Morgunblaðið - 16.06.2011, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 16.06.2011, Blaðsíða 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 16. JÚNÍ 2011 Steinunn Ingimundardóttir var einstök kona og mikilhæf, en illvígur sjúkdómur hefur nú lagt hana að velli. Við kynntumst á yngri árum okkar á Akureyri, og haustið 1950 tengdumst við traustum böndum starfs og vin- áttu sem héldust alla ævi, er við urðum samstarfskonur við Hús- mæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Þá réðst ég þangað sem kennslukona, en hún hafði þá kennt þar í nokkur ár. Frá Laugalandi áttum við góð- ar og glaðar minningar sem við höfum oft rifjað upp og yljað okk- ur við á síðari árum. Steinunn hafði áður verið nemandi við skólann og var því öllum hnútum kunnug. Síðan hafði hún numið sín fræði á Kennaraskólanum á Stabekk í Noregi. Hún var því vel undir störf sín búin og hafði skarpan vilja og einarða fram- göngu, og það var ómetanlegt fyrir mig að eignast þessa reynslu með henni. Hún var ákveðin í skoðunum, heilsteypt og réttsýn og hafði traust allra. Síðan fórum við saman til framhaldsnáms í Danmörku sem við notuðum vel. Þá áttum við ógleymanlegt ár saman í Árós- um. Við kynntumst húsmæðra- kennurum frá öllum hinum Norð- urlöndunum, lærðum margt af þeim og bundumst þeim traust- um vináttuböndum. Eftir þetta gerðist Steinunn farkennari og ráðunautur hjá Kvenfélagasambandi Íslands, ferðaðist um landið og hélt nám- skeið fyrir kvenfélagskonur og húsmæður um allt land. Hvar- vetna var hún aufúsugestur, miðlaði af brunni fróðleiks síns, létt í skapi og lipur í umgengni. Þá tóku við mörg starfsár sem skólastjóri við Húsmæðraskól- ann á Varmalandi í Borgarfirði. Það var að sjálfsögðu ærið starf og ábyrgðarmikið, þar sem sam- an voru komnar margar ungar stúlkur hvaðanæva af landinu. Má nærri geta að margvísleg vandamál bar að höndum til úr- lausnar fyrir skólastjórann. Allt fórst það Steinunni með prýði, og skemmtilegt var oft að heyra hana lýsa því hvernig hún hafði leyst hin og önnur vandamál sem torveld gátu virst við fyrstu sýn. Í frásögn hennar urðu erfiðleik- arnir að skemmtisögum. Og marga átti hún og trygga vinina meðal gamalla nemenda sinna. Síðast tók hún aftur til við að leysa vandamál húsmæðra, í þetta sinn hér í Reykjavík, er hún vann fyrir Kvenfélagasamband Íslands á Leiðbeiningastöðinni á Hallveigarstöðum við almennar vinsældir og góðan orðstír. Hún lagði lið sitt fram er bókin „Ís- lensk matarhefð“ var í smíðum, þar sem fjallað var um gamla siði og venjur í matargerð. Áður hafði hún átt sæti í norrænni nefnd sem stóð að bók um mat- arhefðir á Norðurlöndum, „Mat- kultur i Norden“, og lagði sína kunnáttu og ráð þar á borð. Nú síðustu árin hefur sjúk- dómurinn sótt á hana af mikilli heift. Það hefur verið þungbært að sjá hve óvægilega hann hefur lagt hana að velli. En margt er að þakka og margra góðra stunda að minnast. Við hjónin og margir vinir kveðjum hana með þökk og söknuði og sendum systur henn- Steinunn Ingimundardóttir ✝ Steinunn Kar-ólína Ingi- mundardóttir fæddist í Grenivík 29. mars 1925. Hún lést á Droplaug- arstöðum 7. júní 2011. Útför Stein- unnar var gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík 10. júní 2011. ar og öðrum að- standendum samúð- arkveðjur. Sigríður Krist- jánsdóttir. Fáar konur mér óskyldar hafa haft eins mikil áhrif á mig og Steinunn