Litli Bergþór - 01.12.1995, Blaðsíða 22

Litli Bergþór - 01.12.1995, Blaðsíða 22
FOLK VIÐ FERJUSTAÐI frh... INGÓLFUR JÓHANNSSON Á IÐU. Kristinn trésmiður. Þeir voru ættaðir frá Eiríksbakka og þekktu vel til á bæjunum í kring. Ætluðu þeir að eyða helgi hjá kunningjum fyrir sunnan Hvítá og lögðu af stað á laugardagskvöldi. Síðan fréttist ekki fyrr en á mánudagsmorgun, að þeir höfðu aldrei komið fram. Þykir líklegast að þeir hafi gengið beint í vök á ánni, en hún er alltaf varasöm á ferjustaðnum. Vatnið og ísinn eru jafnlit og erfitt að átta sig á aðstæðum í myrkrinu. Fundust þeir ekki fyrr en vorið eftir. Síðan hafa tvö börn drukknað í ánni, barn frá Rauða krossinum og svo barn Konráðs læknis og Önnu. Það gerðist sennilega hvoru tveggja þegar börnin voru að vaða út í ána, en hún er stór hættuleg, þverhnýpi úti í ánni skammt frá landi. Þetta voru sorgleg slys og óskemmtileg lífsreynsla að þurfa að finna líkin og ná þeim úr ánni. L-B: Leggur ána yfirleitt á veturna ? Ingólfur: Jú oftast meira eða minna. Ætli það sé ekki svipað og í Auðsholti. Þó voru þeir sennilega háðari samgöngum yfir ána og fóru því að fara yfir fyrr, áður en ísinn varð traustur. Það kom fyrir að áin var ófær vegna ísskriðs, sérstaklega ef hún var að brjóta af sér gamlan ís. En í ísskriði vegna frostíss var aldrei nein hætta og nær alltaf ferjað. Hún fer fyrst saman í þrengslunum við ferjustaðinn og ísinn þjappast svo saman. Það var alltaf tilhlökkunarefni að losna við ferjuna þegar kominn var góður ís á ána. Oftast var þó farið með fólki, nema það væri þeim mun kunnugra. Farið var beint yfir hjá sumarbústöðunum, yfir að læknisbústaðnum. Það gat þó verið varasamt, því það er hver undir í ánni, sem getur brætt af sér. Oft var farið á vörubílum yfir ísinn. Þegar Einar Tómasson í Auðsholti byggði húsið sitt, keyrði hann grjót úr Vörðufelli yfir ána við Þengilseyri, upp túnið í Skálholti og þar upp á veg. Síðan var keyrt að ferjustaðnum við Auðsholt og þar aftur yfir ána á ís. Ég gerði það að gamni mínu að láta mæla ísinn þar sem vörubílabrautin var og var hann 60 cm þykkur. Það má líka til gamans segja frá því, til að sýna hve færið yfir ána gat breyst snögglega, að það mun hafa verið 1930 í maí að mamma fór með systur mínar tvær í vorpróf upp í Reykholtsskóla. Þær voru ferjaðar yfir og hestarnir sundlagðir eins og alltaf. Síðan ríða þær í Reykholt og á bakaleiðinni gistir móðir mín eina nótt á Torfastöðum hjá sr. Eiríki og frú Sigurlaugu, eins og hún var vön. En daginn eftir var áin komin á ís og þurftu þær að bíða nokkra daga áður en þær komust til baka með hestana. L-B: Kannt þú fleiri sögur um ferðir yfir ána ? Ingólfur: Yfirleitt er talið að Hvítá sé ekki reið eftir að Tungufljót kemur í hana. Þó er til ein frásögn um það að hún hafi verið riðin, en það var þegar þeir Teitur í Bjarnarnesi og Þorvarður á Möðruvöllum fóru í Skálholt og drápu Jón biskup Gerreksson 1433. Sagt er að þeir hafi riðið yfir ána á Þengilseyri, sem er hólmi í ánni neðan við ferjustaðinn, á móti Skálholti. En líklegt er að áin hafi legið öðruvísi þá. Nú, svo reið Guðjón á Eiríksbakka ána á móts við Laugarásbyggðina uppúr 1930 og var það ekkert þrekvirki. Botninn er góður þarna og Guðjón þrautþekkti ána. Einu sinni var ég að ferja Jörund í Skálholti. Hann fór á hesti niður á Skeið í góðu veðri, en þegar hann kom til baka um kvöldið var kominn blindbylur. Hann vildi samt komast heim eins og gengur og láta vita af sér. Áin var full af snjó og í raun ekkert vit að leggja í hana. En Jörundur vildi fara svo það varð úr. Með okkur var Loftur heitinn Bjarnason, ráðsmaður hjá okkur og ætlaði hann að bíða eftir mér hérna megin. Nú það skipti engum togum, að við Jörundur vorum ekki komnir nema 2- 3 bátslengdir frá landi, þegar ég braut árina í krapinu. Rak okkur aftur að sama landi og tókst mér að draga bátinn upp á skörina. Myrkrið og sortinn var svo mikill, að Loftur hafði ekki tekið eftir neinu og brá honum heldur betur í brún þegar við komum allt í einu aftan að honum þarna í myrkrinu. Nú, eftirminnilegt er líka þegar ég flutti líkkistu yfir ána í miklu ísskriði. Það mun hafa verið uppúr 1950, líklega '51. Jóhanna Þorsteinsdóttir dó í Höfða um vetur og átti að jarða hana í Reykjavík, þar sem Víglundur maður hennar var jarðaður. Það var búið að snjóa mikið og ófært um Grímsnes, svo það var tekið það ráð að ferja kistuna yfir hjá Iðu. Kistan var svo stór og þung, að það þurfti að hafa hana þversum á bátnum og var ekki pláss nema rétt fyrir ræðarann. Ef báturinn hefði hallast, hefði kistan farið í ána. Auðvitað var þetta glannaskapur og hálfgerð flónska. En skarir voru góðar og ég fór af stað nokkru fyrir ofan ferjustaðinn. Þegar ísskrið var, barst báturinn með straumi og þurfti bara að stjaka sér á milli jakanna. Síðan var krækt í bátinn frá hinum bakkanum. Þarna hugsaði maður ekki um annað en að koma þessu á leiðarenda og allt fór þetta vel. Tvisvar hef ég líka synt yfir ána þegar vantaði bát. Þá hef ég líklega verið svona 17-18 ára. Ekki man ég að mér hafi fundist það neitt mál, enda stutt yfir. En áin er köld og hættulegt ef menn fá krampa. Eitt sinn ætlaði maður einn að sundríða ána, en hesturinn drapst undir honum þegar hann kom sveittur út í kalt vatnið. L-B: Þú sagðir að sandeyrar hefðu truflað dragferjuna á sínum tíma. Er mikil hreyfing á sandinum í ánni? Ingólfur: Jú, sérstaklega hér áður fyrr. Þá var meira í ánni og oftar flóð í henni. Nú er hún mun minni, hvort sem það er vegna þess að jöklarnir hafa hopað, eða að vatnið hefur farvegi inn Litli - Bergþór 22

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.