Akranes - 01.04.1952, Blaðsíða 26

Akranes - 01.04.1952, Blaðsíða 26
SÉRA FRIÐRIK FRIfiRIKSSON: STARFSÁRIN III. kvaðst hún geta útvegað mér herbergi á öðru mjög góðu hóteli. Ég sagði, að mér þætti þetta mjög leitt, því héma vildi ég helzt búa meðan ég dveldi í Rómaborg. Hún sagði að ég gæti fengið gott herbergi á morgun, ef ég vildi vera á öðru hóteli í nótt. Ég sagði, að ég mundi verða áfram þar, sem ég yrði fyrstu nóttina. Svo spurði ég: „Hafið þér ekki einhverja holu, sem ég gæti verið í þessa nótt, þótt ekki væri það boðlegt herbergi til lang- frama.“ Mér leizt dæmalaust vel á frúna, og ég býst við, að henni hafi líka litizt sæmilega á mig. Hún tók þessu svo vin- gjarnlega. Hún hugsaði sig um lítið eitt og sagði: „Ég hef að vísu stórt baðherbergi, gluggatjaldalaust, og það mætti setja þar inn bedda rétt í nótt. Ég lét í ljós gleði mina yfir þessu og sagðist ekki gjöra neinar kröfur til þæginda þessa nótt, ef ég aðeins mætti vera á þessum stað. — Ég sá, að dót mitt stóð þar í ganginum. — Svo var mér fylgt upp á loft og inn i stórt baðherbergi, og síðan var komið með lausarúm með fínum sæng- urfötum í, og þar næst var komið með stól að sitja á. Ég ræstaði mig til eftir ferðalagið og fór svo niður. Mér var vísað inn i stóran og skrautlegan matsal og visað á borð út í horni og sagt, að ég fengi betra borð á morgun með herberginu. Það var ágæt- ismatur, og auðvitað var einn af réttunum makkaroni. — Salur- inn var fullur af vel klæddu fólki. Við borð langt burtu frá mér sátu roskin hjón og piltur og stúlka, sem ég þóttist vita að væru börn þeirra. Það var mikill samtalskliður, en af óminum frá þessu borði þóttist ég finna, að þau töluðu dönsku, þó var ég ekki viss í því, þar sem ekki urðu greind orðaskil. — Við stóðum jafnsnemma upp frá borðum. Þegar fjölskyldan kom fram hjá mér, hneigði ég mig fyrir manninum, sem var mjög virðu- legur maður að sjá, og baðst aifsökunar og spurði, hvort þau væru ekki frá Danmörku. Hann tók þessu vel og kvað svo vera. Ég kynnti mig, og hann sagði: „Eruð þér kannske Pastor Friðriksson, sem hafið ferðazt um í Danmörku?“ Ég kvað svo vera. Hann kvaðst vera gósseigandi Krabbe frá stað, sem hann tiltók, en ég nú hef gleymt nafninu á. Þau voru öll mjög viðfelldin, og gósseigandinn sagði, að þau ætluðu næsta dag í ferðalag, en þeim þætti vænt um ef ég vildi vera með þeim að sjá eitthvað af borginni, er þau kæmu til baka. Hann kvaðst eiga frænda á íslandi, sem hann nú reyndar þekkti ekki per- sónulega. Það var Þorvaldur Krabhe, vitamálastjóri. Við skild- um‘ með mestu vinsemd. — Síðan gekk ég út á torgið, og þá sá ég, að þetta svæði var talsvert stórt, og í kringum það, að framan- verðu, var hérumbil brjósthátt brjóstrið úr hvítum pílárum og að þar gengu breið þrep niður eftir brattri brekku, og fyrir neð- an var bærinn. Það var orðið dimmt og himinn heiður, og stjörn- urnar tindruðu miklu bjartari en ég hafði áður séð þær, og beint á móti í fjarska bar við himin hjálmurinn á Péturskirkjunni, og þar á bak við mótaði fyrir eggjumnn á fjarlægum fjöllum. Það var blæjalogn og djúp kyrrð. Ég sá engan mann á gangi á torg- inu. Nú stóð ég í hinni frægu borg; ég varð viss um, að ég stæði á einu af hinum sjö fjöllum, sem sagt var að borgin stæði á: „Á sjö fjöllum háum hún til himins lyftir veggjum,“ stendur í Númarímiun, og þegar ég var á 11. ári og las þetta, varð þetta svo óendanlega mikilfenglegt fyrir mér. Því fjöllin, sem ég sá í borgarlýsingu S. Breiðfjörðs, voru fjöllin í Húnavatnssýslu og Skagafirði, og ég var að hugsa um, hvemig ein borg gæti stað- ið á sjö slikum fjöllum. Nú stóð ég hugfanginn á einu af fjöll- unum, og inn í huga minn komu þeir Rómulus og Númi, Her- selia og Tasi konungur. — Svo fór að úa og grúa i kringum mig, það er inni í mér, af ósýnilegum og samt svo skýmm myndum, að ég fann fyrst til ólgandi gleði, sem þó brátt breyttist í ósegjan- legan frið, mér fannst allt verða svo heilagt í hinni djúpu kyrrð. Ég varð að tauta fyrir mér þessar ljóðlínur úr Manfreð: „Yfir mér er friðúr, svo ósegjanleg i ó, sem ég hef aldrei reynt fyrr né þekkt á allri minni ævi....... .... Og ég skal rita á mína minnistöflu að þessi tilfinning sé til.