Morgunblaðið - 10.06.2011, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 10.06.2011, Blaðsíða 28
28 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 10. JÚNÍ 2011 ✝ Reynir ArnarEiríksson, verslunarmaður, fæddist í Reykjavík 8. nóvember 1945. Hann lést á líkn- ardeild Landspít- alans í Kópavogi 3. júní 2011. Foreldrar hans voru Eiríkur Ágústsson, kaup- maður frá Sauð- holti í Ásahreppi, f. 6.10. 1909, d. 16.4. 1984, og Ingigerður Guð- mundsdóttir, húsfreyja frá Arn- arholti í Biskupstungum, f. 20.9. 1902, d. 20.6. 1999. Systkini Reynis eru: Unnur Jörunds- dóttir (sammæðra), f. 9.4. 1929, óskírð systir, f. 25.1. 1935, d. apríl sama ár, Ágúst Guðmar, f. 14.4. 1937, Grétar Arnar, f. 20.9. 1938, d. 7.5. 1939, Grétar Nökkvi, f. 4.4. 1940, d. 13.8. 2003, og Guðmundur Ingi, f. 8.8. 1942. Fyrri kona Reynis var Anna Árnadóttir, þau slitu samvistir. Reynir gekk 22.8. 2008 að eiga Helenu Svavarsdóttur frá Reykjavík, f. 15.12. 1947, d. 28.8. 2010. Foreldrar hennar voru Svav- ar Sigurðsson, f. 13.11. 1922, d. 1.4. 1979, og Sólveig Guðmundsdóttir, f. 17.3. 1927, d. 10.2. 1974. Börn Helenu eru Linda Sólveig, f. 11.2. 1965, Brynja Björk, f. 17.5. 1968, og Birgir Fannar, f. 24.4. 1970. Reynir ólst upp í Reykjavík og fór ungur að vinna að versl- un. Hann lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands og prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Ís- lands. Reynir verslaði með leik- föng alla sína tíð. Hann rak ásamt föður sínum og bræðrum leikfangaverslanirnar á Lauga- vegi 11 og 72 og síðar verslunina Liverpool. Reynir starfaði einn- ig um árabil að rekstri heild- verslunarinnar Eiríksson ásamt bræðrum sínum Guðmundi og Grétari. Útför Reynis fer fram frá Seljakirkju í Breiðholti í dag, 10. júní 2011, og hefst athöfnin klukkan 13. Það er ekki öllum unnt að finna ástina í lífinu og hvað þá tvisvar. Mamma var svo lánsöm þegar hún hitti Reyni að finna ástina á ný eft- ir að hafa orðið ekkja alltof snemma. Ég fékk að fylgjast með tilhugalífinu þeirra og þau voru ófá símtölin út til mín þegar hún var að segja mér frá Reyni. Hún flissaði og var eins og skotin smá- stelpa og það var gott að finna hversu spennt og hamingjusöm hún var. Þegar ég svo loks hitti Reyni í næstu Íslandsferð fór ekki á milli mála hversu kært var á milli þeirra og hvað þau höfðu það gott saman. Á þessum tíma sem þau fengu saman náðu þau að ferðast víða, í veiðiferðir innanlands, í róman- tískar Evrópuferðir og í heimsókn til okkar systkinanna sem bjugg- um á Norðurlöndunum. Það var yndislegt að fá þau í heimsókn til mín til Noregs þegar Ágústa mín fermdist. Reynir tók fullan þátt og stóð sig með sóma í afahlutverk- inu sem honum var falið af láns- barnabörnunum. Það var okkur mikið reiðarslag þegar Reynir veiktist og hamingju hans og mömmu var svo óréttlátt ógnað. Þau tókust samstiga á við veikind- in og voru staðráðin í að njóta tím- ans saman eins og hægt væri. Það gerðu þau svo sannarlega með rómantísku brúðkaupi, ferðalög- um og heimakærri samveru. Mamma var ákveðin í að styðja og annast um Reyni eftir fremsta megni í því sem framundan væri. Þegar hún svo skyndilega veiktist alvarlega sjálf var hennar fyrsta hugsun hvað yrði um hann Reyni sinn. Öfugt við það sem ætlað var varð það hans hlutskipti að annast hana og fylgja henni að leiðarlok- um. Hann tók missinum af æðru- leysi eins og öllu öðru en það var greinilegt að lífsviljinn og þrótt- urinn minnkaði eftir fráfall henn- ar. Í vetur áttum við Reynir nokkr- ar kvöldstundir saman og ég fékk að búa hjá honum í Hjaltabakk- anum meðan ég var að koma mér fyrir á Íslandi aftur. Ég fann að ég var velkomin og að hann var fé- lagsskapnum feginn, það var góð tilfinning að geta veitt honum ein- hverja aðstoð og hlýju. