Tímarit Verkfræðingafélags Íslands


Tímarit Verkfræðingafélags Íslands - 01.10.1958, Blaðsíða 32

Tímarit Verkfræðingafélags Íslands - 01.10.1958, Blaðsíða 32
78 TÍMARIT VFl 1958 þannig í jurtunum, eru margs konar, en einkum þó sykur, sterkja og sellulósi. Sé þessum efnum brennt, myndast úr þeim kolsýra og vatn, en jafnframt losnar sú orka, sem til þess þurfti að byggja þau upp og klóró- fyll jurtanna vann úr sólargeislunum. Á þessari starfsemi jur'tanna byggist allt líf á jörðu. Orka sú, sem sérhver maður og sérhvert dýr eyðir dag- lega til vinnu og annarrar starfsemi líkamans, er úr fæðunni fengin, og fæðan aftur á móti beint úr ríki jurtanna eða þá úr dýraríkinu, en dýrin hafa lifað á jurtunum. Manninum hefur ekki tekizt að hafa áhrif á þessa starfsemi jurtanna og ekki heldur að líkja eftir henni. En þó hefur honum tekizt að hafa mikil áhrif á vöxt gróðursins og aukið þannig uppskeruna, þvi að fleira kemur til en klórófyll og sólarljós, þegar jurtin vex og þroskar aldin, Þessi sannindi eru ekki nýtilkomin, en þó ekki ýkja- gömul. Upphafsmaður þeirra vísinda, Justus von Liebig, ritaði bók um þetta efni fyrir rúmri öld, eða nánar tiltekið 1840. Náði hún fljótt mikilli útbreiðslu og hafði víða áhrif. Þar segir á einum stað: „Enginn atvinnuvegur er eins mikilsverður og land- búnaðurinn, því að á honum hvilir framleiðsla fæð- unnar fyrir menn og dýr. Undir honum er komin vel- ferð og þroski alls mannkynsins, auðæfi þjóða og öll viðskipti. Ekkert starf er til, þar sem hagnýting ná- kvæmra aðferða hefur i för með sér gagnlegri árang- ur eða hefur ákveðnari áhrif." Þetta voru ummæli Liebigs fyrir meira en hundrað árum og gildi sitt hafa þau engu síður í dag en þá, jafnvel meiri nú. Liebig gerði og sitt til þess að fá fram, hverjar væru hinar réttu aðferðir, hverjar væru þarfir jurtarinnar, svo að hún dafnaði sem bezt, þ. e. a. s. hverjar væru þarfir jurtarinnar fyrir áburð. Tókst honum að komast að þvi, hver steinefni þyrftu að vera í jarðveginum og í hvaða hlutföllum, svo að jurtirnar döfnuðu sem bezt. Þar með var mikið fengið, en þó ekki allt, því að efni þessi þurftu að vera tiltæk til þess að hin nýju sannindi yrðu til einhvers gagns. Fyrst í stað þurfti þess vegna ekki að verða skortur á þessum efnum í jarðveginum, því að þörfin var ekki ýkja mikil í fyrstu. Benti Liebig á ýmis efni, er til féllu á ýmsum stöðum, og fullnægðu þau þörfinni. En brátt kom að því, að meira þurfti til. Um tvö hinna nauðsynlegustu efna var ekki úr vöndu að ráða, kalí og fosfór, því að bæði má grafa úr jörðu. Hið þriðja, köfnunarefnið, var einnig lengi vel grafið úr jörðu sem saltpétur í Chile í Suður-Ameríku. En magn hans á þeim stöðum er alltakmarkað og hlaut að þrjóta á tiltölulega skömm- um tíma. Og hvað skyldi þá til bragðs taka ? Um fjórir fimmtu hlutar andrúmsloftsins eru köfn- unarefni, svo að þar er af miklu að taka, en jurtin getur ekki hagnýtt sér það köfnunarefni. Til þess að jurtin hafi gagn af því, þarf að koma því í eitthvert það efnasamband, sem jurtin getur tekið til sín. 1 upphafi þessarar aldar var sleitulaust að því unnið að finna hentugar aðferðir til að mynda eitthvert slíkt efnasamband úr köfnunarefni andrúmsloftsins. Með þrot- lausum tilraunum tókst að finna upp hentugar aðferðir til myndunar slíkra efnasambanda, og þá frekar tvær en eina. Sú, er síðar fannst, reyndist sigursælli, og á síðustu áratugum hefur risið upp geysimikill iðnaður til