Freyr

Árgangur

Freyr - 01.09.1994, Blaðsíða 6

Freyr - 01.09.1994, Blaðsíða 6
FRfi RITSTJÓRN Á vit nýrra tíma Eitt áberandi einkenni nútímans er að losa beri um hömlur og höft eftir því sem við verður komið og draga úr opinberum afskiptum. Þung- inn í þessum boðskap náði e.t.v. hámarki við fall kommúnismans í Austur-Evrópu en þá kom nöturlega í ljós hve ríkisafskipti af hagkerfi þessara landa hafði leikið þau grátt. Fyrirbærin „frjálsræði" og „stjórnun“ eiga þó eftir að takast á í mannlegu samfélagi um ókomna tíð og mun seint finnast hinn endanlegi gullni meðalvegur milli þeirra. Frá því fyrir miðja þessa öld og framundir hið síðasta naut íslenskur landbúnaður mikillar vemdar og framlaga hins opinbera. Það átti sín eðlilegu rök á þeim tíma þegar því var komið á en á frjálsræðistímum síðari ára stóðst það ekki lengur. Opinber verðskráning búvara hefur verið felld niður í mörgum tilvikum og átt annars staðar undir högg að sækja. Á tímabili sóttu ýmsir hagfræðingar, ekki síst meðal þeirra sem starfa á vegum Háskóla íslands, hart að ís- lenskum landbúnaði fyrir það að hann nyti óeðli- legrar vemdar gagnvart innflutningi og að ís- lenskar búvörur væru óhóflega dýrar í saman- burði við sambærilegar vörur erlendar. Þessi staða mótaði mjög þjóðfélagsumræðuna, þar sem íslenskur landbúnaður var í varnarstöðu. Gegn þessu var brugðist af hálfu landbún- aðarins með fleirþættu átaki. Undir formerkjum svokallaðrar þjóðarsáttar tók landbúnaðurinn á sig kröfur um aukna framleiðni, ríkisvaldið af- nam útflutningsbætur og lagði niður niður- greiðslur en tók á móti upp beingreiðslur til sauðfjár- og kúabænda samkvæmt greiðslu- marki. í kjölfar þessa þrengdist staða margra bænda, einkum sauðfjárbænda, en einnig urðu aðrar búgreinar fyrir skakkaföllum vegna skipu- lagsleysis í afurðasölu. Það beindi hins vegar athyglinni að félagsmálakerfi landbúnaðarins og sýndi að á það skorti að það gætti nógu vel hagsmuna atvinnuvegarins. Meðal annars komu upp þau sjónarmið að það þjónaði ekki lengur tilgangi að íslenskir bændur hefðu með sér tvenn heildarsamtök, Búnaðarfélag íslands og Stéttar- samband bænda. í framhaldi af því var farið að vinna að því að sameina þessi samtök. Til að kanna hug bænda í þeim efnum var efnt til skoðanakönnunar meðal bænda á sl. vori um sameininguna og lýstu 87,7% þeirra sem afstöðu tóku sig fylgjandi slíkri sameiningu. Á aðalfundi SB á Flúðum í lok ágúst sl. og auka Búnaðarþingi í Árnesi í Gnúpverjahreppi á sama tíma var sameiningin síðan ákveðin. Enginn vafi er á því að sú ákvörðun muni bæta ímynd landbúnaðarins meðal almennings og verða rós í hnappagat land- búnaðarins um að hann sé að taka til í eigin garði og einfalda yfirstjórn sína. Fleira hefur verið gert sem sýnir að íslenskur landbúnaður ætlar að láta að sér kveða í framtíðinni. Frá því á síðasta ári hefur verið í gangi öflugt kynningarstarf landbúnaðarins í fjölmiðlum. Þar hefur verið bent á hlut landbún- aðarins í þjóðarbúskapnum, leiðréttar ýmsar rangar fullyrðingar sem í gangi hafa verið um hann og bent á að íslenskar búvörur séu gæða- vörur, framleiddar í hreinu umhverfi. Slíkt kosti að vísu nokkuð aukalega, en sé þess virði. Að lokum er hér vert að nefna þá starfsemi sem nú fer fram um að kynna hreinleika og holl- ustu íslenskra búvara erlendis og ísland sem at- hvarf fyrir þá sem sækja vilja á vit hinnar óspilltu náttúru sér til heilsubóta. Þrjár ráðstefnur hafa verið haldnar hér á landi á árinu um þetta efni með erlendum fyrirlesurum, sem hafa lýst miklum möguleikum sem hér er að finna í þess- um efnum. Stór og mikil vandamál bíða úrlausnar í ís- lenskum landbúnaði. Hagur margra bænda er bágborinn og dökkt útlit um afkomu víða í sveit- um. En margt gott hefur einnig gerst, m.a. að sú neikvæða umræða sem ríkti í þjóðfélaginu um íslenskan landbúnað fram á síðustu ár er nú lítið áberandi. Landbúnaðurinn hefur tekið á sig þungar byrðar, en samtímis því hafa skapast sóknarfæri. Það eykur vonir um að vel takist til í framtíðinni og að einfaldara félagskerfi verði sterkara og markvissara en það sem fyrir var til sóknar og vamar, jafnt útávið sem innávið. M.E. 550 FREYR - 17'94

x

Freyr

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Freyr
https://timarit.is/publication/863

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.