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Reyni og fyrir að hann varð svo mikilvægur hluti af lífi mínu og dætra minna. Ég hugga mig við tilhugsunina um að nú séu mamma og Reynir saman á ný, hönd í hönd. Við gætum sungið, gengið um, gleymt okkur með blómunum. Er rökkvar ráðið stjörnumál. Gengið saman hönd í hönd, hæglát farið niður á strönd. Fundið stað, sameinað beggja sál. (Vilhjálmur Vilhjálmsson) Ég vil votta bræðrum Reynis og fjölskyldu hans allri mína inni- legustu samúð. Brynja Björk Birgisdóttir. Árið er 1958, ég flyst 12 ára drengur í Bólstaðarhlíðina, þann dag geng ég hikandi út á götuna, hér þekki ég engan, stend við hlið- ið óráðinn hvað gera skuli, þá opn- ast hurð skáhallt á móti mér og út hleypur strákur á svipuðu reki og ég og segir: „Varstu að flytja hing- að?“ Játti ég því og sagði til nafns. „Ég heiti Reynir og á heima á númer 12.“ Þar með hófst vinátta sem haldist hefur í yfir 50 ár. Í fyrstu þegar við vorum smá- strákar fórum við saman í fót- bolta, bíó og á völlinn, við vorum alla tíð Framarar og inn í þetta fléttaðist áhugi beggja á söfnun frímerkja og allir þeir hlutir sem grípa huga ungra drengja. Heim- ilið í Bólstaðarhlíð 12 stóð mér alltaf opið og foreldrar Reynis, þau Eiríkur og Inga, reyndust mér betur en margur, við félagar uxum úr grasi og tilheyrðum hinni svokölluðu Glaumbæjarkynslóð og brölluðum margt saman. Óteljandi eru veiðiferðirnar okkar út um allar koppagrundir með skrínumat með okkur og þar stóðu nú upp úr flatkökurnar sem mamma hans bakaði, ómissandi partur í hverju ferðalagi. Reynir útskrifaðist frá Verslunarskóla Ís- lands og síðar sem viðskiptafræð- ingur frá Háskóla Íslands, að loknu námi starfaði hann um hríð hjá Fiskifélagi Íslands en stofnaði svo sína eigin heildverslun auk þess að reka verslunina Liverpool ásamt föður sínum og bræðrum. Skærasta ljósið í lífi Reynis var slökkt í ágúst á síðasta ári þegar Helena eiginkona hans lést en hann var þá sjálfur orðinn veikur af þeim sjúkdómi sem nú hefur orðið honum að aldurtila. Þessa góða vinar er nú sárt saknað af vinahópnum en minningin lifir. Ég kveð þig elsku vinur minn eftir yf- ir hálfrar aldar vináttu, eigðu góða ferð og megi allt gott vaka yfir þér. Pétur Þór Jónsson. Það kann að þykja undarlegt, en þegar mér verður hugsað til Reynis byrjar ósjálfrátt að hljóma innra með mér söngurinn „Vér göngum svo léttir í lundu“. Kannski af því það var það sem hann gerði. Að arka áfram, með sínu sérstaka göngulagi, léttur í lund. Og þótt þrautagangan hafi reynst æði erfið síðasta spölinn hélt hann fast í aðalsmerki sitt, flugbeitta kímnigáfuna. Okkur sem kynntumst Reyni seint fannst hann stundum eilítið sérvitur. Enda hafði hann sína siði, venjur og skoðanir, og var al- veg ófeiminn við að láta þær í ljós. Áreiðanlega hefur sá eiginleiki verið einn af fjölmörgum, sem móðir mín, Helena Svavarsdóttir, heillaðist af í fari Reynis. Og ekki síður hitt, að hann var með af- brigðum orðheldinn og nærgæt- inn. Að því leyti er Reynir og verð- ur fyrirmynd margra. Þeirra tími saman varð því mið- ur