Tímarit Verkfræðingafélags Íslands


Tímarit Verkfræðingafélags Íslands - 01.12.1981, Blaðsíða 7

Tímarit Verkfræðingafélags Íslands - 01.12.1981, Blaðsíða 7
Og mikillar þekkingar aflað um þetta jarðhitasvæði og háhitasvæði almennt. Yfirlitsgrein um rannsóknirnar birtist nýlega í jarðhitahefti Náttúrufræðings- ins (Valgarður Stefánsson 1981) og verður sú slóð ekki troðin hér frekar, heldur fjallað um túlkun jarðeðlis- mælinganna (annarra en úr borholum) með tilliti til jarð- og vatnafræðiþátta jarðhitakerfisins. Jarðhitasvæðið við Námafjall kemur hér líka lítillega við sögu. Það virðist vera einskonar botn- langi frá Kröflu og verður vikið að því síðar í því samhengi. Á mynd 4 er svokallað flugsegulkort af Kröflu- og Námafjallssvæðinu. Kortið sýnir mældan styrk jarðsegul- sviðsins í jafnhæðarfleti, 800 m yfir sjávarmáli. Óreglur í mældum sviðstyrk endurspegla fyrst og fremst ólíka segul- mögnun þeirra bergskrokka sem flogið er yfir. Bergi má gróflega skipta í þrennt eftir áhrifum þess á segulmælingar. Fyrst er berg sem hefur storknað, kólnað og seguimagnast í segulsviði eins og nú er á jörðinni, þ.e. rétt segul- magnað berg. Yfir því mælist segul- sviðsstyrkur meiri en í meðaliagi. Þá er öfugt segulmagnað berg, sem hefur storknað og segulmagnast á fyrri tíma- skeiðum, þegar segulsvið jarðar sneri öfugt við það sem nú er. Yfir því mælist styrkur jarðsegulsviðsins minni en ella. Loks er mjög lítið segulmagnað berg, eins og móberg, og berg sem hefur misst segulmögnun sína. Hið síðarnefnda er algengur fylgifiskur háhitasvæða þar sem jarðhitavökvinn eyðir segulmögnun úr bergi, sennilega með því að breyta steindum þess. Víkjum aftur að flugsegulkortinu á mynd 4. Þessir drættir eru skýrastir í segulsviðinu: 1) Hryggur hægra megin á kortinu með stefnu aðeins austan við norður. Honum veldur rétt segulmagn- að berg sem kemur upp í gosum á svo- nefndum Kröflusprungusveim (Kristján Sæmundsson 1979). 2) Lægðir yfir jarðhitasvæðunum við Kröflu og Námafjall. Einkum er Námafjallsdæld- in áberandi vegna reglulegrar lögunar. Lægðirnar eru taldar sýna afsegulmögn- un bergs af völdum jarðhita. 3) T-löguð segullægð við Kröflu. Leggurinn á T-inu vísar suður og niður Hlíðardal í átt til segullægðarinnar við Námafjall. Niðurstöður ýmiskonar viðnáms- mælinga hafa leitt í ljós að jarðhitavatn rennur þessa leið frá Kröflusvæðinu til Námafjallssvæðisins (Freyr Þórarinsson 1980). Af því má álykta að hér sé enn á ferðinni afsegulmögnun af völdum jarð- hitavatns. Þverstrikið á T-inu snýr VNV-ASA og það er sú stefna sem athygli verður fyrst beint að. Á mynd 5 er sýnt svokallað Bouguer- leiðrétt þyngdarkort. Því má lýsa þannig að kortið sýni „þyngdina á hverjum stað eins og hún mundi mælast, eftir að flett hefði verið ofan af landinu niður að sjávarmálsfleti. Þetta er sambærilegt við það, þegar veður- fræðingur umreiknar loftþrýstimælingar til sjávarflatar, áður en hann teiknar veðurkort”. (Trausti Einarsson 1971, bls. 222.) Lítum nú á þyngdarkortið á mynd 5. Þyngdarsviðið vex í átt til Kröfluöskjunnar, en innan hennar er það óreglulegt. Þar sem þyngdarkortið nær aðeins út fyrir öskjuna að sunnan, er hér sleppt að ræða fyrri þáttinn. Óreglur innan öskjunnar eiga sér ýmsar orsakir, til dæmis kvikuhólf undir hluta hennar og þétt innskot við öskjurimana. Sé þyngdarkortið skoðað með þessi atriði í huga, kemur i ljós tvískipting um línu sem liggur VNV-ASA, þvert yfir öskjuna. Hér gengur aftur sú athyglis- verða línun, er áður var nefnd í sambandi við flugsegulkortið. Ýmiskonar aðferðum hefur verið beitt til að mæla viðnám jarðar á jarðhita- svæðinu og í næsta nágrenni. Að vísu er ærið mál að skýra mælingarnar fyrir ókunnugum, og verður sú skýring að nægja, að lágt viðnám bendir að jafnaði til jarðhitavatns í bergi. Það er sam- eiginlegt niðurstöðum allra þessara mælinga, að skörp lóðrétt viðnámsskil koma fram rétt norðan við stöðvarhús Kröfluvirkjunar og virðast þau stefna VNV-ASA (Ragna Karlsdóttir o.fl. 1978, Freyr Þórarinsson 1980, Helga Tulinius 1980). Norðan skilanna er við- nám í jarðlögum mjög lágt og því hafa þau verið kölluð syðri mörk jarðhita- svæðisins. Svo virðist sem skilin séu nokkuð vatnsþétt og hindri rennsli til suðurs, nema þar sem þau eru rofin af göngum og misgengjum. Mynd 6 sýnir nokkur atriði úr niðurstöðum og túlkun viðnámsmælinganna. Af framansögðu er ljóst, að VNV- ASA-læg lína gengur þvert yfir Kröflu- öskjuna, rétt norðan við stöðvarhúsið, og skiptir henni í tvennt hvað varðar alla mælda eðliseiginleika. Norðan línunnar er t.d. háhitasvæði, mikið heitt vatn í bergi og lágt viðnám í jarðlögum, lægð í flugmældu segulsviði og Bouguer-leiðrétt þyngdarsvið 4—5 mgal hærra en sunnan línunnar. Hér hlýtur að vera um að ræða mikla misfellu i jarðlagastaflanum, enda hefur ekki tekist að rekja jarðlög milli borhola yfir þessa línu (Hrefna Kristmannsdóttir o.fl. 1976). Tvær eða þrjár skýringar Mynd3. Upptakadýpijaröskjálfta lsniðiA-A’ámynd2. (ÓbirtgögnfráSveinbirni Björnssyni, Raunvísindastofnun Háskólans. í: Snorri Páll Kjaran o.fl. 1980) / Earthquake hypocenters on cross section A-A ’ in fig. 2. TÍMARIT VFl 1981 — 83

x

Tímarit Verkfræðingafélags Íslands

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit Verkfræðingafélags Íslands
https://timarit.is/publication/860

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.