Litli Bergþór - 20.06.1995, Síða 22
FOLK VIÐ FERJUSTAÐI frh...
Dísa
Dísa rúmlega tvítug.
Jóhanna, var ráðskona. Húsakynnin voru bágborin.
Allt lak, þak og gluggar. En hér kynntist ég Agli og
þá sagði Egill eldri, að fyrst við værum trúlofuð væri
best að Jóa færi og við tækjum við. Ég var svosum
aldrei spurð að því hvort ég vildi setjast hér að og
það tók mig 6 ár að hætta að leiðast.
Á vorin fann ég alltaf forarlyktina úr pollenginu
og þá fór ég norður á tún og horfði inn til fjallanna.
Og þegar birkið fór að laufgast í Fellskoti, fór ég
vestur fyrir bæ til að draga að mér birkiilminn.
L-B: En þú ert hér enn eftir rúm sjötíu ár.
Segðu mér eitthvað frá lífinu hér við ferjustaðinn?
Dísa: Við fórum strax að byggja. En Krókur
var ekki mikil jörð og bar aldrei nema eitt heimili. En
einhvernveginn blessaðist þetta þrátt fyrir mikla
gestanauð. Svo eignuðumst við 5 börn, þar af eru
fjögur á lífi. Þau eru Þuríður, sem er elst, hún býr í
Kópavogi og á eina dóttur og 3 syni. Svo er Egill,
sem býr á Selfossi, hann á 4 dætur, ívar Grétar,
sem býr einnig í Kópavogi og á eina dóttur og tvo
syni og Jóna Kristín, sem býr á Ósabakka og á þrjár
dætur. Sú yngsta hennar fermist nú um
hvítasunnuna. Steinunni dóttur okkar misstum við
þegar hún var 19 ára.
Svo ólum við líka upp Unnstein dótturson
okkar, son Þuríðar, og Magnús Heimi, sem býr hér
núna. Ég tel að það hafi verið mesta gæfusporið í
lífi mínu, þegar ég tók hann Heimi að mér. Hann
var bara tæpra tveggja ára þegar hann kom, og
eiginlega ætlaði ég alls ekki að taka hann. Ég var
orðin þetta gömul og hafði verið heilsulaus. En ég
gat auðvitað ekki sagt nei, enda sagði faðir hans að
hann ætti bara að vera í 7 vikur. En það teygðist úr
þeim.
á Króki.
Jóhannes, faðir Heimis, og Egill voru
systkinabörn. Það er að segja, Jóhannes á Brekku,
faðir Jóhannesar (og Óskars á Brekku) og
Steinunn, móðir Egils míns voru systkini.
Egill, tengdafaðir minn, var ættaður austan af
Síðu. Þegar þau Steinunn fluttu í Galtalæk, reiddi
hún Egil, sem var 11 mánaða og elsta barn þeirra,
fyrir framan sig alla leið. Hvíldarlaust í 11 daga og
stytti ekki upp á meðan. Enda stóð hann ekki í
lappirnar í mánuð á eftir barnið. Jói á Brekku,
bróðir hennar, reið á þrevetra tryppi.
Stjórnmála-Jóhanna, systir Egils, stóð í
baráttu fyrir verkakonur fyrir 1920. Hún var
stórmerkileg kona og ég bar mikla virðingu fyrir
henni. En hún var ekki kölluð Stjórnmála-Jóhanna í
virðingarskyni! Hún var gift Ingimundi Einarssyni,
föðurbróður Sigga í Úthlíð og hann var einhver sá
Dísa og Egill í garðinum á Króki.
besti maður, sem ég hef kynnst, án þess að hallað
sé á neinn. Jóhanna Inga Sigurðardóttir, formaður
þjóðvaka er barnabarn þeirra.
L-B: Segðu mér frá ferjumannsstarfinu.
Dísa: Það var mikil vinna. Ferjan var erfið,
það þurfti oft að vaða og draga bátinn yfir
sandeyrarnar. Það var líka sífelld hreyfing á
eyrunum og þær voru fljótar að myndast. Það var
kannski hægt að ferja í dag, en ekki á morgunn. En
ég ferjaði aldrei þegar var ísskrið. Gat það ekki.
Fyrst var þetta stór bátur og þungur og eftitt
að eiga við hann, seinna kom léttari bátur. Það var
best að ferja frá Klettinum norðan í túninu, eða
Klettvíkinni réttara sagt, sem er lítil vík inn í klettinn.
Þar var gott og létt að brýna bátnum. Seinna, þegar
meira varð um flutning á þungavöru, var gerð
bryggja við Klettvíkina.
Það voru fastar áætlunarferðir einu sinni í viku
hjá Magga Lofts, vörubílsstjóra frá Haukholtum. Þá
biðu oft 6-7 manns eftir bílnum, sátu inni í bæ,
drukku kaffi og borðuðu kökur. Og þeir voru ekkert
að taka ómakið hver af öðrum, komu oft tveir frá
Litli - Bergþór 22