allt of stuttur. En hann gaf þeim báðum afskaplega mikið og í dag ættum við í sorg okkar að vera þakklát fyrir það og sam- gleðjast þeim yfir að hafa fundið hvort annað. Þau höfðu bæði misst mikið þegar þau mættust, en völdu að takast í hendur, horfa fram á veginn og ganga í samein- ingu á vit þeirra áskorana sem biðu. Þær voru æði margar og sumar mjög erfiðar. Eftir fráfall Helenu síðastliðið haust gekk Reynir einsamall síðasta spölinn. Þó með stuðningi sinna nánustu, og kannski sérstaklega Gumma bróður, tókst honum að halda áfram enn um stund. Reynir Arnar Eiríksson var með eindæmum nákvæmur mað- ur og það er því honum líkt að hafa þraukað baráttuna við erfiðan sjúkdóm, þar til vel var gengið frá öllum málum, bæði hans og móður minnar. Farðu í friði, Reynir. Við horf- um á eftir þér með sorg og sökn- uði, en finnum huggun í að vita fyrir víst, að vel verður tekið á móti þér. Birgir Fannar Birgisson og fjölskylda. Þann 3.6. sl. lést heiðursmað- urinn, vinur minn og spilafélagi til áratuga, Reynir Arnar Eiríksson, eftir erfið veikindi. Við Reynir kynntumst sem kornungir menn í gegnum sameiginlegan vinskap okkar og Þórarins Óskarssonar, Péturs Jónssonar og Þorvaldar Jónssonar. Á þessum árum tóku ungir menn vel á því í skemmtanalífinu og fljótlega bættust í hópinn Hall- dór Bjarnason, Friðjón Vigfússon, Jón Hákon Jónsson og Hannes Ólafsson. Þessi hópur hefur síðan haldið góðu sambandi. Reynir bjó lengi í foreldrahúsum að Bólstað- rhlíð 12 og þar hittist hópurinn oft og var þá jafnan glatt á hjalla. Ef menn voru staddir annars staðar í samkvæmi og Reyni þótti menn vera orðnir helst til fjörugir hafði hann þann skynsamlega vana að láta sig hverfa hljóðlega. Reynir var viðskiptafræðingur að mennt og einnig var hann víð- lesinn og fróður um menn og mál- efni og hafði ákveðnar skoðanir sem oft leiddu til fjörugra um- ræðna um heima og geima þar sem ekkert skorti á skopskyn. Reynir vann lengst af ásamt fjölskyldu sinni við innflutning og sölu á leikföngum, m.a. í Leik- fangabúðinni og Liverpool og síð- ar í heildsölunni Eiríksson. Núna nýlega voru hann og Guðmundur bróðir hans heiðraðir af Playmobil fyrir áratuga farsælt samstarf. Ungir fórum við að spila brids á góðum stundum. Þetta varð nokk- ur della hjá okkur Reyni og við fórum í Bridsskólann til frekari mennta. Við gengum svo í TBK og spiluðum þar meðan sá klúbbur lifði. Reynir var jafnan valinn til forystustarfa og varð gjaldkeri klúbbsins. Eftir að TBK var lagð- ur niður gengum við í Krumma- klúbbinn og þar spiluðum við með- an heilsa Reynis leyfði. Hann var einnig gjaldkeri þess klúbbs um tíma. Við fórum í fjölmargar krummaklúbbs-vorferðir með mökum og spiluðum við heima- menn. Bestu ár Reynis voru án efa þau tíu ár sem hann átti með Hel- enu Svavarsdóttur, síðari konu sinni. Við samfögnuðum þeim er þau gengu í hjónaband í ágúst 2008 í Kotstrandarkirkju í Ölfusi. Það var mikil gleðistund og öllum ógleymanleg sem þar voru við- staddir. Helena hafði ekki verið heilsuhraust í mörg ár og í fyrra- haust veiktist hún mikið en hetju- legri baráttu hennar lauk hinn 28. ágúst sl. er hún lést. Reynir var sem vænta mátti stoð hennar og stytta í hennar erfiðu veikindum sem og hún honum í hans veik- indum. Helena var mikill húmor- isti og einstaklega góð viðbót við vinahópinn. Frúrnar skelltu sér í Bridsskólann og skiptust á að spila heima þegar karlarnir voru í Krummaklúbbnum. Svo