Ingimundardóttir. Nafna mín var fjörutíu árum eldri en ég þegar við kynntumst, nýútskrifuð úr Háskóla Íslands árið 1992, og varð það gæfa mín að ráðast til Kvenfélagasambands Íslands á Hallveigarstöðum og hitta Stein- unni sem þar starfaði. Hún tók mér strax vel, með yfirvegun þeirrar sem eldri var. Hafsjór fróðleiks sem hún var fékk ég það verkefni að reyna að koma hennar vitneskju, þekkingu og hollráðum í einhvers konar gagnagrunn og í leiðinni að læra af henni. Leiðbeiningarstöð heimilanna var vettvangurinn og hún réð þar ríkjum með þeirri kurteisi, ákveðni og glettni sem henni var í blóð borin. Við tóku skemmtileg sex ár þar sem ég lærði allt sem ég kann í dag. Við Steinunn unnum mikið tvær saman og eðlilega var margt spjallað. Hún sagði mér sögur frá árum sínum í Noregi, frá Varmalandi, fjölskyldu sinni á Akureyri og margt fleira. Og við töluðum um kvennabaráttu. Því Steinunn var mikil baráttukona og kvenfrelsiskona. Hún studdi mig sem borgarfulltrúa fyrir Kvennalista árið 1994 og ætíð síðan, fyrir það kann ég henni þakkir. Og mikið gátum við oft hlegið saman að alls kyns uppá- komum enda var nafna mín einkar glöð og skemmtileg. Stundum fengum við fyrir- spurnir símleiðis á Leiðbeining- arstöðina sem eftir á var hægt að hlæja að, en voru ekki hlægilegar meðan á þeim stóð. Eitt sinn hringdi maður og bað um leið- beiningar um hvernig ætti að sjóða egg! Hann var búinn að láta eggið sjóða og sjóða í marga klukkutíma en ekkert gerðist. Steinunn, með sitt yfirvegaða kennarafas, leiðbeindi að sjálf- sögðu manninum út úr þessum ógöngum og sagði honum að slökkva undir pottinum, taka eggið upp úr og brjóta það. Það væri tilbúið. Við nöfnur gátum endalaust hlegið að þessu. Við fórum saman á landsþing Kvenfélagasambandsins og alls kyns fundi og gistum saman á Akureyri 1993 á landsþingi. Þar var nafna í essinu sínu í sínum heimabæ. Ævi Steinunnar var saga konu sem helgaði líf sitt kennslu stúlkna alla tíð og upp- fræðslu um matreiðslu og heim- ilisfræði. Hennar merkilega ævi- saga hefði átt að skrifast meðan hún lifði í hennar frásögn. Ég þakka nöfnu minni allt sem hún gerði fyrir mig og votta systur hennar, sem ég veit að var henni afar kær, samúð sem og fjöl- skyldunni allri. Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Undirrituð upplifði að vera bæði nemandi og seinna kennari hjá „Steinunni á Varmalandi“ eins og margir nefndu hana. Þetta var bæði lærdómsríkur og skemmtilegur tími, bæði með samnemendum og síðar sam- kennurum. Við vorum 42 stúlkurnar sem hófum nám í Húsmæðraskólan- um á Varmalandi og áttum eftir að vera í skólanum nær samfleytt í níu mánuði. Það þurfti konu eins og Steinunni okkar til að halda aga á mislitum hópi ungra kvenna, sem og hún gerði með reisn og myndarskap. Ég minnist atviks, nýkomin að Varmalandi sem námsmeyja. Það var sunnu- dagur og ég klæddi mig í uppá- haldsflauelsbuxurnar, setti upp jesúskóna – svokölluðu – ætlaði niður á næstu hæð til að hitta þær sem þar væru. En ég komst ekki langt, Steinunn stoppaði mig frekar gustmikil og lét mig vita af því að hér gengi maður ekki um berfættur. Bað mig vin- samlegast um að fara upp á her- bergið mitt og skipta um skó svo ég gæti farið í sokka. Ég man ekki lengur hvort mér þótti eitt- hvað við hana, en hitt veit ég – ekki síst sem grunnskólakennari í dag – að skólareglur eru til að farið sé eftir þeim og þarna var ég