Litli Bergþór - 01.12.1992, Blaðsíða 10

Litli Bergþór - 01.12.1992, Blaðsíða 10
Skyggnst um á Kjalvegi Fyrsti hluti eftir Tómas Tómasson Af stað Það er búin að vera árviss regla hjá Kvenfélagi Biskupstungna í mörg ár að bjóða eldri sveitungum í dagsferðalag. Það er gjarnan reynt að velja einhverja nýja leið frá ári til árs, en þessar ferðir hafa náð miklum vinsældum og er alltaf hlakkað til næstu ferðar. Tildrög skrifa minna nú eru þau að einn af ferðafélögum mínum í slíkri ferð sumarið 1988 hefur oft mælst til þess að ég komi á prent því sem bar fyrir sjónir okkar á leiðinni. Það var á föstudegi í ágústmánuði og nú skyldi haldið upp á Kjalarsvæðið. Kvenfélagskonurnar höfðu að venju samið við Sérleyfisbíla Selfoss með farkost, enda hefur það ávallt reynst vel, bæði með mann og bíl. Byrjað var að taka farþega í Laugaráshverfi og áfram upp eftir sveitinni. Milli klukkan 10 og 11 hjá Geysi komu síðustu farþegarnir, þá 30 manns. Veðurútlit var heldur drungalegt, sólarlaust en að mestu úrkomulaust. Spádómur fólksins var að létta myndi til þegar kæmi upp á hálendið. Sá spádómur rættist, ekki síður en hjá veðurfræðingunum. Ekki var eftir neinu að bíða, bara drífa sig af stað sem leið liggur að Gullfossi og þar skyldi lagt á Kjalveg. Það verður reynt að rifja upp helstu örnefni, sem fyrir augu ber, en af miklu er að taka, því verður stiklað á stóru. Ég vil aðeins geta þess að 1930 verður fyrst ökufært að Gullfossi og var lengi ófullkomin braut, sem var fljót að spillast ef rigningarsamt var. Fljótlega uppúr 1930 var hafist handa að gera ökufæra braut uppá Kjalarsvæðið, gerðir út nokkrir menn með tjöld, prímusa, ófullkominn mat og annan útbúnað. Einu verkfærin skófla, haki og járnkarl, annað var ekki þekkt af verkfærum á þeim tíma. Ótrúlegt hvað verkið vannst með svo ófullkomnum verkfærum. Til Hveravalla komst fyrsti bíll í ágúst 1937. Það þóttu stór tíðindi. Þessi braut var bæði þröng og grýtt fyrst í stað, en nú verður vegurinn greiðfærari með hverju ári. Þegar valin var heppilegasta leið fyrir bílinn réðu allt önnur sjónarmið en áður. Nú varð að forðast graslendi sem mest og velja leið eftir grjóti og melum. Þess vegna liggur vegurinn yfir Kjöl ekki nema að litlu leyti á þeim slóðum sem gamla ferðamannaleiðin lá áður. Elstu leiðirnar á Kili hafa líka færst mikið til í gegnum aldirnar. Það verður þó ekki rifjað upp í þessu punktum. Leið okkar liggur norðvestur með svokölluðu Brattholtsgili. Það er stutt að runnið. Rétt norðan við upptök þess eru klapparhólar og ber þar helst Svarthól og Norðlendingahól. Sá síðarnefndi ber nafn sitt af norðlendingum sem lögðu leið sína suður yfir hálendið seinni hluta vetrar að ná sér í hunda eftir að hundafár hafði eytt flestum hundum á þeirra heimaslóðum. Sagan segir þá hafa látið fyrirberast næturlangt undir þessum hól. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir hve stutt þeir áttu ófarið til bæja. A Pokakerlingu Við förum í gegnum hlið á afréttargirðingunni. Þar verður fyrir allgrýttur kafli sem lengi var ógreiðfær en hefur lagast mikið á seinni árum með tilkomu stórvirkra tækja. Fljótlega komum við uppá greiðfæra jökulöldu. Alda þessi heitir Pokakerling. Af henni er býsna gott útsýni má segja til allra átta. Ef við horfum til vesturs koma mörg fjöll í augsýn. Næst byggðinni stendur Bjarnarfell, 727 metra hátt, og þar norður af Sandfell, víðfeðm bunga, 610 metra á hæð. Á hálsinum milli þessara fjalla lá svokölluð Eyfirðingaleið í stefnu á Hellisskarð. Ef við lítum vestar kemur í Ijós fjallaröð frá suðri til norðurs upp að jökli. Syðst stendur Rauðafell og Högnhöfði. Milli þeirra eru upptök Brúarár í Brúarárskörðum. Þvínæst stendur Kálfstindur, en á milli hans og Högnhöfða er Hellisskarð. Á bak við þessi fjöll eru Skjaldbreiður og Hlöðufell, sem gnæfir yfir önnur fjöll og sést langt að. Norður af Kálfstindi er mikil hraunbunga; Lambahraun og ber þar Eldborgir hæst. Þar mun vera upptök að Úthlíðarhrauni. Næsttekur við Mosaskarðshnjúkur og síðan Fagradalsfjall. Á milli þeirra er Mosaskarð, þar sem háspennulínan austan af virkjanasvæðinu liggur um. Bak við þessi fjöll er Hagavatn og Hagafell, sem teygir sig langt inní jökulinn. Austan við Fagradalsfjallið rennur kvísl úr Hagavatn.i sem heitir Far. Það rennur niður á Skerslin og myndar Sandvatn. Austan við Farið er Einifell. Síðan taka við hinir sérkennilegu hnjúkar Jarlhettur, sem sjást úr ótrúlegri fjarlægð víða að með sína sterku liti og bera í hvítan jökulinn. Litli - Bergþór 10

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.