Litli Bergþór - 20.06.1995, Blaðsíða 23

Litli Bergþór - 20.06.1995, Blaðsíða 23
FOLK VIÐ FERJUSTAÐI frh... Dísa á Króki. hverjum bæ. Karlabelgir á hverju rúmi og varla pláss fyrir mig og börnin! segir Dísa og glottir. - Já, það var mikil gestanauð sem fylgdi þessu ferjustarfi og varla að við hefðum efni á því. - En Egill var svo gestrisinn, bauð hverjum manni í bæinn. Og jafnvel þeim, sem ekki vildu koma inn, tróð hann inn líka. Og einhvernveginn blessaðist þetta allt. Mér er sérstaklega minnisstæður einn dagur í júní, árið sem ég gekk með hann Alla (Egil), eldri son minn. Hann var fæddur 27. ágúst. Þá réri ég átján sinnum yfir ána og var þó að þvo stórþvott heima! En það voru ekki aðrir heimavið sem gátu róið, og það þurfti að sinna ferjunni. Jói á Brekku kom með flutning stundum og einu sinni sagðist hann ætla yfir að skamma Egil fyrir meðferðina á mér! Það ár kom til okkar gömul kona, Guðrún Pálsdóttir, sem áður var vinnukona á Eiríksbakka. Hún hafði lærbrotnað þegar hún var að koma inn með skánina á Skeiðaréttardag haustið áður. Það átti að taka með henni af sveit, en Egill sagði henni að koma að Króki, hann skyldi ekki taka með henni af sveit. Það var gæfuspor að taka hana. Hún sá um litlu börnin heima þegar ég þurfti að skreppa frá. Stelpurnar tók ég þó oftast með á engið. - Þá átti gamalt fólk bágt, jafnvel hjá börnum sínum. Það er mikill munur að vera gamall nú. - Fyrstu tvö árin var hjá okkur 16 ára stelpa, Guðný Ólöf Magnúsdóttir, sem gat róið. Hún var alin upp í Tjarnarkoti. Svo vorum við eitt ár með gamlan mann á heimilinu, Guðmund Helgason, en hann var hálf hræddur við vatnið. Hann fór svo frá okkur að Galtalæk. Oft var Egill dag eftir dag að hjálpa Hverfismönnum að ferja fóðurbæti og kol yfir ána og það fór mikill tími í þetta. En erfiðast var að fara með nautgripi yfir fljótið. Egill þurfti þá að vaða yfir fljótið á undan þeim, því ekki var hægt að teyma þá úr bátnum. Vatnið gat verið undir hendur. Hann tók þó aldrei ferjutoll af Hverfismönnum. En það kom fyrir að fólk lengra að borgaði ferjutoll. Hann var 50 aurar fyrir manninn og 55 aurar ef hestur var teymdur. Ég held að við höfum tvisvar sinnum fengið 30 króna styrk út á bátinn, það var allt og sumt. L-B: Manst þú eftir einhverjum slysum eða óhöppum við ferjuna? Dísa: Nei, það held ég ekki. Það var reyndar eitt sinn drengur hér úr Hverfinu, sem dró bátinn og sjálfan sig á kaf, þegar hann var að draga bátinn yfir á vírkefli. En það fór allt vel. L-B: Hvernig var á veturna? var farið yfir Fijótið á ís? Dísa: Jú, en það var varasamt. Það er fyrst nú, hin síðari ár, eftir að Sandvatni var veitt í Hvítá, að Fljótið er farið að leggja eins og venjulega á. Áður fyrr lagði það ekki nema það bólgnaði fyrst og Krókur, endurnar íforgrunni. flæddi yfir alla bakka. Þá mátti ekkert draga úr frosti, þá hrapaði vatnið undan ísnum og ísinn brotnað niður. Það var stórhættulegt. Það var róið með mjólk eins lengi og hægt var, jafnvel þó það væri ísskrið. Ef Fljótið var ófært, var reynt að reiða hana á klökkum upp á brú, oft fjóra brúsa á hesti. Þegar snjór var mikill, gátu þetta orðið umbrot fyrir hestana og þá þurfti að bera brúsana yfir skaflana. L-B: Hvenær var hætt að ferja hér á Króki? Dísa: Mér er sagt að þessi ferja hafi sennilega verið síðasta skylduferja á Suðurlandi. Það var ferjað hér þar til vegurinn kom að brúnni, uppúr 1950, (en Tungufljótsbrúin var reist árið 1929). Það voru mikil umskipti. Fólk hætti að koma. Þó komu Jóhannes í Ásakoti og Skúli í Tungu alltaf annað slagið til að spjalla við Egil. Þeir voru eiginlega þeir einu sem komu eftir að ferjan lagðist af. L-B: Voru engar aðrar ferjur á Tungufljóti? Dísa: Áður var líka ferja við Reykjavelli, en hún var lögð af áður en ég kom. Svo höfðu Bræðratunga og Ásakot bát saman, sem var við Sporðinn móti Höfða. L-B: Mér er sagt að þú sért mikil hannyrðakona og svo hafirþú verið á kafi í leiklistinni líka? Dísa: Þú segir það, segir Dísa kímin. Jú, strákarnir voru fyrir skömmu að telja saman þær peysur, sem ég hef prjónað, og þær voru víst eitthvað á þriðja hundraðið. Ég hef gert meira af þessu í seinni tíð. Annars er sjónin farin að gefa sig. Langar þig að sjá eitthvað af því sem ég hef gert? Blaðamaður Litla-Bergþórs kveður já við því, og Dísa sýnir mér fjölda útsaumaðra mynda á veggjunum og púða í stólum og sófa. Svo dregur hún fram úr skápum sínum púða og útsaumaðar myndir í tuga tali, sem eftir er að setja upp, en öllu er þessu snyrtilega raðað og hver hlutur á sínum stað. Litli - Bergþór 23

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.