Litli Bergþór - 20.06.1995, Síða 5
Hvað segirðu til?
Að þessu sinni verður greint frá því helsta, sem
fréttnæmt telst í sveitinni frá febrúarlokum til síðari
hluta maí.
Tíðarfar var fremur kalt á útmánuðum og nokkur
ófærð á vegum einn og einn dag. Öðru hvoru
snjóaði nokkuð en oftast hvessti það mikið á
nýfallinn snjó að hann fauk í skafla eða alla leið
niður í Flóa.
Um miðjan maí var gróður lítið farinn að lifna, og
tafði hann bæði jarðklaki, sem mælst hefur a. m. k.
70 sentimetrar, og einnig lítill lofthiti.
Heilsufar hefur verið nokkuð gott þó leiðinda kvef
hafi verið að ergja suma.
Af mennigarlífi má nefna svonefnt „Fjárlaga-
námskeið", sem haldið var í Aratungu í mars. Þar
kenndu Margrét Bóasdóttir og Jón Stefánsson
nokkrum tugum fólks bæði hér í sveit og úr
nærsveitum að syngja lög frá fyrri tíð. Námskeiðið
endaði með söngskemmtun.
Karlakór Selfoss hélt söngskemmtun í Aratungu í
byrjun apríl, Barnakór Biskupstungna efndi til
tónleika í Skálholti rétt áður en hann hélt úr landi og
Skálholtskór hélt tónleika og skemmtun síðla í maí
ásamt tveim öðrum kórum og einsöngvurum.
í vetur hefur verið unnið að gerð heimildarmyndar
um íslensku hagamúsina hér í sveit. Höfuðstöðvar
eru á Felli, en myndað hefur verið á ýmsum stöðum
í nágrenninu.
Undir lok mars var haldin ráðstefna í Aratungu,
sem nefnd var Landgræðsla og landnot. Hún var á
vegum Landgræðslu ríkisins og Landgræðslufélags
Biskupstungna, og var aðallega fjallað um
Biskupstungnaafrétt, Haukadalsheiði og Hagavatn.
Fjórir frambjóðendur til Alþingis voru úr þessari
sveit. Enginn þeirra náði kjöri.
Veitinga- og ráðstefnusalur hefur verið byggður
við Geysi.
Hrossum gefið á hjarnið.
Heilbrigðisráðherra tók fyrstu skóflustungu að
nýrri heilsugæslustöð í Laugarási föstudaginn 12.
maí. Hrunamennirnir Þröstur Jónsson og Gísli R.
Magnússon munu byggja hana, enda áttu þeir
lægsta tilboð, erframkvæmdin var boðin út.
Ræktunarsamband Flóa og Skeiða átti lægsta
tilboð í lagningu nýs vegar frá Helgastöðum að
Brúará vestan við Spóastaði. Framkvæmdir munu
hefjast í sumar og taka ein tvö ár.
Ær og lamb frá Austurhlíð heimtust skammt frá
orlofshúsum Verslunarmannafélags Reykjavíkur í
landi Miðhúsa í febrúar og hitt lambið undan ánni
fannst í Austurhlíðarseli nokkru seinna. Kindurnar
munu hafa verið dável á sig komnar.
A. K.
Litli - Bergþór 5