að brjóta þær og auðvitað þurfti að taka á því. En þetta var það eina sem okkur bar á milli. Ég á ekkert nema skemmti- legar minningar frá Húsmæðra- skólanum á Varmalandi – sem seinna nefndist Hússtjórnarskól- inn á Varmalandi. Þegar ég hugsa til þessa horfna tíma minnist ég meðal annars laufabrauðsgerðar, slát- urgerðar, smákökubaksturs, allra veisluborðanna sem við út- bjuggum, allra skemmtilegu kvöldstundanna okkar, kirkju- ferðanna í fullum skrúða; slopp- ur, svunta og kappi, allra skemmtananna sem við héldum, að ógleymdum Hvanneyrarheim- boðunum sem alltaf voru til- hlökkunarefni. Ekkert af þessu hefði gengið nema undir styrkri stjórn og þar var enginn betri en Steinunn. Seinna fékk hún mig til að koma til sín að kenna. Þar kynnt- ist ég Steinunni sem samkennara og vini sem oft var til í sprell með okkur hinum kennurunum ef svo bar undir. Ég kenndi hjá Steinunni í Hússtjórnarskólanum þar til hann var lagður niður og aldrei á því ferli bar skugga á vinskap okkar. Hún var mikill vinur vina sinna og mjög barngóð kona enda fengu börnin mín að njóta þess. Ég og fjölskylda mín kveðjum Steinunni með söknuði í hjarta en jafnframt með mikilli virðingu fyrir góðri manneskju. Rebekka Guðnadóttir. Steinunn Karólína Ingimund- ardóttir eða Didda Ingimundar, eins og hún var venjulega kölluð í gamla daga á Akureyri, var ná- frænka mín. Guðrún móðir henn- ar var eldri systir föður míns. Við vorum báðar skírðar Steinunn eftir móður þeirra. Karólínu- nafnið fékk hún frá föðurömmu sinni. Mér þótti það nafn alltaf mjög flott, það var eins og á drottningu. Ég mundi sárafátt um Steinunni ömmu mína, vissi að hún hafði átt heima hjá Diddu frænku minni og auðvitað líka að hún hafði verið stórmerk kona. Karólínu mundi ég hins vegar betur og sé hana enn fyrir mér þarna heima, sitjandi uppábúna í tágastól í stofunni, prjónandi undursamlega dúka. Heimili Diddu frænku minnar í Oddeyrargötu 36 á Akureyri var það heimili sem tengdast var mínu heimili í Hamarstíg 2. Ef við fórum í Oddeyrargötuna fór- um við suður eftir en í Hamars- tíginn út eftir. Didda frænka mín var þremur árum eldri en ég og ég leit alltaf á hana sem fullorðna stúlku. Það var svolítið skrítið með okkur nöfnurnar að við vor- um einar rauðhærðar í okkar fjölskyldum og við fengum að heyra að Steinunn amma okkar hefði alls ekki verið hrifin af rauðu hári. Æði oft fórum við systur suður eftir í ýmiss konar erindagerð- um. Guðrún frænka mín kallaði þá gjarnan í Diddu sem leysti úr vandanum. Didda var eiginlega fæddur kennari, það sé ég núna. Hún kenndi okkur allt um hvern- ig best var að rulla þvott þegar við komum með fullan bala til að rulla hjá mömmu hennar. Þegar við skárum út laufabrauð saman fyrir jólin annaðhvort suður frá eða út frá, þá hjálpaði hún okkur gjarnan og sýndi okkur hvernig best væri að fara að. Einu sinni man ég að hún kenndi með aft- ursting sem ég þráði að kunna. Hún virtist hafa ráð undir rifi hverju, og þegar hún var að hjálpa mér eða systkinum mínum gerði hún það á einhvern ótrú- lega fyrirhafnarlausan máta eins og hún væri bara að gera þetta fyrir sjálfa sig. Didda frænka okkar fór svo út í heim að læra, og mikið var gam- an þegar hún kom heim í desem- ber 1948. Þá held ég að allir hafi fengið jólagjafir frá Noregi og enn á ég mína. Þegar Didda fór svo að starfa hjá Leiðbeiningar- stöð heimilanna notfærði ég mér það