Fylkir


Fylkir - 23.12.1966, Blaðsíða 9

Fylkir - 23.12.1966, Blaðsíða 9
JÓLABLAÐ FYLKIS 1966 9 Skáld að norðan Flest ef ekki öll byggðarlög, geta státað af því, að eiga sín skáld eða að minnsta kosti góða hagyrðinga. Vestmannaeyingar hafa löngum get- að skírskotað til Sigurbjarnar Sveinssonar sem síns skálds í því sam- bandi. En eftir að hann leið, hefur verið heldur fátt um drætti í þeim efnum. Að visu finnast hér góðir hagyrðingar, en af skáldum eigum við fáa- . 0 .*áé Fyrir vel rúmum áratug fluttist hingað til Eyja bóndi ættaður úr Húnaþingi ásamt konu sinni og börnum. Festi hann kaup á jörðinni Vestra Þorlaugargerði og hefur búið þar síðan. Manninn þarf sjálfsagt ekki að kynna, hann er orðinn Vestmannaeyingum að góðu kunnur. Páll H. Árnason er maður mjög vel máli farinn og vill hvers manns götu greiða, ef honum er þess nokkur kostur. Hann getur verið alls ómyrkur i máli, ef því er að skipta, en er þó um leið gætinn og yfirvegar jafnan hlutina, áður en hann her þá fram. Hann setur jafnan fram raunhæf rök fyrir skoðunum sínum eins og þeim er kunnugt, sem lesið hafa bæjar- blöðin, en þar hefur hann oft stungið niður penna. Hitt vita ekki allir, að Páli er ekki ósýnna um að koma sínum hugsunum fram í bundnu máli en óbundnu. Hann varð vel við beiðni okkar um efni í þetta blað, en lét þess getið um leið, að eiginlega væru þessi ljóð ekkert annað en sín leik- föng. Við viljum aðeins bæta því við, að gott væri, ef allir ættu eins góð leikföng og Páll, og færu eins vel með þau og hann gerir. Og þá gefum við Páli orðið: HEIÐRÍKJAN Þegar drottinn opnar himnahallir á heiðum kvöldum, gefst oss undrasýn, i veröld, sem við eigum einn og allir þar er guðs sól og litla jörðin mín. Þar vetrarbrautir geysast lofts um lendur, en ljósár verða ómælisins smæð, því eilífð bak við alla sköpun stendur, við okkar fót, í voldugustu hæð. Og hvort sem guð er einn eða ótalmargur hann er lífsgeislinn, tengir stórt og smátt. Það getur enginn verið úfinn, argur er opnar hann sinn boðsal uppá gátt. Hvert fjötrað blómstur vill hann leysa og leiða, í ljósheimum að geti unað sér, og allar brautir upplýsa og greiða útþránni, sem brýst í mér og þér. JÖLAGJAFIR Ofrausn reynist rýrum sjóð það ríkmannlega gjafa flóð, sem nú er tízku tildur. Gakk þú eigin getu slóð með góðum hug og traustum móð, mjúklátt, öllum mildur. Ein er gjöfin allra bezt og allir græða á henni mest, hið góða og glaða sinni. Hlustaðu á hinn æðsta prest þíns innra manns, þíns jólagests og meitla þér í minni. ÁSKAUTUM Á heiðum kvöldum hlupum við á skautum er hlógu stjörnur bláum himni frá, en svellin glóðu á lækjum, ám og lautum og leiddu í hugann ævintýra þrá. Er rökkrið kom þá kveikja mátti ekki, en hvíldarstundu gamla fólkið hlaut, þeir ungu slitu einnig anna hlekki, á íssins þustu töfrahálu braut. Arm í arm var yfir svellið svifið og sveiflur teknar eftir hjartans list, en sælustraumur fór um hjartað hrifið sem heilagra í paradísarvist. í vetrar ríki traustu er táp að dansa og teyga í barminn loftið kristaltært og sínum hjartans innstu röddum anza hjá yngismey með blikið hreint og skært. í danssölum er þröng og tóbaksþefur, þoka reyks og glaumur víns og mass, þar lífsskyn sljófgast, sóminn stundum sefur, svefnþorn honum stingur villtur jazz. Við hnattasýn í háborg norðurljósa, í hreinu gliti íss og snævar hjúps, og hljóður andi okkar vetrarrósa, öldur hæstar rísa, sálardjúps. SURTUR 3JA ÁRA 14/11 ’66. Enn á Surt er ekkert hik, efni ljá í bögu, ár hans þrjú eitt augnablik í okkar jarðar sögu. Himinmyndum hnika til hyldjúp jarðar sogin, stundum er sem skýja skil skapi Surtar loginn. Surts er enn hin sama hyggja, sér í huga stræti og torg, undirstöður er að byggja undir þúsundanna borg. Þó að hófi þrótt sinn stillir — þessi björtu sjávar mót út hann þenur, upp hann fyllir eldstraum, sem er bráðið grjót. Efnisþurrð, ég ætla fleipur, á þó dytti raunin sú, undir baggann Hekla hleypur svo hefur Katla útibú. Mannlegur má máttur víkja, er munda þeir sinn ægi hramm, jarðsköpunar jötnar ríkja og ráðum sínum koma fram. Þeir tengja sífellt hlekk við hlekki, en halda litlum stétta brag, því hærri laun þeir heimta ekki, né heldur styttan vinnudag. Og iðnin metin er ofstæki, er þeir byggja háfjöllin, því okkar herjans helgitæki þeir hafa að engu, verkföllin. Þar sem nú þeir bræla og brenna, brunahraunsins opnu sár, þar má ljúflegt laufskrúð kenna, lítil eftir þúsund ár. Þúsund ár einn andardráttur í undra sköpun þessa heims, eða veikur æðasláttur okkar mikla hnattageims. Þökk ég færi þúsundfalda þeim guðmætti, er stendur vörð og snyrta kann um aldir alda okkar fögru — móður jörð.

x

Fylkir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fylkir
https://timarit.is/publication/878

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.