Litli Bergþór - 01.12.1992, Blaðsíða 15

Litli Bergþór - 01.12.1992, Blaðsíða 15
norrænum fræðum og þjóðum. Þá hefði kviknað áhugi með henni sjálfri. Hins vegar hefði þessi æskuvinur ekki verið talinn henni samboðinn, heldur hefði hún nauðug verið gefin lávarðinum Disney Leith. Eignaðist hún 6 börn með manni sínum, sem þó varð ekki langlífur. Er hann var fallinn frá, tók hún á ný að sinna fyrri áhugaefnum sínum, myndlist, ritstörfum og ferðalögum, einkum íslandsferðum. Mun hún alls hafa komið átján sinnum til íslands, fyrir og eftir aldamót. Taldi Kristín, að hún hefði ritað fleiri bækur en eina um þessar ferðir, en þá bók, sem ég sá forðum á Þingvöllum, taldi hún komna í Héraðsbókasafnið á Selfossi. Kvaðst hún mundu svipast eftir henni, en ekki var henni kunnugt um, hversu frú Disney Leith hefði komið við sögu minnivarðans í Skálholti. MARY CHARLOTTE JULIA GORDON. Þessu næst leitaði ég til Þjóðminjasafnsins. Mér þótti ekki vonlaust, að Matthías þjóðminjavörður hefði skilið eftir einhver gögn um málið í fórum safnsins. Þóra Kristjánsdóttir, listfræðingur, varð fyrir svörum og tók erindi mínu vel. Var þegar hafin leit í gögnum safnsins og stóð lengi dags. En þar fannst hvergi stafur né vísbending. Leið síðan nokkuð fram á sumar, og dróst úr hömlu, að ég héldi áfram leitinni í erli daganna. Þá hringir Þóra dag einn og segist hafa orðið nokkurs vísari. Segir hún mér, að ungur sagnfræðingur, kaþólskur, Gunnar F. Guðmundsson, hafi grafið upp heimildir um, að frú Disney Leith, sem raunar hafi heitið að skírnarnafni Mary Charlotte Julia Gordon, hafi gefið fé til þess að minnisvarðinn yrði reistur. Magnús Guðnason steinsmiður hafi annast verkið, en Matthías þjóðminjavörður verið með í ráðum. Efnið, tveir vænir steinar, hefði verið sótt í Þorlákssæti. Verkinu hefði Magnús lokið 10. júní 1912. Það fylgdi sögunni, að varðann hefði átt að helga eða afhjúpa við hátíðlega athöfn, en ekki orðið af. POST SCRIPTUM. Minnisvarðinn er sum sé orðinn áttræður og er einungis hálfu ári yngri en Bræðratungukirkja. Þess varð ég var í haust, að fleiri voru að leita gagna um varðann en ég og Gunnar F. Guðmundsson. Páll Lýðsson ræddi við mig ekki alls fyrir löngu og sagði mér, að hann hefði rætt við all margt eldra fólk, sem helst var von til, að munað gæti. Kom þar í Ijós, hversu misbrigðult minni manna er. Þó hafði hann rakið sig svo nærri ártalinu, að litlu skeikaði. Ég hafði enn tal af frú Kristínu frá Þingvöllum, fyrir tveim dögum. Ekki hafði hún enn fundið ferðabókina, sem ég nefndi hér að framan, og þótti henni það kynlegt. Hins vegar hafði Gunnar, sagnfræðingur, einnig leitað til hennar um upplýsingar, sennilega vegna þess að ég vitnaði til síra Eiríks og bókarinnar í samtölum við starfsfólk á Þjóðminjasafninu. Ekki hafði Kristín þó frétt, að gátan var ráðin. Magnús G. Guðnason steinsmið man ég. Hann var frá Bakkavelli í Rangárvallasýslu, fæddur 1862. Knútur R. Magnússon, útvarpsmaður, er sonur hans úr seinna hjónabandi. Þannig var, að eldri albróðir Knúts, sem Kristinn hét, og elsti bróðir minn, Friðrik, urðu miklir vinir á æskuárum, en báðir urðu skammlífir. Kristinn dó 15 eða 16 ára en Friðrik 21 árs. Fjölskyldurnar áttu því að nokkru saman harma sína. Magnús hafði ungur fengið vinnu við að höggva grjót, sem nota átti í byggingu Alþingishússins við Austurvöll. Hann mundi vel eftir Jóni Sigurðssyni í forsetastóli, - og þá í Latínuskólanum við Lækjargötu. Magnús var hinn merkasti maður og varð háaldraður og hélt vinnuþreki fram á efstu ár. G. Ol. Ol. Litli - Bergþór 15

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.