sannarlega og hringdi í hana og fékk góð ráð eins og í gamla daga. Eftir að faðir minn andaðist haustið 1952 reyndist Didda yngstu systur minni ótrúlega vel og bauð henni skólavist á Hús- mæðraskólanum á Laugalandi. Þessi greiði var áreiðanlega af- drifaríkur fyrir þær báðar. Fólk- inu sem bjó í Oddeyrargötu 36 og Bjarmansfólkinu í Hamarstíg 2 fer óðum fækkandi og hafa tölu- verð skörð verið höggvin í það á þessu ári. Fyrir hönd Bjarmans- fólksins sendi ég ættingjum Steinunnar Karólínu Ingimund- ardóttur innilegar samúðar- kveðjur vegna andláts hennar. Steinunn Bjarman. ✝ Guðrún Hall-dóra Ásgeirs- dóttir fæddist á Ísa- firði 2. júlí 1945. Hún lést í Svíþjóð 31. maí 2011. Foreldrar henn- ar voru Ásgeir Elí- as Sigurður Ólason sjómaður, f. 26. apríl 1925 á Ísa- firði, d. 22. janúar 2002, og Torfhildur Guðlaug Jóhannesdóttir hús- freyja, f. 12. nóv. 1926 á Ísafirði, d. 20. janúar 2004. Guðrún var gift Þóri Axels- syni sjómanni, f. 10. mars á Suð- ureyri, d. 18. nóv. 1998. Börn þeirra hjóna eru Þórhild- ur Björg, f. 21. sept. 1965, maki Vil- hjálmur. Axel Guð- geir, f. 17. júlí 1967, maki Guðbjörg. Rakel Rut, f. 16. nóv. 1971, maki Pétur. Þórður Æg- ir, f. 12. apríl 1983, maki Stephanie. Fóstursonur Þórir Gunnar, f . 28. okt. 1981. Útför Guðrúnar fór fram frá Hafnarfjarðarkirkju 15. júní 2011. Það var kvöldið fyrir gosið í Vatnajökli að við hjónin vorum að tala um að skreppa til Sví- þjóðar, ég að heimsækja systur mína og Siggi Dóra bróður sinn sem býr þar líka. Daginn eftir byrjaði að gjósa í Vatnajökli. Á sama tíma frétti ég að Guðrún systir mín væri veik og ekki víst að hún myndi skynja eða með- taka það að hún hefði fengið heimsókn. Um miðnætti nokkr- um dögum síðar hringdi síminn, Sigrún systir var í símanum, hún sagði Gunna systir er farin. Ég vil halda í það að Gunna systir okkar er flutt. Tengdafað- ir minn spurði ávallt þegar hann sá flagg í hálfa stöng hver er fluttur? Við slík tímamót reikar hugurinn til baka til bernskuár- anna þegar við vorum að alast upp á Hlíðarveginum á Ísafirði, þar sem við áttum heiminn. Einn daginn bar skugga á þegar kötturinn át hamsturinn. Við jöfnuðum okkur fljótt á því. Við fórum til Óla afa sem bjó á Hlíðaveginum og áttum góðan dag með honum og Sínu. Einu sinni sem oftar fór Kristján Valdimarsson í næstu íbúð í sigl- ingu og hann færði okkur systr- unum eldavélar sem sett voru í sprittkerti til að hita hellurnar þá var mikið að gera hjá okkur systir. Það var ekki alltaf góð lykt því það brann stundum við hjá okkur eins og hjá alvöru konunum. Við áttum stóra drauma og spjölluðum um heima og geima sem við geymum fyrir okkur. Við systurnar á Hlíðar- veginum fórum út í lífið eins og gerist, þú kynntist Þórir og fórst til Súgandafjarðar og ég kynntist Sigga og fór til Bolung- arvíkur og þar ólum við upp okkar börn sem okkar líf snérist um eins og gengur. Samgöngur réðu því í þá daga hvað oft við hittumst. Svo fluttir þú til Akra- ness og við Siggi gleymum því aldrei þegar við gistum einu sinni hjá ykkur. Þói kom heim með karfa sem hann ætlaði að hafa í kvöldmat. Okkur Sigga leist nú ekki á, við höfðum ekki smakkað karfa áður. Um kvöldið kom Þórir með stóran bakka með steiktum karfa upp úr raspi og skreytingarnar með græn- meti höfðum við aldrei séð áður. Svona ætluðum við að gera með eldavélinni okkar manstu. Það sögðu margir að Þórir væri listakokkur og hann