var slegið upp veislu eða farið í sumarbústað og spilað á tveimur borðum við karlana og mátti ekki á milli sjá hvor hafði betur. Frúrnar nýút- skrifaðar eða gömlu refirnir. Karl- arnir höfðu þó ávallt uppi ýmsar afsakanir ef frúrnar höfðu betur. Við öll í vinahópnum minnumst með hlýju og virðingu vinar okkar Reynis og þökkum forsjóninni fyrir einstaklega góða viðkynn- ingu við þann mikla heiðursmann og sendum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Reynis Arnars Eiríkssonar. Sigtryggur Jónsson. Reynir Arnar Eiríksson ✝ Guðrún fæddistá Granastöðum í S-Þingeyjarsýslu 21. október 1933. Hún lést á Sjúkra- húsi Akraness 3. júní 2011. Foreldrar henn- ar voru Jón Páls- son, bóndi á Grana- stöðum, f. 9.12. 1903, d. 10.3. 1990, og kona hans Björg Kristjánsdóttir, f. 8.9. 1904, d. 2.5. 1973. Guðrún var þriðja í röð sex systra. Hinar eru Hólmfríður, f. 5.1. 1930, Ól- ína, f. 17.1. 1931, Ásdís, f. 8.11. 1937, Arnheiður, f. 16.5. 1942, og Guðný, f. 11.2. 1947. Hinn 1.10. 1960 gekk Guðrún að eiga Engilbert Guðjónsson, f. 17.2. 1918, d. 26.6. 2002. Eign- uðust þau tvo drengi saman, Óla Pál, f. 8.10. 1961, er kvæntur Sigríði Einarsdóttur og eiga þau þrjú börn, og Birgi, f. 30.1. 1965, sem kvæntur er Agnesi Hörpu Hreggviðsdóttur og eiga þau tvær dætur. Fyrir átti Guðrún soninn Jón Benediktsson, f. 26.9. 1958, faðir Jóns er Benedikt Sigurðsson, f. 1935 frá Gneista- völlum á Akranesi. Jón á tvær dætur með Jóhönnu Kristínu Jónsdóttur, eru þau slitu sam- vistum. Fyrir átti Engilbert börnin Halldóru, f. 18.7. 1940, gift Rögnvaldi Þor- steinssyni, sem lést 18.10. 2009, eign- uðust þau þrjú börn; Sesselju f. 29.7. 1942, gift Þórði Árnasyni, eiga þau tvö börn; Guðrúnu f. 23.2. 1944, gift Birni Inga Finsen, eiga þau þrjú börn; Hugrúnu f. 8.7. 1946, gift Stefáni Gunnlaugssyni, eiga þau fjögur börn; Guðjón, f. 12.2. 1955, í sambúð með Dóru Ingólfs- dóttur, eiga þau þrjú börn. Guð- rún kom á Akranes 1956 og skömmu síðar, með Jón ungan, inn í líf Engilberts, sem þá var ekkill með 5 börn. Þau bjuggu alla sína búskapartíð á Akranesi og síðast á Lerkigrund 7. Á yngri árum var numið í hús- mæðraskóla og unnin verk- smiðjustörf á Húsavík og Ak- ureyri. Síðustu rúm 20 ár starfsævinnar vann hún við Fjöl- brautaskóla Vesturlands, lengst af í mötuneyti og á heimavist skólans. Eftir starfslok gerðist hún virk í starfi Eldriborg- arafélags Akraness og nágrenn- is og þá ekki síst í kór félagsins. Útför Guðrúnar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 10. júní 2011 kl. 14. Mig langar með nokkrum orðum að minnast mætrar konu, Guðrúnar Jónsdóttur, sem jarðsett verður í dag. Við Gunna kynntumst þegar við bæði tengdumst fjölskyldu Engilberts Guðjónssonar. Hún kom sem ráðskona og seinna eiginkona Berta, en ég vildi eiga eina dóttur hans. Við Gunna urðum fljótt vinir og vorum það alla tíð til loka. Það var að mínu mati mikið lán fyr- ir Berta og börnin hans eftir sáran missi að fá Gunnu í fjöl- skylduna. Hún var klettur í lífi Berta og mikill vinur barnanna. Það hefur verið krefjandi fyrir unga konu að ganga inn í þetta hlutverk, en hún hafði það til að bera sem þurfti. Það sýndi sig alla tíð hvað það var létt og eðlilegt fyrir Gunnu að um- gangast fólk og þá sérstaklega ungt fólk. Hún varð sjálfkrafa „amma Gunna“ allra barnanna í fjölskyldunni, hverjir svo sem foreldrarnir voru. Í vinnu utan heimilis var Gunna vinsæl og mjög vel