framleiðslu þess mikla magns af tilbúnum köfnunar- efnisáburði, sem árlega er notaður til að auka uppsker- una af jörðinni, Hefur sá iðnaður og komið hér við, því að hér er risin upp mikil verksmiðja, er framleiðir þessa mikilverðustu áburðartegund, köfnunarefnisáburðinn. Mun mega telja vafasamt, að mannkynið hefði nú nóg til að seðja hungur sitt, svo mjög sem því hefur fjölgað að undanförnu, ef ekki hefðu til komið hinar vísindalegu rannsóknir á þörfum jurtanna og i framhaldi af þvi hin risavaxna framleiðsla hinna nauðsynlegu efna. Ein var sú kennisetning, sem Liebig kom fram með, og er til hins mesta gagns, ef eftir henni er farið. Hún er sú, að vöxtur jurtanna takmarkist aðallega af því áburðarefni, sem minnst er til af í jarðveginum. Með öðrum orðum: það er gagnslítið að bera mikið á af einu eða tveimur áburðarefnum, ef hið þriðja vantar í gróð- urmoldina. Því, sem á er borið, er þá kastað á glæ, og er slíkt háttalag lítil hagsýni. 1 gróðurmoldinni þurfa að vera öll nauðsynleg næringarefni jurtanna í réttum hlutföllum, ef beztur árangur á að nást. Skyldu allir bændur landsins hafa þessi sannindi hugföst, þegar þeir bera á tún sín? Við skulum vona, að svo sé. Máli minu fer senn að ljúka, og þótt það sé orðið all- langt, eru margar — allt of margar — þær greinar tækn- innar eða verkfræðinnar, sem ekki hafa einu sinni verið nafngreindar, hvað þá meira, og væru þær þó sannar- lega einnar messu virði. Á ég þar m. a. við málmfram- leiðslu alla, hinn ótölulega fjölda málmblandan og marg- háttaðan málmiðnað, sem orðið hefur á fjölmörgum sviðum eins konar undirstaða tækninnar. Margt erfitt viðfangsefnið var því aðeins hægt að leysa, að málm- iðnaðurinn væri á háu stigi, og margt er uppfinninga- mönnum nútímans auðveldara en James Watt á sínum tíma vegna þess, hve þekking manna á eiginleikum málma og málmblandna hefur eflzt mjög á síðustu áratugum. Og áreiðanlega á enn margt eftir að koma í ljós. Þá væri ekki síður umtalsverð hin nýja byggingar- tækni, sem rutt hefur sér til rúms síðustu áratugina, því að byggingar heyra nauðþurftum mannsins til. Renna margar stoðir undir hana, en vagga hennar stóð á Eng- landi fyrir rúmri öld, er sementið var fundið upp, reynd- ar fyrir tilviljun. Þetta ótrúlega ódýra og hentuga bygg- ingarefni, ásamt stálinu, hefur fengið byggingarverk- fræðingum í hendur efnivið í byggingar, sem þeir hafa hagnýtt til hins ýtrasta og byggt mannvirki, sem ó- hugsanlegt var að reisa fyrir nokkrum áratugum. Má sjá mörg þeirra einnig hér á landi, og nú fer senn að líða að því, að hægt verði að byggja úr innlendu sem- enti. Ekki hefði heldur verið úr vegi að fara nokkuð fleiri orðum um þátt efnaverkfræðinnar í þróun tækninnar, því að fáar eða engar greinar náttúruvísindanna munu hafa jafnmörgum stórsigrum að fagna á umliðnum ára- tugum. Eins var að visu þegar getið, synthesu ammoníaks úr köfnunarefni og vatnsefni, og var á hana minnzt í sambandi við áburðinn. Ef farið væri að rekja þett.a efni, væri af miklu að taka. En þótt margt hafi áunnizt bíða mörg viðfangsefnin lausnar, og má margs vænta ein- mitt á þessu sviði í framtíðinni. Hamingja sérhverrar þjóðar er mjög undir þvi komin, að allir hafi nægilega atvinnu og að framleiðslan sé

x

Tímarit Verkfræðingafélags Íslands

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit Verkfræðingafélags Íslands
https://timarit.is/publication/860

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.