ætti að opna veitingastað. Það var nánast í hvert skipti sem við komum í heimsókn að það væri uppi hljóðfæri. Þói að spila á skemmtara eða harmon- ikku og þú á gítar og söngst með. Það væri gott að eiga þær stundir á geisladiski í dag. Svo fluttuð þið til Svíþjóðar á vit nýrra ævintýra og þar fékkst þú þitt stærsta áfall þegar Þórir lést af slysförum við störf sín. Þegar maður hugsar til baka þá á fólk að umgangast ættingja sína meira, það sér maður eftir á. Ætli það sé einhver sem stýr- ir því hvað við gerum, hvert við förum, þetta á bara kannski að vera svona. Jæja elsku systir, lífið er eitt ferðalag og hótelið er jörðin. Þegar þú fórst fannst mér þú koma við hjartað í mér. Jæja, Guðrún mín, við Siggi þökkum fyrir alla góðu dagana sem við áttum saman með ykkur, þeir hefðu mátt vera fleiri en svona er nú þetta. Sigrún systir og fjölskylda biðja fyrir kveðju. Elsku Þórhildur Axel, Rakel, Þórður og Þórir, við Siggi vott- um ykkur okkar dýpstu samúð. Guðmunda Ásgeirsdóttir og Sigurður Þorleifsson, Sandgerði. Guðrún Halldóra Ásgeirsdóttir ✝ Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð við andlát og útför okkar ástkæra eiginmanns og fjölskylduföður, TRAUSTA JAKOBSSONAR, Hólagötu 25, Vestmannaeyjum. Jessý Friðriksdóttir, Magnea og fjölskylda, María og fjölskylda, Trausti Friðrik og fjölskylda. ✝ Innilegar þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur samúð og hlýhug vegna andláts og útfarar ástkærs eiginmanns míns, föður okkar, tengdaföður og afa, GUNNARS ARONS JÓNSSONAR húsasmíðameistara og fyrrv. byggingafulltrúa, Frostafold 4, Reykjavík. Sigurrós Kristín Sigurðardóttir, börn, tengdabörn og barnabörn. Morgunblaðið birtir minn- ingargreinar endurgjalds- laust alla útgáfudaga. Skil | Greinarnar skal senda í gegnum vefsíðu Morgun- blaðsins. Smellt á reitinn Senda inn efni á forsíðu mbl.is og viðeigandi efnisliður valinn. Skilafrestur | Ef óskað er eft- ir birtingu á útfarardegi verð- ur greinin að hafa borist eigi síðar en á hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á föstu- degi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi). Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein berist áður en skilafrestur rennur út. Lengd | Minningargreinar sem birtast í Morgunblaðinu séu ekki lengri en 3.000 slög. Ekki er unnt að senda lengri grein. Lengri greinar eru ein- göngu birtar á vefnum. Hægt er að senda örstutta kveðju, HINSTU KVEÐJU, 5-15 lín- ur. Ekki er unnt að tengja viðhengi við síðuna. Formáli | Minningargreinum fylgir formáli sem nánustu að- standendur senda inn. Þar koma fram upplýsingar um hvar og hvenær sá sem fjallað er um fæddist, hvar og hve- nær hann lést og loks hvaðan og klukkan hvað útförin fer fram. Þar mega einnig koma fram upplýsingar um foreldra, systkini, maka og börn. Ætl- ast er til að þetta komi aðeins fram í formálanum, sem er feitletraður, en ekki í minn- ingargreinunum. Undirskrift | Minning- argreinahöfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir grein- unum. Myndir | Hafi mynd birst í tilkynningu er hún sjálfkrafa notuð með minningargrein nema beðið sé um annað. Ef nota á nýja mynd skal senda hana með æviágripi í inn- sendikerfinu. Hafi æviágrip þegar verið sent er ráðlegt að senda myndina á netfangið minning@mbl.is og láta um- sjónarmenn minningargreina vita. Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.