Húsfreyjan - 01.04.1965, Blaðsíða 8

Húsfreyjan - 01.04.1965, Blaðsíða 8
Kæru konur og sýslungar! Mér finnst ég ekki mega sleppa svona einstæðu tækifæri án þess að segja við ykkur nokkur orð á ö ð r u m nótum. Eitt af því dýrmætasta, sem við eigum, eru minningarnar. Mér er skapi næst að telja þær okkar mesta auð, þegar ellin fer að mæða. Þó eru þær furðu sund- urleitar. Sumum fylgir ávallt angan vors- ins, aðrar bera fölva haustsins. Engu að síður geta þær brosað til okkar eins og stjörnur í skýjarofi. Og þær bregðast aldrei ef við biðjum um návist þeirra. I dag eruð þið að safna minningum. Lækirnir hérna hvísla sín ljúflingslög, við undirleik árinnar jötunefldu. Sá óður minnir á lífið, hina eilífu hringrás. Bjark- irnar blaðmörgu umhverfis ykkur og blómin eru táknræn um þau frjó, sem móðir jörð getur varðveitt við brjóst sitt. hér á norðurslóðum, svo að á hverju vori fæðast nýir einstaklingar, sem vaxa og dafna, þrátt fyrir öll hretin, köld og nöp- ur. Á öllum öldum hafa það verið þið kon- umar, sem b e z t hafa skilið og af m e s t r i mildi farið höndum um þessi frjó, þessa ungu einstaklinga meðan þeir þörfnuðust mestu hjálparinnar í hvaða mynd, sem þeir hafa birzt. í baráttu þjóðarinnar í ellefu hundruð ár verður konunum aldrei þakkað eins og skyldi sá þáttur og þær fórnir, sem þær hafa fært til blessunar þessum nýgræðingum. Og það er víst, að allt að þessu hefur við hvílu íslenzkra barna verið sunginn sá óður, sem fegurst hefur ómað og mestan styrk veitti þeim á torsóttum leiðum og oft í tvísýnni bar- áttu á liðnum öldum við eld og ísa og er- lenda kúgara. Það er líka táknrænt, hve mörg skáld hafa ort sín fegurstu ljóð til mæðra sinna og kvenna. Öll munum við játningu Arnar Arnars: „Móðir mín mild- in þín, grát og gleði skildi.“ Það virðist því auðsætt, að mesta hamingja lífsins er að unna og finna endursvar. Sú orka er svo máttug, að jafnvel hatrið stenzt hana ekki. Hún e i n getur brætt hjartans ís, sem er öllum hafís ægilegri. Norska skáldið Ibsen lýsir þessu af djúpum skilningi, þegar hann lætur Þor- geir í Vík, hetjuna hugprúðu, hætta við áform sitt, þá er hann ætlaði að hefna sín á enska harðstjóranum, sem eitt sinn sökkti fleytunni hans, með lífsbjörginni allri handa vinunum heima. Nú var stund hefndarinnar komin. Þorgeir hafði boð- ið honum, ásamt konu hans og dóttur, að koma niður í bátinn sinn, þegar skip hans var að farast. Svo tók hann stefnuna á blindskerið, þar sem brotsjóarnir æddu, reis á fætur og mælti með þrumuröddu: „Þekkir þú mig ekki? Ég er Þorgeir í Vík.“ Þ á mundi brezki harðstjórinn allt og vissi, hvað Þorgeir ætlaðist fyrir. Hann lét fallast niður í bátinn ásamt konu sinni. En lítil dóttir þeirra fórnaði höndum og kastaði sér í fang Þorgeirs. Og á sömu stundu og hann tók um arma hennar, hvarf harkan úr svipnum og í hug hans kom minningin um dótturina ljúfu með Ijósu lokkana, þar sem hann kvaddi hana hinztu kveðju í vöggunni heima. Þá lagði hann af stað til að sækja lífsbjörgina yfir hafið, þar sem óvinirnir héldu vörð. Nú var það minningin um h a n a — og hún e i n , — sem á síðustu stund gat breytt áætlun hans og forðað honum frá að fremja glæp. Slíkar minningar hafa gert og munu alltaf gera kraftaverk. Þ a ð a n streymir sá máttugi varmi — hið unaðsríka endur- svar —, sem við öll þráum. — Ætti ég eina ósk ykkur til handa væri hún sú, að þegar m e s t á reynir eftir erfiða daga eða andvökunætur, verði þó aldrei svo myrkt, að þessi minninga- varmi megni ekki samt að veita yl og birtu og frið inn í hug ykkar. Þann auð hygg ég beztan hérna megin grafar. Einhvern tíma í nótt vona ég að farar- stjórinn skili ykkur heim aftur öllum með tölu heilum og glöðum. Á þann hátt, og á þann e i n a hátt, enda líka bezt öll ferðalög. Teodór Gunnlaugsson frá Bjarmalandi. 6 HÚSFREYJAN

x

Húsfreyjan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Húsfreyjan
https://timarit.is/publication/831

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.