Austurland


Austurland - 08.01.1998, Blaðsíða 7

Austurland - 08.01.1998, Blaðsíða 7
FIMMTUDAGUR 8 JANUAR 1998 um almennt ámóta mikil og hér miðað við íbúa hefði enginn talið ástæðu til að halda ráðstefnu eins og þá í Kyoto. Sannleikurinn er sá að ef þróunarríkin losuðu á íbúa talið eitthvað í líkingu við ísland færi fyrst að kárna gamanið og því þurfa einnig þau að koma með inn í heildarsamkomulag um takmarkanir fyrr en seinna. Slík mörk hljóta hins vegar að veita þeim svigrúm til að bæta sinn efnahag að nokkru marki á sama tíma og iðnríkin verða að laga sína framleiðslu að breyttum að- stæðum og skera niður sína mengun. Grunnur allsherjarsam- komulags í þessum efnum getur ekki byggst á öðru í framtíðinni en að hver jarðarbúi hafi jafnan aðgang að sameiginlegu andrými. Stóriðjumál í uppnámi Umræða um stóríðjufram- kvæmdir er ekki ný af nálinni hérlendis, en hefur þó orðið fyrir- ferðarmeiri en oftast áður eftir að Framsóknarflokkurinn tók við þessum málaflokki í ríkisstjórn. Fyrst var lagt mikið undir í samn- ingum um stækkun verksmiðju Alusuisse í Straumsvfk, boðið afar lágt orkuverð og slegið af í mengunarvörnum. Þessum fram- kvæmdum var ekki lokið þegar næsti samningur var gerður um álbræðslu á Grundartanga í eigu bandarísks fyrirtækis og sömu kostaboð þar endurtekin til að draga að fjárfestana. Við útgáfu starfsleyfa til beggja þessara fyrirtækja beitti sjálfur umhverfís- ráðherrann grófum bolabrögðum til að koma í veg fyrir að almenn- ingur gæti látið reyna á rétt sinn til athugasemda. Síðan hefur bæst við fjöldi annarra og meiri stóriðjuáforma. Stærst er þar í sniðum hugmyndin um að heimila Norsk Hydro að koma upp risaálbræðslu sem full- byggð myndi nýta þriðjung af hagkvæmu vatnsafli á Islandi! Samanlagt afl jökulánna norðan Vatnajökuls hrykki ekki einu sinni til í það púkk. Þetta mál varðar þjóðina alla eins og önnur stóriðjuáform. Með þeim er ætl- unin að ráðstafa til langs tíma stórum hluta af orkuforða lands- ins og ganga á umhverfisgæði. Ég er ósammála þeim sem af Islands hálfu beita sér fyrir slíkum hug- myndum. Kemur þó margt fleira til en stærðin, ekki síst gífurleg umhverfisröskun af raforkumann- virkjum, virkjunum og háspennu- línum. Er þá ótalin mengun, stað- bundin og almenn, svo og efna- hagslegir þættir svo sem orkuverð og áhættan af að auka miklu við álframleiðslu hérlendis. Stóriðjuáformin, sem nú eru á borði ríkisstjórnarinnar, eru hið mesta óráð á heildina litið. Mikið skortir á að Islendingar hafi mót- að heildstæða stefnu um, hvernig skynsamlegt sé að haga áfram- haldandi nýtingu orkulinda lands- ins. Alitamálin er varða umhverf- ishagsmuni og náttúruvernd eru ófrágengin og um leið magn þeirrar orku sem líklegt er að verði til hagnýtingar í framtíð- inni. Við þurfum svigrúm til að koma hér upp sjálfbærum orku- búskap með innlendu eldsneyti og raforku í samgöngum og at- vinnulífi í stað innflutts eldsneyt- is. Hálendisskipulag er í mótun en frágangur þess er forsenda fyrir ákvörðunum um orkumannvirki. Með Kyoto-samkomulaginu hefur verið lagður grunnur að nánari útfærslu alþjóðasamningsins vegna loftslagsbreytinga og hann leggur Islendingum sem öðrum skyldur á herðar og takmarkar frekari losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum frá Islandi sem og öðrum þróuðum ríkjum. Ósenni- legt verður að ætla að erlendir fjárfestar teldu ráðlegt, er þar að kæmi, að binda fjármuni í stóriðju í rfkjum sem veldu þann kost að standa utan Kyoto- samkomu- lagsins. I þessu samhengi ganga áformin um risaálbræðslu á ís- landi engan veginn upp og fyrir austfirskar aðstæður eru þau þess utan alltof stór í sniðum. Það þarf sérstakt hugmyndaflug til að ætla sér að setja upp við Reyðarfjörð álframleiðslu sem að magni svar- ar til heildarframleiðslu áls í Nor- egi. Rifja má upp að undirritaður átti fyrir bráðum tveimur áratug- um þátt í ákvörðunum um kísil- málmverksmiðju við Reyðarfjörð Einbyliehus og vereliin til sölii! Til sölu