég hef líka ekki skilið við eiginmann minn, en við höfum deilt og ég get því ímyndað mér hvernig að sé að skilja.“ Bækur Jodi Picoult hafa iðulega verið umdeildar, en um enga hafa menn þó deilt eins mikið og síð- ustu bók hennar, Sing You Home, þar sem hún tekur fyrir samkyn- hneigð, verulega eldfimt málefni vestan hafs. Aðspurð hvort hún hafi fundið fyrir ónáægju lesenda sinna segir hún að það hafi þá að- eins verið vestan hafs, lesendur í öðrum löndum skilji almennt ekki af hverju deilt sé um réttindi sam- kynhneigðra. „Í Bandaríkjunum hafa margir gagnrýnt mig fyrir að koma „óorði á kristni“, þar á meðal margir sem ekki hafa lesið bókina. Ég legg þó áherslu á að því er hvergi haldið fram í bókinni að allir kristnir hati samkynhneigða, þvert á móti þá nefni ég það oft í henni að svo sé ekki. Kristnir vinir mínir eru allir mjög fylgjandi réttindum samkyn- hneigðra en málum er svo komið að hávær minnihluti evangelískra kristinna hefur komið sér fyrir í ræðustólnum og það eru þeir sem berjast fyrir því að lög verði sett sem takmarki rétt samkynheigðra hvað varðar hjónaband og ættleið- ingar. Ég beini spjótum mínum að slíku fólki í bókinni þar sem ég ræði um söfnuðinn sem [söguper- sónan] Max tilheyrir. Samtölin sem ég birti í bókinni eru svo orð- rétt höfð uppúr sex tíma viðtali sem ég átti við fulltrúa kristnu samtakanna Focus on the Family. Þó margir hafi gagnrýnt mig fyrir bókina hafa fleiri skrifað mér og lýst ánægju sinni með hana, ég nefni sem dæmi bréf frá konu sem las bókina og hringdi síðan grát- andi í samkynhneigðan son sinn, enda hafði hún ekki áttað sig á því hvaða erfiðleika hann hefði þurft að ganga í gegnum. Hundruð sam- kynhneigðra ungmenna hafa komið að máli við mig eftir bókakynn- ingar og sagt mér frá því að for- eldrar þeirra hafi komið fram við þá eins og Max kemur fram við Zoe [fyrrverandi eiginkonu sína sem er samkynheigð]. Hundruð íhaldssamra kristinna hafa líka sent mér póst og sagt að bókin hafi orðið til þess að þeir end- urmátu afstöðu sína til samkyn- hneigðra og eins þá skyldu að fylgja kirkju sinni að máli í einu og öllu. Ég held að það sé talsverður munur á því hvað bandarískum al- menningi finnst og skoðunum íhaldssamra stjórnmálamanna, en því verður þó ekki neitað að það er víða skortur á umburðarlyndi í Bandaríkjunum, því miður, og dæmi um staði þar sem fólki er neitað um þjónustu fyrir það eitt að vera samkynhneigt eða það jafnvel beitt ofbeldi.“ Mér finnst ég vera eins og laufblað í vindi  Bandaríski metsöluhöfundurinn Jodi Picoult er ófeimin við að fara það sem aðrir hætta sér ekki  Picoult spyr spurninga sem fólk vill ekki endilega fá svör við eða treystir sér ekki til að svara Ófeimin Bandaríski rithöfundurinn Jodi Picault er umdeild fyrir bækur sínar og fjallar oft um umdeild málefni. Jodi Picoult er hálffimmtug. Fyrsta bók hennar, Songs of the Hump- back Whale, kom út 1992. Síðan eru komnar bækurnar Harvesting the Heart (1993), Picture Perfect (1995), Mercy (1996), The Pact (1998), Keeping Faith (1999), Plain Truth (2000), Salem Falls (2001), Perfect Match (2002), Second Glance (2003), My Sister’s Keeper (2004), Vanishing Acts (2005), The Tenth Circle (2006), Nineteen Minutes (2007), Change of Heart (2008), Handle With Care (2009), House Rules (2010) og Sing You Home (2011). Fjórar þeirra hafa verið kvikmyndaðar, The Pact, Pla- in Truth, The Tenth Circle og My Sister’s Keeper. Á íslensku hafa komð út Á ég að gæta systur minn- ar? 2006, Nítján mínútur 2007 og Brothætt 2011. Jodi Picould kom hingað til lands í boði eiginmanns síns, en hann gaf henni ferðina í fertugsafmælisgjöf. Hún segir Ís- land stórkostlega fallegt og ævin- týralegt, því líkast sem það sé get- ið af Skotlandi og Alaska með virkum eldfjöllum og heitum upp- sprettum. „Þar tala menn líka stóreinkennilegt tungumál með fullt af hljóðum sem ekki eru til í ensku og ég gafst upp á því að reyna að tala það.“ Stóreinkennilegt tungumál ÍSLANDSHEIMSÓKN JODI PICOULT Jodi Picoult á Íslandi.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.