Freyr

Volume

Freyr - 01.01.1997, Page 8

Freyr - 01.01.1997, Page 8
Frá ritstjórn Jarðbundnar hugsjónir Hér með er auglýst eftir leikriti. Leikritið fjallar um fjölskyldu, hjón með börn. Gest- ur kemur í heimsókn og fær góðar móttökur. Hann býðst til að hjálpa til á heimilinu og það er vel þegið. Hann reynist vinnufús og heimilis- fólkið nýtur þjónustunnar og á náðugri daga og meiri tíma til að sinna hugðarefnum sínum. Gesturinn slakar hvergi á þjónustu sinni og það teygist úr dvöl hans og farið er að reikna með' þjónustu hans sem eðlilegum hluta af heimilis- rekstrinum. Þó kemur að því að efasemdir fara að vakna um alla þessa hjálpsemi. Hvað gerðist ef gesturinn yrði veikur og óvinnufær um skemmri eða lengri tíma? Og hvað gerist þegar að því kemur að aldur færist yfir gestinn? Má þá gera ráð fyrir að nýr gestur leysi hinn eldri af hólmi og taki að sér verkin hans? Þessu getur enginn svarað á líðandi stundu. En er þá ráð að þiggja þjónustu gestsins, þótt hann sé velviljað- ur og velmeinandi? Yrði nýr gestur það einnig, eða vildi hann fá eitthvað fyrir snúð sinn? Staf- aði fjölskyldunni einhver hætta af honum, færi hann að ýja að því að hefð og vani gæfi rétt? Eða gerðist það einfaldlega að enginn kæmi í stað þess sem hætti, en heimilisfólkið kynni einfald- lega ekki lengur til þeirra verka sem því voru áður töm? Eða yrði þjónustan ekki eins vel af hendi leyst og áður? Þessar hugrenningar gætu átt við um margt en í þetta sinn eru hér höfð í huga lífskjör þjóðar- innar. Þjóðinni er boðið að setjast við nægtaborð heimsmarkaðarins. Þar er allt til alls til hnífs og skeiðar, á kostakjörum og hvers kyns þjónusta til reiðu. Beint liggur við að þiggja hana og ýmsir eru því fylgjandi af fullri sannfæringu. En spurning- ar koma upp. Verður nægtaborðið til um aldur og ævi? Er óhætt að treysta svo á nægtaborð heimsmarkaðarins að íslensk verkþekking verði vanrækt? Eða gæti það gerst að ekkert nægta- borð yrði lengur til og hver og einn yrði að bjarga sér, eða það litla sem á boðstólum væri hækkaði óþyrmilega í verði? Hvað þarf mikið að raskast til að slíkt gerist? Núlifandi fólk hefur lifað skömmtun og skort á matvælum. Flestar kynslóðir Islendinga fram að því frá landnáms- tíð upplifðu hungur og mannfelli. Nægur að- gangur að mat hér á landi hefur staðið í um fjóra áratugi af rúmlega 11 alda sögu þjóðarinnar. Þjóðin hefur allan þennan tíma verið að kynnast landinu, möguleikum þess og takmörkunum. Hvert hérað og hver sveit á sína landkosti. Þjóð- in hefur lært að lifa með þeim. Þeir eru hluti af henni og hún er hluti af landinu. Landið er runn- ið henni í merg og bein. Á sambúð lands og þjóðar verður ekki settur verðmiði, frekar en flest annað sem stendur næst hjarta fólks. M.E. Ekki sér hann sína menn Ritstjórnargrein 10. tbl. Freys 1996 ber heitið: “Sá hann ekki sína menn svo hann sló þá líka”. Undirritaður mundi að efnislega hafði hann heyrt þessar hendingar en ekki hvaðan þær voru né hvernig þær voru rétt eftir hafðar. Hann spurð- ist fyrir um það en án árangurs. Eftir að blaðið kom út kom hins vegar Tómás Helgason frá Hnífsdal að máli við undirritaðan og upplýsti hvaðan þetta væri, en það er úr 46. erindi úr 8. rímu Númarímna eftir Sigurð Breiðfjörð. Allt er- indið er þannig: Kylfu um herinn harðleikinn hvassri gerir flíka. Ekki sér hann sína menn svo hann ber þá líka. Ég flyt Tómási bestu þakkir fyrir að hafa komið þessu á hreint. M.E. 4 FREYR -1. ‘97

x

Freyr

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Freyr
https://timarit.is/publication/863

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.