met- in, sérstaklega var gaman að fylgjast með samneyti hennar við ungmennin þegar hún var matmóðir þeirra í Fjölbrauta- skólanum. Þar eignaðist hún ótal vini, sem héldu tengslum við hana. Það var aðdáunarvert hvernig Gunna annaðist Berta sinn þegar erfið veikindi sóttu á hann (alzheimer), þar var engin meðalmanneskja á ferð. Gunna var mikil félagsvera og tók virkan þátt í störfum eldri borgara meðan heilsan leyfði. Það starf var henni mjög að skapi og naut hún þess. Seinustu mánuði háði Gunna baráttu við erfið veikindi af miklu æðruleysi, naut hún þá umönnunar stjúpdætranna og fleiri ættingja. Mikil sómakona hefur lagt í sína hinstu ferð, megi allar góðar vættir vera með henni. Ættingjum sendi ég samúðarkveðjur, þið huggið ykkur við minningarnar um frábæra konu. Þórður Árnason. Elskan hún Gunna systir er farin á undan okkur yfir móð- una miklu. Hún var alltaf svo dugleg og rösk að drífa í öllum hlutum og auðvitað gerði hún enga undantekningu í þetta sinn. Við vorum svo vongóðar þeg- ar hún byrjaði í krabbameins- meðferðinni og héldum að hún yrði nú ekki lengi að hrista þetta af sér. Svo kom höggið þegar vitað var að ekki væri von um bata. Þá hrundi ver- öldin. Gunna var svo lánsöm að eiga góða að sem önnuðust hana af mikilli alúð í veikindum hennar. Kærar þakkir til ykkar allra, fyrst og fremst dætra Engilberts. Við vitum hvað það var Gunnu mikils virði að geta verið svona lengi heima. En nú er hún komin til Berta síns og þau eru örugglega að grínast og segja skemmtilegar sögur – og kannski stríða hvort öðru pínulítið. Það er svo makalaust hvað þau höfðu líkan húmor og gátu alla tíð séð það spaugilega við tilveruna. Stórt skarð er komið í systrahópinn en við minnumst með þakklæti allra góðu og skemmtilegu stundanna sem við áttum saman. Oft var glatt á hjalla á bernskudögum okkar á Granastöðum. Leikir úti og inni, smá-hrekkir, grín og gam- an ásamt með vinnunni við bú- störfin sem þurfti að sinna árið um kring. Síðan lágu leiðir okk- ar í ýmsar áttir en þótt við byggjum ekki á sama lands- horni hittumst við ósjaldan, oft að frumkvæði Gunnu. Ógleym- anlegar eru sviðaveislurnar hennar sem okkar á milli nefndust „Að naga bein og syngja“. Elsku systir, við kveðjum þig að sinni en munum og þökkum kærleikann og umhyggjuna sem þú sýndir okkur alla tíð. Bráðum hittumst við aftur og þá verður nú sungið og hlegið svo undir tekur í himnaríki. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér. (Úr 23. Davíðssálmi.) Innilegar samúðarkveðjur sendum við til sona Gunnu og fjölskyldna þeirra. Granastaðasystur: Hólmfríður, Ólína, Ásdís, Arnheiður, Guðný. Guðrún Jónsdóttir ✝ Okkar innilegustu þakkir færum við öllum þeim sem sýndu okkur vinarhug og hlýju við andlát og útför eiginmanns míns, tengda- sonar, föður, tengdaföður og afa, PÁLS ÞÓRÐARSONAR. Starfsfólki Skógarbæjar eru færðar bestu þakkir fyrir einstaka alúð og góða umönnun. Þorbjörg Einarsdóttir, Kristín Þ. Ottesen, Sigrún Pálsdóttir, Ólafur Arason, Kristín Pálsdóttir, Hörður Sigurðsson, Arna Pálsdóttir, Halldór Haraldsson og barnabörn. ✝ Elskulegur bróðir okkar, PÁLL GÍSLASON, lengst af til heimilis að Miðtúni 9, Reykjavík, sem lést á hjúkrunarheimilinu Grund laugar- daginn 4. júní, verður jarðsunginn frá Foss- vogskapellu í dag, föstudaginn 10. júní, kl. 15.00. Ásgeir Gíslason, Alexía M. Gísladóttir, Kolbeinn Gíslason.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.