Íslenzk tunga - 01.01.1959, Side 143
DOKTORSVÖRN 141
sem fyrir koma eru báðar undansettar, enda lýsa þær baksviði þess
sem skýrt er frá í aðalsetningunni.
í dæminu úr Bandamanna sögu kemur fyrir athyglisvert atriði.
Höf. kemst þar svo að orði á bls. 238: „Samtöl um staðreyndir eru
því nær eingöngu aðalsetningar, en ráðagerðir, rökleiðslur og for-
tölur eru meira í formi aukasetninga.“ Og síðar segir (bls. 239):
„Þannig má segja, að aðalsetningarformið fylgi því nær eindregið
staðreyndum, en aukasetningarformið rökræðum.“ Þetta er alveg
rétt athugað; hér er einmitt um að ræða mismun á stíl frásagnar og
rökræðna, sem kemur fram í málinu í ólíkri notkun aukasetninga.
Það er engin tilviljun að einmitt í svörum Vála eru 3 orsakarsetning-
ar af 5 sem koma fyrir í öllum kaflanum. Orð höfundar sem tilfærð
voru, svo og önnur fleiri sem hann hefur um tilsvör Vála, sýna að
hann hefur hér komizt að kjarna málsins. Hins vegar finnst mér að
þetta komi ekki alltaf eins ljóst fram í skýringum hans á öðrum
dæmum. Má þar benda á dæmið úr Morðbréfabæklingnum. Höf.
sýnir þar (bls. 243—44) hvernig breyta mætti stíl Guðbrands í
aðalsetningastíl. En slíkar stílaleiðréltingar sýna hvorki eitt né neitt;
flesta hluti má segja á fleiri vegu en einn. Höf. kemst hins vegar nær
eðli málsins þegar hann segir (bls. 243): „Hér virðist því ráða sú
stílvenja höfundar að tengja sem oftast til að sýna þannig samband-
ið.“ Þetta er meginatriðið að mínu viti: hið rökræna setningasam-
band, þar sem röktengslin koma fram í tengiorðum og undirskipun,
fleygun setninga o. s. frv. Þetta er ekki síður greinilegt í kaflanum
úr Tyrkjaránssögu. Þær aukasetningar sem höf. telur óþarfar og
jafnvel til lýta, eru einkum þær sem leggja megináherzlu á rökræn
tengsl. Áhrifin frá hinum latnesk-þýzka períódu-stíl eru auðsæ, fieyg-
aðar setningar, allt að fjórum í einni málsgrein, undirskipun í 3. og
4. lið o. s. frv.
Síðasta dæmið sem höf. tilfærir er úr blaðagrein og er gott sýnis-
horn þess að hinn rökræni stíll lifir enn þar sem hans er þörf, sem
sagt þegar ástæða er til að leggja sérstaka áherzlu á röktengslin. Þetta
kemur einnig fram í ummælum höf. um ræður (bls. 198 o.áfr.). Fjöldi