ei- einbýlishus að Blómsturvöllum 44- í Neskaupstað. Skipti á minni eign í Mefikaupstað kemur til greina Giafavöruverslunin Nesbær í hi'arta bæjaiins. Góð verslun með góð sambönd. Allac uÞÞlýsingar gefa Rannveig og Saavac. sem þá var talin af hóflegri stærð. Mannaflaþörf þess fyrirtækis hefði numið innan við 1/10 hluta og raforkuþörf aðeins um 1/25 hluta af raforkuþörf þeirrar ál- bræðslu sem nú er um rætt. Þess má geta að athugaðir voru mögu- leikar á að nota innlent kurl í stað kola og að framleiða methanól- eldsneyti í tengslum við kísil- málmverksmiðjuna og nýta þann- ig það koldíoxíð sem losnar við framleiðsluna. Svo fór að fram- kvæmdir við þessa verksmiðju króknuðu í höndum þeirrar ríkis- stjórnar Sjálfstæðis- og Fram- sóknarflokks sem við tók. Stjórnarandstaðan sokkin í sameiningardrauma Ríkisstjórnin má vel við una gengi sitt eins og það hefur birst í skoðanakönnunum þetta árið. Af stjómarflokkunum hefur Sjálf- stæðisflokkurinn fleytt rjómann og formaður hans náð ótrúlega sterkri stöðu gagnvart samstarfs- aðilum sínum. Góðæri að því er varðar ytri aðstæður hefur hjálpað rfkisstjórninni en einnig háttalag forystu stjórnarandstöðunnar sem hefur verið upptekin við samein- ingardrauma og að þess utan heldur atburðalítil. Um árabil hef- ur verið alið á óljósum hugmynd- um um samfylkingu stjórnarand- stöðu og/eða félagshyggjufólks á vettvangi landsmála. Samstarf í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem Framsóknarflokkurinn á hlut að máli hefur óspart verið notað sem eins konar leiðarvísir um það sem koma skal og um gildi þess „að taka völdin". Samstarf flokka í sveitarstjórnum á fullan rétt á sér og er viðfangsefni á hverjum stað. En það er langt á milli samvinnu að sveítarstjórnarmálum og sam- eiginlegs framboðs eða samein- ingar stjórnmálaflokka um lands- málin. Það er óheiðarlegt af stjórnmálaforingum að reyna að líkja þessu saman því að þeir eiga að vita betur, og ekki farsælt að ætla að byggja landsmálapólitík á slíkum grunni. Kvennalistinn lenti í hremm- ingum vegna togstreitu um sam- starf við aðra flokka á liðnu ári og klofnaði niður í rót. Flestar reynd- ari forystukonur listans sögðu skilið við hann og höfnuðu með því samlagi með krötum. Sá hluti sem eftir stendur hefur enga mál- efnalega fótfestu og mun að lík- indum skríða saman við Alþýðu- flokkinn og skyldulið hans fyrir alþingiskosningarnar vorið 1999. Alþýðubandalagið heldur enn velli en veruleg hætta er á að þar fari á sama veg og með Kvenna- listann ef forysta flokksins gætir ekki að sér. Uppgjöri í þessum efnum var skotið á frest á lands- fundi flokksins í nóvember síð- astliðnum og vísað til aukalandsf- undar næsta sumar. Verði þar þröngvað fram samþykkt sem fæli í sér að Alþýðubandalag og óháðir hætti að bjóða fram á eigin vegum má ljóst vera að Alþýðu- bandalagið klofnar og heyrir brátt sögunni til sem flokkur. Út af fyrir sig er ekkert athugavert við það að þeir sem eru hugmynda- lega á sömu slóð og Alþýðuflokk- urinn gangi til liðs við hann. Þjóðvaki Jóhónnu Sigurðardóttur er úr sögunni og hefur nú runnið saman í þingflokk með Alþýðu- flokknum, enda þar aldrei um sýnilegan málefnaágreining að ræða. Ef marka má málflutning Guðnýjar Guðbjörnsdóttur sýnist sem leifarnar af Samtökum um kvennalista geti fallið prýðilega inn í þetta samhengi. Það ætti hins vegar að vera umhugsunar- efni fyrir þá Alþýðubandalags- menn sem sjá í hillingum „stóran jafnaðarmannaflokk", hvaða verði eigi að kaupa þá hugmynd. Flokkar með gerólíka stefnu Sá sem þetta ritar hefur tveggja áratuga reynslu af sam- starfi við Alþýðuflokksmenn á Alþingi. Sú reynsla er æði mis- jöfn, en þó síst undan að kvarta þegar um samskipti ólíkra stjórn- málaflokka er að ræða. Á þessum tíma finnst mér Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag ekki hafa nálg- ast málefnalega nema síður sé, og þó ekki væri litið nema til þess tíma sem liðinn er frá því kratar voru í ríkisstjórn með Davíð