“ Þannig stóð ég undir hinum suðræna stjörnuhimni, og get ég ekki komið orðum að tilfinningum mínum. Eitt sinn hrökk ég við. Neðan úr dimmunni barst mér óþægilegt ískur-hljóð og bjöllu-hringing. Það var þá allt i einu nútíðarsporvagn, sem brun- aði eftir götu niðri í borginni fyrir neðan. Mér fannst það vera hreinasti anakrónismus (tímaskekkja), sem ekki ætti að eiga sér stað í hinni fornhelgu borg. Það var eins og ískrandi hjáróma strengur i dýrðlegri symphoniu. — Ég áttaði mig þó von bráð- ar og var óþægilega minntur á, að þótt hugurinn væri fylltur af niði aldanna frá ómunatíð, var líkaminn háður kenjum tutt- ugustu aldarinnar. Svo rétt fyrir miðnætti fór ég inn og upp til að sofa. Mig dreymdi ekkert. — Um morguninn hinn 17. mai var ég kominn á kreik kl. 7 og fór niður í borðsal að fá mér morgunhressingu. Það komu tvær könnur á borðið, önnur með heitri flóaðri mjólk og hin með svart, sjóðheitt kaffi. Hvað með var, man ég ekki. Ég drakk kaffið sér, þótti verst að hafa ekki rjóma í það, því kaffið var gott. Svo drakk ég flóaða mjólkina sér. Ég var ekki kominn upp á að blanda þessu saman til helminga. Síðan gekk ég út kirkjusvæðið og komst að því, að kirkjan hét kirkja hinnar allra heilögustu þrenn- ingar, og svæðið hét eftir henni. Svo gekk ég niður hin breiðu þrep; þau voru 135. Þá var ég kominn niður á torg, sem heitir Piazza di Spagna. Rétt fyrir neðan þrepin er gosbrunnur, í lag- inu eins og bátur. Þaðan lágu götur, bæði beint fram og til hliðar. Ég gekk, án þess að gæta að götunafni, inn í næstu götu til hægri. Allt i einu opnaðist fyrir mér stórt kringlótt torg, og ég varð glaður, því ég þekkti, að það var hið fræga torg, Piazza del populo. Þaðan liggja götur nær í allar áttir. Svo eftir að hafa skoðað mig um á torginu, valdi ég eina af götunum. Hvers vegna? Það hugs- aði ég ekkert um, og eftir stuttan spöl var ég allt í einu kom- inn að Tíberfljótinu. Ég þurfti ekki að spyrja það að nafni; liturinn sagði til sin; hinn guli Tiber. Aldrei hef ég séð eins gult vatn í nokkurri á. Kolmórautt hef ég oft séð í vorleysing heima á Fróni, Blöndu og Hvitá hef ég séð, en hér var vatnið margult. Ég gekk út á mikla brú og nam staðar, hallaði mér yfir brjóstriðið og horfði niður á strauminn andstreymis. Það söng i mér: Vidimus iflavum Tiberim, retortis. Litore Etrusco violenter undis, Ire dejectmn monumenta regis Templaque Vestæ. Hór. I. Od. 2. (Tíber hinn gula geysast séð vér höfum Gnötrandi’ af reiði hingað upp að landi, Ógnandi’ að mylja Mildingshöll og bramla Musteri Vestu). Nú stóð ég sjálfur uppi á brúnni og drakk með augunum straumköst hins sögurika fljóts, sem í nær 3000 ár hefur séð meira af straumhvörfum sögunnar ólga á hökkum sinum en nokk- urt annað fljót í heimi. Fyrir mér runnu fram ölduföll hennar í stórum dráttum, borin á hinum gula straumi, og hverfa undir brúna. Þama stóð ég, ég veit varla hve lengi, og horfði og horfði. Loksins reif ég mig lausan og gekk yfir brúna, kom þá inn á veg, sem lá meðfram fljótsbakkanum, breiðan og fallegan veg. Ég reikaði eins og í drainni og hafði ekkert takmark fyrir augum. Ekki gætti ég að götunöfnum. Ég er vanur því að reika þannig, er ég fyrsta sinni kem í ókunna borg. Nú gekk ég alllengi áfram, 62 AKRANES

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.