Oddssyni. Forysta Alþýðuflokks- ins boðar nú ákafar en nokkru sinni inngöngu í Evrópusam- bandið og hefur þar enga fyrir- vara. Þar tala Sighvatur Björgv- insson og Össur Skarphéðinsson einum rómi. Kratar sjá allsherjar bjargræði í óheftum markaði, vilja opna sjávarútveginn að fullu fyrir fjárfestingum útlendinga og styðja í meginatriðum þá stefnu í reynd að einkavæða þjónustu- fyrirtæki rfkisins eins og Pósts og síma og ríkisbankana. Stóriðjustefnan á nú sem fyrr stuðning vísan hjá krötum og í umhverfismálum hefur flokkur- inn verið haltrandi, nú síðast varðandi afstöðu til samkomu- lagsins í Kyoto. Alþýðuflokkur- inn nærist enn sem fyrr af þröngri neytendahyggju sem til dæmis sést af því að hann boðar óheftan innflutning landbúnaðarafurða. Hugmyndir hans um sérstaka skattlagningu á sjávarútveg og þar með landsbyggðina í formi einhvers konar veiðileyfagjalds eru af svipuðum toga. Þegar til kastanna kemur eiga lands- byggðarsjónarmið sér fáa for- mælendur í röðum krata. Lýðræð- inu á Islandi væri síður en svo greiði gerður með því að Alþýðu- bandalag og Alþýðuflokkur gengju í eina sæng að ekki sé talað um þau málefni sem skapað hafa Alþýðubandalaginu sérstöðu til þessa. Það stoðar lítið að reisa Potemkin-tjöld fyrir kjósendur og ætla sér að sópa ágreiningi um stærstu þjóðmálin undir teppið. Litið til ýmissa stórmála sýnist raunar í mörgum þeirra vera langtum styttra á milli sjónamiða krata og Framsóknar annars vegar en Alþýðubandalagsins, meðal annars um meginþætti utanríkis- stefnunnar, Evrópumálin og stór- iðjustefnuna. Alþýðubandalagið hefur á komandi hausti að baki þrjátíu ár sem stjórnmálaflokkur. Árið 1968 var Alþýðubandalagið gert að formlegum flokki eftir afar erfiða siglingu flokka og flokks- brota sem þá stóðu að kosninga- bandalagi undir sama nafni. Þeir sem muna þá tíma geta vart verið ginkeyptir fyrir að efna til viðlíka sambúðar og hrossakaupa. Ný- byrjað ár mun leiða í ljós hvort Alþýðubandalagið heldur merki sínu áfram á lofti eða fellir það. Verði hið síðara ofan á má búast við að ýmsir þeir sem fylgt hafa flokknum að málum, óháðir kjós- endur og margir fleiri reisi mál- efnin í nýju samhengi og efni til sjálfstæðs framboðs til Alþingis. Svo fráleitar sem ég tel hug- myndirnar um sameiginlegt fram- boð með Alþýðuflokknum gegnir öðru máli um að stjórnarand- stöðuflokkanir stilli saman strengi sína í aðdraganda kosninga með samstarf í huga um stjórnarmynd- un að kosningum loknum. Slík samstilling gæti skilað öllum hlutaðeigandi flokkum ávinningi í kosningum á kostnað núverandi ríkisstjórnarflokka í stað úlfúðar og sundrungar sem leiða mun af frekari tilraunum til sameiginlegs framboðs. Verkefni nýbyrjaðs árs Fjöldi úrlausnarefna bíður ein- staklinga og þjóðar á nýbyrjuðu ári. Urbætur í þágu landsbyggðar- innar eiga að vera meðal verkefna í fremstu röð. Sem flestir þurfa að leggjast á eitt við að stöðva það öfugstreymi fólks á eitt landshorn sem við blasir. Það getur kallað á breytingar og aðlögun á ýmsum sviðum.Við eigum að nýta og leggja rækt við þá kosti sem felast í fámennu samfélagi þar sem jafnréttisviðhorf hafa til skamms tíma staðið föstum fótum. Um- hverfi lands okkar og auðlindir bjóða upp á heillandi möguleika og gott mannlíf um langa framtíð, ef rétt er á haldið. Strjálbýli og þéttbýli geta hér þróast hlið við hlið og eflt hvort annað. Sjálfbær þróun hérlendis getur fyrr en varir orðið meira en orðin tóm, en til þess verður að beita mælistiku umhverfisverndar á sem flest við- fangsefni. Tunga okkar og þjóð- menning er ásamt náttúru lands- ins það sem gefur okkur sérstöðu meðal þjóða og þeim fjársjóðum ber okkur að halda á lofti og vernda þá um ókomin ár. Austfirðingum og landsmönn- um öllum óska ég gleðilegs árs. Neskaupstað, á nýársdag 1998 Hjörleifur Guttormsson

x

Austurland

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austurland
https://timarit.is/publication/808

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.